Áhyggjur af trúfrelsi

Áhyggjur af trúfrelsi

Nú þegar við erum komin 13 ár inn í 21. öldina er staðan sú að í 157 löndum hafa stjórnvöld skert trúfrelsi eða hafnað trúfrelsi með lagasetningum. Þessar lagasetningar hafa mismunandi áhrif á hina ýmsu trúarhópa.

ldagur (30)
Nú þegar við erum komin 13 ár inn í 21. öldina er staðan sú að í 157 löndum hafa stjórnvöld skert trúfrelsi eða hafnað trúfrelsi með lagasetningum. Þessar lagasetningar hafa mismunandi áhrif á hina ýmsu trúarhópa.

Í 16 löndum skerða lagasetningarnar trúfrelsi búddista, í 27 löndum trúfrelsi hindúa, í 75 löndum trúfrelsi gyðinga, í 117 löndum trúfrelsi múslima og í 130 löndum trúfrelsi kristinna, svo dæmi séu tekin. Þetta er hluti af niðurstöðum skýrslu sem mannréttindasérfræðingurinn Theodor Rathgeber tók saman fyrir evangelísku (EKD) og kaþólsku kirkjurnar í Þýskalandi, en hann byggir niðurstöður sínar meðal annars á rannsóknum Pew Research Centre og Human Rights Watch.

Þróunin í átt að sífellt skertara trúfrelsi á sér líka stað í Evrópu. Vissulega á Frakkland langa sögu sem land þar sem trúmálum er haldið markvisst frá hinum opinbera vettvangi en skýrsluhöfundur gerir athugasemdir við þá þróun sem þar hefur átt sér stað sem og í löndum eins og Sviss og Belgíu hvað varðar bann við byggingu bænaturna og notkun á Búrkum. Þá er til dæmis gerð athugasemd við ný lög sem gengu í gildi í janúar 2012 í Ungverjalandi. En þar þarf nú meirihlutasamþykkt þingsins fyrir skráningu trúfélaga. Þessi breyting leiddi til þess að trúfélögum fækkaði úr 360 í 32.

Skýrslan sýnir að það er almennt séð beint samband á milli stórlega skerts trúfrelsis og annarra alvarlegra mannréttindabrota eða bágrar stöðu minnihlutahópa. Skýrsluhöfundur hefur þó valið þá leið að nefna ekki tölu þeirra kristnu einstaklinga sem eru ofsóttir vegna trúar sinnar, slíkt geti samkvæmt Theodor Rathgeber bara verið getgátur. Samkvæmt frétt í Evangelisches Gemeindeblatt (21.07.2013) gera hjálparsamtökin „Open Doors“ ráð fyrir því að allt að 100 milljón kristinna einstaklinga séu ofsóttir vegna trúar sinnar. Sá biskup EKD sem fer með mál kirkjunnar erlendis, Martin Schindhütte, telur samkvæmt sömu frétt það vandmeðfarin rök hvort að það séu 50, 70 eða 100 milljónir manns sem séu ofsóttir. Í sama streng taka höfundar aðfaraorðs skýrslunnar og ítreka að engar áreiðanlegar vísindarannsóknir hafi verið gerðar sem sýni fram á hversu stór hópur sé ofsóttur vegna trúar sinnar. Hafa verði í huga að oftast séu aðstæður á hverjum stað flóknar og þarfnist nánari greiningar.

Í tengslum við útgáfu skýrslunnar hafa báðar stóru kirkjurnar ítrekað þá stefnu sína að vígðir þjónar sem og aðrir sem koma fram fyrir hönd kirkjunnar berjist fyrir trúfrelsi allra. Það sé skylda sérhvers kristins manns að standa við hlið og styðja hvern þann sem ofsóttur er eða á honum brotið, óháð kynþætti, menningarbakgrunni, kyni eða trú.

Skýrsluna má nálgast í heild á vefslóðinni: http://www.ekd.de/download/religionsfreiheit_christen_weltweit_2013_07_01.pdf