Kærleiksþjónustan er samfélagsform

Kærleiksþjónustan er samfélagsform

Kirkja dagsins í dag, samfélag kristinna, þarf að nema staðar þar sem hennar er þörf. Með boðskap sínum og breytni er henni ætlað að hafa varanleg áhrif á manneskjuna sem til hennar leitar og samfélagið allt.

Ágætu kirkjugestir, kæri söfnuður.

Prédikun dagsins er í raun óþörf. Við höfum hlýtt á texta dagsins [1] og í þeim er kjarni boðskapar dagsins fólginn. Við fögnum degi kærleiksþjónustunnar. Textar dagsins minna okkur á mikilvægi hennar, ítreka að hugur, hönd og hjarta þurfa að vera í takti. Það er ákvörðun sem hefur áhrif langt út fyrir okkar litla, persónulega samfélag, ef við ákveðum að deila smitandi kærleika.

Við vitum þetta allt. Sumir dagar í lífi okkar eru uppfullir af þessum smitandi kærleika. Á slíkum dögum mokum við snjó frá dyrum nágrannans, styrkjum fótboltastelpurnar sem eru að safna flöskum, hringjum í Siggu frænku sem er svo mikið ein, borgum hádegismatinn fyrir Palla – hann gleymdi víst veskinu sínu, gefum peninga til hjálparstarfs kirkjunnar og förum með gömul föt til Rauða Krossins. Að kveldi dags erum við ánægð með dagsverkið, við höfum sannarlega smitað kærleika í dag.

Eða hvað? Getur verið að þessu sé þveröfugt farið? Nágranninn hafi upplifað snjómoksturinn sem óþarfa afskiptasemi, fótboltastelpurnar fengið á tilfinninguna að þú ættir mikið meira af flöskum og hefðir vel getað gefið þær allar, Sigga frænka orðin þreytt á því að þú sért alltaf að hringja, Palli gortað af því að honum hafi tekist að plata þig einu sinni enn til að borga matinn, peningar hjálparstarfsins bara horfið í einhvern stjórnsýslukostnað og Rauði Krossinn selt fötin þín á uppsprengdu verði. Ef þú vissir þetta að kvöldi dags væri þú miður þín. Meint kærleiksverk hefðu reynst vel til þess fallin að brjóta þig niður.

Kærleiksþjónustan er samfélagsform. Hún er áskorun um þátttöku beggja aðila. Hér er enginn gefandi eða þiggjandi, leiðtogi né fylgjandi, yfirmaður né undirmaður, ríkur né fátækur.[2]Að kristnum skilningi er kærleiksþjónustan samfélagsform við borð Drottins – framlenging á altarinu - þar sem Kristur er þungamiðjan.[3]Hann er sá sem gefur kærleikann og sá sem leiðir okkur að borðinu. Það er hann sem brýtur brauðið og við deilum því hvert með öðru á jafningjagrunni. Og það er Kristur sem kallar okkur til þjónustunnar, kærleiksþjónustunnar.

Kærleiksþjónustan er lífsskoðun. Hún er sannfæring einstaklingsins um að hann hafi ýmislegt til samfélagsins að gefa. Hún er áræði einstaklingsins sem er tilbúinn til þess að smána sjálfan sig sem þjónn Krists. Sá sem velur kærleiksþjónustuna sem sitt lífsmottó setur ekki fram hugmynd til að græða á henni, kemur ekki með innlegg inn í samtal í þeirri von að fréttamennirnir muni tala við hann um hugmyndina né hrópar hann á götuhorninu um þau góðverk sem hann telur sér til tekna. Hann gefur Kristi dýrðina.

Kærleiksþjónustan er pólitísk. Hún horfir ekki tómum augum á misréttið í samfélaginu, heldur gengur hún vasklega fram í að leiðrétta kjörin, benda á það sem betur má fara. Hér fetar kærleiksþjónustan í fótspor Krists þegar hann rak spákaupmennina út úr musteri Drottins.[4]Um leið fetar hún í fótspor Krists sem settist í hádegishitanum við Jakobsbrunn og tók sér tíma til þess að tala við einstakling sem hafði verið hrakinn út úr samfélaginu.[5]

Kærleiksþjónustan spyr áleitinna spurninga og horfir í eigin barm. Hún leitast við að sjá bjálkann í eigin auga en ekki flísina í auga systur sinnar.[6]Horfum í kringum okkur hér inni og í starfinu okkar og spyrjum: Hvað getum við gert betur?[7] Það er það sem skiptir máli. Á sama tíma þurfum við að hafa í huga að allt líf okkar ætti að endurspegla þá lífssýn sem Guð vill að við berum í hjarta okkar. Lífssýn þar sem hver og ein manneskja er elskuð, umvafin kærleika af því hún er, ekki vegna þess sem hún gerir.[8]

Jesús er fyrirmynd. Líf hans sem manneskju opnar leið okkar, sem á hann trúum, á meðal fólksins í samfylgd Guðs. Jesús nam staðar þar sem hans var þörf. Hann spurði ekki um trúarafstöðu né kynþátt en tjáði í orðum og með verkum kærleika Guðs. Enn í dag opnar hann augu okkar fyrir kærleika Guðs, því við þurfum á honum að halda. Verk Jesú höfðu og hafa enn varanleg áhrif á manneskjur og samfélagið í heild. Því Jesús frelsar undan oki.

