Trú og þjóð

Trú og þjóð

Hvað er það sem gerir eina þjóð að þjóð? Það er sameiginlegt land, sameiginlegur arfur, sameiginlegar minningar, sameiginleg trú og lífsviðhorf.

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann? Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt 7: 7 - 12

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega þjóðhátíð. Verið velkomin til kirkjunnar á þessum helga stað á þessu stóra afmæli. 200 ára afmæli frá fæðingu Jóns Sigurðssonar nú og 100 ára afmæli Háskóla Íslands 67 ára afmæli frá 17. júní 1944. Í textanum sem við heyrðum lesinn að þessu sinni hjá Jeremía spámanni er talað um að Guð vilji gjöra þjóðina að sinni þjóð og hann vilji vera þeirra Guð. Þessi texti á mjög vel við á þjóðhátíðardegi og það einmitt hér á Þingvöllum þar sem kirkja og þjóð hafa átt samleið í 1000 ár. Það er eitt af því sem vert er að minnast í kirkjunni þegar við höldum þjóðhátíð að þjóðin og kirkja Krists hafa verið samferða yfir aldirnar. Annars vegar er þjóðin og hins vegar er Guð. Þessi tvö tilheyra saman vegna þess að Guð vill vera Guð þjóðarinnar og hann vill meira. Hann vill skipta sér af þjóðinni og gefa þeim eitt hjarta og eina breytni. Það er einmitt það sem þjóðinni vantar á okkar dögum að við höfum eitt hjarta og eina breytni. Það er að segja þjóðin á að gera Guðs viljann. Það er inntakið í þessum góða pistli sem við heyrðum þar sem vísað er til boðorðanna og þau þarf að halda og það er einmitt kærleikurinn sem uppfylir lögmálið vegna þess að hann gerir ekki náunganum mein. Þetta er eilífur sáttmáli sem Guð gerir. Það er samningur sem hann gerir þannig að hann ætlast til þess að við gerum vilja hans og í staðinn er hann með okkur alla daga. Snýr aldrei frá okkur með velgjörðir sínar. Þetta þýðir að við höfum skyldu við Guð og skyldu við náungann. Ef við höfum gert samning þá höfum við skyldu til þess að halda samninginn. Ef við höfum lofað einhverju höfum við skyldu til þess að efna loforðið.

Nú er þjóðhátíðardagurinn okkar á þessu stóra afmæli. Þeir eru til okkar á meðal sem halda því fram að allt hátíðahald sé gagnslaust og í rauninni tímaskekkja. það er hins vegar mikill grundvallarmisskilningur að mínu mati. Hátíð, ég tala nú ekki um þjóðhátíð er til þess að kalla til einingar og samheldni þjóðarinnar andspænis óvenjulega stórum margþættum og erfiðum verkefnum sem ágreiningur er um og lífið færir okkur að höndum til þess að leysa. Sé að því stefnt höldum við ekki gagnslausa hátíð. Hátíð er einmitt sjálfsögð í efnahagslegu hruni. Íslenska þjóðin hefur fram til þessa staðið vörð um sínar hátíðir. Þær voru lengst af ekki íburðamiklar. Oftast var fátæktin í nánd, kom þó ekki að sök því hátíðin gat þess vegna fæðst af einu jólakerti, flöktandi skini frá skari, sem gaf sanna hátíð og gleði inn í dimma kotið. Eitthvað sem var óflekkað, tært og hreint. Íslenska þjóðin hefur svo sannarlega haldið hátíð í erfiðleikum og sorg. Persónulega er mér jafnan hugstætt árið 1918, þegar fullveldinu var fagnað. Það er mjög gott ár til upprifjunar sem oftast. Árið 1918 byrjaði kuldalega með frostavetrinum mikla. Síðan gaus Katla um sumarið og lagði blómlegar byggðir Suðurlands undir svarta ösku. Við höfum einmitt nú glímt við öskufall með eftirminnilegum hætti frá Eyjafjallajökli og Grímsvötnum, þó ekki hafi það verið eins og þá. En eftir kötlugosið gekk spánska veikin fyrir hvers manns dyr. Nær allar fjölskyldur á stórum svæðum sáu á eftir sínum ástvinum. Sums staðar einn eða tveir eftir, kannski aðeins eitt og umkomulaust barn í vöggu eða enginn. Þá hélt íslenska þjóðin hátíð í harmi sínum, því flestir áttu um sárt að binda og því var það tiltölulega fámennur hópur sem safnaðist saman á Lækjartorgi og leit vonbjörtum augum fram á veginn og dró sinn nýja fána að húni á stjórnaráðskvistinum á Lækjartorgi. Þeir sem þar voru viðstaddir töldu það hafa verið mjög hátíðlega stund. Þar var móðir mín viðstödd tæplega sjö ára gömul og þykir mér trúlegt að hún hafi kvatt síðust af þeim er þar voru viðstaddir því hún náði háum aldri.

