Hin jákvæða Guðsmynd

Hin jákvæða Guðsmynd

Nýlega heyrði ég um prest, sem tók eftir því að það vantaði Jesúbarnið í jötuna í fjárhúsinu, sem hafði verið komið fyrir í kirkjunni. Hann leitaði alls staðar en fann það ekki. Hver í ósköpunum tæki bara Jesúbarnið, en ekki neitt annað? Hann fór út til að gá til mannaferða. Þar sá hann lítinn strák með sleða í eftirdragi. Honum fannst eitthvað einkennileg þúst á sleðanum. Prestur fór til stráksins og sá þá að Jesúbarnið lá á sleðanum.

Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma. Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. Mark 10:13-16

Nýlega heyrði ég um prest, sem tók eftir því að það vantaði Jesúbarnið í jötuna í fjárhúsinu, sem hafði verið komið fyrir í kirkjunni. Hann leitaði alls staðar en fann það ekki. Hver í ósköpunum tæki bara Jesúbarnið, en ekki neitt annað? Hann fór út til að gá til mannaferða. Þar sá hann lítinn strák með sleða í eftirdragi. Honum fannst eitthvað einkennileg þúst á sleðanum. Prestur fór til stráksins og sá þá að Jesúbarnið lá á sleðanum. „Hvað í ósköpunum ertu að gera?” spurði prestur. „Ég er að draga Jesú á sleðanum mínum,” svaraði drenghnokkinn. „Hvers vegna ertu að því?”, spurði presturinn alveg gáttaður. Drengurinn lét sér ekki bregða, heldur svaraði glaður: „Ég lofaði Jesú, að ég mundi dragann, ef ég fengi sleða í jólagjöf.” Hin jákvæða Guðsmynd

Litli drengurinn hafði afar jákvæða mynd af Jesú. Hann hafði beðið um hjálp, og nú átti að launa honum eins og lofað hafði verið.

Margt bendir til að áherslur í boðun kirkjunnar hafi breyst á undanförnum árum. Prestar virðast draga meira fram hina jákvæðu Guðs mynd, þar sem trúin, vonin og kærleikurinn, skipa hærri sess, en lögmálshlýðni og óttalegur Guð. Hinn náðugi Guð, sem lítur til barna sinna í kærleika og mildi, er tekinn fram yfir Guð, sem er stöðugt særður eða reiður vegna synda mannanna.

Það virðist einnig sem þjóðkirkjan njóti aukins trausts og tiltrúar nú um stundir. Sérstök ánægja er með barna og unglingastarf kirkjunnar. Það er einnig sérstakt að um 95% 13-14 ára barna vill láta ferma sig. Aðeins í Finnlandi má sjá svipaðan fjölda.

En kirkjan nýtur meðbyrs á fleiri vígsöðvum. Vöxtur er í fræðslu- og sjálfshjálparstarfi. Má þar nefna tólfsporakerfið, Alfanámskeiðin, Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar, að ógleymdu hjónastarfi kirkjunnar. Kirkjan er víða í sókn í safnaðarstarfi.

Tvennt getur valdið jákvæðara viðhorfi. Ánægja með þjónustu hennar og einnig jákvæðara viðhorf til Guðs.

Í guðspjallinu segir að fólk hafi viljað færa börn til Jesú. Hann var bæði barngóður, mildur og glaður. Með framkomu sinni birti hann Guð sem er mildur, barngóður og glaður. Við þekkjum sjálf hvað það er miklu auðveldara að nálgast þann sem er mildur og góður, heldur en einhvern stífan og reiðan.

Sú mynd sem guðspjallið birtir hér af Guði, hefur haft djúpar afleiðingar í kristinni trú og hugmyndum manna um börnin og hvers virði manneskjan er í augum Guðs. Það hafði áhrif á skilning kristinna manna á Guði og vilja hans, að Jesús tók börnin sér í faðm og blessaði þau. Skírnin

Guðspjall dagsins er jafnan lesið við skírn í kirkjunni. Það er ekki að ástæðulausu, því fyrirheiti Jesú um að börnin eigi guðsríkið er augljóst. Ungbarnaskírnin byggist á skipun hans um að skíra og beiðni hans um að færa börnin til hans. Hún byggist á því að treysta náð Guðs og kærleika. Á sama hátt og Guð hefur elskað veröldina frá upphafi, og gefið okkur sinn eingetinn son, bregðumst við foreldrar við kalli hans og færum börnin okkar til skírnar í trú. Foreldranna er svo að þiggja hjálp og aðstoð kirkjunnar við skírnarfræðsluna. Þar er sunnudagaskólinn fremstur í barnastarfi kirkjunnar og síðar fermingarfræðslan. Þegar henni er lokið staðfesta ungmennin skírn sína og vilja til að fylgja Jesú í fermingarathöfninni. Bænir safnaðarins og blessun Guðs fylgja þeim. Barnavernd og uppeldi

Skilningur okkar á vilja Guðs hefur einnig haft áhrif á hugmyndir um lög og barnauppeldi. Víða má sjá, að það er vilji til að setja börn og unglinga ofarlega á forgangslista í íslensku samfélagi. Slíkt er kristileg dyggð og í anda kristinnar trúar. Foreldrafélög og ýmis samtök, innlend og alþjóðleg, hvetja foreldra og ráðamenn til að standa vörð um börnin, gæta þeirra og verja þau fyrir hættum og spillandi áhrifum. Foreldrar eru minnt á að láta þau ekki vera afskiptalaus fyrir framan sjónvarp, myndband eða í tölvuleikjum og fylgjast með, hvað þau eru að fást við á netinu.

