Kristin trú og skólastarf

Kristin trú og skólastarf

Er trúin til? Er trúin veruleiki, hluti af því sem er satt og rétt, eða er hún ímyndun, tilbúningur, lygi? „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá“ segir í Hebreabréfinu, eins og lesið var hér áðan. Eitthvað hljómar þetta öfugsnúið. Fullvissa og von eru andstæður, að vera sannfærður um eitthvað sem augun ekki greina, það virðist ansi erfitt.

Trúin, er hún lygi?

Er trúin til?

Er trúin veruleiki, hluti af því sem er satt og rétt, eða er hún ímyndun, tilbúningur, lygi?

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá“ segir í Hebreabréfinu, eins og lesið var hér áðan.

Eitthvað hljómar þetta öfugsnúið. Fullvissa og von eru andstæður, að vera sannfærður um eitthvað sem augun ekki greina, það virðist ansi erfitt.

En þessi orð lýsa einmitt spennu trúarinnar. Það er einmitt staða hins trúaða, að eiga fullvissu vonarinnar, leggja traust á það góða og mikilvæga sem augun ekki greina.

Andlegur veruleiki

Að trúa er andlegur veruleiki. Trúin getur frelsað manninn frá mörgum líkamlegum og jarðneskum krankleika. Því miður er einnig hægt að misnota trúna í sjúklegum tilgangi ofbeldis og styrjalda, eins og dæmin sanna nýleg hérlendis og stöðug erlendis.

Trúin getur gert máttarverk þar sem græðgi, öfund og firring hefur tekið sér bólstað. Þar sem fólk dansar í kringum gullkálfa og finnur ekki ró. Þar getur trúin frelsað, læknað og líknað, til heilla og heilbrigðis fyrir einstaklinginn.

Í hraða samfélagsins er neysluhyggjan svo áberandi, eins og við þekkjum, allt þetta veraldlega og jarðneska.

Stundum kemur sú mynd upp í huga minn að ég, við, fólkið, séum með lífi okkar að sturta okkur niður í klósett neysluhyggjunnar.

Og ég velti stundum fyrir mér þegar hinn fasti liður fréttatímans birtist á skjánum um DJog FTSE, hvort við þyrftum ekki að eiga okkur siðferðisvísitölu til að miða líf okkar við. Siðferðisvísitölu eða vísitölu trúar! En nóg um það!

Þetta kapphlaup er svo oft í eðli sínu leit, mannleg leit, andleg leit að fullnægju og tilgangi.

Þeir vita hins vegar sem þekkja að fullnægja og hamingja verða seint keypt með krónum eða evrum. Neysluhyggjan í sjálfri sér og kapphlaupið við fínni græjur, stærri bíla og glæsilegri borðbúnað fullnægir seint þeirri mannlegu leit.

Manneskjan hefur þörf fyrir andlegt líf, ró og frið, kyrrð og nærveru. Fyrir þann mannsskilning stendur kirkjan.

Hvar er slíkt að finna? Í samfélagi, í góðra vina hópi, í náttúrunni, í bæninni, í kirkjunni og kannski víðar.

Kirkjan vill vera þessi vettvangur, þar sem fólk finnur frið, kyrrð, ró og helga nærveru. Kvöldkirkjan hér í Dómkirkjunni á fimmtudagskvöldum er gott dæmi um þennan vettvang. Þar er opið frá átta til hálfellefu.

Kirkjan stendur fyrir andlegan veruleika sem er samt í senn svo jarðneskur.

Sá andlegi veruleiki á sér svipmyndir í fæðingu frelsarans í fjárhúsi, í kennslu og lækningu á götum úti fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir um 2000 árum og enn í dag, í samtali á fjalli, og út á vatni, í aldingarði, á krossi, við dánarbeð og í Orði.

Fyrir þennan andlega veruleika stendur kirkjan í boðun sinni og fræðslu. Og til að sinna verkefni sínu á kirkjan samstarf við marga einstaklinga, stofnanir og félagasamtök.

Þjóðkirkjan er fagleg stofnun

Þjóðkirkjan er fagleg stofnun, mönnuð allvel menntuðu og að flestu leyti hæfu fólki sem hefur lokið akademísku háskólanámi.

Þjóðkirkjan leitast eftir því að vera fagleg í störfum sínum á vettvangi mannlífsins, hvort heldur sem það er við dánarbeð, sjúkrarúm, í götustarfi, í áfallahjálp, barnastarfi, fermingarfræðslu, hátíðarathöfnum eins og í dag, sorgarvinnu, nefndar og fundarstarfi, kórastarfi, boðun, fræðslu, sálgæslu, samtali eða prédikun. Allsstaðar leitast kirkjan við að vera fagleg í starfi sínu.

Kirkjan getur verið og er í því hlutverki að vera vettvangur fólks til glímu við það að vera manneskja.

Kirkjan er slíkur vettvangur samfélags, þar sem við sem manneskjur gleðjumst og fögnum á hátíðum, en einnig glímum við erfiðleika, lifum og deyjum.

