Að vera og gera

Að vera og gera

Eitt af hlutverkum kirkjunnar í dag er að finna aðferðir til þess að vinna saman. Samfélagsleg ábyrgð kirkjunnar er mikil og því mikilvægt að leita samstarfs við þá aðila sem vinna að sömu markmiðum við uppbyggingu samfélagsins, hérlendis sem og erlendis.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
07. október 2010

Sem lifandi manneskjur tengjumst við hvert öðru. Við ættum að vera meðvituð um að við þurfum hvert á öðru að halda, erum hvort öðru háð. Þetta verður hvað ljósast þegar við fréttum að einstaklingur eða fjölskylda á í vanda. Við sjáum áhrifin, bæði innan fjölskyldunnar, á meðal vinnufélaga eða jafnvel í hverfinu okkar. Það sem er gert eða það sem látið er ógert hefur áhrif á okkur öll. Okkur stendur ekki á sama ... en það er misjafnt hver viðbrögðin okkar eru.

Eitt af hlutverkum kirkjunnar í dag er að finna aðferðir til þess að vinna saman. Samfélagsleg ábyrgð kirkjunnar er mikil og því mikilvægt að leita samstarfs við þá aðila sem vinna að sömu markmiðum við uppbyggingu samfélagsins, hérlendis sem og erlendis. Og í þessu samhengi erum við heppin, því innan vébanda kirkjunnar finnum við hvorutveggja, einstaklinga sem helga sig starfi meðal þeirra sem eru hjálparþurfi hér á landi, sem og einstaklinga sem styðja dyggilega við hjálparstarf, þróunarstarf og kristniboð erlendis.

Einn slíkur samstarfsvettvangur sem þjóðkirkjan á aðild að er Eurodiaconia, það eru evrópsk samtök þeirra sem starfa á vettvangi kærleiksþjónustunnar. Þátttaka í slíku samstarfi gefur færi á að læra af því sem vel er gert hjá öðrum og bæta það sem betur má fara í eigin ranni. Mikilvægt skref hefur nú verið stigið í þessu samhengi hvað okkur hér heima á Fróni varðar. Fyrir tilstilli kærleiksþjónustusviðs Biskupsstofu kom út nú í byrjun september rafbókin ,,Að vera og gera“ sem er íslensk þýðing skjals sem kallast ,,To Be and to Do“ og kom út árið 2004 hjá Eurodiaconia. Það er fagnaðarefni að þetta skjal sé nú til á íslensku og ber að óska kirkjunni allri til hamingju með skjalið!

Skjalið er í senn áhugavert framlag í umræðuna á fræðilegum vettvangi sem og áhrifaríkt skjal til aflestrar fyrir þau sem vilja sjá framsækna díakoníu að verki í kirkjunni. Við hliðina á umræðu um guðfræðileg viðhorf og sjónarmið og stöðu kærleiksþjónustunnar í kirkjunum má finna frásagnir af vettvangi þar sem gert er grein fyrir vel unnum verkefnum víðsvegar um Evrópu.

Í skjalinu er velt upp mörgum áhugaverðum spurningum og leitað lausna og svara. Meðal annars er spurt um hlutverk samfélagsins og segir það meðal annars á bls. 16:

Einnig er brýnt að spyrja hvers konar félagshagfræðileg þróun verður innan Evrópusambandsins sjálfs og í fyrrum kommúnistaríkjum þar sem markaðsbúskapur hefur tekið við af miðstýrðu hagkerfi. Samfélög Vestur- og Norður-Evrópu hafa þróast í velferðaríki. En samt er það svo, ekki síst fyrir tilstilli hnattvæðingarinnar, að þrýst er á alla að laga sig að harðari samkeppni í efnahagslífinu. Innan kærleiksþjónustunnar er mikilvægt að þekkja þessa þróun því hún hefur gríðarleg áhrif á félagsmálastefnu og velferðarkerfi allrar Evrópu.
Skýrslan er unnin af vinnuhóp Eurodiaconia í guðfræði og siðfræði sem tók til starfa í ársbyrjun 2002. Markmið þeirrar vinnu var að hvetja til ígrundunar á kærleiksþjónustu. Lögð var rík áhersla á að þessi vinna færi fram í nánum tengslum við starf fólks á vettvangi og eru nokkrar slíkar frásagnir birtar í skýrslunni. Á ársfundi Eurodiaconia var skýrslan rædd og samþykkt á ársfundi samtakanna árið 2005 og í framhaldi af því gerð opinber. Það er von þeirra sem að skýrslunni standa að hún verði hagnýt auðlind á öllum stigum þegar sameiginlegur grundvöllur kærleiksþjónustunnar er ígrundaður.

Nálgast má skýrsluna / rafbókina á vefslóðinni: http://kirkjan.is/di/skraarsofn/di/2010/10/eurodiaconia-2010-to_be_and_to_do_isl_2010.pdf

D13D15B1-7CC1-AF3D-BE7B-8B76E4B02E5D
1.02.28