Mannauður

Mannauður

Ráðsmaðurinn ráðasnjalli eða óheiðarlegi, eftir því hvernig við metum hann, fann leið út úr sínum vanda. Hann var vissulega að huga að eigin hagsmunum en hann tók engu að síður stjórnina í þeim ógöngum sem hann hafði ratað í. Í stað þess að fórna höndum í ráðaleysi, játa uppgjöf, vera fórnarlamb aðstæðna og auðvitað sjálfs sín, umbreytti hann vandamálinu og skapaði aðstæður sem bæði nýttust honum og öðrum. Tilgangurinn var jú að móta ný samskipti, skapa sér vinsældir og jafnvel traust. Þau samskipti hvíldu ekki á lóðréttum tengslum lánadrottins og skuldara, heldur láréttu samtali jafningja sem áttu sameiginlega hagsmuni.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
15. ágúst 2025

Ef einhver gæfi þér 1440 evrur á dag með því skilyrði að þú þyrftir að eyða þeim öllum áður en dagurinn væri á enda runninn, hvað myndirðu gera?

 

Já, þetta væri svolítið sérstakt auðvitað. Þú gætir ekki safnað þessum gjaldeyri í sjóð, svo þú værir væntanlega með hugann við það hvernig þú gætir notað hann með sem bestum hætti, fundið viðburði til að sækja, glatt fólk sem stendur höllum fæti, öðlast reynslu og upplifað eitthvað sem gerði líf þitt og þinna nánustu eftirsóknarverðara.


Mammon

 

Peningar eru til umfjöllunar í guðspjalli dagsins og þannig er það gjarnan í Ritningunni að auraguðinn er þar nefndur í sömu andrá, Mammon sjálfur. Spurningin um evrurnar 1440 lýsir ákveðnum þáttum á meðferð fjárins. Þar þarf að taka ákvarðanir, velja og hafna. Eins og svo oft þegar þessi mál ber á góma er ástæða til að huga að gildis- og verðmætamati. Ráðsmaðurinn reyndist hafa farið illa með fé húsbónda síns og stendur því til að segja honum upp.

 

En vegna þess að hann kærir sig ekki um líkamlega vinnu né þykir honum sómi af því betla, þarf hann að finna önnur úrræði. Hann fundar því með skuldunautum húsbónda síns og lækkar hjá þeim skuldina. Já, hann úthlutar þeim úr sjóðum vinnuveitanda síns og reiknar því með að þeir verði honum hliðhollir þegar hann er orðinn atvinnulaus. Er þetta ekki klókt hjá honum?

 

Slíkt háttarlag getur nú ekki þótt vera ærlegt. Mig minnir að það hafi verið nóbelsverðlaunahafinn og frjálshyggjupostulinn Milton Friedman, sem lagði til að 11. boðorðinu yrði bætt við hin 10. Það væri svohljóðandi: „Þú skalt ekki afla þér vinsælda með annarra manna fé.“

 

Það óvænta er að eigandi þessara skuldabréfa, reynist hæstánægður með klæki undirmannsins og meðferð hans á verðmætum sínum. Honum snerist því hugur og hann ákvaðað hafa hann áfram í þjónustu sinni.


Furðuleg saga

 

Það verður að játast að þessi saga er nokkuð undarleg. Mögulega hjálpar þó að skoða samhengi hennar í guðspjalli Lúkasar, sem hefur stundum verið kallað guðspjall hinna fátæku, því þar má víða lesa gagnrýni á auðsöfnun og fylgispekt við téðan Mammon.

 

Saga þessi stendur á eftir dæmisögunni af týnda syninum, sem eyddi öllum arfinum en var svo fagnað þegar hann sneri aftur til föður síns. Hún kemur svo á undan frásögninni af ríka manninum og Lazarusi, þeim fyrrnefnda var varpað í ystu myrkur en fátæklingurinn Lazarus naut alúðar í eilífðinni. Eins og týndi sonurinn hefur þessi ráðsmaður sólundað því sem honum var trúað fyrir og frásögnin hefst á sömu orðum og sú sem eftir fylgir: „Maður nokkur ríkur“.

 

Hér er þó engin iðrun eins og í tilviki týnda sonarins né göfugar dygðir eins og hjá Lazarusi. En hér er þó lýst róttækum sinnaskiptum. Guðspjallamaðurinn Lúkas tengir Guðs-ríkið gjarnan við það þegar viðmiðum er snúið á hvolf, það kemur til dæmis fram í sæluboðunum þar sem hin fátæku, sorgmæddu og ofsóttu eru sögð vera sæl í augum Guðs.


