Hryggð yðar mun snúast í fögnuð ...

Hryggð yðar mun snúast í fögnuð ...

Í dag er okkur boðið að sitja postullegan fund. Við fáum að vera þar eins og ósýnilegar verur, þar sem nærvera okkar truflar engan og enginn fær okkur séð. Svona vilja börn gjarnan leika sér, bregða huliðshjálmi yfir sig og hverfa inn í hrynjanda lífsins, án þess að vera séður.

Í dag er okkur boðið að sitja postullegan fund. Við fáum að vera þar eins og ósýnilegar verur, þar sem nærvera okkar truflar engan og enginn fær okkur séð. Svona vilja börn gjarnan leika sér, bregða huliðshjálmi yfir sig og hverfa inn í hrynjanda lífsins, án þess að vera séður. Það er gaman. Og það er eins og vera upphafinn í leyndardóm og maður hefur aðgang að einhverju, sem enginn veit um. Það er spennandi.

Og þarna sitja þeir, liggja og standa í loftsalnum, hver hefur sinn stíl. Það stendur yfir kvöldmáltíð og samræðurnar renna fram. Júdas er þegar farinn úr samkvæminu til vondra verka sinna og Pétur hefur lofað því að bregðast ekki leiðtoga sínum, en af orðum Jesú, virðist hann ekki muni standa við það. Jesús er greinilega á förum. Félagar hans eru ringlaðir. Hikandi. Tvístraðir. Þetta stóð ekki til. Hann hafði rétt áðan sagt: “Ég mun ekki framar tala margt við yður, því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt.” (Jóh. 14:30). “...En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum” (Jóh. 15:15). “Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður..(15:14). “Þetta býð ég yður að þér elskið hver annan.” (15:17).

Þetta eru mikil tíðindi. Það er ekki laust við að maður hrökkvi við inni í huliðshjálminum. Jesús ætlar að fara um stund, en þeir eiga að elska hver annan. “Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” (Jóh.16:16). Er nokkuð skrýtið að sagt er á þessum fundi: “Hvað er hann að segja við oss?” Undir það er hægt að taka og standa með postulunum, ‘Hvað meinarðu maður. Ætlarðu að yfirgefa okkur?’

Þá heyrum við Jesús segja frá konu í barnsnauð. Hún elur barnið og gleymir þrautum sínum af fögnuði yfir nýfæddu barni.

Það er einkennilegt með þennan mann. Þegar dulúðin í kring um hann er að hefjast upp yfir þetta hversdagslega mannlíf, þarf hann ávallt að svipta manni niður og láta mann horfast í augu við það sem er svo sjálfsagt. En þetta er dulúðin. Barn er fætt, þú skalt elska það. Elskið hver annan. Og hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Hvar eru allar stóru áætlanirnar. Hvar er konungsríkið, sem beið reiðubúið handan við hornið. Hvar eru sigurlaunin. Eru hér hvorki verðbréf, fasteignir né hækkaður gjaldeyrir? Er hér ekkert nema það, að láta vel að litlu barni.

Við sviptum því af okkur huliðshjálminum í bili og förum í bíó. Hvílum okkur á þessum fundarhöldum í Jerúsalem frá því á dögum Heródesar. Leið okkar liggur austur, 70 ár aftur í tímann, í spennandi mystík austurlanda, þar sem Gandhi, andlegur leiðtogi milljarðs manna, liggur á mótmælendabörum, Hann er í svelti til að mótmæla óeirðum í landinu, stríði Hindúa og Pakistana. Ef til vill er einhver meiri mystík í því sem hann hefur að segja. Þetta er maður að okkar skapi. Hann lætur til sín taka. Vekur eftirtekt í miðju stríði og mótmælir, með þessum snilldarlega hætti. Við sjáum úr bíósalnum að til Gandhis kemur maður, svipur hans er æðisgenginn af óttablendnum tryllingi og hann snarar sér að fleti Gandhis og hrópar: “Er til leið upp úr helvíti”? Gandhi horfir á hann hvössum en mildum augum og segir: “Já, það er leið upp úr helvíti. Hvers vegna spyr þú?” “Ég hef drepið barn. Ég er Hindúi og ég drap pakistanskt barn, múslima barn. Hvað á ég að gera?” Örvænting þessa manns er algjör, samviskubit og sálarkvöl spenna augu hann upp, svo þau standa næstum út úr höfðinu á honum.. Við munum að þetta stríð var grimmt. Svo er enn um öll stríð. Þau eru grimm, hræðilega grimm. Þá heyrum við Gandhi segja: “Finndu pakistanskt barn, sem misst hefur foreldra sína. Taktu það til þín, al það upp sem þitt eigið barn, en kenndu því siði og trú múslima, þar til það er fullvaxið, og þú munt komast upp úr helvíti.”