Hvað vonum við þá? Kirkjan er vettvangur fólks til glímu við tilveruna, til glímu við Guð. Jesús Kristur er það leiðarljós sem gefur sannfæringu þess að ekki er glímt til einskis.

Guðspjallið og bæn postulanna!

Í guðspjalli dagsins biðja postularnir Drottinn um aukna trú. Bæn þeirra er: Auk oss trú!

Þeir væntu þess kannski að Jesús myndi svara þeim: Verið trúaðir eins og Daníel í ljónagryfjunni, verið trúaðir eins og Davíð konungur, verið trúaðir eins og Móse. Að Jesús myndi vísa til einhvers af hinum mögnuðu leiðtogum og fyrirmyndum þjóðarinnar.

En Jesús Kristur svarar hinum tólf postulum: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.“

Mustarðskorn!

Er mustaðskornið trúað? Hvað er frelsarinn að meina?

Hvers vegna vísar Jesús til þess, hví ekki sandkorns ef hann var einungis að vísa til einhvers sem smátt er? Jú þessi korntegund er smá, en innan hins smáa leynast möguleikar vaxtar, lífs og framtíðar.

Eins er það með trúna. Í spennu trúarinnar leynist sá galdur sem veitir eilíft líf í sál.

Þegar kornið fellur í góða jörð, er ræktað og vökvað ber það ávöxt og til verður nokkuð burðug jurt.

Þegar trúin er ræktuð, vökvuð og að henni gætt, þá felur hún í sér mikla vaxtarmöguleika, manneskjunni til heilla.

Stundum er talað um mikla trú og litla trú. En svar Jesú gefur það til kynna að hversu lítil sem trúin er, geymir hún möguleika vaxtar, þroska og lífs.

Er trúin tilfinningaleg?

Trúin snertir margar góðar, hlýjar og dýrmætar tilfinningar. En trúin (pistis á grísku) er ekki aðeins tilfinningalegt hugtak heldur felur það í sér að manninum ber að sýna trúfesti gagnvart hlutverkum sínum í lífinu, og gagnvart Guði.

Guð er trúfastur, hann er að verki, hann hefur valið þig til að vera Guðs barn.

Það kemur einmitt fram í texta spámannsins, Hósea. Þrátt fyrir að þjóðin sé lauslát og svíki sín heit, þá er Guð trúfastur. Hann gefur ekki þjóðina upp á bátinn, og ekki heldur þig.

Þetta festa hugtak skýrskotar til hjónavígslu og þess hvernig við sinnum hlutverkum okkar.

Hvernig sinnum við hlutverkum okkar? Sem foreldrar, systkini, börn, nágrannar, frændfólk, eiginmenn og eiginkonur.

Erum við lauslát og ábyrgðarlaus í hlutverkum okkar? Hverjir sinna börnunum? Er tölvan hið nýja foreldri í hjónasæng með internetinu.

Hvernig getum við tekið ábyrgð á öllu því sem snertir börnin okkar og unglinga?

Ég sá þá tölfræði um daginn, úr rannsókn eins prófessors við HÍ, að um 80% unglinga vafrar um stræti alnetsins án eftirlits.

Foreldrar vita ekki hvað börnin eru að gera á þeim strætum, og margt varasamt virðist þar í boði. Hér í miðbænum viljum við ekki að börn og unglingar ráfi utan útivistartíma, en hvernig eigum við að sýna ábyrgð á strætum internetsins?

Guð er trúfastur, og Jesús kallar okkur til eftirfylgdar, til trúar og þess að sýna ábyrgð og trúfesti í hlutverkum okkar og störfum.

Hvað er kirkjan að vilja upp á dekk?

Er það ekki mikilvæg hvatning, að sýna trúfesti. Eiga þau orð ekki heima í umræðu um uppeldi barna og unglinga?

Á Jesús Kristur kannski ekki heima á þeim vettvangni? Jú að sjálfsögðu.

Við vorum hér með myndarlegri fjölskyldu að bera barn til skírnar – til hamingju með nafnið og skírnina.

Í hverri skírn tekur fjölskyldan, samfélagið og söfnuðurinn að sér það hlutverk að ala barnið upp í ljósi þess fyrirheitis sem skírnin boðar og lofar, að uppfylla skírnarsáttmálann.

Hvernig eigum við að fara að því?

Hvernig eigum við að uppfylla þann rétt barnsins að það hljóti skírnarfræðslu og upplýsingar um það í hverju náð Drottins er fólgin?

Heimilið og kirkjan gegna þar lykilhlutverkum. Bænin við rúmstokkinn og barnastundin á kirkjuloftinu. Á Jesús ekki heima á fleiri stöðum? Hvað með skólann? Má ekki nefna Jesú á nafn innan veggja skólans? Að sjálfsögðu eigum við að gera það, en ávallt á faglegan máta, með virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum. Til að hægt sé að sýna umburðarlyndi er nauðsynlegt að taka afstöðu.