Kænska og klókindi

 

Svo getum við túlkað þennan texta sem ákveðna jarðtengingu, skilaboð til hinna trúuðu að láta ekki eins og hið veraldlega og hagnýta komið þeim ekki við: „Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.“ Orðið sem hér er þýtt sem „kænn“ getur að sama skapi merkt „klókur“ eða „snjall“.

 

Við sem höfum kynnt okkur kirkjusöguna getum fundið þessari sömu hugsun stað í skrifum kirkjufeðra. Meðal þess sem þeir brutu heilann um var hvort kirkjan mætti nýta aðferðir mælskufræða til að breiða út boðskapinn. Margir litu svo á að með þeim hætti væri sannleikanum hagrætt meira en góðu hófi gegnir, á nútímamáli mætti tala um áróður eða lýðskrum, nokkuð sem kristnum hugsuðum þótti óhæfa.

 

Ágústínus var tvístígandi í þeim efnum meðal annars, í grundvallarriti sínu, Um hina kristnu kenningu, sem kom út í fjórum bókum. Hann beið lengi með þá fjórðu og síðustu og kom hún ekki út fyrr en 427, þremur árum fyrir andlát höfundar. Hún fjallaði einmitt um mælskuna. Þar ályktaði hann að ekki mætti láta þær áhrifaríku aðferðir eftir andmælendum kristninnar og öðrum hugmyndakerfum. Best færi að kristnir ræðumenn lærðu þessi fræði og nýttu þau við boðun sína. Hér ber að sama brunni, „börn þessa heims eru kænni í skiptum sínum við sína kynslóð en börn ljóssins.“

 

Mannauður


Á öðrum stað segir í þessu guðspjalli að við getum ekki dýrkað bæði Guð og Mammon. Auðurinn er því ekki fjárhagslegur – heldur félagsauður. Já, með því að nýta aðferðir til tengsla og vináttu má efla söfnuðina og vinna góðum málefnum brautargengi. Á það má benda að Lúkas er að öllum líkindum höfundur Postulasögunnar, sem lýsir starfi fyrstu kristnu leiðtoganna og hvernig þeir báru út fagnaðarerindið með beinum samskiptum við fólk sem varð á vegi þeirra.

 

Hinn óheiðarlegi þjónn er svo auðvitað meingallaður, já syndugur eins og við öll. Hér er líka sleginn sá tónn að kristin kirkja samanstendur ekki af fullkomnu fólki heldur einmitt breyskum einstaklingum sem geta gert mistök og jafnvel brotið af sér. Guðs ríkið byggir á því að kollvarpa gömlum stigveldum og byggja upp samfélag sem er grundvallað á kærleika – já vináttu.


1440

 

Spurningin sem borin var fram hér í upphafi tengist þessu. Hvað myndir þú gera ef þú fengir 1440 evrur á dag og þyrftir að vera búinn að eyða þeim öllum áður en sólarhringurinn væri liðinn? Ég rakst á þessa spurningu einhvers staðar nú á dögunum en áður en ég gat svarað henni var mér bent á önnur verðmæti sem tengjast þessum vangaveltum. Því mínúturnar í sólarhringnum eru einmitt svona margar – þær eru 1440 og við getum ekki tekið þær til hliðar, geymt þær eða sett ofan í skúffu. En það stendur á okkur að nýta þær til góðs.

 

Ráðsmaðurinn ráðasnjalli eða óheiðarlegi, eftir því hvernig við metum hann, fann leið út úr sínum vanda. Hann var vissulega að huga að eigin hagsmunum en hann tók engu að síður stjórnina í þeim ógöngum sem hann hafði komið sér í. Í stað þess að fórna höndum í ráðaleysi, játa uppgjöf, vera fórnarlamb aðstæðna og auðvitað sjálfs sín, umbreytti hann vandamálinu og skapaði aðstæður sem bæði nýttust honum og öðrum. Tilgangurinn var jú að móta ný samskipti, skapa sér vinsældir og jafnvel traust í sinn garð. Þau samskipti hvíldu ekki á lóðréttum tengslum lánadrottins og skuldara, heldur láréttu samtali jafningja sem áttu sameiginlega hagsmuni.

 

Með þeim hætti getum við sagt að frásögn þessi leyni á sér, hún felur í sér ýmsar víddir og leyndar hliðar. Hún er ákveðinn upptaktur að því starfi sem kristin kirkja átti eftir að vinna og miðaði jú að því að hvetja fólk til að fara vel með þau verðmæti sem Guð hefur gefið því, hvort heldur þau eru mælanleg, efnisleg eða andleg.