Við erum hvött til að leyfa ekki foreldralaus partý og að fara í foreldrarölt á staði þar sem unglingar safnast saman. Allt til þess að þau finni að okkur er ekki sama, að okkur þyki vænt um þau. Markmiðið er að ala þau upp, styðja þau og styrkja, svo manngerð þeirra verði sterk og heil og þau geti valið sjálf og sagt, nei, við vímuefnum og öðru sem er óhollt fyrir þau.

Sá tími sem við eyðum með börnunum okkar í leik og starfi hefur mikið að segja og miðlar þeim góðum gildum. Hæst talar þó okkar eigin hegðun.

Við erum ekki gallalaus, það vitum við sjálf og fjölskylda okkar best. Ég er unglingafaðir og hef fengið að heyra, að ég sé nú búinn að koma með þetta eða hitt dæmið svo oft, að þau kunni það nú utan að. Þá svara ég því til, að góð dæmi þurfi að heyrast oft, svo þau síist inn. Sjálfur man ég sum heilræði föður míns og afa sérstaklega vel. Þau eru mér einkar dýrmæt, því í þeim fékk ég fyrirmyndir, sem ég vildi líkjast. Ekki fullkomnar, en heilar, ærlegar og góðar. Feður eru dýrmætari en þeir geta ímyndað sér. Það er jákvæð þróun að íslensk stjórnvöld hafa gert feðrum kleift að fá fæðingarorlof. Allt sem gert er til að auka tíma fjölskyldunnar saman skilar sér í sterkari og heilsteyptari einstaklingum. Það er einnig jákvætt, að margir feður eru orðnir meðvitaðri um, hve mikilvæg þátttaka þeirra er á heimili og í uppeldi. Jesús var karlmaður og hann tók börnin sér í faðm og blessaði þau. Hann er fyrirmynd fyrir okkur öll. Slíkra er Guðs ríki

Mamma bað stelpuna sína um að sækja kústinn niður í kjallarastiga. Hún snéri sér að henni og sagði:„Mamma, ég vil ekki fara. Það er svo dimmt.” Móðirin brosti hughreystandi og sagði:„Þú þarft ekki að vera hrædd við myrkrið, Jesús er þar. Hann gætir þín og passar þig.”

Litla stelpan horfði á mömmu sína og sagði:„Ertu viss um að hann sé þar?”

Hún svaraði:„Já, ég er alveg viss. Hann er alls staðar og alltaf tilbúinn að hjálpa þér, þegar þú þarft á því að halda.”

Litla stelpan hugsaði um þetta nokkra stund. Svo fór hún að dyrunum og opnaði örlitla rifu. Hún kíkti út um dyragáttina og kallaði: „Jesús, ef þú ert þarna, viltu þá rétta mér kústinn.?”

Um leið og Jesús tók börnin sér í faðm og sagði þau hæf fyrir Guðs ríki, gerði hann okkur öll hæf. Guðs ríkið kom með krafti í Jesú Kristi. Hann sýndi okkur hvernig Guð höndlar í ríki sínu, með því að blindir fengu sýn, haltir gengu, sjúkir læknuðust og fátækum var boðað fagnaðarerindið. Með dauða sínum og upprisu reif Jesús niður alla veggi og hindranir milli manna og Guðs. Kærleikur Guðs var allri synd og breiskleika yfirsterkari. Börnin treystu Jesú og fóru óhrædd í fang hans. Drengurinn með sleðann átti hann að vini og þurfti nauðsynlega að sýna honum nýja sleðann. Stúlkan kallaði á Jesú, sem er alls staðar nálægur, og bað hann að rétta sér kústinn. Þeirra og okkar er Guðs ríkið.

Þegar Jesús tók börnin sér í faðm og lýsti yfir að þeirra væri Guðs ríkið, lýsti hann því fyrir okkur, hvernig Guð myndi verða eftir upprisuna og stofnun kirkjunnar.

Á kirkjuklukku í Fíladelfíu var ritað: “Til baðsins og borðsins, bænarinnar og orðsins, kalla ég sérhverja leitandi sál.” Kirkjuklukkan kallaði söfnuðinn til helgra tíða. Hún kallar í Krists stað, sem segir: „Farið út um allan heim, skírið, kennið, gjörið þetta svo oft sem þér etið og drekkið í mína minningu. Komið til mín öll, sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Trúið á Guð og trúið á mig.”

Í kirkjunni fáum við farveg fyrir okkar allra helgustu trú. Þar komum við til Krists í skírninni og borðsamfélaginu, sem er miklu víðara en aðeins altarisgangan, því við erum stöðugt að borða saman og eiga samfélag hér í kirkjunni okkar. Guðs orðið og bænin eru einnig miðlæg. Allt til að gera okkur hæfari þegna Guðs ríkisins. Og Guðs ríkið er þar sem við erum hvert og eitt og saman, því Kristur býr í okkur. Þegar við fáum blessun Guðs í messunni erum við blessuð af Kristi, sem tók börnin sér í faðm. Guð er kærleikur og lítur til okkar í kærleika og mildi. Lifum því hvert og eitt eins og samboðið er þeirri blessun. Guð veiti okkur til þess náð sína fyrir sinn heilaga góða anda, í Jesú nafni.

Magnús Björn Björnsson er prestur í Digraneskirkju. Flutt í útvarpsmessu á 1. sunnudegi eftir þrettánda 2005.