Litlar hendur með smærri fingur fálma eftir framtíðinni.

Litlar hendur með smærri fingur fálma eftir framtíðinni.

Vissulega má segja að tíminn sé brothættur; eða kannski eru það við manneskjurnar sem eru brothættar.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
31. desember 2010
Flokkar

Áramótaprédikun 2010 31. desember

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Árið 2010 er komið að fótum fram. Það er eins og það hafi verið í gær þegar ég stóð hér í þessum prédikunarstóli á fyrsta degi ársins. Hugurinn reikaði fram á ónumda daga sem í dag er út sporðaður. Dagurinn „timbraður“ í margvíslegum skilningi þess orðs og horft var fram á árið með blik eftivæntingar í augum um hvað það bæri með sér án þess þó að leggjast í neina spádóma þótt það sé ekki leiðinlegur leikur.

Það leggur að mér vissan ótta að segja þetta því hvað varð um dagana vikurnar og mánuðina sem standa að árinu 2010. Fóru þeir hjá eins og veðurspá sem stenst ekki og ég beið eftir að yrði sem verða vildi. Gekk ég ekki allveg örugglega með dögunum og þeir með mér? Því er til að svara að auðvitað gerðu þeir það. Það má líka þakka fyrir að dagarnir, vikurnar og mánuðurnir hafi farið tiltölulega hljóðlega um. Það er eitt og annað sérstakt í persónulegri sögu sem ég hnýt um og ræði ekki hér. Tíminn eins og nokkrir metrar á sekúndu á spákorti veðursins komin og farin. Fann ég ekki allveg örugglega fyrir honum. Ýtti hann við mér eða lét ég fátt um finnast? Það eru margar spurningar sem mætta hverjum og einum á degi sem þessum síðasta degi ársins. Allt það sem átti að gera og gerast gerðist eða gerðist ekki. Horft er með eftivæntinu til nýs árs því þar felast nýjir möguleikar.

Fyrsti dagur ársins og sá síðasti er lífið eins og það birtist okkur í okkar eigin veruleika. Á árinu sem er að líða hef ég skírt rúmlega eitt hundrað börn. Ekki á morgun heldur hinn mun ég skira fyrsta barnið á árinu sem við heilsum að okkar einstaka hætti svo eftir er tekið eftir fáeinar klukkustundir. Hversu mörg þau verða börnin sem ég mun skíra á næsta ári veit ég ekki á þessari stundu en ég veit annað sem tíminn hefur gefið mér að sjá og skynja af visku sinni. Þegar horft er í augu barnanna hverju einu einasta þeirra fela augun í djúpi sínu framtíðina óráðna og einhvernvegin áhyggjulausa í trausti að vel verði fyrir séð. Smáar hendur með enn smærri fingur fálma út í loftið í átt til þess óræðna og eitthvað innra með manni segir að taka á móti þessum höndum og firngrum og bera áfram til þess sem við vitum ekki í raun hvað er og hvað verður.

Á áramótum erum við svolítið eins og börn frammi fyrir almættinu. Við kveðjum gamla árið og heilsum því nýja með barnslegu trausti að vel verði fyrir séð. Við vitum ekki hvað verður og eða hver verður að ári. Einhver heilsar á meðan annar kveður. Það er nú einusinni þannig að við höfum stundum fátt um að segja um framvindu alls. Má segja að árið i ár hafi minnt okkur á þá staðreynd.

Síðasti dagur ársins er þrungin augnabliki alls þess sem á undan hefur farið á árinu, ósigrar og sigrar. Öll sú þekking, öll sú viska sem safnast hefur saman á einn dag er eins og ekki sé nóg komið, heldur er vilji til þess að staldra við og halda utan um eitthvað sem er brothætt, sem alls ekki má missa sín þannig er síðasti dagur árins. Vissulega má segja að tíminn sé brothættur; eða kannski eru það við manneskjurnar sem eru brothættar. Þess vegna erum við á tímamótum sem þessum viðkvæmari en ella fyrir því að yfirgefa það sem við þekkjum og stíga um borð tímans sem ferjar okkur yfir á nýtt ár, strönd ónumins tíma. Aldrei sem á tímamótum sem þessum erum við meðvitaðari um þessa staðreynd sem reynist svo mörgum erfitt með að horfast í augu við um leið og við vitum að undan því verður ekki komist og svo eru þeir sem eru búnir að fá leið á árinu og geta hreinlega ekki beðið eftir nýju ári. Nýjum tækifærum og möguleika til einhvers betra en árið í ár hefur fært viðkomandi og eða viðkomandi fært árinu.

Það er hluti af mennsku okkar að óttast það ókunnuga, en jafnframt getur verið spennandi að takast á við þann ótta og leggja hann með hælkrók á lofti. Svo sannarlega höfum við þurft á þeim eiginleika að halda á árinu. Saga okkar sem þjóðar segir okkur frá því. Eldgos og flóð og röskun búsetu margra einstaklinga og fjölskyldna er það sem árið meðal annars skilur eftir sig. Eitthvað sem í minnum verður haft í sögu þjóðar að ekki sé talað um sögu einstaklinga. Á bak við hverja sögu og atburðar sem kann að vekja athygli og ratar á spjöld sögunnar og enn nær sem fyrirsögn í blöðum ekki aðeins landsins heldur og mannkyssöguna er heilt líf einstaklings og einstaklinga sem koma ekki við sögu nema sem neðanmálsgrein sem engin hefur fyrir að lesa og eða kynna sér. Á árinu gerðist sá atburður sem ratar á spjöld sögu mannkyns, en það er eldgosið í Eyjafjallajökli. Af myndum að sjá var þar um stórfenglegan atburð að ræða sem hafði áhrif á hversdagslegt líf fólks ekki aðeins hér heima heldur og í útlöndunum handan hafs og sjóndeildarhrings. Víst má segja að eftir því sem árin líða verður gossins minnst en ekki þeirra sem hafði og hefur mest áhrif á hvað varðar afkomu - afleiðingar gossins.