Getur skólinn sýnt umburðarlyndi með afstöðuleysi?

Síðustu vikur hefur samstarf kirkju og skóla verið allnokkuð til umræðu í fjölmiðlum og víðar.

Hvað er kirkjan að vilja upp á dekk? Eins og stýrimaðurinn sagði við bátsmanninn: Hvað ert þú að vilja upp á dekk? Gá væk!

Svo við tölum nútíma gammel dansk!

Sumir vilja taka undir þau orð og vilja vísa kirkjunni á dyr úr samhengi skólaumhverfisins.

Mikilvægt er að muna að kirkja og skóli hafa á Íslandi haldist í hendur í árhundruð. Rekja má upphaf menntuna og skólastarfs til kirkjunnar.

Sálgæsluhlutverk kirkjunnar hefur verið óumdeilt á vettvangi skólans. Þegar hörmungar dynja yfir, erfiðleikar og andlát þá er kirkjan ávallt til þjónustu reiðubúin og til hennar sótt.

Hvað með skírnarfræðsluna, á hún heima á vettvangi skólans?

Til stuðnings skírnarfræðslunni hefur kirkjan tekið hlutverk sitt alvarlega og boðið fjölskyldum á vettvangi skóla og leikskóla sinn stuðning við þetta mikilvæga hlutverk. Kennt frásögurnar af Jesú, kennt bænavers og söngur er víða þáttur í starfinu.

Hvað þá með þá sem ekki eru skírðir? Sem tilheyra öðrum trúfélögum, jafnvel? Mega þeir taka þátt í þessum stundum kirkju á vettvangi skóla? Þurfa þeir að taka þátt í þessum stundum á vettvangi skóla? Á flestum stöðum er um tilboð að ræða. En grundvallaratriðið er má segja að fræðsla útrýmir fordómum. Á þeirri forsendum er samstarfið grundvallað.

Réttur barnanna!

Hver er réttur barna í skólanum?

Það mætti orða það þannig að börn eigi rétt á vettvangi til að þroska sig alhliða.

Alhliða þroski felur meðal annars í sér vitsmunaþroska, félagsþroska, tilfinningaþroska og andlegan þroska.

Skólanum ber því að skapa vettvang svo börnin fái möguleika á því að þroskast andlega.

Takmark mitt í samstarfi við leikskóla og grunnskóla er ekki að ná til þeirra sem ekki eru kristin með það að markmiði að þau gangi í raðir kirkjunnar.

Takmarkið er að fræða, vegna þess að fræðsla útrýmir fordómum, eins og áður sagði. Að bera virðingu fyrir hinu heilaga skiptir miklu í dag. Og að virða það sem öðrum er heilagt.

Um leið og við sem samfélag, á vettvangi skóla eða annarsstaðar berum virðingu fyrir því sem okkur er heilagt, þá er líklegra að við berum gæfu til þess að virða það sem öðrum er heilagt.

Um leið og því er lyft upp sem einkennir okkar þjóð, sið og trú, er það hvati til kennara, skóla, foreldra, nemenda og annarra að lyfta því upp sem einkennir trúarafstöðu bekkjarfélaga sem tilheyra ólíkum trúarbrögðum.

Að þessu leiti er það hlutverk skólans að virða það sem heilagt er með því að rækta þann andlega vettvang sem við sem kristin þjóð eigum og byggjum á. Það er eina leiðin til umburðarlyndis og samstarfs til framtíðar.

Faglegt samstarf um hið heilaga skiptir miklu. Byggt á kristnu siðgæði, fræðslu og boðun og grundvallað á Jesú Kristi hinum upprisna Drottni og frelsara.

Guð hefur fyrirætlun

Auðvitað boðar kirkjan ávallt kristna trú, í öllu sínu atferli. Í kristninni finnum við opinn faðm og Jesús gefur okkur dæmi:

Er hann læknaði lama manninn, er hann sagði dæmisöguna af Miskunnsama Samverjanum. Er Jesús kyrrir vind og sjó. Er Jesús læknar í fjarlægð, nálægð, og jafnvel án þess að gera nokkuð, er Jesús hittir Sakkeus, Lasarus, Maríu og Mörtu. Er Jesús segir frá týnda syninum. Er Jesús deyr og rís upp til lífs á ný! Þvílíkur veruleiki!

Allar eiga þær frásögur það sameiginlegt að lífið sigrar að lokum. Lífið er nefnilega óendanlega mikils virði, það hefur óendanlegt vægi, það hefur eilíft gildi.

Sá vegur stendur manneskjunni opinn. Það er val að taka og rækta trúna. En Guð hefur þegar valið. Það er staða okkar gagnvart Guði að sökum náðar hefur Drottinn opnað faðminn heim, fyrir alla menn.

Það er einmitt boðskapur Hósea spámanns. Guð hefur fest þig sér eilíflega. Guð hefur fest þig í réttlæti og réttvísi, kærleika og miskunnsemi. Rétt eins og Drottinn gerir í skírninni, þá er Drottinn að verki dag hvern.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.