Stefna og straumar

Stefna og straumar

Hallgrímur Pétursson fylgir í Passíusálmunum Jesú Kristi á þjáningarvegi hans og útmálar sáluhjálplegt gildi kærleiksfórnar hans, sem úthellir lífi sínu til að losa um alla syndar- og dauðans fjötra. Sálmarnir eru sístæður vegna þess hve umfjöllunarefni þeirra eru gerð góð skil með trúarlegu innsæi og andagift.

Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa.

En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var. Lúk 18.31-34

“Upp, upp, mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með, hugur og tunga hjálpi til, Herrans pínu ég minnast vil.”

Þannig byrjar sr. Hallgrímur Pétursson Passíusálma sína.

Hann fylgir í þeim Jesú Kristi á þjáningarvegi hans og útmálar sáluhjálplegt gildi kærleiksfórnar hans, sem úthellir lífi sínu til að losa um alla syndar- og dauðans fjötra. Sálmarnir eru sístæður vegna þess hve umfjöllunarefni þeirra eru gerð góð skil með trúarlegu innsæi og andagift. Enn snerta þeir kviku og kjarna tilvistar og hræra við mönnum, ávíta ef þeir missa marks og fara fram hjá þrönga veginum, sem til lífsins liggur og gera krossferil frelsarans nærtækan sem áskorun um gefandi líf og smyrsl í rauna- og sorgarsár. “Umþenking guðrækileg herrans pínu og dauða er vissulega dýrmæt”, segir Hallgrímur í formála sálmanna, “og hver sig langvaranlega gefur til þeirrar umþenkingar og ber jafnan Jesú Kristi píslarminning í sínu hjarta, sá geymir hinn dýrast hlut.” Lestur Passíusálmanna í útvarpi á föstunni snertir hljómfagran streng í þjóðarsálinni þrátt fyrir mikið framboð fjölmiðlaefnis og verður þeim, sem hlýða á vandaðan flutning þeirra af vörum listmanns og menningarfrömuðar, að svalandi innri verðmætum sem skerpa trúarskynjun og raunsæi.

Þegar páskar eru snemma á ferð sem nú, er sem frásögn fagnaðarerindis frelsarans þjappist saman. Það er stutt síðan jólum var fagnað og fjallað um það jötubarn sem birtir Guð á jörðu og vakið hefur ótalda gleðisöngva. En nú þegar fastan er að hefjast, er algjörlega skipt um svið og athygli beint að baráttu Jesú Krists við myrkravöld tilverunnar, ranghverfu lífs, siðblindu og myrkvun, sem raskar og ógnar sköpunarverkinu og lífsheillum. Það hefur margt átakamikið og örlagaríkt gerst frá jólum og undiralda og áhrif flóðbylgjunnar sem reis á Indlandshafi og skall eyðandi og deyðandi að ströndum mun lengi gæta þar og víðar í veröldinni.

Dýrmætt er að þekkja hættumerki og váboða og beita glöggskyggni og sögu- og vísindaþekkingu til að forða og draga úr háska eins og gerlegt er. Ekki er útilokað að fljóðbylgja skelli hér á land eftir eldsumbrot í hafi eða á landi, en aðrar ógnir steðja líka að. Geigvænlegur sjófugladauði úti fyrir ströndum landsins og víðar í norðurhöfum vegna ætisskorts er hættumerki. Það bendir til þess að hlýnun veðurfars sé mjög farin að segja til sín og valda röskun á fæðukeðju og lífkerfi sjávar. Hraðfara bráðnun Grænlandsjökuls er enn ein vísbendingin um hættu, sem getur ekki aðeins leitt til verulega hækkandi sjávarborðs á næstu árum og áratugum heldur beinlínis til stöðvunar þess hlýja lífsverndarbeltis sem Golfstraumurinn umlykur og ver landið með. Síbreikkandi gjá milli þeirra, nær og fjær, sem skortir björg og lífsviðurværi, og hinna sem vita naumast aura sinna tal og geta stöðugt bætt við veltugróða sinn, er líka varasöm. Mun fleiri búa við bágindi í veröldinni en þeir einir sem flóðbylgjan hremmdi og setti mark sitt á og líða vegna styrjaldarhamfara og sjúkdómsplágna, fátæktar og félagslegs ranglætis.

