Talað við Einhyrning

Talað við Einhyrning

...þegar fiskimið trúarinnar veita ekki lengur neitt til næringar sálarinnar, þegar erfiðleikar með testamenti og kreddur bögglast svo fyrir fólki, að trúin hefur hopað, að Guð hefur dáið í hjarta þess, ljós himinsins hefur slokknað og vonin daprast. Prédikun í Neskirkju 7. maí, 2006 fer hér á eftir.

Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig. Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: Hvað er hann að segja við oss: Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins? Þeir spurðu: Hvað merkir þetta: Innan skamms? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara. Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. Jh 16:16-23
Hverju trúir þú?

Heldurðu að Loch Ness skrímslið sé til? Getur verið að til sé furðudýr, sem hefur aðeins eitt horn fram úr enninu og getur talað? Það er margt sem er ótrúlegt og óþarfi að vera algerlega bláeygur og trúa hverju sem er.

Einu sinni fór maður að veiða í hinu alræmda vatni Loch Ness í Skotlandi. Hann hafði enga trú á, að skrímslið, sem kennt er við vatnið, væri til. Hann var líka vantrúaður á allt sem gæti flokkast undir “yfirnáttúrulegt” og kraftaverk. Hann trúði ekki á Guð og hans góðu engla. Karlinn fór á bát sínu út á vatnið og hóf veiðar. Allt í einu og manninum til fullkominnar skelfingar kom skrímslið upp úr vatninu, opnaði ógurlegt ginið og virtist ætla að gleypa bæði bát og mann. Maðurinn æpti: “Guð hjálpi mér.” Þá var eins og tíminn og framvindan frysi og engill birtist og sagði: “Af hverju ertu að ákalla Guð, sem þú ekki trúir á? En maðurinn veinaði upp: “Settu þig í mín spor. Fyrir mínútu síðan trúði ég ekki heldur á Loch Ness-skrímslið! Ég hlýt að mega breyta um skoðun þegar maður upplifir ótrúlega viðburði.”

Þessi saga má bara vera frosin áfram, hún hefur svo sem ekkert framhald. Hnyttni eða tiltal sögunnar varðar hið kunnuglega, að aðstæður breyta afstöðu fólks, til sjálfs sín, til vídda veraldarinnar og líka til Guðs. Það er eðlilegt, að fólk efist um og velti vöngum yfir því sem það sér ekki, verður ekki vart við með beinum hætti og getur ekki mælt eða vegið. Margt getur alið efann. Ef erfiðleikar hafa hrjáð fólk í bernsku, faðir, móðir eða aðstandendur hafa verið brotnar manneskjur og gefið afkvæmum sínum tortryggni í veganesti er ekkert óeðlilegt, að hinn fullorðni gjaldi varhug við öllum merkjum af hæðum, eigi í erfiðleikum með að trúa og hafi engan áhuga á trúarlegum skýringum og lausnum.

Guðspjall dagsins

“Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Þessi orð Jesú, sem við lesum eftir páska, voru sögð fyrir páska. Þau eru að vissu leyti undirbúningur að brottför, snemmbúin kveðjuræða. Lærisveinarnir voru óvissir um merkingu þeirra. Að sjá og sjá svo ekki. Hvað þýðir þetta innan skamms? Og þeir ræddu um hvert meistari þeirra ætlaði að fara. Svo segir Jesús þeim þessa grípandi líkingu af fæðingarþrautum kvenna og svo skyndilegum viðsnúningi úr nauð í gleði, sem allir hafa upplifað, sem hafa verið viðstaddir gæfulega fæðingu. Hann dregur upp andstæðurnar um hryggð og gleði, birtingu og hvarf, að sjá og sjá svo ekki, núsins og þess sem er innan skamms. Svo eru pörin þögn og bæn þarna líka, spurn og svar, meðganga og fæðing, kona og barn, grátur og hlátur, tími og eilífð, Jesús og lærisveinar og leit manns að merkingu og þar með eru þarna Jesús og þú.

Talað við Einhyrning

Ég hef verið að lesa ljóðasafn Hannesar Péturssonar, sem nú er til í heildarútgáfu og óhætt að mæla með.[i] Í ljóðabókinni Eldhyl er hið rismikla ljóð Talað við Einhyrning og líka birt í bókarlok heildarsafnsins.

Myndlíkingin af einhyrningi var algengt Kriststákn á miðöldum, sést á textílum og kemur fram í skjaldarmerkjum. Skáld hafa fyrr og síðar notað þessa mynd hins trúarlega sendiboða. Matthías Johannessen er einn þeirra. Höfundur Harry Potterbókanna leiðir einhyrning fram, enda er Johanna K. Rowling kunnáttusöm í táknfræði. Og einhyrningur kemur m.a.s. fram í þætti um Homer Simpson og fjölskyldu!

