Þær voru sendar með tíðindin

Þær voru sendar með tíðindin

Kvennahreyfingin hefur verið til frá því að Jesús stofnaði hana á fyrstu öldinni. Allar kvennahreyfingar síðan eru bylgjur þeirrar miklu undiröldu sem reis af boðskap hans og verkum.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
01. apríl 2018
Flokkar

Flutt 1. apríl 2018 · Dómkirkjan (útvarpað í Ríkisútvarpinu á Rás eitt)

Ps.118:14-24; 1. Kor. 5:7-8; Mark. 16:1-7.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Páskaboðskapurinn segir okkur að sannleikurinn lifir, vonir rætast, kærleikurinn sigrar og hjálpræðið er staðreynd, sagði Dr Panti Filibus Musa forseti lútherska heimssambandsins í páskabréfi sínu til aðildarkirkna sambandsins. Dr. Musa er biskup frá Nígeríu í Afríku. Hann er frá landi í þeirri heimsálfu er kristindómurinn hefur náð hvað mestri útbreiðslu á síðast liðinni öld. Nú um stundir fjölgar kristnu fólki mest í löndum Asíu.

Kristnir menn á Íslandi fagna í dag upprisu Krists eins og milljónir manna um víða veröld. Þó við búum á eyju norður í höfum erum við hluti af löndum heims, hluti af kristinni kirkju heimsins og hluti af þeim lúthersku kirkjum sem tilheyra lútherska heimssambandinu. Við erum því ekki eyland hvað trúna varðar. Á grundvelli kristinnar trúar byggist sú lífsskoðun að allir menn séu jafnir og eigi sama rétt á að búa við frið og öryggi á lífsleið sinni.

Áðan heyrðum við lesna upprisufrásögn Markúsar guðspjallamanns. Öll guðspjöllin greina frá upprisunni enda er hún vendipunktur í sögu mannkyns og grundvöllur kristinnar trúar.

Eins og við heyrðum áðan koma konur við sögu við upprisu Jesú. Gröfin var opin og tóm þegar þær komu til hennar og ungur maður í hvítri skikkju talaði til þeirra og sagði: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Konur koma við sögu í lífi Jesú. Um það vitna öll guðspjöllin. Á meðan hann var í móðurkviði er sagt frá Maríu móður hans og Elísabetu frændkonu hennar og við krossinn stóðu margir, líka konur. Þessar konur vissu hvar gröfin hans var og gengu til hennar árla morguns hinn fyrsta dag vikunnar. Þær voru áhyggjufullar og sorgmæddar á leið sinni til grafarinnar. Þær vissu að henni hafði verið lokað með stórum steini. Hún hafði verið innsigluð og verðir gættu hennar. Það virtist allt vera farið sem hann hafði gert og sagt og dauðadómurinn kveðinn af æðstu valdsmönnum heimsins.

Þessar konur höfðu fylgt Jesú allt frá því hann læknaði þær og gaf þeim þannig aftur lífið. Þær höfðu séð verk hans og heyrt hann tala. Þær vildu heiðra minningu vinar síns. En hryggð þeirra breyttist í fögnuð. Kærleiksverkið þeirra breyttist því þær fengu það hlutverk að vera sendar fyrstar allra til að flytja tíðindin miklu um að lífið hefði sigrað dauðann. Vald mannanna hafði ekki síðasta orðið. Þær voru sendar til að boða líf, sem er ljós mannanna. Sendar til að flytja boðskapinn um sigrandi líf sem er tileinkað þeim sem búa í myrkri og skugga dauðans. Þær fengu fyrstar að heyra, sjá og reyna að allt var satt sem hann sagði um sjálfan sig. Þær voru sendar með þessi fagnaðarboð, Jesús lifir, Jesús er upprisinn.

Það voru sem sagt konur sem fyrstar fluttu boðin um upprisuna. Boðin um að lífið sigraði dauðann. Boðin um að hið veraldlega vald sem felldi dauðadóminn í dómssölum heimsins hafi ekki haft síðasta orðið. Boðin um að kærleikurinn hafi sigrað illskuna.
Við upprisu sólar þegar nóttin hopar fyrir deginum, myrkrið hopar fyrir birtunni komu þær til grafarinnar, vinkonur Jesú. Hann gaf þeim og öllum konum heimsins aftur þá stöðu sem þær höfðu við sköpun heimsins. Að þær stæðu jafnfætis körlum. Jesús boðaði nýjan lífsstíl sem byggist á vináttu við Guð. Vinátta er þar lykilorðið. Valdaójafnvægi er úr sögunni, gagnkvæm vinátta og samhygð ræður för. Væri ekki heimurinn betri ef okkur auðnaðist að lifa og starfa í þessum hugsunarhætti.