Það varðar miklu að hafa góða yfirsýn og þekkja vel umhverfi og aðstæður og meta rétt áhrif og strauma sem berast að og gæta vel að stefnu og ferð. Það ljós, sem fagnaðarerindi frelsarans bregður á veg og veröld er ekki aðeins gilt fyrir horfna sögu og fortíð heldur ævarandi, því það sækir birtu sína í hann, sem er frumglæði ljóss og lífs. Þegar hann kallar til eftirfylgdar jafnvel inn í dimmasta dali og myrkasta myrkur lýsist það upp af birtunni hans.

Guðspjall föstuinngangs og ritningarorð vísa til kjarna og perlu kristinnar trúar. Það er ekki fyrir fjallræðuna, er dregur fram siðaboðskap Jesú eða lækningar og líknarverkin hans stórkostlegu, sem hann opinberast sem Kristur, frelsarinn, heldur vegna þess, að hann gengur leið höfnunar og þjáningar til enda og ofurselur sig öllu syndar og dauðans myrkri til að lýsa það upp í ljóma upprisunnar.“Sjá nú förum vér upp til Jerúsalem” segir Jesús við lærisveina sína og lýsir því í stórum dráttum hvað gerast muni á þeirri leið, sem er vegur hans til krossins og fórnarinnar og fylgir þar spámannlegri forskrift. Og þótt þeir fengju ekki skilið merkingu þess sem hann sagði hefur það greipst djúpt í vitund þeirra og lokist upp fyrir þeim síðar í árdegisbjarma páska og eldtungum Hvítasunnu.

Það er vandasamt að skilja orð og tákn sem vísa allt annað en gert er ráð fyrir og það er jafnan erfitt að hugsa til þess sem er sárt og þjáningarfullt. Nánustu vinir Jesú skilja enn ekki, þegar hér er komið sögu, hver hann er og sjá ekki hlutverk hans í réttu samhengi og ljósi.

Jesús fer veg hins líðandi þjóns, sem spámaðurinn Jesaja hafði lýst og sagt fyrir um. Hlutverk og hlutskipti þess þjóns var svo torskilið og ógnvekjandi, að það var oftast litið fram hjá því, þegar horft var til fyrirheitanna um Messías, frelsarann, sem koma myndi. Um þann þjón segir Jesaja: “Hver sá meðal yðar sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns síns. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.”(Jes 50.1.10.) En spámaðurinn segir einnig þetta um þjóninn þjáða:“Vér álitum hann refsaðan og sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða.- Fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir”.( Jes. 53.4-5. ) Jesús heldur ótrauður móti illsku og myrkvun og steypir sér niður í heljardjúpin. “Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki,” segir postulinn í pistli dagsins, “en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.” ( 1. Kor 1.22-24.)

Við sem nú erum á dögum fáum þrátt fyrir víðtæka þekkingu ekki frekar en fyrri tíðar menn numið algildi þess fórnanda kærleika Guðs, með takmörkuðum tímanlegum skilningi og rökum, sem birtist og gefst í Jesú Kristi. Við höfum samt iðulega frétt af því að þjáning og dauði getur reynst fórn öðrum til bjargar. En þjáning Krists. Til hvers var hún? Fyrir hverja var hann að þjást og stríða. Er ekki enn og stöðugt verið að auðmýkja og misþyrma mönnum á hroðalegastan hátt, húðstrýkja þá og deyða víðar og í stórtækara mæli en við getum gert okkur í hugarlund? Hvers virði er Jesús Kristur þeim, sem fyrir slíku hafa orðið og verða? Leyndardómur lífs hans og hjálpræðis verður ekki ráðinn og opnaður með Da Vinci eða öðrum lykli ævintýra- og blekkinga heldur aðeins með lykli og þýðingu krossins. Þjáning hans og lífsfórn á Golgatakrossi er öðrum margslungnari og gagntækari segir sú trú, sem honum binst, vegna þess að hann hverfur inn í myrkrið allt og finnur á sér brenna sviða hvers sárs og ber þyngslin af öllum rauna-og syndabyrðunum.