Hvað er það sem gerir eina þjóð að þjóð? Það er sameiginlegt land, sameiginlegur arfur, sameiginlegar minningar, sameiginleg trú og lífsviðhorf. Gáleysi í þessum efnum getur leitt til glötunar og eyðilagt framtíð þjóðarinnar. Við þurfum að virkja nýja ríkisborgara sem koma til okkar erlendis frá með okkur í þessu og kenna þeim um okkar sögu og hugsjónir. Opna samfélagið fyrir þeim. Öll erum við að sjálfsögðu eitt fyrir Guði sem fer ekki í manngreinarálit. Framtíð þjóðar verður engin ef hún rækir ekki sínar minningar, tengir saman fortíð, nútíð og framtíð, þannig að feður og niðjar myndi eina heild. Fyrst og fremst þarf hver þjóð að þekkja Guð og kunna að þakka honum velgjörðir hans. Heimilin hafa þar skyldu að veita sínum börnum kristna fræðslu og uppeldi. Við kristnir menn höfum tekið þennan arf frá Hebreunum fornu að Guð og þjóðin séu samferða. Þannig var það hjá Ísraelsmönnum. Hin útvalda þjóð Guðs, sem fæddi af sér frelsara mannkynsins, þekkti sína sögu og sinn Guð og kunni að tengja þetta saman. Þeirra saga var hjálpræðissaga. Ísraelsmenn áttu sitt landnám, landnámsmenn og sitt fyrirheitna land. Og þeir töpuðu sínu landi og sínu sjálfstæði. Það er ekki sjálfgert að lítil þjóð haldi alltaf sjálfstæði sínu við skulum ekki gleyma því. Það er umhugsunarefni á okkar dögum. Saga Ísraelsþjóðarinnar er löng og merkileg, nánast ótrúleg allt frá Abraham og til þessa dags. Það stóð nú einu sinni til eftir móðuharðindin að flytja Íslendinga suður á Jótlandsheiðar. Hvað sem því líður þá áttu Ísraelsmenn við það að glíma að vera fluttir burt í útlegð. Þeir höfðu reyndar verið í útlegð fyrst í Egyptalandi en síðan kom brottför þaðan og til fyrirheitna landsins, velsældar þar og glæsilegs konungdæmis. En þá fráhvarf frá Guði og útlegð enn á ný til Babýlon og síðan heimför aftur. Fall Jerúsalemsborgar árið 70 og þá útlegð í nærri 2000 ár víðs vegar um veröldina og allt til ársins 1948. Það eitt út af fyrir sig að þessi þjóð Ísrael skuli vera til enn í dag er sannarlega kraftaverk. Það eru fjölmargar þjóðir og þjóðarbrot sem hafa horfið yfir allar þessar aldir. Hér er því gríðarlegur kraftur á ferð. Það er vel skiljanlegt að sumir seti spurningamerki við eða jafnvel séu hræddir við svo mikið afl. Að sjálfsögðu verður að nota það til góðs eigi það að verða að gagni. Hvað getur það nú verið sem er svo sterkt að þjóð haldi þjóðerni sínu tvístruð um víða um löndin í 2000 ár og grimmilega ofsótt á stundum þannig að fá dæmi eru til eins og við þekkjum. Hvert er sameiningaraflið sem heldur og aldrei brestur. Það er sameiginlega saga, sameiginlegur arfur, sameiginleg trú. Það er um að ræða þjóð sem kann þá list að varðveita sínar heilögu minningar, íhuga þær fyrir augliti Guðs og sækja þangað uppörfun og styrk.

