100 djáknar?

100 djáknar?

Ef viljinn væri fyrir hendi ætti þriðja hver sókn að geta verið með djákna í 50 til 100% starfi. Er það draumur, falleg hugsun eða markmið? Hvað finnst þér?
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
20. október 2015

Mikið væri gaman að vera virkur í íslenskri þjóðkirkju sem hefði 100 djákna á sínum snærum. Draumur sem aldrei verður að veruleika segir þú? Forsendurnar eru nær en við höldum segi ég. Að minnsta kosti tölfræðilega séð. Í hvaða átt kirkjupólitíkin blæs er erfiðara að fullyrða um.

Frá upphafi hafa 98 einstaklingar lokið djáknanámi frá Hí.* Auk þeirra hafa að minnsta kosti fimm Íslendingar lokið djáknanámi frá erlendum skóla – og þá eru ekki meðtaldir meðlimir úr fríkirkjum, kristnum söfnuðum og kaþólsku kirkjunni sem hafa lokið svipuðu námi erlendis. Auk þess mætti bæta við dæmum um vígslur leikmanna í embætti djákna hér áður fyrr. Semsagt 100 djákna hefði kirkjan getað eignast hingað til.

Á síðustu 54 árum hafa 56 vígðir djáknar starfað innan þjóðkirkjunnar, þó því miður aldrei allir á sama tíma. Þar af hlutu tveir vígslu erlendis en samtals fjórir þeirra numu erlendis. Í dag starfa 22 sem djáknar, þar af 6 í fullu starfi.**

Af þessum vígðu einstaklingum hafa sumir vígst til prestsstarfa (2) , flust af landi brott (5), farið á eftirlaun (7) eða látist (2).** Samt gætu 40 starfað hér en aðeins 22 hafa starf. 18 eru því í ætlaðri atvinnuleit, m.ö.o. 45% vígðra djákna á vinnufærum aldri og búsettir á landinu eru ekki starfandi sem djáknar.

Ef bætt er við þeim 48 djáknakandídötum frá HÍ sem lokið hafa starfsþjálfun en ekki tekið djáknavígslu eru ekki bara 18 í atvinnuleit heldur 66 einstaklingar.** Þar af eru þó sumir komnir á eftirlaunaaldur og einn einstaklingur látinn.

Íslensk þjóðkirkja með eitt hundrað djákna. Það væri saga til næsta bæjar sem mér þætti falleg. Fráleit er hún ekki. Innan þjóðkirkjunnar eru á þriðja hundrað sóknir, sumar vissulega smáar en aðrar þeim mun stærri. Ef viljinn væri fyrir hendi ætti þriðja hver sókn að geta verið með djákna í 50 til 100% starfi. Er það draumur, falleg hugsun eða markmið? Hvað finnst þér?

*Heimild: http://www.hi.is/adalvefur/brautskraning

**Skv. upplýsingum frá Biskupsstofu / Ragnheiði Sverrisdóttur