Þess vegna er hægt að segja að enn sé verið að húðstrýkja hann og deyða, þegar slík illvirki eru framin hér í heimi. Fórn hans og samlíðun er ekki aðeins bundin við Jerúsalem og Hausaskeljastað þó svo að hún eigi sér þar stað í sögulegu samhengi. Jesús Kristur er Orð Guðs og ásjóna á jörðu og opinberar hver Guð er gagnvart sköpun sinni. “Guð er í Kristi og sættir heiminn við sig”,( byggt á ll Kor. 5.19.) og hreinsar og helgar sér lífið fyrir hann. Líkt og lungu manns taka inn í sig óhreint blóð og veita því hreinu til hjartans, dregur Kristur sem endurskapandi Orð Guðs syndina, myrkrið og dauðann inn í tilveru sína, svo að lífið endurfæðist og hreinsast og fær bundist hjarta Guðs sem gefur það og endurskapar af kærleiksblóði sínu hvert andartak um tíma og eilífð.

En er þessi trúarsýn og tjáning á hinstu ferð Jesú til Jerúsalem ekki allt of háleit venjulegum mannsaugum og skilningi og veitist fremur djúpíhugulum dulhyggjumönnum og þrautseigum pílagrímum? Jerúsalem hefur þó allt frá því að Jesús fetaði þar Via dolarosa, þjáningarveginn, verið í sjónmáli og fréttum. Þangað hafa kristnir menn beint huga sínum gegnum tíðina og séð fyrir sér svipmyndir hjálpræðissögunnar, hafi þeim ekki beinlínis auðnast að koma þangað og þreifa líkt og sjálfir á sármerkjum Krists.

Í síðustu bók sinni “Vélum tímans” lýsir Pétur Gunnarsson, mannlífinu hér á landi eftir svarta dauða og setur sögu Íslands í samhengi við umheiminn. Munkar og nunnur, sem gefið hafa líf sitt Kristi hafa hríðfallið eins og aðrir, en samt eru það pílagrímaferðir til Rómar og Jerúsalem, sem gefa helstu vonina um lækningu á ytri og innri meinum enda taldar verka á líkan veg og “bólusetningar nútímans til að verjast kúabólu, kíghósta, mislingum og berklum.” Þekking á sjúkdómsvöldum hefur lagfært þennan misskilning en engan veginn dregið úr gildi þess að horfa til Krists og fylgja honum til að finna sér stað í tilverunni og merkingu lífsins. En þá verður ekki hjá því komist að horfast raunsætt í augu við illsku og eymd, þjáningu og dauða í viðleitni og þrá um breytt ástand. Plágur og náttúruhamfarir hafa verið skelfilegar og illviðráðanlegar og eru enn þótt líffræði-og eðlisfræðilegar ástæður þeirra séu að flestu þekktar.

Hamfarir af mannavöldum og illvirki móta einnig sögu og samtíð og erfitt reynist líka að hemja þær. Kosningar í Írak kunna að vera fagnaðarefni og boða þar batnandi tíð, en þær leyna samt ekki afleiðingum innrásarinnar hæpnu, sem mun þegar hafa kostað tugi þúsunda mannslífa, auk ótalinna limlestinga og sálarkvala. Þess hefur nýverið verið minnst, að sextíu ár eru frá því, að útrýmingarbúðum Nasista í Auschwitz var lokað. Alla heilvita menn hryllir við þeirri mannfyrirlitningu og skelfingu, sem þær vitna um.

Það er þverstæðukennt og sorglegt, að í “Landinu helga”, sem nú tengist minningu helfararinnar auk dýrmætra geymda þriggja trúarbragða skuli áþekkt lífsvirðingarleysi hafa verið daglegt brauð um langt skeið. Það sýnir sig í hernámi, aðgreiningarmúrum og hermdarverkum. “Dauðinn í Gaza”, heimildamyndin breska frá Palestínu, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu á miðvikudagskvöldið var,( 2.febr. s.l.) lýsti á sláandi hátt hve mjög yfirgangur, kúgun og lítilsvirðing ala þar af sér hatur og hermdarverk. “Við förum upp til Jerúsalem sem píslarvottar” hrópaði mannfjöldi í einu myndskeiðinu mestmegnis þó unglingar og börn. Þau voru greinilega stillt inn á það að gerast vígvélar og sprengja sig í loft upp og valda um leið kúgurum sínum sem mesta tjóni í mannslífum. Það er þó fremur hægt að segja, að kvikmyndatökumaðurinn breski, sem varð fyrir dauðaskoti úr einum bryndreka hernámsliðsins, hafi verið píslarvottur í kristnum skilningi. Viðleitni hans til að vinna það nauðsynjaverk að upplýsa um hörmungarnar, svo að umheimurinn láti sig þær varða, kostaði hann lífið.

