Hvað boðar nýárs blessuð sól

Hvað boðar nýárs blessuð sól

Við vitum að sönnu ekki fyrir víst hvað blessuð nýárssólin boðar. En héðan úr prédikunarstól Þorlákskirkju boðum við trú, þá trú sem fjöllin flytur, þá trú sem er skjöldur vor og brynja, þá trú sem styrkir hjörtun og færir okkur frið.

Postularnir sögðu við Drottin: Auk oss trú! En Drottinn sagði: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður. Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra. Lk. 17.5-10

Hvað boðar nýárs blessuð sól Hún boðar náttúrunnar jól, Hún flytur líf og líknarráð Hún hljómar heit af Drottins náð (M. Joch.)

Sólina sé ég skríða upp með kirkjunni á ellefta tímanum Þar sem ég sit á skrifstofu minni. Hún kastar gjarnan rauðri birtu á skýjum klæddan himininn, heldur af stað í daginn, eða réttara sagt býr til dag, skapar dag, sem enginn veit hvað felur í sér. Enginn veit hvað gerist. Og svo er um árið.

Dag skal að kveldi lofa. Vissulega ganga dagarnir svipað fyrir sig, við göngum til vinnu eða verks eftir áætlun. Því yngri sem við erum því meiri er eftirvæntingin eftir deginum. Eftirvæntingin orðin dempuð hjá okkur sem eldri erum. Samt gerist yfirleitt eitthvað gott á hverjum degi. Oft eitthvað óvænt, gleðilegt. Það þarf ekki að vera atvinnutilboð eða bónorð eða happdrættivinningur. Kannski heyrum við frá gömlum vini, heyrum um óléttu í ættinni, upplifum gleði barns eða bara fáum óvenju gott kaffi, í hugann kemur e.t.v. góð minning, við dettum niðrí góða bók eða góðan þátt í sjónvarpi. Og við getum nokkurn veginn gengið út frá því að okkur verður ekki kalt svo heitið geti, verðum ekki svöng úr hófi fram og öll eigum við vísan stað til þess að halla höfði okkar að degi jafnt sem nóttu.

Já lífið fer vel með okkur á ytra borðinu a.m.k. Samt tekst okkur ekki alltaf að höndla hamingjuna. Okkur líður ekki alltaf vel. Við verðum döpur, fáum jafnvel kvíðaköst, stundum finnst okkur við sniðgengin, yfirgefin. Mörg okkar kannast við innibirgða reiði sem lætur ekki hugann í friði. Sum okkar finna á móti fyrir mikilli gleði, stundum, oft, alltaf. Já, hann er flókinn mannshugurinn, maðurinn, illskiljanlegt fyrirbrigði –og enginn getur sett sig í annars spor. Við þekkjum þetta fyrirbrigði sem við erum sjálf, innan frá séð, en höfum litla tilfinningu fyrir því hvað við erum utanfrá séð og aðrir verða okkur alltaf meira og minna ókunnir. Við teljum líklegt að þeir skynji heiminn með svipuðum hætti og við en aðrir verða okkur alltaf ráðgáta sama ráðgátan og við erum öðrum.

Hvað um það, þetta er stofn að prédikun í kirkju og ég segi ykkur. Á vandasömum lífsins vegi er maðurinn þannig útbúinn að hann þarf að geta lagt traust sitt á æðri mátt, leitað til hans –þetta er kannski af því að maðurinn er einn en ekki hópur innan eins líkama. Við lásum úr Hebreabréfinu í dag og þannig hittist á að lesturinn í dag fjallar um trúna sem er manninum svo nauðsynleg og eiginleg og segir: Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.- og hvað vonum við? Það er að sönnu misjafnt en vonir okkar flestra snúast um heilbrigði og líf okkur til handa og þeirra sem eru okkur kærir(sem eru þegar allt kemur til alls allir) og þær snúast oft um nokkra velgegni í þessu lífi og það að við fáum að njóta samvista við þá sem okkur eru kærir í því næsta.

Sum okkar reyna að berja niður í sér trúartilhneigingar. Hafa lært landafræði í skóla og hrafl í stjörnufræði og seinna kannski heimspeki og blása á allt þrugl sem ekki stenst mælikvarða empírískra vísinda. Blása á allt það sem ekki er hægt að mæla.

Aðrir bregðast við eins og lærisveinar Jesú sem sögðu við Drottinn (í guðspjalli dagsins) Postularnir sögðu við Drottin: Auk oss trú! Þeir báðu um meiri trú. Og Jesú svarar með sínum hætti, með dæmisögu: Drottinn sagði: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður. Mustaðskornið efast ekki, þannig skil ég söguna, heldur lifir í algjöru trausti til þess sem er. Þetta er með öðrum orðum sú trú sem flytur fjöll. Að gróðursetja tré á sjávarfleti er jafn ómögulegt og að flytja fjöll. Trúin nefnilega kemur hinu ómögulega til leiðar. Trúin er fullvissa um það sem maður vonar. Fullvissa um að allt fari vel á hverju sem dynur. Fullvissa um að heimurinn sé þrátt fyrri allt góður...að á bak við allt búi gott, almáttugt afl, Guð, Guð almáttugur, kærleiksríkur, almáttugur Guð.

Í heimi sem er óskiljanlegur mannlegum huga þá er guðshugmyndin brilljant og tímælalaust bjartasta vonin.

Helgi Hálfdánarson yrkir um mátt trúarinnar:

Sú, trú, sem fjöllin flytur, oss fári þyngstu ver, ei skaða skeyti bitur, þann skjöld ef berum vér, í stormum lífs hún styður og styrkir hjörtun þreytt, í henni' er fólginn friður, sem fær ei heimur veitt.

Við vitum að sönnu ekki fyrir víst hvað blessuð nýárssólin boðar. En héðan úr prédikunarstól Þorlákskirkju boðum við trú, þá trú sem fjöllin flytur, þá trú sem er skjöldur vor og brynja, þá trú sem styrkir hjörtun og færir okkur frið. Og sé einhver í vafa bið ég hann að líta fegurð sólarupprásarinnar eins og hún blasir við okkur á ellefta tímanum um þetta leyti hér í við- suðurströndina, sérstaklega þegar geislar sólarinnar lýsa upp létt skýjaðan himininn og úr verður dásamlegur leikur litbrigðanna.