Í ljóðinu Talað við Einhyrning segir Hannes frá fundi skáldsins og ljóshests af himnesku ætterni, með horn út úr enni. Ljóðið fjallar eiginlega um glímuna við trú, hið trúarlega, samfylgd hinnar guðlegu veru og skáldsins, sem nú er orðið gamalt. Dýpst ristir í ljóðinu missir trúarinnar og leitin að henni, leitin að horfnum djásnum og vini barnshjartans, sem er farinn.

Prósainngangur ljóðsins er knappur og meitlaður. Þar segir hnyttilega, að gamalt skáld signi sig til dagsins úti fyrir húsdyrum á aprílmorgni. Einhyrningur kemur úr birtu sólar, krýpur niður og maðurinn herðir upp huga, kemur sér fyrir, væntanlega í bænastellingu, frammi fyrir verunni, horfir í augu hennar og opnar svo hug sinn. Síðan koma þessi elskuyrði (og ég les úr ljóðinu Talað við Einhyrning):

“Þig átti ég að bróður í þagnarljósi barnshjarta míns.” Í skjóli föðurgarðsins og í skelfingu bersvæðanna átti ég þig að, leiðtogi minn. Nálæg hver tilsögn þín, alskír. Og í áfangastað kvaðst þú bíða. Þú varst mér ilmur af eplum og greni. Þú sem ert Fiskur, ristur í vegg rökkvaðra jarðfylgsna hinna ofsóttu Þú sem ert Einhyrningur og enga myrkviðu skelfist. Þig átti ég að bróður í þagnarljósi barnshjarta míns. En þig missti ég og þín er ég að leita, sífellt...”

Lýsing Hannesar tjáir vel líðan allra þeirra sem efast, hafa misst barnatrúna og misst sjónar á undri og einlægni bernskunnar. Í ljóðinu er Jesúveran bróðir í þagnarljósi barnshjarta okkar. Leiðtogi í skjóli föður – og þess vegna móðurgarðs. Kærleiksfyrirmynd meistarans, hans sem er svo við enda tímans, bíður í áfangastað manna. Svo jólailmurinn – þú varst mér ilmur, þessi greni- og eplailmur jóla fyrir áratugum. Fiskur, gamalt lógó, merki Jesú Krists – fiskurinn á grísku er ikþys – stafir vísa til: Jesús Kristur Guðs sonur frelsari.[ii] Á tímum ofsókna gegn kristsnum mönnum í Rómarveldi var nóg að teikna fisk til að segja alla sögu um Guðskomuna í heiminn og tilgang þeirrar sögu. Kristnir menn þekktu hvern annan af fiskmerkinu.

“Þig átti ég að bróður í þagnarljósi barnshjarta míns.” Og svo kemur skaðinn mesti “En þig missti ég og þín er ég að leita, sífellt...” Að missa trúna er að missa tengslin og svo er leitað, sífellt, alla æfi. Gamalt skáld, sem signir sig deginum bíður og skyggnist um eftir birtuverunni, sem kemur, þessi sem hefur jólalykt, þessi sem leiddi, er teiknaður á veggi í hinna ofsóttu kristnu manna. Svo heldur kvæðið áfram:

“Dag einn dreymdi mig þig Einhyrninginn: Aleinn sit ég við fótskör þína, hugur minn er kvíðafullur.

Hornið fram úr enni þér glóir. Hjartaslag eftir hjartaslag hnikar því nær og rakleitt að rótum dýpstu bænar minnar. Ég hugsa: Lifi ég, lifi ég svo lengi að það standi gegnum mig og í gaflinn dökka mér að baki endurleysi mig?”

Síðan lýsir Hannes viðbrögðum einhyrningsins, hvernig hin guðlega vera kemur, endurnýjast eða endurfæðist í eldi, hvernig rit og túlkanir, játningar og kraftaverk skyggja á eða íþyngja, hvernig umbreyting verður og allt verður nýtt, allt endurnýjað. Og einhyrningurinn svarar svo og talar til skáldsins og segir:

“Ávallt fylgi ég þér og öllum hinum dýrunum. Horn mitt er geisli. Það heggur í tvennt vegleysur! Ég renn á undan ykkur.... ..... Sjá, ég er Vatnið Sem var og er, þótt það brenni.

Maðurinn lagði sér á minni svör einhyrningsins. Þó tók hann ekki orð sín aftur, heldur mælti að nýju:

Þig átti ég að bróður í þagnarljósi barnshjarta míns. En þig missti ég og þín er ég að leita, sífellt."

Uppvöxtur og trúrækt

Og lýkur þar með lestrinum. Heiðarleiki kvæðisins, þrá, eftirsjá og sorg ristir djúpt og sker í hjartað. Þig átti ég að bróður í leyndum barnshjartans. En þig missti ég, þín er ég að leita – sífellt. Við leggjum merkingu í myrkur daganna og svo lifum við flest einhverja túlkun og tilfinningar hríslast um okkur þegar ljósið vex á apríldögum og í maí, þegar vorið kemur, sól hækkar á lofti, ljósið kemur og sest um okkur - eins og einhyrningur í ljóði.

