Hvað er ófyrirgefanlegt?

Hvað er ófyrirgefanlegt?

Af hverju þurfa slíkar hreyfingar að kenna sig við Krist? Vitna meðlimir þeirra í orð Jesú sem sagði: „Gestur var ég og þér hýstuð mig”, rifja þau upp sögur af því þar sem samverjar og aðrir minnihlutahópar á tímum Jesú, töldust hafa valið góða hlutann, gert það sem rétt var og göfugt?

Flutt 3. september 2017 í Neskirkju

Þegar við lesum í Biblíunni blasir við marbreytilegt safn texta. Hún samanstendur af bókum sem ritaðar eru á ógnarlöngum tíma. Lesandinn sem rýnir í þessi skrif þarf oft liðsinni hjálpargagna til að fá skilja merkinguna.

Ættarmót

Tilfinningunni þegar lesið er í bókum Biblíunnar má líkja við það að við séum stödd á fjölmennu ættarmóti þar sem alls fólk úr öllum áttum kemur saman. Þar kennir ýmissa grasa, sumir eru kátir aðrir íbyggnir og svo einhverjir með allt á hornum sér. Það er svona eins og gengur. Þegar rýnt er í limaburð og andlitsfall koma fram einstaka atriði sem hópurinn á sameiginleg.

Með sama hætti virðist býsna ólíkt innan Biblíunnar. Þarna eru lögbækur Móse með sínum smásmugulegu upptalningum á glæpum og refsingum. Við lesum spádóma og sálma, spekirit og harmkvæði, upptalningar á afrekum og ódæðum konunga. Þarna eru frásagnir af meiri spámönnum og minni. Allt þetta lesum við í Biblíunni og, eins og ég segi, þá getur jafnvel innan sömu bókar verið að finna sitthvað sem virðist stinga í stúf við það sem okkur kann að finnast vera meginefni og tónn heilagrar ritningar.

Við fyrstu sýn virðist jafnvel fátt sem sameinar þessa ólíku texta en sú er þó ekki raunin ef betur er að gáð. Þar eru ákveðnir þræðir sameiginlegir sem gefa samfellu í ritningunni. Þar er rædd staða mannsins frammi fyrir Guði og sköpunarverkinu. Þar ómar ákallið um að lifa verðugu lífi og áminningin um að tilgangur lífs okkar býr oftar en ekki í okkar minnstu systkinum: „Allt sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra, það gjörið þér mér”, sagði dómarinn á hinum efsta degi. Gætið að hag munaðarleysingjans, ekkjunnar, útlendingsins, segja spámennirnir.

Ófyrirgefanlegt

Þessi langi inngangur finnst mér hæfa guðspjallstexta dagsins sem er úr því riti sem kennt er við hann Mattheus. Sjálft er guðspjallið frá fyrri hluta annarrar aldar, skrásett bæði eftir frásögnum postulanna og heimild sem við eigum um orð og ræður Jesú frá Nazaret. Bæði Markús og Lúkas sækja í sama sjóð. Og textinn er frá þeim tíma þegar kirkjan var í burðarliðnum, getum við sagt. Þetta voru vafalítið spennandi tímar, hættulegir og allt var þar í mikilli deiglu – og er svo sem enn ef út í það er farið.

Við þær aðstæður tekur guðspjallamaðurinn upp orð Jesú um fyrirgefninguna og talar um mikilvæga undantekingu frá því sem verður fyrirgefið. Hvað er ófyrirgefnanlegt? Það er að guðlasta gegn heilögum anda, boðar Jesús. Þetta segir okkur kannske ekki mikið og við spyrjum hvers vegna þessi varnagli er sleginn á kærleika Guðs.

Undir fölsku flaggi

En þessi orð eru skráð er þegar kirkjan, var þegar orðin til og frumherjar hennar kenndu hana við heilagan anda. Upptök hennar voru á fyrsta hvítasunnudegi þegar greint var frá því að lærisveinarnir hefðu fyllst þeim anda og hófu að boða kristna trú út um hinn þekkta heim.

