Hin heilaga þrenning

Hin heilaga þrenning

Frá upphafi veraldar hefur einhver úr guðdómnum gengið með okkur á jörðinni. Fyrst gekk Guð á jörðu, síðan Jesús og nú höfum við heilagan anda og fyrir heilagan anda fá menn kraftinn til að boða fagnaðarerindið um Jesú “allt til endimarka jarðar”

1.Mós 18.1-5,   2.Kor 13.11-13 og Matt 11.25-27

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Vers vikunnar er tekið úr síðari ritningarlestri dagsins og hljóðar þannig: Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum… (2 Kor 13.13)
Í dag, fyrsta sunnudag eftir Hvítasunnu er þrenningarhátíð… trinitatis er latína og þýðir þrenning og þema dagsins er þrenningin.

Hlutverk þenningarinnar eru sett þannig fram, að náðin fæst fyrir trú á Jesú Krist, kærleikurinn kemur frá Guði og samfélagið við Guð fáum við fyrir heilagan anda. Við signum okkur og blessum í nafni þrenningarinnar og játum trú á heilaga þrenningu.
Samt sem áður er kristin trú – eingyðistrú, þ.e.a.s. við trúum á einn Guð, sem er samt 3 persónur, Guð faðir, Jesús sonur Guðs og heilagur andi.

Í GT er Guð faðir í aðalhlutverki. Að vísu segir í sköpunarsögunni að ,,andi Guðs” hafi svifið yfir vötnunum en sonur Guðs er ekki nefndur. Allt GT út í gegn er eins og það sé aðeins ein guðleg ,,persóna” sem birtist þar. Þótt að á ýmsum stöðum sé sagt að menn hafi verið innblásnir af anda Guðs, fær lesandinn ekki þá hugmynd að andinn sé persóna. Fyrri ritningarlesturinn sagði frá því að: Abraham sat í tjald-dyrum sínum, er Drottinn birtist honum. Okkur er strax sagt að það sé Drottinn (í eintölu) sem hann sér, samt segir textinn: Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum… Þrír menn

Hann sá mennina ekki nálgast úr fjarlægð – heldur stóðu þeir allt í einu fyrir framan hann. Frásögnin af þessari heimsókn er miklu lengri en það sem ég las áðan og framhaldið er að: Abraham hljóp inn í tjaldið til Söru konu sinnar og sagði henni að hnoða mjöl og baka flatkökur en sjálfur fór hann og slátraði kálfi og lét vikapiltinn búa til mat fyrir mennina. Mönnunum var færður maturinn og Abraham sat álengdar og horfði á þá borða.

Þeir spurja um Söru, sem var inni í tjaldinu. Einn þeirra segir, að það muni ekki bregðast að hann komi til þeirra aftur að ári og þá muni Sara hafa eignast son. Abraham og Sara voru bæði orðin öldruð og Sara hló að þessu. Þá fyrst fáum við að vita að Drottinn er að tala við Abraham. Í frásögninni af Móse og brennandi runnanum, þá þurfti Móse að hylja andlit sitt og Guð leyfði honum einungis að sjá baksvipinn, því enginn gæti séð auglit Drottins og haldið lífi, en í frásögn dagsins í dag, kemur Drottinn í mat til Abrahams, hefur 2 engla með sér og þeir líta út eins og venjulegir menn.

Af heilagri þrenningu hafa Guð og Jesús tignarheitið Drottinn, en ekki heilagur andi. 
Í áttunda kafla Jóh[1] segir Jesús „Sannlega, sannlega segi ég ykkur: Áður en Abraham fæddist.. er ég.“  Svo Jesús hefur verið til frá upphafi. Ef enginn getur lifað af að sjá auglit Guðs verðum við að telja að Jesús hafi birst Abraham, en vandamálið er bara, að við erum vön að hugsa á mannlegum nótum og við gerum ekki ráð fyrir, að sjá merki um Jesú í GT… því þar er hann ekki fæddur… Á hverju ári eru samt lesnir textar úr NT sem segja að Jesús hafi stigið niður til jarðar og ef hann steig niður, þá liggur í augum uppi, að hann var áður á himnum. Jesús er líka Guð.