Enn á okkar dögum höfum við að hluta til gleymt Guði og þeim boðorðum um varúð og hófsemi sem eru í fullu gildi. Við höfum gleymt rétti náungans og gengið með óábyrgum hætti á hans hlut og lent í snúnum samningum við okkar nágrannaþjóðir. Þetta eru allt saman erfið og vandasöm viðfangsefni. Lausnir eru ekki einfaldar. Eitt er öruggt. Það skiptir máli hvernig þjóðirnar hugsa. Og það er ekki sjálfgefið hvernig það fer. Heilbrigð hugsun er ekki meðfædd þó við höldum það stundum, hún er uppeldisatriði og kostar vinnu. Við Íslendingar eigum þá sérstöðumeðal allra annarra þjóða að við erum líklegast eina landið í veröldinni sem hefur átt kristna menn að sínum þegnum frá upphafi byggðar í landinu. Ég veit alla vega ekki um annað land. Að því leyti verður kristin trú vart talin vera óþjóðleg. Allt frá upphafi hefur saga lýðs og kristni verið svo samtvinnuð að ekki verður sundur slitið. það er hins vegar reynt að slíta þetta í sundur og einangra trúna þannig að hún sjáist ekki. Ekki eru allir þingmenn tilbúnir til þess að ganga til dómkirkjunnar við þingsetningu. Ekki þykir öllum lengur við hæfi að gefa börnum NT í skólum og vilja helst að Guð sé þar hvergi nefndur á nafn. þannig að víða í þjóðfélgaginu heyrum við mótmæli gagnvart kirkju og trú. Það er vissulega breyting og ástæða til þess að spyrja sig hvort það sé til góðs. Trúlega er skírasta dæmið að ríkið skuli hafa lagt undir sig bæði prestsetur og kirkju á Þingvöllum og lagt staðinn í eyði. Það er margt kirkjufólk mjög ósátt við slíkt hefðarrof á þúsund ára samfylgd ríkis og kirkju á þessum helga stað. Drottinn hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns, bægt frá vonleysi og myrkri við hinar erfiðustu aðstæður og gefið þor og reisn. Jesús er bjargið sem byggja má á. Stendur af sér storma lífsins og steypiregn. Kirkjan hans risið á bjarginu ein á rústum annarrar og gefið frá sér varma og birtu. Kynslóðirnar ein eftir aðra gengið þangað inn með þáttaskilin í lífinu til þess að helga þau honum. Trúin hefur verið líf þjóðarinnar, bili hún fer fleira með en flestir ætla. Menn tala stundum um það sem þeir kalla kristna siðfræði, sem eitthvert undrameðal en kristin siðfræði án kristinnar trúar er ekki til. Trúin er forsendan sem allt hvílir á og sú trú sem enga næringu fær og enga rækt, hún veslast upp og deyr. En við prestarnir, þessir furðufuglar sem sumir telja vera. Steinrunnir og blindir, haldnir einhverri þeirri óskiljanlegri þrjósku sem engu tauti verður við komið. Við eigum þessa einu heilögu köllun og skyldu að benda upp og yfir allt, á hann, sem er vegurinn sannleikurinn og lífið. Megi það verða gæfa þjóðarinnar að hún finni sinn Drottinn og þar með sjálfa sig. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem hún var í upphafi er enn og verða mun um aldir og að eilífu. Amen.