Orð þessi eiga því erindi til fólks sem var að móta þetta samfélag og þar blasti sannarlega einnig við fjölbreytt mynd. Alls kyns hópar risu upp og kenndu sig við Krist, fluttu ýmsan boðskap sem þeir sögðu vera í hans anda. Margt af því var mjög ólíkt kenningum hans um miskunnsemi og kærleika. Í því samhengi verða orðin um að guðlasta gegn heilögum anda, mögulega skiljanlegri þar sem átt er við að nýta orð Krists til að halda á lofti hugmyndum sem stangast á við það sem Jesús boðaði.

Þessi texti beinir í raun athygli okkar að orðunum sem frá þeim streyma sem fylla raðir kirkjunnar. Þetta var í raun inntak margra þeirra samræðna sem við lesum í guðspjöllunum að Jesús átti við hina ýmsu einstaklinga. Margir þeirra nutu mikillar virðingar og þóttu bera af í hátterni og siðum. Aðrir stóðu á jaðrinum og voru í litlum metum. Í sífellu blasir við okkur sama myndin – Guð horfir til hjartans en ekki til stöðu okkar í metorðastiganum. Þess vegna varð hlutskipti jaðarhópanna jafnan vænlegra og betra ef þeir sýndu með orðum og verkum að þeir létu sér annt um hag náungans.

Svo merkilegt sem það nú er, þá stöndum við í sömu sporum á okkar dögum og þarna er lýst. Nú rísa upp samtök hérlendis og víðar, sem kalla sig kristin. Einhver slík tilvísun stendur jafnvel í heiti þeirra eða stefnuyfirlýsingu. Þetta geta verið söfnuðir, stjórnmálahreyfingar og félagslegir baráttuhópar og þau fara mikinn. Frá þeim streymir hatursfullur áróður, einmitt gegn þeim sem minna mega sín, gegn fólki sem kemur úr öðrum heimshornum og leitar hingað eftir hrakningar og ófarir í sínu heimalandi.

Af hverju þurfa slíkar hreyfingar að kenna sig við Krist? Vitna meðlimir þeirra í orð Jesú sem sagði: „Gestur var ég og þér hýstuð mig”, rifja þau upp sögur af því þar sem samverjar og aðrir minnihlutahópar á tímum Jesú, töldust hafa valið góða hlutann, gert það sem rétt var og göfugt? Eða um áminninguna að taka vel á móti útlendingum? Það skyldi maður ætla að kristnum samtökum. En boðunin er öll önnur. Hún er í raun and-kristin. Að baki býr ekki hugrekki, heldur ótti, ekki náungakærleikur heldur andúð í garð þeirra sem ekki falla inn í normið.

Hvernig starfa kristnir hópar?

Þetta er í raun mikil áskorun fyrir hið kristna samfélag sem vill standa undir nafni. Raunin er auðvitað sú að kristin samtök, láta sig einmitt varða hag þeirra hópa sem þessi félög vilja gera brottræka. Lútherska heimsambandið er í hópi öflugustu hreyfinga sem styðja við flóttamenn í heiminum. Hjálparstarf kirkjunnar veitir fjölda fólks stuðning og spyr ekki um uppruna eða trú. Söfnuðir hampa fjölbreytninni, hér í Neskirkju er unnið víðtækt fjölmenningarstarf. Það viljum við meina að sé í anda Krists.

Sagan endurtekur sig og í sífellu birtast nýjar myndir af kirkjunni við nýjar aðstæður. Þarna er með öðrum orðum varað við því að klæmast á kristindómnum ef við getum tekið svo til orða. Kristin trú getur nefnilega verið veigamikið vopn í smiðju þeirra sem eiga sér engin háleitari markmið en að ala á eigin ótta og fordómum. Við þessu varar Jesús og sjálf þurfu við að hafa augun opin fyrir þeirri boðun sem kennir sig við kristindóminn en kemur, þegar betur er að gáð, úr allt annarri átt.