Höfum hugfast að kirkjan okkar er þjóðkirkja en ekki ríkiskirkja

Höfum hugfast að kirkjan okkar er þjóðkirkja en ekki ríkiskirkja

Kristið fólk verður ávallt að halda vöku sinni. Við verðum að taka til varnar þegar þess er þörf. Vera óþreytandi í því að leiðrétta rangfærslur. Leiðbeina og upplýsa með kærleika, umburðarlyndi og vináttu. Í þessu er hlutverk leikmanna við hlið prestanna mikilvægt.

Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni, hönd þin leiði mig út og inn, svo allri synd eg hafni.

Í gær var haldin hér í kirkjunni 25. leikmannastefna þjóðkirkjunnar, en eins og flestir vita eru þeir leikmenn kallaðir, sem ekki eru vígðir til þjónustu í kirkjunni. Hér hefur verið gott að vera og færi eg heimamönnum kærar þakkir fyrir gestrisni og góðvild. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra fyrir góðan viðgjörning og síðast en ekki síst prestunum hér fyrir að bjóða okkur leikmönnum þátttöku í messunni í dag.

Það er við hæfi, fyrir þá sem ekki vita að segja í örstuttu máli deili á þessu fyrirbrigði – leikmannastefnu-, en það er á þessa leið: Í starfsreglum og samþykktum fyrir leikmannastefnu segir að hún eigi að vera “vettvangur almennra skoðanaskipta, málefni leikmanna og faglegur samráðsvettvangur aðila”.

Hún á að fjalla um málefni leikmanna , hlutverk og störf sókna og sóknarnefnda. Svo og starf kristilegra félagasamtaka og aðra þjónustu við söfnuði landsins.

Hún á að koma sameiginlega fram fyrir hönd leikmanna, sókna og sóknarnefnda gagnvart stjórnvöldum, stofnunum kirkjunnar, starfsmönnum hennar, samtökum þeirra , svo og öðrum aðilum eftir því sem við á.

Hún á að efla þátttöku leikmanna í starfi kirkjunnar og kynni þeirra sín á milli.

Hana sækja leikmenn frá öllum prófastsdæmum landsins, biskup, forseti kirkjuþings og leikmenn á kirkjuþingi og í kirkjuráði. Auk fulltrúa frá þeim samtökum og félögum sem starfa á landsvísu innan þjóðkirkjunnar.

Í gær var að vanda fjallað um ýmis þörf mál í kirkjunni okkar. Tvö mál hlutu mesta umfjöllun:

Annað er um aðskilnað ríkis og kirkju. En eins og öllum er kunnugt sem þekkja til kirkjunnar eru skil milli kirkju og ríkis orðin meira í orði en á borði. Segja má að eftir setningu þjóðkirkjulaganna 1997 og þróun mála eftir það sé orðið um næstum fulla aðgreiningu frá ríkinu að ræða. Að stíga skrefið til fulls með fullum aðskilnaði er flóknari gjörð en margir ætla. Hverjar verða þá afleiðingarnar bæði fyrir kirkju og þjóð ? Hér þarf að stíga varlega til jarðar með það í huga að það eru tengsl kirkjunnar við þjóðina en ekki við ríkið, sem öllu máli skipta. Höfum ávallt í huga þá staðreynd að kirkjan okkar er þjóðkirkja, ekki ríkiskirkja. Samt er hinu gagnstæða haldið fram af aðilum sem ættu að vera ábyrgir eins og til að mynda fjölmiðlar. Svo að ekki sé talað um þá sem vilja kirkjuna burt úr íslensku samfélagi og nota hvert tækifæri sem gefst til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri.

Hitt málið snýst um þjónustu kirkjunnar við sóknarbörnin með það að leiðarljósi að allir hafi rétt til sömu grunnþjónustu burtséð frá búsetu. Þetta er erfitt verk að leysa í okkar strjálbýla landi því að margar sóknir eru vegna smæðar sinnar og landfræðilegrar legu vanbúnar til þess að uppfylla þetta markmið. Að þessu hefir verið unnið undanfarin ár af nefnd sem skipuð var að tilhlutan kirkjuþings. Voru lokatillögur hennar um lausn þessa máls samþykktar á síðasta kirkjuþingi 2010. Eru þær fólgnar í myndun samstarfssvæða sókna um allt land og skal því verki lokið fyrir lok þessa árs. Megi Guð lofa að þetta góða mál nái fram að ganga.