Því miður vitna margar sögur kvenna um ójafnvægi í samskiptum og samvinnu. Margar konur lýsa því hvernig gert er lítið úr orðum þeirra og gjörðum. Þagað yfir góðum verkum þeirra og fundið að þeim. Konur heimsins búa margar við óviðunandi lífskjör og eru þvingaðar til verka sem ekki eru sæmandi virðingu þeirra. Konur eru seldar í kynlífsþrælkun og litið niður á þær. Það er ekki í anda hins upprisna Jesús að fara þannig með fólk.

Konur voru valdar sem fyrstu boðberar upprisunnar. Þær voru fyrstar til að flytja boðskapinn um að allt er mögulegt. Í baráttunni fyrir breyttum og bættum heimi er allt mögulegt. Það á líka við í jafnréttismálum sem og öðrum málum sem heimurinn stendur frammi fyrir. „Því svo elskaði Guði heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ segir í Jóhannesarguðspjalli. Kærleikur Guðs til mannanna er undirstaða alls sem er. Og þennan hæfileika gaf Guð okkur einnig, að elska hvert annað, að bera kærleika til hver annars. Ef okkur auðnaðist að líta á lífið út frá þessari elsku Guðs og bærum hana áfram til náunga okkar og okkar sjálfra er næsta víst að mannkyni auðnaðist að snúa við þeirri óheillaþróun sem birtist í öllu því sem ógnar lífinu. Sá hluti mannkyns sem hefur nóg vill meira og sá hluti mannkyns sem hefur ekki nóg vill losna við áhyggjurnar sem fylgja því að geta ekki brauðfætt sig og sína.

Í tengslum við heimsþing lútherska heimssambandsins sem haldið var í Namibíu síðast liðið vor var haldið kvennaþing.
Aðaláskoranir þess voru frelsi undan kynbundnu ofbeldi og full þátttaka kvenna í kirkju og samfélagi.

Þó staða kvenna hér á landi sé betri en í mörgum öðrum löndum er þó nokkuð í land með að fullu jafnrétti sé náð. Það er jafnrétti í orði en enn ekki á borði. Það er eitt af verkefnum okkar að vinna að fullu jafnrétti kynjanna og fólks almennt. Það er í anda hins upprisna Jesú sem boðaði í orði og verki jafnan rétt allra manna til lífs.

Í bók sinni Gleði Guðs segir sr. Auður Eir: „Kvennahreyfingin hefur verið til frá því að Jesús stofnaði hana á fyrstu öldinni. Allar kvennahreyfingar síðan eru bylgjur þeirrar miklu undiröldu sem reis af boðskap hans og verkum.“

Lífið hefur sigrað dauðann. Það er boðskapur páskanna. Hvað þýðir það? Það þýðir meðal annars það að alltaf er von í öllum aðstæðum. Jafnvel á dimmustu stundum lífsins er von um betra líf og þegar ekkert bíður nema dauðinn megum við treysta því að hinn upprisni frelsari hefur gefið okkur hlutdeild í upprisu sinni og gengur með okkur veginn, í lífi og í dauða.

Jesús fæddist, lifði og dó og reis upp á þriðja degi til þess að við héldum áfram verki hans og berðumst fyrir fullu réttlæti og frelsi allra manna. Þó margt hafi áunnist er langt í land með að ná þessum markmiðum á heimsvísu og jafnvel innan okkar litla samfélags. Boðskapur kristinnar trúar er kærleiksríkur og lífgefandi og hann lifir enn. Ekki vegna þess að hann er lesinn á hverri páskahátíð og öðrum hátíðum og helgum heldur vegna þess að margir eru til vitnis um það að hann virkar í daglegu lífi og hinn upprisni frelsari er lifandi meðal okkar. Boðskapurinn um kærleiksríkan Guð, sem sigraði dauðann og lifir er sterkasta aflið sem heiminum hefur verið gefið.

Konurnar komu að gröfinni, árla hinn fyrsta dag vikunnar við sólarupprás. Þær voru sendar með tíðindin miklu til lærisveinanna og eru því fyrstu boðberar upprisunnar. Jesús sendi lærisveina sína út í heiminn til að skíra og kenna. Það er skylda kristinnar kirkju að hlýða því kalli og halda áfram að flytja boðskap hins upprisna frelsara. Við eigum að skíra og kenna. Í skírninni er Guði þakkað fyrir líf skírnarþegans. Hinn upprisni Jesús heitir því að fylgja skírnarþeganum með kærleika sínum og blessun. Hér á landi er skírnarþeginn oftast nýfætt barn og foreldrar og skírnarvottar þakka Guði fyrir barnið og vilja ala það upp í trúnni á hann og samkvæmt þeim gildum sem kristin trú boðar.

Við höfum val. Undanfarið hafa hundruðir barna sagt já við því að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Ég óska öllum fermingarbörnum til hamingju með valið og einnig þeim foreldrum sem hafa valið að þiggja blessun skírnarinnar barni sínu til handa.

„Upprisinn er hann, húrra, húrra. Hann lifir, hann lifir, hann lifir enn.“

Gleðilega hátíð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.