Hér er líka mikið sagt. Ætli þetta sé hægt. Ég veit það svo sem ekki fyrir víst, en maðurinn fór með þetta svar og hugur hans hafði stillst. Hann hefur áætlun og ætlar greinilega að fylgja henni. Hann vill ekki vera þar sem hann er. Í heimi dráps og haturs.

Við skulum setjast niður. Hugsa málið. Út á hvað gengur þetta allt saman?

“Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð”. Þetta heyrðum við á fundinum, undir huliðshjálminum.

Jesús gefur lærisveinum sínum fáein ráð. Hann veit að þeir eru kvíðnir, en um leið fullir eftirvæntingar. Þeir hafa fundið, að leiðin með Jesú var ekki dans á rósum, en ekkert vekur þeim meiri ótta en það að hann fari. Þá er öllu lokið. Án hans er ekkert, engin framtíð, engin von. Ég held að Jesús hafi sagt okkur söguna af konu í barnsnauð, af því að hver einasta maður, sem kominn er til vits og ára, veit hvað það er. Þetta er algengasti atburður allrar veraldarsögunnar. Barn fæðist. En það er samt það stórkostlegasta og merkilegasta af öllu því sem gerist í jarðnesku lífi. Jesú beinir athyglinni ávallt að manneskjunni sjálfri. Við eigum ekki að elska heiminn út af fyrir sig. Hlutir, peningar, kenningar, speki, list, íþróttir, já, hvaðeina, er eitthvað sem sannarlega tilheyrir mannlífinu, en það er einskis virði að elska það eitt og sér. Enda segir Jesús hátt og skýrt: “Í mér á hann ekki neitt!” Og hann bætir við: “Elskið hver annan”. Það er svo einfalt, að það er fyrir margri manneskjunni nánast hallærislegt. Þannig er það nú samt. Þegar draumur Palla, sem var einn í heiminum, snerist upp í martröð, öskraði hann upp fyrir sig af því að hann var einn. Það var enginn annar til að elska og enginn sem elskaði hann. Það sem við höfum í kring um okkur er ávöxtur elskunnar. Og við megum njóta þessara ávaxta á lífsleiðinni, svo lengi, sem það á sér rót í elskunni til mannlífsins, fólks, einstaklinga, ástvina og um leið elskunni til Guðs, sem gefur allt og græðir allt og klæðir allt dásemd sinni, blóm og hlíð, viskuna og tónlistina, tæknina og vísindin, fjármuni og framfarir. Þannig brosir Guð inn í þennan heim. Ef hann fær okkur til að brosa með sér er allt fengið, þá getum við elskað, elskað hvert annað, - og notið lífsins. Er það hægt? Er ekki allt á fremstu nöf brjálæðis, baráttu, valdafíknar og ofbeldis. Er til leið upp úr helvíti?