Þessa síðustu daga ársins er varla sá annáll birtur í erlendum fjölmiðlum að ekki er minnst á gosið og afleiðingar þess þá helst á flugsamgöngur og röskun ferðaáætlana milljóna manna. Um daginn var eldgosið í Eyjafjallajökli kosin einn af stóru viðburðum ársins í einhverjum fjölmiðlinum. Talað um hversu tignarlegt gosið var og afleiðingar þess fyrir ferðalög milljóna manna. Jökulinn fékk þann vafasama heiður á einmhverjum öðrum vefnum að vera kjörin einn af illvirkjum ársins. Gosið í sögulegu samhengi er stórkostlegt sjónarspil. Þegar farið er ofan í sauma atburðarins á líf einstaklinga og ekki sé talað um skepnur í nágrenni þess sem eiga afkomu sína undir því að fjallið sé ekki að rumska og spúa úr sér ösku yfir allt og alla þá er fátt eitt stórkostlegt við þann atburð sem minnir okkur á að bak við hvern atburð sem ratar á spjöld sögunnar eða fá fyrirsagnir í blöðum eru einstaklingar sem oftar en ekki er fátt talað um og minnst er á einn eða annan hátt þegar fram líða stundir. Hefur einhver velt fyrir sér örlögum þeirra sem tóku þátt í orustunni við Waterloo í Belgíu 18.júní 1815 þar sem Korsíku maðurinn Napoleon keisari og Wellington hinn enski tókust á þ.e.a.s. menn undir þeirra stjórn. Það fór ekki hátt að stór hluti þeirra hermanna sem féllu í þeirri orrustu voru börn á aldrinum 11-14 ára sem hermenn. Þegar við horfum um öxl eins og títt er á áramótum er fátt af persónulegri sögu að segja nema að það hafi átt sér stað tímamót eins og að verða foreldri, stórafmæli, útskrift og eða eitthvað annað sem virkar sem varða við troðning áranna.

Sagan hin skráða saga mannkyns er yfirfull af dagsetningum, atburðum og öðru því sem hefur haft áhrif bæði til góðs og til hins verra. Það fer minna fyrir persónum og leikendum flestum í þeim atburðum sem getið er. Einn og einn tekin út og allir hinir - gleymdir. Nútíminn er eins og fyrirsögn sem við skoðum eitt augnablik og flettum yfir á næstu blaðsíðu. Það sem við sjáum og skynjuðum hefur vikið fyrir öðru ekkert endilega meiru spennandi eða leiðingjarnara heldur er lífið einhvern vegin þannig að við leyfum okkur ekki að njóta augnabliksins því það þarf rými til að koma öðru að eða hvað?

Þarf það að vera svo?

Hvað gerist ef við leyfum okkur aðeins að tylla tánni á yfirborð tímans þannig að hann gárast?

Það gerist ekki vegna þess að við förum svo hratt yfir að spegilmynd okkar er það eina sem við sjáum og skynjum á yfirborðinu ekki það sem undir býr og gerir það að því sem það er í raun. Yfirborð er aldrei án þess sem heldur því uppi. Það sem er uppfullt af lífi og draumum um eitthvað liggur aldrei á yfirborðinu. Tíminn þær stundir sem við höfum lagt að baki ekki aðeins árið sem er að kveðja og víkja fyrir nýju heldur og reynsla áranna getur verið harður húsbóndi sem tyftar og bendir á þá staðreynd að vil viljum vera sjálfhverf í veröld sem fer minnkandi. Fjarlægðir missa mátt sinn og nálægðin styrkist. Krefur okkur um að horfast í augu við sjálfið okkar. Það getur verið erfitt á stundum.

Kann að vera að tíminn sé eins og vindurinn ósýnilegur og við finnum ekki fyrir honum þrátt fyrir að að við göngum með honum og hann pikkar í okkur, tekur utan um okkur og við reynum að losna frá honum þá sleppir hann ekki hendinni af okkur hvort sem okkur likar betur eða verr. Hér stend ég á lokadegi ársins eins og ég gerði á fyrsta degi þessa árs ár og ekkert hefur breyst þrátt fyrir að allt segir að svo hafi verið. Könnumst við það á nýju ári að tíminn er vinur en ekki eitthvað sem við eigum að óttast. Könnumst við það að allt hefur breyst. Þvi ef svo er þá getum við sagt að okkur miðar fram á við en stöndum ekki í stað. Hver vill það?

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú.

Megi góður Guð gefa þér og þínum gleðilegt nýtt ár með þakklæti fyrir gamlar góðar stundir á árinu sem er að líða..