* * *

Líkami Krists er lífsins brauð og með því að eta af því munum við lifa að eilífu, stendur í guðspjalli dagsins. Þessi texti tengist inn í hinn stórkostlega 23. Davíðssálm, en þar er að finna þennan boðskap: „Gæfa og náð fylgja mér um alla ævidaga mína og í húsi drottins bý eg langa ævi.“ Hér er verið að bjóða mér og þér eilíft líf, ef við viljum trúa á Jésú Krist og fara eftir kenningum hans. Okkur er boðið að ganga inn í hugarfar Krists, sem líst er svo vel í pistli dagsins, bréfi Páls til Filippímanna. En hér telur Páll það fullkomna gleði sína að við séum einhuga, höfum sama kærleika, séum laus við eigingirni og hégóma og hugsum um hag annarra. Það er þessi boðskapur um eilíft líf, kærleika, óeigingirni og elsku til náungans sem kirkjan leitast við að flytja öllum sem á hann vilja hlýða. Ekkert má koma í veg fyrir að því verði fram haldið um alla tíð. Það eru samt hindranir á veginum. Til eru þeir sem vilja með öllu mögulegu og ómögulegu móti koma í veg fyrir að þetta takist. Þeir vilja gera boðskapinn tortryggilegan. Vinna gegn þeim sem hann flytja í orði og gjörðum. Það er ekki nóg með það að þeir vilji ekki kenna börnum sínum bænir eða fræða þau um Jesú Krist heldur er líka reynt að koma í veg fyrir að aðrir geri það . - Þetta skynjum við svo vel, sem börn urðum þess aðnjótandi að fá að læra sálma og bænir. Gafst kostur á að kynnast Jesú og eiga hann sem fylginaut upp frá því.

Á vef trúleysingja er stöðugt verið að lasta þjóðkirkjuna og leiðbeina fólki við að segja sig úr henni. Þar hefur meira að segja verið reynt að afflytja kenningar biblíunnar fyrir fermingarbörnin. Í þeim tilgangi að takast megi að sá fræjum efans í huga þeirra. Koma með því í veg fyrir að þau velji það að staðfesta skírnarheit sitt við Jesú Krist. – Já, það er auðvelt að slá um sig með sleggjudómum um kirkju og trú. Sérstaklega vegna þess að trúin á Jesú Krist er persónuleg. Hún byggir á trúarsannfæringu hvers og eins, sem gjarnan byrjar með barnatrúnni, einlægu og sönnu. Hjá sumum heldur trúin áfram að þroskast, en hjá öðrum dofnar hún og blundar um sinn. Það er svo eðlilegt að efast og gleyma í hverflyndi lífsins. Svo varð til að mynda reynsla mín. En seinna á ævinni vaknaði eg til trúar á ný. Það varð ekki einungis til að bjarga mér sjálfum úr bráðum háska og leiða mig úr myrkrinu í ljósið, heldur gaf þessi einlæga trú á Guð mér og mínum nánustu nýtt og innihaldsríkt líf, sem aldrei verður fullþakkað.

Það eru þó ekki skoðanir þessara vantrúarmanna sem mestu máli skipta. Enda er þeim að sjálfsögðu frjálst að hafa þær fyrir sig sjálfa. - Heldur eru það þau neikvæðu áhrif sem þær kunna að hafa á aðra í okkar litla og viðkvæma þjóðfélagi. Ekki síst núna þar sem tortryggnin ræður ríkjum í kjölfar hrunsins. Sérstaklega á þetta við um þá sem af einhverjum ástæðum eru ekki á varðbergi eða eru ekki staðfastir í trúnni. Þessar skoðanir kunna að leiða til þess að það gleymist hvernig við eigum að lifa sem ábyrgar manneskjur, sem í anda kristinnar trúar feta í fótspor Krists og hafa hann sem fyrirmynd. Þær kunna líka að leiða til þess að við gleymum kærleikanum, sem skilur allt og umvefur allt. Gleymum náunga okkar og látum raunir hans okkur í léttu rúmi liggja. Hér er enginn undanskilinn, hvar í þjóðfélagsstiganum sem hann stendur.

Kristið fólk verður ávallt að halda vöku sinni. Við verðum að taka til varnar þegar þess er þörf. Vera óþreytandi í því að leiðrétta rangfærslur. Leiðbeina og upplýsa með kærleika, umburðarlyndi og vináttu. Í þessu er hlutverk leikmanna við hlið prestanna mikilvægt. - Það er svo oft, bæði í mæltu og rituðu máli, skírskotað til hins þögla meirihluta í þjóðfélaginu. Við erum vissulega í meirihluta og eigum að njóta þess, en þessi meirihluti má aldrei vera þögull.

- Gleymum því ekki. – Gleymum því aldrei.

Eg hóf þessa predikun með tilvitnun í orð sálmaskálds allra sálmaskálda, Hallgríms Péturssonar. En finnst við hæfi að enda hana og kveðja ykkur með orðum sem svo vel voru sögð þremur öldum síðar, í sálmi Reykjavíkurskáldsins góða, Tómasar Guðmundssonar:

Vér treystum því, sem hönd Guðs hefur skráð: Í hverju fræi, er var í kærleik sáð, býr fyrirheit um himnaríki á jörðu. Hver heilög bæn á vísa Drottins náð. Og hví skal þá ei ógn og hatri hafna, ef hjálp og miskunn blasir öllum við í trú, sem ein má þúsund þjóðum safna til þjónustu við sannleik, ást og frið?