Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
17. september 2019

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

 Sjálfum hefur mér þótt eðlilegast að skilja þessa upphafsgrein þjóðkirkjulaganna sem markmiðsgrein sem ætlað sé að móta þá stefnu til framtíðar að lútherska ríkis- og síðar þjóðkirkjan í landinu þróist í átt að því að verða sjálfstætt trúfélag. Á þann hátt er þetta mikilvæg, stefnumarkandi og framsækin lagagrein. Það er svo nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að það tekur langan tíma að þróa opinbera stofnun yfir í að vera sjálfstætt félag. Það verður ekki gert í einum áfanga, því síður með einum lögum.

 Það sem einkum hefur skert frelsi þjóðkirkjunnar saman borið við önnu trúfélög í landinu er einkum tvennt. Annað er sjálf kirkjuskipanin, þ.e. 62. gr. stjórnarskrárinnar og fyrrnefnd þjóðkirkjulög, en hitt felst í flóknum fjárhagstengslum ríkis og þjóðkirkju. Það eru ekki síst þessi fjárhagstengsl sem fjötrað hafa þjóðkirkjun við ríkisvaldið og þar með heft þróun hennar á ýmsa lund ekki síst eftir að eignahöfuðstóll hennar (kirkjujarðirna) og helsti tekjustofn (sóknargjöldin) runnu saman við fjárreiður ríkisins á 20. öld.

  Ný hugsun — fjárhagslegt sjálfstæði

 Nú hefur orðið mikil breyting í þessu efni en fyrir skömmu samþykkti kirkjuþing viðbótarsamning við ríkið sem felur í sér endurskoðun á kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997. Þessi endurskoðaði samningur byggir á alveg nýrri hugsun sem skapar þjóðkirkjunni mikilvægt svigrúm til að endurskoða starfshætti sína í grundvallaratriðum og laga þá að aðstæðum á 21. öld. Frá sjónarhóli þjóðkirkjunnar hlýtur þetta að boða mikla og gleðilega breytingu. — Áður en lengra er haldið er e.t.v. við hæfi að benda á að eftir sem áður stendur kirkjuskipanin að sjálfsögðu óhögguð en býður væntanlega breytinga með endurskoðun á gildandi þjóðkirkjulögum.

 Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort samningurinn sé þjóðkirkjunni hagstæður í fjárhagslegu tilliti eða ekki heldur aðeins staldrað við þá kerfisbreytingu sem hann boðar. Fyrri samningur miðaði sem kunnugt er við að ríkisvaldið tryggði laun tiltekins fjölda presta, prófasta, biskupa og starfsfólks á biskupsstofu auk framlags til ákveðinna sjóða kirkjunnar. Þetta framlag var skilgreint sem gagngjald ríkisins fyrir jarðahöfuðstól kirknanna í landinu en þær voru til forna sá höfuðstóll sem stóð straum af starfi kirkjunnar. Í þriðju grein hins nýja samnings kveður við algerlega nýjan tón. Þar segir:

    Þjóðkirkjan hefur sjálfstæðan fjárhag, ber fulla ábyrgð á eigin fjármunum og ákveður sjálf fjölda starfsmanna sinna.    Árlegt framlag íslenska ríkisins skv. kirkjujarðasamkomulaginu er eign þjóðkirkjunnar hvort sem það rennur að    fullu til rekstar hennar eða ekki. […] Þjóðkirkjan hefur sjálfstæða heimild til hvers konar tekjuöflunar umfram     framlag […] Kirkjuþing setur nánari starfsreglur um nýtingu greiðslna samkvæmt samningi þessun innan     þjóðkirkjunnar.

 Þessi meginhugsun nýja samningsins boðar mikla stefnubreytingu miðað við það sem áður var og er henni lýst í viljayfirlýsingu sem fylgir samningnum. En þar segir að með hinum nýjum samningi sé stefnt að „fjárhagslegu sjálfstæði þjóðkirkjunnar“. Þessari stefnu hlýtur þjóðkirkjan vissulega að fagna.

