Auk oss trú

Auk oss trú

Trúin er ekki eitthvað sem við búum til eða ákveðum einhliða. Trúin er fyrst og fremst gjöf, eitthvað sem Guð leggur í hjarta okkar. Stundum er trúnni líkt við opna hönd, útrétta hönd sem er tilbúin til að taka á móti gjöf.

Auk oss trú! - sögðu postularnir við Jesú. Ekki er ljóst hvers vegna þeir báðu um þetta, en með tilliti til þess hvernig Jesús brást við, þá má ætla, að þeim hafi fundist þeir vera eitthvað “litlir kallar” samanborið við meistara þeirra. Þeir voru búnir að fylgjast með honum, hlusta á boðskapinn, sjá kraftaverkin, kærleiksverkin sem hann vann, - en hvað voru þeir? Kannski sá Jesús í gegnum þá, ef til vill skynjaði hann að þeir vildu fá einhverja upphefð, vildu fá meiri athygli, já, að þeir fengju eitthvað fyrir sinn snúð, eins og sagt er.

En hvað svo sem lá að baki þessari spurningu, þá er svar Jesú mjög merkilegt. Hann segir: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn þá gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.

Fyrir það fyrsta, þá er mustarðskorn eitt minnsta fræ sem til er í náttúrunni, en af því kemur falleg og nytsamleg kryddjurt. Fræið er lítið, örsmátt, sést varla, en í því býr kraftur, möguleiki sem er ótrúlegur, sprengikraftur sem er líkastur kraftaverki. En mustarðskornið þarf jarðveg og vökvun til þess að spíra og verða að jurt.

Þessi líking er mjög góð og skiljanleg, og hún á líka við okkur sem hér erum í dag. Við megum taka orð frelsarans til okkar.

Kannski finnst okkur trú okkar vera lítil og lítilfjörleg, kannski þorum við varla að játa það, að okkur langi til að trúa, kannski finnst okkur trú okkar ekki vera nógu kröftug, að það gerist svo lítið í trúarlífi okkar.

Hvernig sem okkur kann að líða, og hvaða spurningar sem vakna hjá okkur í sambandi við trúna, þá skulum við muna eftir þessu svari Jesú með mustarðskornið, því það er í rauninni grundvöllur kristins skilnings á því hvað trúin er. Trúin er ekki eitthvað sem við búum til eða ákveðum einhliða. Trúin er fyrst og fremst gjöf, eitthvað sem Guð leggur í hjarta okkar. Stundum er trúnni líkt við opna hönd, útrétta hönd sem er tilbúin til að taka á móti gjöf.

Og ef við búum þannig um litla trúarkornið, frækornið, að það fái að vaxa og dafna, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að trúin vaxi, Guð sér um vöxtinn. Við erum kölluð til þess að vera farvegur náðar Guðs í þessum heimi, verkfæri kærleikans til þess að Guðs vilji verði í veröldinni, - ekki til þess að við getum hælt okkur af því og sagt, sjáðu hvað ég er trúaður, hvað ég á sterka trú, sjáðu hvað ég get. Nei, spurningin er hvort við fáum náð til þess að gefa Guði dýrðina af öllu sem við gerum, að við lærum að lifa þannig, að við náum þessari þjónutulund að geta sagt: Ónýtir þjónar erum við, við höfum gert það eitt sem við vorum skyldug til að gera.

Trú, von og kærleikur eru hugtök, sem gjarnan eru notuð saman, enda fara þau vel saman. Páll postuli gaf okkur þessa samsetningu í kærleiksljóðinu góða.

Tókuð þið eftir hvað stóð í pistli dagsins: Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.

Það er ekki hægt að sjá það sem maður trúir á, trúin er traust, við treystum á að Guð sé til, við sjáum hann ekki, við getum ekki sannað á vísindalegan hátt að Guð sé til, ekki frekar en við getum sannað von okkar eða ást. Við getum t.d. ekki sannað að Gullfoss sé fallegur, samt getum við verið fullviss í hjarta okkar að Gullfoss sé fallegasti foss í heimi. Já, getum meira að segja verið fullviss, sannfærð um að Guð sé til. En þessi sannfæring er kannski ekki alltaf jafn skýr fyrir okkur, við kunnum að efas á stundum, - hugur okkar og hjarta getur fyllst efasemdum um Guð og allt það sem varðar trú okkar. Stundum geta aðstæður okkar orðið þannig, að mótlætið í lífinu, þjáningin, sorgin verður svo fyrirferðamikil í lífi okkar, að það skyggir á allt annað. Þá verður trúin oft mjög lítil, jafnvel vaklandi, eins og hálmstrá eða ljóstýra sem varla sést. En þá er gott að muna eftir mustarðskorninu, -kannski notaði Jesús einmitt þetta dæmi til að hjálpa okkur, þegar okkur líður einmitt svona. Gæði trúarinnar fara ekki eftir magni eða stærð. Trúin er jafn dýrmæt þó hún sé agnarsmá...

Og það sem meira er og var undirstrikað svo vel í lexíu dagsins í Hóseabók þegar Drottinn Guð segir fyrir munn spámannsins: Ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í rétttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi. Hér er átt í rauninni átt við orðið trúlofun. Guð hefur ákveðið að trúlofast okkur. Hann elskar okkur að fyrra bragði, hann velur okkur áður en við höfum möguleika á að velja hann. Í þessu birtist m.a. kærleikur og náð Guðs.

Það er gott að vita, ekki síst þegar okkur finnst við vera lítil og lítilsmegnug, full efasemda um okkur sjálf og Guð, - að Guð elskar okkur eílíflega að hann heyrir bænir okkar, að hann vill bera okkur, leiða okkur, þegar við getum ekki meir, - gefa okkur allt með sér. Trúin sem flytur fjöll er trú sem byggir á gæsku Guðs, trú sem treystir ekki á eigin getu og kraft heldur á nálægð blessun Guðs. Kæri söfnuður, trúin nærist á orði Guðs í samfélagi Guðs barna, trúin nærist af sakramentunum sem Kristur gaf okkur, trúin nærist í bæn. Ef við erum nálægt þessum náðarmeðulum, leyfum þeim að flæða um okkur, þá gerast þessi undur og stórmerki, að mustarðskornið vex og dafnar, að löngunin til að láta gott af sér leiða vex einnig, Guði til dýrðar. Þetta er reynsla trúarinnar, reynsla kirkjunnar.