Visið tré og röddin á fjallinu

Visið tré og röddin á fjallinu

Himnarnir opnuðust og sólin breytti lóninu á einu andartaki í stórfenglegt lita- og geislaspil. Líkami hans stirðnaði upp af spenningi og hann stafaði fyrir móður sína: “Þ e s s u m u n é g a l d r e i - g l e y m a”.
fullname - andlitsmynd Birgir Ásgeirsson
31. desember 2010
Flokkar

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp. Lúkas 13:6-9

Biðjum: Miskunnsami faðir. Við stöndum á tímamótum hins liðna árs og hins nýja, agndofa og nokkuð dösuð yfir því sem var, kvíðin yfir því sem morgundagurinn ber í skauti sér. Í kvöld, nú, einmitt nú, erum við hljóðlát og hugsand, en ful vonar. Réttu okkur hönd þína góði Guð og leiddu okkur, styrkri hendi þinni, inn í myrkur komandi nætur og til ljóssins, sem er handan hennar. Þegar við sjáum ljós þitt, víkur myrkrið burt og vonin fær byr í brjósti okkar. Þú kynnir þig með nafninu: “ég er” Um það vitnar Jesús, við treystum orði þínu í honum og af munni hans. Í því felst vonin. Dýrð sé þér Drottinn. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar gengið er á Þverfellshorn í Esju, sést vel yfir - land og borg og haf, jafnvel önnur fjöll. Himinn verður samfelldari en áður og útsýnið hreyfir við hugsun, skynjun og tilfinningu. Einu sinni kom til Íslands ungur karlmaður um þrítugt. Hann hét Jimmy. (James Grimm). Hann var spastískur og lamaður að öllu leyti nema því, að geta stafað orð, með því að gefa merki sem þýddu já og nei. Hann hugsaði mjög skýrt og gat ferðast vegna hæfni og vilja fjölskyldu sinnar til að sinna honum á réttan hátt. Hann fór vítt um landið, en þegar hann kom í Jökulsárlón íá Breiðamerkursandi, var þungt loft og þrútið, og í báti, sem sigldi milli risastórra ísjaka, komst hann í snertingu við fjallið sitt. Himnarnir opnuðust og sólin breytti lóninu á einu andartaki í stórfenglegt lita- og geislaspil. Líkami hans stirðnaði upp af spenningi og hann stafaði fyrir móður sína: “Þ e s s u m u n é g a l d r e i - g l e y m a”. Þegar þetta var sagt og á þann hátt sem það var sagt, lýsir það því, hvað það er að vera frá sér numinn. Hugfanginn. En líka snortinn og næmur á allt sem er. Það segir líka til um mikilvægi fjallaferða. Fjöllin eru mörg á Íslandi. Þau opinbera ekki aðeins fegurð náttúru og auðlegð hennar, heldur eru þau einnig andlegur fjársjóður, af því að snerting himins og jarðar er þar svo áþreifanleg að hún hrífur upp úr hversdagsleikanum og hjálpar sálinni við að skilja sjálfa sig og eiga náið samfélag við þann sem smíðar saman himinn og jörð. Jesús talaði við Guð á fjalli.

“Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.” (Ds. 90),

segir Móse í Davíðssálmi dagsins, sem Matthías Jochumsson breytti síðar í þjóðsöng Íslands. Það er auðvelt að skynja anda Guðs í vindinum á slíkum stað. Líka í því óskiljanlega logni, sem þar verður stundum. Þeim sem ekki kemst á fjall er samt auðið að eignast sitt fjall - í huganum, af því að maðurinn er skapandi vera og getur upphugsað sjálfan sig í tíma og rúmi, hæð og dýpt , í því sem var og er, jafnvel hinu ókomna. En þegar talað er um snertingu himins og jarðar – verður auðveldlega til hugsunin um sál mannsins og anda Guðs.

Hver er munur á þeim? Mér finnst erfitt að svara því afdráttarlaust, en það hefur reynst mér hjálplegt að hugsa það svo: að í sálinni eigi maður samband við sjálfan sig, - en í andanum samband við Guð. Í sálinni lærir maður að þekkja sjálfan sig. Í andanum að þekkja Guð.

Og Jesús segir einmitt: 16Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, 17anda sannleikans. Hann ... ‘mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.’ Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður (Jóh.14). Svo segir hann líka: “ég er í föðurnum og faðirinn í mér.” (Jóh. 14:11).

Þriggja ára drengur spurði ábúðarfullur, en í varnarstöðu, honum bráðókunnugan mann, þegar hann birtist heima hjá honum gestur: “Hvað heitir þú?“ Hann fékk skýr svör, róaðist og það fór vel á með þeim tveim. Í annarri Mósebók segir hins vegar frá því að Guð birtist Móse, sem var leiðtogi heillar þjóðar í þrælahúsi, já, hann birtist honum í brennandi runna og lagði fyrir hann leiðbeiningar um björgunina út úr ánauðinni og þrælahaldinu. Móse spurði þá fyrir hönd þjóðar sinnar: Hvert er nafn þitt? . Og Guð kynnti sig fyrir honum og sagði: “Ég er”. (sjá Ex. 3:13-14). Móse varð skelfingu lostinn frammi fyrir tign guðdómsinsog færðist undan því verkefni, sem Guð kynnti honum. En loks þegar hann hlýddi tilmælum Drottins, leiddi það til frelsunar heillar þjóðar, út úr þrældómi, ánauð og ofbeldi. Hún hafði hvorki fundið lausnarleið undir valdi Egypta, sem var stórþjóð, né fundið sjálfa sig án tengsla við rætur sínar.