En Jesús er meira en fyrirmynd. Mikilvægast var og er að hann braut niður múrana milli Guðs og fólksins. Að sama skapi braut hann niður múra milli fólks. Dauði hans og upprisa tengdu saman á ný Guð og sköpun hans.

Kirkja dagsins í dag, samfélag kristinna, þarf að nema staðar þar sem hennar er þörf. Með boðskap sínum og breytni er henni ætlað að hafa varanleg áhrif á manneskjuna sem til hennar leitar og samfélagið allt.

Þannig nær guðsþjónusta safnaðarins út fyrir múra kirkjubyggingarinnar. Því sérhver kristinn einstaklingur er kallaður til þjónustu, kærleiksþjónustu.[9]

Í kærleiksþjónustunni fylgir kristinn einstaklingur fordæmi Krists þegar hann gerðist þjónn lærisveina sinna og þvoði fætur þeirra.[10]Þar sýndi Kristur ekki aðeins í verki hvað hann átti við þegar hann sagði að „allt sem þér gerið einum minna minnstu bræðra hafið þér gjört mér”[11]heldur veitti hann boðskap sínum um leið dýpri og fyllri merkingu með eftirminnilegum hætti. Skilin milli gerandans og þiggjandans voru afmáð. Kærleiksþjónustan er þannig gagnkvæm. Þar mætast tveir eða fleiri gerendur, því að við erum öll kölluð til að þjóna hvert öðru.[12]Þannig er kærleiksþjónustan hugsuð sem hluti af virkri þátttöku einstaklinga í því samfélagi sem þeir búa í hverju sinni. Tilvist sína sækir kærleiksþjónustan meðal annars í frásögn Jesú um miskunnsama Samverjann[13]þar sem hinn kristni einstaklingur er minntur á vægi verkanna. Þess vegna á kærleiksþjónustan að endurspeglast í viðmóti og gjörðum kristinna manna, hluttekningu þeirra og hlýhug til ólíkra hópa þjóðfélagsins, óháð lífsskoðun eða aðstæðum.

En snúum okkur nú aftur að deginum sem ég sagði frá í upphafi þar sem við settum okkur í spor einstaklingsins sem smitaði kærleika til nágranna, fótboltastelpna, starfsfélaga, gamallar frænku, hjálparstarfsins og Rauða Krossins. Eftir að hafa dregið upp fallega mynd af slíkum degi gerði ég okkur öllum þann grikk að draga í efa að hann hefði í raun verið svo fallegur. Slíkur efi er vel til þess fallinn að draga úr okkur allan kjark og gera okkur að einstaklingum sem ákveða að kærleiksþjónustan sé ekki þeirra lífsstíll.

Ársreikningur kærleiksþjónustunnar verður aldrei færður í debet og kredit. Þegar Jesús sagði: ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“[14]þá átti hann ekki við að fyrir því væri eitthvað garantí að við fengjum til baka í sömu mynt! Þessu þurfum við að gera okkur grein fyrir. Og þetta er ein ástæðan fyrir því að ég tek hattinn ofan fyrir hverjum þeim einstaklingi sem leggur sig fram um að gera kærleiksþjónustuna að sínum lífsstíl. Því hann gerir það ekki af eigingirni svo honum verði hjálpað ef þörf er á, heldur af fórnandi systkinaást til samfélagsins.

Hin ástæðan fyrir því að ég tek hattinn ofan fyrir starfsfólki og sjálfboðaliðunum í kirkjustarfinu og hverjum þeim sem beitir sér fyrir kærleiksþjónustunni er sú að þau fá sjaldan hrós en mjög oft skammir fyrir að gera ekki meira, gera ekki betur, gera ekki hitt, ekki þetta, gera hlutina svona, ekki hinsegin.

Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar. Í dag segjum við takk þið öll sem leggið ykkur fram og minnum okkur öll á að við megum vera umvafinn kærleika Drottins. Hann ætlast ekki til stórvirkja af okkur. Hann ætlast ekki til þess að við leggjum okkur fram umfram krafta okkar. En hann býðst til að vera samferða okkur á hverjum degi og í amstri hversdagsins gefur hann okkur kraft til þess að taka lítil skref sem gera heiminn sem við búum í, ögn líkari himnaríki!

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

-----------------------------------------------------------

[1] Texta dagsins er að finna á: http://www2.kirkjan.is/truin/kirkjuarid/b/trinitatis-13

[2] Sbr. Kólussubréfið 3:11.

[3] Sjá pistil á trú.is: http://tru.is/pistlar/2006/10/fagnadarerindid-i-ordi-og-verki

[4] Sbr. Jóhannesarguðspjall 2:15.

[5] Sbr. 4. kafla Jóhannesarguðspjalls.

[6] Lúkasarguðspjall 6,42.

[7] Sjá pistil á trú.is: http://tru.is/pistlar/2007/07/gudstjonustan-kaerleikstjonustan

[8] Sjá pistil á trú.is: http://tru.is/pistlar/2010/10/a%C3%B0-gera-og-vera

[9] Sjá pistil á trú.is: http://tru.is/pistlar/2006/11/kollud-til-kaerleiksthjonustu

[10] Sjá 13. kafla Jóhannesarguðspjalls.

[11] Matteusarguðspjall 25:40.

[12] Sjá pistil á trú.is: http://tru.is/pistlar/2006/09/kaerleiksthjonustan_og_kirkjan

[13] Sjá 10. kafla Lúkasarguðspjalls.

[14] Matteusarguðspjall, 7.12.