Furðulegt háttarlag engils um nótt

Furðulegt háttarlag engils um nótt

Blár er í listasögunni litur Maríu Guðsmóðir og í helgimyndum er hún nær undantekningalaust bláklædd. Kirkjan er vettvangur þeirra sem vilja læra af og fylgja Jesú Kristi og barátta hans gegn fordómum og fyrir því að allt fólk eigi sér stað kallast á við þær áherslur sem liggja að baki alþjóðlegum degi einhverfu.

Fordómar, tillitsleysi og skortur á umburðarlyndi eiga sér öll þá rót að vera skortur á getu til að setja sig í spor þeirra sem eru á einhvern hátt öðruvísi en við sjálf. Sá vandi er hluti af því að vera manneskja, en við göngum flest út frá því í daglegu lífi okkar að aðrir séu í grunninn með sömu langanir, þrár og hugsanir og við sjálf og gerum þá kröfu á umhverfi okkar og samferðafólk að það sé eftir okkar höfði. Sú reynsla að kynnast og geta sett sig í spor þeirra sem sjá lífið öðrum augum en við sjálf, getur jöfnum höndum vakið ugg og auðgað sýn okkar á eigin aðstæður og tilveru, og sú reynsla er ein dýrmætasta gjöf sem við getum þegið.

Skáldsagan Furðulegt háttarlag hunds um nótt er slík gjöf, en hún er sett upp sem dagbók drengs sem er með asperger heilkenni. Röskunin er aldrei nefnd í sögunni, enda er sjónarhorn hennar hugsanir Kristófers Boon, en höfundurinn byggði persónu sína á einstaklingum með þá röskun. Líkt og flestir á einhverfurófi, finnast Kristófer félagsleg samskipti flókin, hann hefur getu til að sökkva sér ofan í flókin en sértæk áhugamál og hefur mikla þörf fyrir reglu í lífi sínu. Persóna Kristófers er heillandi og bókinni tekst höfundinum að leiða lesandann inn í hugarheim hans með þeim hætti, að mega sjá heiminn með hans augum.

Borgarleikhúsið sýnir um þessar mundir leikgerð af sögunni, sem er ekki síður áhrifarík innsýn inn í hugarheim Kristófers. Leikgerðin byggir á þeirri hugmynd að bókin, þar sem Kristófer skrifaði niður rannsókn sína á hundsmorðinu, sé nú sett upp sem leikrit í skólanum hans og þannig tekst leikgerðinni að varðveita persónulegt sjónarhorn sögunnar. Þorvaldur Davíð Kristjánsson fer á kostum í hlutverki Kristófers og skilar á sannfærandi hátt hugarheimi hans til áhorfenda.

Ein dýrmætasta senan er einræða þar sem Kristófer lýsir þeirri upplifun að standa ráðþrota frammi fyrir hálfkveðnum vísum og myndmáli í samskiptum fólks. ,,Fólk ruglar mig í ríminu” segir Kristófer og lýsir því hvernig að hann sér myndmál í það bókstaflegu ljósi að það missir marks í huga hans. Hvað er fólk t.d. að draga djöfla út um allt, spyr hann meðvitaður um myndmál orðtækisins en ráðþrota gagnvart notkun þess. Í bókinni leiðir hann jafnframt hugann að nafni sínu, sem merkir bókstaflega ,,sá sem ber Krist” og spyr hvað heilagur Kristófer hafi heitið áður en hann bar Krist yfir ánna, eins og helgisögnin segir. Kristófer vill að myndmál sé kallað lygi og minnir afstaða hans á þau, trúlausa jafnt sem trúaða, sem ekki hafa getu til að lesa trúartexta á annan hátt en bókstaflega.

Þó bókin, jafnt sem leikverkið, miðli einungis upplifun Kristófers er ein persóna sem ljáð er eigin röddu en það er móðir Kristófers. Í bókinn kynnumst við togstreitu Judý Boon í gegnum bréf, sem hún sendir syni sínum, og í þeim bréfum lýsir hún þeirri reynslu að eiga og elska barn, sem er einstakt. Bréfin brjóta upp frásögnina og gefa innsýn inn í veruleika aðstandanda þeirra sem eiga einhverf börn, þeim forréttindum að eiga barn sem sér heiminn í öðru ljósi en aðrir og því álagi sem því fylgir.

Jóna Á. Gísladóttir, móðir einhvers barns, gaf 2008 út bloggfærslur sínar með reyslusögum af uppeldi hennar og samskiptum við son sinn, Ian Anthony. Bókin, sem heitir Sá einhverfi og við hin, er hispurslaus og full af nærgætnum húmor en jafnframt heiðarleg með að það er ekki alltaf auðvellt að eiga einstakt barn. Í kafla sem ber heitið ,,Ég held hann hafi valið mig” segir Jóna:

,,Ég á vissulega andlega fatlað barn og það getur tekið á taugarnar og suma daga kremur það í manni hjartað. Löng og ströng ganga er að baki. Oft upp í móti. En litlu brekkurnar undan fæti bæta hitt svo margfallt upp. Ég hef verið svo heppin að fá að upplifa sífelldar framfarir hjá drengnum mínum og það sér ekki fyrir endan á þeim. Ég fæ að njóta kímnigáfu hans, fölskvalausrar gleði, faðmlaga og ástar. Eiginleika sem eru ekki sjálfgefnir hjá einhverfu barni. Sumir trúa því að börn velji sér foreldra. Það getur afskaplega vel passað. Sá einhverfi gæti hafa setið uppi á hvítum, dúnmjúkum skýhnoðra með Guði og horft niður á mig .... ,,Hvað segirðu um þessi?” hefur hann sagt við Guð og bent á okkur. ,,Ahhh ... ég veit ekki, “ hefur Guð sagt og hallað undir flatt. [...] ,,En hvað með hana?” hefur hann spurt og bent á mig. ,,Hún er nú soldið krútt”? ,,Hmmm...” hefur heyrst í Guði og hann sett aðeins í brúnirnar. ,,Hún er nú samt svo andskoti taugatrekkt á köflum.” (Guð blótar stundum) ,,Einmitt,” hefur Sá Einhverfi samþykkt með visku alls himinsins í svipnum. ,,Ég held ég sé hæfilegur pakki fyrir hana. Mátuleg áskorun. Ég mun gera mitt besta til að gera hana stolta af mér og vera ekki of erfiður.” ,,Það er fallega boðið hjá þér snúllinn minn,” hlýtur Guð að hafa sagt og strokið drengnum undurblíðlega yfir englakollinn.

Boðunardagur Maríu, er samkvæmt takti kirkjuársins 25. mars ár hvert og síðan er sungin messu henni til heiðurs 5. sunnudag í föstu. Boðun Maríu er saga þess, þegar ung kona er útvalin til að eignast einstakt barn, barn sem eins og engillinn segir: ,,á hans ríki mun engin endir verða” (Lk 1.27). María Guðsmóðir er ein merkilegasta persóna kristins átrúnaðar en lýsingar guðspjallanna á henni eru þó langt frá því ítarlegar. María er útvalin af náð og ekki á grundvelli persónu sinnar, þó kristin kenning hafi síðar gert mikið úr syndleysi hennar og jafnvel ævarandi meydómi.

Sé saga guðspjallanna lesin frá sjónarhóli Maríu verður ljóst að það hefur fylgt því mikið álag að vera móðir Jesú, en hann var sannarlega einstakt barn. Í gegnum guðspjöllin er María í bakgrunninum: Hún er útvalin til að ganga með son Guðs, hún er heimsótt af englum og konungum, fylgist áhyggjufull með þegar Jesús tekur sín fyrstu skref í kennslu í musterinu 12 ára gamall og situr áhyggjufull hjá þegar hann vinnur sitt fyrsta kraftaverk. Loks fylgist hún með aftöku hans og stendur hjálparlaus undir krossinum þegar hann er tekinn af lífi. Í Jóhannesarguðspjalli er það síðasta ósk Jesú, að vinur hans og lærisveinn annist móður sína.

Þessar konur, skáldsagnapersónan Judy Boon, hvunndagshetjan Jóna Á. Gísladóttir og María Guðsmóðir deila þeirri reynslu að eiga einstakt barn. Jóna lýsir þeirri upplifum að finna sig útvalda til að eiga barn sitt og persóna Judy Boon ljáir því álagi sem því fylgir röddu. Hið furðulega háttarlag engils um nótt, í lífi María hafði varanleg áhrif á mannkynssöguna - og Jesús, hið einstaka barn, lagði grundvöllinn að nýrri og öðruvísi sýn á lífið og mannlegt samfélag. Í grunnin gilda meðal manna félagsleg lögmál, sem ganga út að greina og flokka fólk, draga það í dilka og sækjast sjálfur í félagsskap þeirra sem okkur eru lík. Jesús gaf okkur ný lögmál að fylgja, lögmál sem þvert á þau sem okkur eru eðlislæg krefja okkur um að sækjast í félagsskap þeirra sem eru okkur ólík, að sjá lífið með augum samferðamanna okkar og viðurkenna að í grunnin erum við öll einstök börn Guðs.

Í liðinni viku, 2. apríl, var alþjóðlegur dagur einhverfu en deginum er ætlað að auka meðvitund um einhverfu og skyldar raskanir og minnka fordóma í garð þeirra. Dagurinn var í ár haldinn í sjöunda sinn, en hann var settur á að frumkvæði Sameinuðu Þjóðanna og sú hefð hefur skapast að klæðast bláu þann dag til að sýna samstöðu. Auk þess að auka meðvitund vilja SÞ lyfta upp þeim einstöku og marvíslegu hæfileikum, sem einhverfir einstaklingar hafa og hvetja félagasamtök og stofnanir til að bjóða þá sérstaklega velkomin til sín í tilefni dagins.

Blár er í listasögunni litur Maríu Guðsmóðir og í helgimyndum er hún nær undantekningalaust bláklædd. Kirkjan er vettvangur þeirra sem vilja læra af og fylgja Jesú Kristi og barátta hans gegn fordómum og fyrir því að allt fólk eigi sér stað kallast á við þær áherslur sem liggja að baki alþjóðlegum degi einhverfu. Í helgidómi Guðs stöndum við jöfn, einhverfir og ekki einhverfir, og þau okkar á meðal sem hafa einstaka sýn, auðga samfélag okkar á hátt sem við seint fáum þakkað.