Jesús talar um eitt visið fíkjutré. Slík tré vaxa að vísu ekki á Íslandi, nema í gróðurhúsum, en hér vaxa nú orðið ýmis önnur góð tré og það er sammerkt með Íslandi og öðrum löndum, að visið tré er yfirleitt fellt, enda ekki reiknað með því að það gefi mikið af sér, hvorki í ávöxtum né gleði. Hvers vegna segir þá víngarðsmaðurinn: “Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan.” Úr því að Jesús segir þessa dæmisögu, þá er augljóst að víngarðsmaðurinn talar máli hans. Hvað sá hann í þessu tré? Hann sá eitthvað meir í því, en eigandinn, þ.e. hann sá betur, dýpra, nánar en sá sem hafði valdið. Hann sá í því von, möguleika, nýtt líf. Sjáðu þetta tré, herra minn, nú vil ég hlú að því að gera því til góða. Sjáum til, - eitt ár enn. “Sjáið manninn”, sagði Pílatus, þegar Jesús var leiddur fram á svalir kvalara sinna. Pílatus spurði lýðinn, en hann svaraði: Krossfestum hann. Höggvum hann.

Sýn mannsins til lífsins, til mannsins sjálfs, til aðstæðna og viðhorfa, er ekki alltaf heilbrigð eða gegnheil. Hún brenglast stundum í ofviðrum lífsins og því ölduróti, sem mannskepnan á við að glíma í dagsins önn og baráttunni fyrir daglegu brauði. Þrælahús er ekki góð umgjörð fyrir réttlætið!

Nú er auðvitað ekki hægt að segja að eigandi víngarðsins hafi búið í þrælahúsi. Nei. Hins vegar er hægt að búa vel og vera í sömu andrá haldinn bæði þrælslund og lögmálsótta. Þannig er komið fyrir þeim, sem ekki er frjáls í andanum og lætur yfirgang og eigingirni, stjórna hugsun sinni og gjörðum. Það er að sjá skammt og sjá grunnt. Sjá ekki það sem skiptir máli. Ef Jimmy, sem sigldi um Jökulsárlón, hefði ekki átt ástvini, sem sáu langt og djúpt, hefði hann veslast upp barnungur. En hann lifði vel fram yfir fertugt og var ekki aðeins yndi og uppörvun fjölda fólks, heldur líka óendanlegur brunnur frjórra hugsana, sólargeisli í gleði og samveru, sem enginn gleymir af þeim sem kynntust honum. Hann var eitt vesælt fíkjutré, sem teygði sig upp til himins. Eitt ár enn. Við erum það öll, vesælt fíkjutré, þegar grannt er skoðað. Eitt ár enn.

Þegar skammsýni og eigingirni ná tökum á hjartslætti og hugsun, brengla viðmiðun og afstöðu, er illa fyrir okkur komið. Slík lífssýn getur nefnilega af sér afurðir, sem eru firring, ótti, reiði og vanmáttur. Þá þarf að hreinsa til, eins og Sofi Oksanen, finnskur rithöfundur, útskýrir í stórmerkri bók sinni, Hreinsun. Ef það tekst ekki eða dregst, þá hefur það svo skelfilegar afleiðingar, og Eistlendingar, ásamt ýmsum öðrum þjóðum þurftu að reyna það.

Við erum rétt að byrja umræðuna, nú þegar árið er á enda. Þannig er það. Lífið er ávallt á hápunkti á því augnabliki, sem við kynnum okkur rétt. Þegar við erum það sem við erum. Fáum að vera það og leyfum okkur það, full þakklætis. Þá verður ljóðið hennar Vilborgar Dagbjartsdóttur svo ljóslifandi:

Þú segir: Á hverjum degi / styttist tíminn / sem við eigum eftir / Skref fyrir skref / færumst við nær / dauðanum // en ég þræði dagana / eins og skínandi perlur / upp á óslitinn / silfurþráðinn // Á hverju kvöldi / hvísla ég glöð / út í myrkrið : / Enn hefur líf mitt / lengst um heilan dag.

“Ég er” segir Guð. Lof sé honum á himni og jörðu fyrir það. Ég er einstaklingur, sem vænti góðs af lífinu. Ég óska þess að ég fái auðsýnt kærleika og elskað af fyrrabragði. Ég er manneskja, sem þrái að lifa og vera elskuð. Ég þrái samfélag og frelsi. Ég þarf á leiðsögn að halda og ég þarfnast fyrirgefningar. Ég skil það betur og betur, þegar fram líða stundir, að Guð einn getur látið óskir mínar rætast, fundið mér leið út úr þrælahúsi niðurbrjótandi hugsana og veitt mér réttláta sýn til lífsins og andlegt frelsi. Og “ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum”. Amen. Guð gefi ykkur öllum farsælt og gleðilegt nýtt ár.