Hvernig túlkum við reynslu okkar? Ég ber djúpa virðingu fyrir trúarbaráttu Hannesar. Ég ber líka djúpa virðingu fyrir einlægni og heiðarleika þeirra, sem viðurkenna fyrir sér þegar guðleiki grenilyktar bernskunnar er þeim ekki lengur vitnisburður um Jesúbróðurinn, þegar fiskimið trúarinnar veita ekki lengur neitt til næringar sálarinnar, þegar erfiðleikar með testamenti og kreddur bögglast svo fyrir fólki, að trúin hefur hopað, að Guð hefur dáið í hjarta þess, ljós himinsins hefur slokknað og vonin daprast. Slíkt fólk kemur stundum á fund prestsins, opnar sálarmal sinn og vill ræða vandann. Það á sér sögu, segir hana og vill ræða um leitina að bróður barnshjartans. Mér sýnist að æ fleiri séu tilbúnir að ræða um stöðu trúarinnar eða skort hennar í samfélagi okkar. Æ fleiri eru spurðir í blaðaviðtölum um hvort trúin skipti þau máli, hvort fólk trúi á framhaldslíf og með hvaða móti. Um síðustu helgi og í vikunni hafa margar spurningar af því tagi verið í viðtölum í prentmiðlunum. Svörin hafa verið með ýmsu móti. Það er vel að trú og trúarhugmyndir eru ekki lengur tabú. Við þurfum að ræða þau mikilvægu mál og ekki endilega komast öll að sömu skoðun.

Þrá hjartans Það er engin sérstök þörf fyrir okkur að trúa að til sé skrímsli í vatni Skotlandi né heldur að til sé ormur í Lagarfljóti. En hræðslan við skrímsli og orm er að einhverju leyti tákn um hið ógnvænlega innan í mönnum og í veröldinni. Það er engin þörf heldur að trúa að veran einhyrningur sé á ferðinni. Hún er hreint tákn um dýpri veruleika, sem varðar trú og trúargildi. Þó við trúum ekki tilveru einhyrnings getum við samt sagt, að við sitjum frammi fyrir einhyrningi. Því ekkert okkar megnar frekar en Hannes að flýja sjálf okkur og djúpþrá sálarinnar. Ekkert okkar megnar að flýja hinar stóru spurningar eða kemst undan að glíma við vit eða merkingu lífsins, hvaða afstöðu við höfum til ljósverunnar. Skrímsl í mynd erfiðrar reynslu rífur upp gin í lífi okkar allra, fyrr eða síðar. Áföllin dynja yfir og þá verða til rökkurstundir sem gefa fólki sýnir og sjónarhól. Trúrækt skiptir fólk miklu, sem kemur skýrt í ljós þegar fólk lendir í áföllum. Vel þjálfað fólk hið innra getur betur glímt við álag. Við þurfum að þjálfa andann ekkert síður en skrokkinn. Sálarvinna og bænaiðja er heilsurækt.

Fundinn! Við leitum öll að bróður barnshjartans. Lærisveinarnir í texta dagsins eru félagsskapur leitarinnar. Þeir voru óvissir um hvað það merkir að Jesús fer og kemur aftur. Þeir skildu ekki hvað það merkir að sjá og sjá ekki, í hverju tímavíddirnar nú og innan skamms eru fólgnar, hvernig tengslin eru milli sorgar og gleði, birtingar og hvarfs, þagnar og bænar, spurnar og svars, meðgöngu og fæðingar, konu og barns, gráts og hláturs, tíma og eilífðar. Líf mannsins er leit, ekki að hlutum, þó margir deyfi spurningarnar með kaupum og neyslu. Líf mannsins finnur ekki svölun, nema í því sem miðlar merkingu, svarar siðklemmu með siðviti, angist með huggandi faðmi, lýsir upp sorta, hreinsar sorann, smellir vonablæju yfir hræddan mann. Maðurinn, sem aðeins þráir en finnur aldrei lausn lífsleitar, er enn á leið í gegnum föstudaginn langa. En Jesús er þarna, ljósveran er komin, við erum að baki páskum og mættum gjarnan gera okkur grein fyrir að meðan við vorum að leita að bernskri tilfinningu okkar er einhyrningurinn kominn og hefur fundið okkur og vill kalla okkur til upplifunar hins fullorðna. Páskarnir eru staðreynd, móðirin hefur fætt, sorgin er búin, gleðin er komin, hláturinn hljómar og ljósið umlykur veröldina.

Amen

Lexía. Jesaja 43:16-19. Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur: Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var. Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.

Pistill. Hebreabréfið 13:12-16. Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

[i] Njörður P. Njarðvík skrifar með næmi og elsku ljomandi inngang MM 2005.

[ii] Jesous Christos Theou Hyios Soter