Tímamótasamningur?

Þrátt fyrir þetta er of snemmt að skera úr um hvort nýja samkomulagið reynist sá tímamótasamningur sem það hefur alla burði til að verða eða hvort áhrif þess reynast lítil sem engin. — Það fer eftir því hvernig þjóðkirkjan kýs að vinna úr samningnum.

 Þjóðkirkjunni er frjálst að láta sem ekkert hafi gerst og halda áfram óbreyttu starfi miðað við það sem nú er. Þá má segja að lítið hafi áunnist þótt þjóðkirkjan kunni vissulega að halda sjó eitthvað áfram í ölduróti 21. aldarinnar. 

 Á grundvelli nýja samningsins á þjóðkirkjan á hinn bóginn kost á allt öðrum viðbrögðum. Nú hafa henni opnast alveg nýjar forsendur til að stokka upp spilin og laga starfshætti sína að þeim fjölbreyttu áskorunum sem kirkjan stendur frammi fyrir í síbreytilegu samfélaga samtímans.

 Hingað til hafa hendur þjóðkirkjunnar verið bundnar hvað starfsmannahald varðar en áhöfnin, starfsmennirnir, er auðvitað ein mikilvægasta forsendan þegar um þróunar- og breytingastarf er að ræða. Fram til þessa hefur kirkjan einvörðungu getað launað presta af gagngjaldinu frá ríkinu. Það hefur svo verið undir hælinn lagt hvort einstakar sóknir, prestaköll eða prófastdæmi hafa getað ráðið annars konar starfsfólk til sértækra verkefna. Það hefur svo einkum ráðist af því hvernig sóknargjöld hafa innheimst og hvað þau hafa gefið í aðra hönd.

 Nú eru aðstæður allt aðrar. Nú ákveður þjóðkirkjan sjálf fjölda starfsmanna sinna og ekki síður hvers konar starfsfólk hún kallar til starfa. Nú er ekki lengur um eyrnamerkt fé að ræða. Nýi samningurinn gerir þjóðkirkjunni t.a.m. kleift að stórefla díakóníu eða kærleiksþjónustu á sínum vegum svo að dæmi sé tekið en þessi pistill er einmitt ritaður á degi díakóníunnar. Hér mætti einnig nefna sérhæft fólk til barna- og æskulýðsstarfs eða félagsráðgjafa. Til þess að þetta megi verða þarf þjóðkirkjan auðvitað að móta sér stefnu varðandi starfshætti og í framhaldi af því að þróa nýja, framsækna starfsmannastefnu. Í stað þess að kalla aðeins nýja presta til starfa til að fylla í skörð þeirra sem hverfa frá þjónustu þarf að spyrja: Með hver konar mönnun tekst kirkjunni best að ná markmiðum sínum í síbreytilegum heimi? Þar er ekki síst átt við markmiðið sem felst í upphafsmálsgrein þjóðkirkjulaganna: Hvernig þróast stofnunin þjóðkirkja yfir í „sjálfstætt trúfélag“ — eða var það ekki meiningin?

  Áskoranir og ógnir

 Í þessu felast þau gefandi tækifæri sem nýji samningurinn skapar. Þau þarf að grípa sem fyrst og festa í sessi með „starfsreglum sem kirkjuþing setur“ svo vísað sé til klassísks orðalags. Í þessu felast svo vissulega líka ýmsar áskoranir sem takast verður á við: Ef fjölga á sérhæfðu“ starfsliði í söfnuðum landsins, t.d. djáknum, hlýtur prestum að sama skapi að fækka a.m.k. hlutfallslega þegar til lengdar lætur. Það kann að ógna einhverjum. En felst vandi íslensku þjóðkirkjunnar endilega í því að ekki séu nægilega margir prestar að stöfum? Felst vandinn ekki frekar í of einsleitri áhöfn?