Það er sannarlega auðvelt andspænis niðurdrepandi ógnum og illsku að missa móðinn í viðleitni sinni til að glæða háleita lífssýn. Það þekkja einlægir fylgjendur hins krossfesta og upprisna frelsara, sem reyna þrátt fyrir allt að halda í hans nafni á lofti ljósi trúar, vonar og elsku.

Gömul en áhrifamikil kvikmynd Tarkowskis um rússneska íkonamálarann Andrei Rubljov, sem sýnd var hér í Kvikmyndasafni Íslands fyrir skömmu birtir það vel. Hún lýsir því m.a. að listamanninum mikla fallast hendur eftir að verk hans í stórri kirkju hafa verið brennd og eyðilögð og mannfjöldi myrtur sem leitaði þar skjóls undan ófriði. En eftir að hann hefur síðar fylgst með unglingspilti, syni látins klukknasmiðs, leiða flókna smíði og gerð stórrar kirkjuklukku og takast það þrátt fyrir vankunnáttu sína og vanmátt að ná á úrslitastundu fram í henni djúpum björtum hljómi fær Rubljov kjarkinn á ný til listsköpunar sinnar og vinnur sín fegurstu verk.

“Lífsorðið huggar”, sálminn sem sunginn var hér áðan mun sr. Árni Björnsson, fyrsti sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, hafa ort eftir að hús hans og eigur höfðu brunnið á Sauðárkróki, þar sem hann gegndi þá þjónustu. Sr. Árni og barnmörg fjölskylda hans stóðu eftir slipp og snauð að undanskyldu því, sem mestu varðaði, Guðsorðið brann ekki, Biblían hans. Hann kom hingað suður og gegndi hér árum saman dýrmætri þjónustu við kirkjuna, sem bar með sér einlægt trúartraust hans og himinssýn, svo sem sálmurinn vottar. Á þeim aðalfundi Hafnarfjarðarkirkju, sem fylgir Guðsþjónustunni, verður litið yfir níutíu ára afmælisár hennar. Vert er þá að hafa þá í huga, sem á undan fóru og héldu uppi merkjum Krists á hennar vettvangi, sr. Árna og sr. Garðar Þorsteinsson, sem tók við af forvera sínum og leiddi hér helga þjónustu af trúarfestu og einurð um nær hálfrar aldar skeið og minnast allra þeirra annarra líka sem verið hafa í forystuliði kirkjunnar og tengst henni í trú, von og kærleika og saltað hafa lífið og lýst því í Jesú nafni. Jafnfram þarf að horfa fram og stilla strengi til góðra vitnisburða og gagnlegra verka nú og í framtíð svo “lífsorðið” fái hér ávallt góða sáningu og ljós trúar og lofsöngvar berist héðan i Jesú nafni út á haf, yfir byggð og inn í hjörtu.

Það hefur nú ótvírætt verið sýnt fram á það, að trúarþörfin sé okkur mönnum í blóð borinn, lífsmunstrið geri okkur beinlínis þannig úr garði, að við leitum samhengis og æðri viðmiðanna. En miklu veldur hvernig sú þörf mótast og hvert hún beinist hverju sinni. Þæginda- og neysluhyggja samtíðar, glysið og glaumurinn, sem henni fylgir, græðgin og tillitsleysið, eru lítt næm á fórnar- og kærleikskröfur og ekki heldur á hættur og váboða. Deyjandi fugl og bráðnandi jökull sýna hve mengun andrúmslofts af brennsluefnum nútíma lífshátta og framleiðslu spillir mjög lífríki og vegur að hæfni þess til að ala af sér og sjá fyrir lífi. Vakandi trúarsýn og skynjun hefur samkennd með náttúrunni, fuglum, fiski og gróðri og þiggur blessun og næringu hennar sem Guðsgjafir, er vel þarf að fara með.

