Okkar sameiginlegu mál

Okkar sameiginlegu mál

Aðalatriðið er því ekki hver ræður eða hver fær bestu hugmyndirnar heldur hvort okkur lánist að vinna verkin í þjónustu við aðra.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
12. maí 2022

Þakklæti

Það er með þakklæti sem þessi orð eru skrifuð. Það er með þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem nú bjóða sig fram í komandi sveitastjórnarkosningum, hvar í flokki sem fólk finnur sig. Það er mikilvægt að til sé fólk sem er tilbúið að sinna okkar sameiginlegu málum í nærsamfélaginu. Ekki er það alltaf auðvelt, umræðan getur verið erfið, snúin og stundum persónuleg og óvægin.

Vald eða þjónusta?

Á vettvangi sveitarstjórna eru teknar ákvarðanir sem varða okkar sameiginlegu mál. Skóla-, íþrótta- og æskulýðsmál, málefni fatlaðra, skipulagsmálin og húsnæðismálin og þannig mætti áfram telja. Hversu vel tekst til á hinu pólitíska sviði litar gjarnan gæði samfélagsins og félagsauð.

Að hlusta á íbúana, hafa hag heildarinnar að leiðarljósi, sinna hinum þurfandi, tryggja mannréttindi allra og mannsæmandi líf eru verkefnin. Aðalatriðið er því ekki hver ræður eða hver fær bestu hugmyndirnar heldur hvort okkur lánist að vinna verkin í þjónustu við aðra. Það má kannski segja að það sé aðalverkefni þeirra sem um helgina munu hljóta umboð okkar allra á vettvangi sveitastjórna til að leiða okkar sameiginlegu mál til lykta, þ.e. þjónustuhlutverkið.

Að mæta á kjörstað

Og svo er það verkefni okkar allra og skylda, að mæta á kjörstað. Kosningarrétturinn er ein af grunnstoðum okkar lýðræðislega samfélags. Mikilvægt er því að við öxlum okkar ábyrgð, mætum á kjörstað og nýtum kosningarréttinn. Lýðræðið er besta og skilvirkasta verkfærið sem maðurinn á til að tryggja velferð, samvinnu, samkennd og náungakærleika. Allt grunnatriði sem Kristur stóð fyrir.

Birt í Morgunblaðinu 12. maí 2022 í aðdraganda sveitarstjórnakosninga