Jesús gerir það mögulegt, sem er ómögulegt. Hann deyr þessum heimi og rís upp af dauðum til nýs lífs í krafti Guðs og auglýsir þannig í sjálfum sér hinn alltumlykjandi kærleika hans. Kristur er orð Guðs og opinberar okkur ásýnd hans og vilja hans. Við vitum ekkert um Guð, nema það, sem birtist í Jesú Kristi og orðum hans. Á postula-fundinum vissu þeir ekki að þetta var mikilvægasti framkvæmdastjórnarfundur allra tíma. Við sem vorum undir huliðshjálmi ættum að athuga það. Jesús bjó fundarmenn sína undir það mikla hlutverk að vitna um orð hans, kærleika hans, og þá staðreynd, að það orð og sá kærleikur var ekki manninum horfinn, heldur lifandi fyrir upprisu Jesú Krists og þar með aðgengilegur allri manneskju til farsældar, framdráttar og eilífrar hamingju. “Innan skamms sjáið þér mig aftur.” Kristur er upprisinn.

Lífið er ekki auðvelt. Það er oft þrælerfitt. En það er ögrandi, hugljúft og hamingjuríkt, þegar við lifum því í nafni Drottins Jesú og reynum að fara í fótspor hans. Elskið hvert annað. Líti maður í kring um sig, ræði við náungann, lesi blöðin, horfi á sjónvarpsfréttir, þá þyrmir yfir mann og það virðist útilokað að leggja þessu blessaða mannlífi lið, svo gagn sé að. Enda er það ekki hægt, nema í krafti þess er elskar allt og ber vanmátt okkar með sér á krosstré hörmunganna og deyr vonskunni, en rís upp til endurnýjaðs lífs og eilífs kærleika.

Farðu og taktu að þér barn, hugsanlega þér óviðkomandi, og þú stígur upp úr díki vítis og örvæntingar. Ég nefni eitt dæmi: Það eru allmargir hér á Íslandi, meðal annars fátækt fólk, sem greiðir reglulega litla upphæð til blessunar börnum úti í heimi, sem það hefur aldrei séð, mesta lagi einhverja ljósmynd af því. En sú fórn hefur gert mörg kraftaverk, dugað til fæðis og klæðis, jafnvel menntunar. Svoleiðis er það, þegar fólk leggst á eitt. Þýskur maður, sem ég kynntist á ferðalagi, man þegar hann var settur 5 ára gamall undir brú í Móseldal til að halda vörð um fallbyssu, sem átti að verja sveitina hans fyrir fljúgandi þrumubyssum bandalagsríkjanna. Hann hefur aldrei skilið af hverju allt var sprengt í loft upp þennan lokadag, því seinni heimsstyrjöldin var þá þegar yfirstaðin. Í dag rekur hann gistiheimili, löghlýðinn venjulegur borgari, hann hefur einsett sér að lifa ekki í hatri og reynir að fá fólk frá sem flestum löndum í heiminum til þess að gista þar. Hann talar við gesti sína, sýnir þeim sveitina og segir: Þetta er mín leið til þess að draga úr möguleikum annarrar styrjaldar. Við þurfum að læra þekkja hvert annað, svo við förum ekki að berjast. Ég trúi á vonina um að það verði svo með Guðs hjálp.

Pétur postuli var á fundinum fræga. Hann skrifaði bréfið sitt til þess að bera vitni: “Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan....því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel, þagga niður vanþekkingu heimskra manna” 1. Pét. 2:13,15). Og þegar okkur líður illa í biðinni og erum þreytt á lífinu, þá bætir hann við til ábendingar: “Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.”

Það er gaman að bregða yfir sig huliðshjálmi og hverfa inn í heim fagnaðarerindisins, því þegar maður kemur þaðan aftur, er það eins og að koma níu ára heim af spennandi skylmingamynd, maður hefur smitast af kraftinum og baráttugleðinni og berst af öllum mætti við vini sína í götunni fyrir réttlætinu. Munurinn er bara sá í dag, þegar við höfum fullorðnast svolítið, að sverðið, er sverð andans og hjálmurinn á höfðinu, hjálmur trúarinnar.

“Og hryggð yðar mun snúast í fögnuð.” Kristur lifir.