Okkur Íslendingum var það lífsspursmál að berjast fyrir útfærslu landhelginnar á sinni tíð og beita okkur á alþjóðlegum vettvangi til að vernda fiskistofna. Eins þyrftum við nú að vinna þar af alefli að víðtækri lífsvernd og taka saman höndum með þeim, sem leita allra ráða til að forða óbætanlegum umhverfisslysum. Við verðum einnig að geta tamið okkur þá lífsháttu og markað þá framtíðarstefnu sem ristir ekki landið örum svo að við fáum lifað í sátt við það um ókomna tíð og notið fegurðar þess og gæða. Það samræmdist einnig árvekni og ábyrgri lífsstefnu að taka undir með Nelson Mandela, sem verið hefur einstök fyrirmynd að þolgæði og sáttar-og friðarvilja, þegar hann krefst þess að þrælar fátæktar í þróunarlöndum losni undan ósanngjörnum skuldakröfum og fái raunhæfa aðstoð til að sigrast á niðurlægjandi böli sínu. Jafnframt sem horft er vítt yfir ber að líta sér nær og gæta að skorti þeirra tuttugu þúsunda þjóðarinnar sem hafa ekki nægar tekjur til framfærslu.

Gósentíð banka og stórfyrirtækja, sem skila miljarðahagnaði og teygja sig nú langt út fyrir landsteina til að hasla sér sem víðastan völl, þyrfti líka að nýtast þeim fátæku til bættra kjara og lífs.

“Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er./ Frómleika frá sér kasta,/ fjárplógsmenn ágjarnir, /sem freklega elska féð ”, segir sr. Hallgrímur og bætir við, “auði með okri safna,/ andlegri blessun hafna/ og setja sál í veð”

Hinn krossfesti og upprisni frelsari vill á hverri tíð glæða þá lifandi trú í brjósti sem gefur samkennd með lífi og lífríki. Trúin í hans nafni er annað og meira en tilfinningasemi og þægindakennd, sem forðast átök og sársauka og sljóvgar næmi fyrir illskunni, sektinni og syndinni. Hún sýnir sig samt alls ekki í depurð og þunglyndi heldur í lífskjarki og gefandi gleði sem sér ljósið í myrkrinu og veit af því að handan krossins er upprisan. Því er sjálfsagt að borða bolludagsbollur með bestu lyst á morgun og saltkjöt á sprengidegi og oftar einnig, þótt fastan minni á nauðsyn þess að iðrast synda og sýna sjálfsaga og samkennd með þeim sem skortinn líða.

En sá er megin boðskapur föstunnar, að trúin sem frelsaranum fylgir í raun sýnir sig í þeim kjarki, sem fer með honum upp til Jerúsalem. Hún reynir þar bæði kærleiksfórn hans og upprisusigur og tekur við sáttargjörð hans og friði sem Guði binst og nærist af lífslindum hans og tengist því líðandi mannlífi til að þjóna því, liðsinna og líkna í hans nafni og virðir lífríkið og gætir þess vel fyrir hann.

“Skammvinna ævi þú verst í vök,/ þitt verðmæti gegnum lífið er fórnin,/ en til þess veit eilífðin alein rök.” segir Einar Benediktsson í djúpskyggnu og háleitu ljóði.

Hann vísar þar til þess, að það er aðeins gefandi og fórnandi líf, sem skilar raunsönnum arði. Jesús Kristur einn birtir slíkt líf fullnað og fullkomið, en hann gefur fyrir trú lífssambandið við sig og hlutdeild í lífi sínu, svo að hægt er að gerast ljós af ljósi hans og eignast verðmætin mestu Guði hjá.

“Ver mér nær, ó, Guð, þegar græt ég, bið og syng,” söng unglingakórinn áðan svo vel, og einnig um þá jörð, “sem geislar sólar standa um vörð til að ylja kaldan svörð og rætur.” Það geislaflæði sólar, er eyðir myrkri og gefur dag og nærir líf, minnir á þá fórnandi elsku Guðs, er gefst og birtist í ásjónu og mynd Jesú Krists sem hins líðandi, krossfesta og upprisna þjóns og frelsara, sem endurskapar líf og heim. Hann fer til Jerúsalem og kallar sem fyrr til trúar og eftirfylgdar, svo heimurinn lýsist upp af kærleiksljósi hans og upprisudegi.

Því getum við fagnandi tekið undir með sr. Hallgrími, þegar hann endar sálmana sína með þessum orðum og lofgjörð:

Dýrð, vald virðing og vegsemd hæst, viska makt, speki og lofgjörð stærst sé þér, ó, Jesús,herra hár og heiður klár, Amen, amen um eilíf ár

Flutt í útvarpsmessu á sunnudegi í föstuinngang, 6. febrúar 2005.