Við höfum líka annað vandamál varðandi þrenninguna. Okkar mannlega eðli býr til valdapýramída, vegna þess að við sjáum þá uppbyggingu í valdamynstri heimsins. Við höfum kónga eða drottningar, forseta, forstjóra, ættarhöfðingja og í sumum samfélögum ræður og stjórnar höfuð fjölskyldunnar… sá sem er elstur…

Við eigum að tigna Jesú sem Guð en jafnvel trúarjátningin okkar setur hann skör neðar en Guð faðir sem er almáttugur. Jesús kom hingað sem sonur Guðs og hans verkefni var að gera vilja föðurins og þannig sjáum við hann, sem hlýðinn son, nr 2, eða næst-æðstan á himnum. Í Filippibréfinu skrifar Páll postuli: Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En, hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður[2] og fyrri textinn okkar í dag, sagði að Abraham hafi séð 3 menn, eða hann hélt að þetta væru venjulegir menn. Jesús var í Guðs mynd - líkur Guði sagði Páll postuli. Sköpunarsagan segir að Guð skapaði Adam og Evu í sinni mynd, en þegar þau syndguðu stóðu þau allt í einu nakin. þau misstu guðsmyndina, misstu dýrðarklæðin og urðu venjulegir menn.

Við höfum frásögn í NT af þessum dýrðarklæðum. það er þegar Jakob og Jóhannes voru með Jesús á Olíufjallinu. í Matteusi segir: ,,Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós”.[3].  Þetta er lýsing á dýrðarklæðum himins og í einni af dæmisögum Jesú, kallar hann klæðin brúðkaups-klæði.

Þegar Móse sá baksvipinn á Guði, þá ljómaði dýrð Drottins allt um kring. Guð og Jesús höfðu þennan dýrðarljóma en engar sögur fara af dýrð heilags anda. Frásögnin þegar María mey varð þunguð af heilögum anda, er mjög látlaus. Næst lesum við um heilagan anda þegar Jóhannes skírir Jesú en þá er sagt að heilagur andi hafi stigið niður yfir Jesú í líkamlegri mynd, eins og dúfa og rödd Guðs kom af himni. Hvergi annars staðar er sagt, eða ýjað að því að heilagur andi hafi ,,líkama” og þetta er, að því ég best veit, eina frásögnin um að heilög þrenning hafi komið öll saman.  

Áður en Jesús steig upp til himins, er heilagur andi kynntur sem einhverskonar persóna, Jesús sagði: Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni (Jerúsalem) uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“[4] Kraftur heilags anda opinberaðist á Hvítasunnudag og er sagt frá í postulasögunni. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.[5]  

Heilagur andi hefur nokkur nöfn, hann er kallaður ,,huggari og hjálpari” því hann var sendur okkur til leiðbeiningar, halds og trausts.[6] og oft er talað um anda skilnings þ.e. hann á að veita skilning á orði og vilja Guðs, opna augu okkar fyrir boðskapnum, minna okkur á orð Jesú og kenna okkur þannig að rata rétta veginn… mjög mikilvægt hlutverk en samt sem áður setur okkar mannlega eðli, heilagan anda í neðsta sæti hinnar heilögu þrenningar, en þeir eru allir jafnir.  

Frá upphafi veraldar hefur einhver úr guðdómnum gengið með okkur á jörðinni. Fyrst gekk Guð á jörðu, síðan Jesús og nú höfum við heilagan anda og fyrir heilagan anda fá menn kraftinn til að boða fagnaðarerindið um Jesú “allt til endimarka jarðar”[7]

Heilagur andi á að efla kærleikann milli manna, styrkja okkur í trúnni á Jesú, hugga og hjálpa okkur að lifa kristilegu líferni eins og segir í útgöngubæninni. Heilagur andi gegnir stóru hlutverki í heiminum í dag en er örugglega stórlega vanmetinn. En orð Guðs hvetur okkur til að: varðveita hið góða, sem okkur er trúað fyrir, með hjálp heilags anda sem í okkur býr.[8] Líkaminn er musteri heilags anda.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen[1] Jóh 8:58 [2] Fil 2:5-7 [3] Matt 17:2 [4] Lúk 24:49 [5] Post 2:2[6] Jóh 14:26 [7] Post 1:8 [8] 2.Tím 1:14