Það er jafn sárt að vera manneskja nú og fyrir 2.000 árum

Það er jafn sárt að vera manneskja nú og fyrir 2.000 árum

Valdsgreiningin gæti ekki verið skýrari. Hér er fæddur Guð almáttugur, í algjöru valdleysi. Á tvöþúsund árum hefur lítið breyst og valdajafnvægi heimsins er það sama, þrátt fyrir að heimsveldin hafa risið og fallið í gegnum þær aldir sem kristin kirkja hefur haldið á lofti heilögum jólum.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
25. desember 2014
Flokkar

Aftansöngur á aðfangadag er öllu jafna fjölsóttasta guðsþjónusta ársins og jafnframt sú sem flestir sofna í. Ekki vegna þess að hún sé svo leiðinleg, þvert á móti er hátíðartón Bjarna Þorsteinssonar yndislegt, jólasálmarnir sannarlega hátíðlegir og prédikunin öllu jafna hugljúf, heldur vegna þess að guðsþjónusta á aðfangadag er kærkomin athvarf á milli jólaundirbúnings og jólahalds.

Það er álag að halda jól og mörg koma til kirkju útkeyrð eftir annir aðventunnar, annir sem flestir telja ljúfsára skyldu við að leggja metnað í gæðastundir með ástvinum sínum, en margir finna líka fyrir sem álagi og kvíðaefni.

Við vitum öll, börn jafnt sem fullorðin, að dýrar gjafir, metnaðarfull matargerð og Georg Jensen jólaóróar, eru ekki þau atriði sem færa okkur jól en þau eru hinsvegar hluti af ástartjáningu fjölskyldunnar og slíka tjáningu skyldi aldrei smætta. Við höldum jól eins veglega og okkur er unnt, vegna þess að gæðastundir með ástvinum skipta okkur máli, sem og sú tilfinning að tilheyra stærra samhengi í tilverunni.

Jólin eru heilagur tími fyrir flesta og jafnframt sá tími ársins, sem styst er í erfiðar tilfinningar. Við höldum í hefðir, sem við munum úr æsku, til að endurskapa það öryggi barnæskunnar sem við eigum í minningum okkar og þannig búum við helgihaldinu umgjörð sem leyfir okkur fella varnirnar á jólum.

Alla daga erum við með varnir okkar á lofti, þau verkfæri sálarlífsins sem verja okkur fyrir sársauka heimsins og við höfum flest lagt grunninn að þegar við útskrifumst úr leikskóla. Við lærum að ljúga samhliða því að tala, lærum snemma að halda aftur af okkur eða þóknast öðrum í stað þess að vera við sjálf í öllum aðstæðum, og rekum okkur á í sandkassanum að það eru ekki allir tilbúnir til að vera sanngjarnir eða góðir við okkur. Sársaukinn kennir okkur að heimurinn er harður og að manneskjur eru færar um mikla grimmd og þessvegna getum við ekki lifað lífinu berskjölduð.

En varnarhættir okkar eru dýrkeyptir og ef við erum svo lánsöm að upplifa öryggi og ástríki á heimili okkar, getum við fellt varnirnar þegar heim er komið og hvílst þar til við þurfum næst að takast á við heiminn í grimmd sinni og ósanngirni. Því öryggi lýsum við með því fallega hugtaki að á heimili ríki friðhelgi, helgur friður.

Það barn sem elst upp við óöryggi missir smám saman getuna til að fella varnir sínar og upplifa sig heilt og það er oft ævilangt verkefni þeirra sem alast upp við brotnar aðstæður að leggja niður varnirnar og berskjalda sig. Á jólum ríkir friðhelgi, helgur jólafriður, og þá finnum við okkur vonandi örugg til að fella varnirnar og berskjalda okkur í ótryggum heimi.

---

Jólaguðspjallið lýsir þessari þverstæðukenndu tilveru í frásögn, sem er í senn lýsing á mannlegu eðli og játning hins kristna manns á komu Guðs inn í þennan heim. Allur sársauki mannkyns endurspeglast í þessari sögu, sem varð til meðal þjóðar sem hafði verið undirokuð um aldir af ótal valdsherrum og var á barmi tortímingar af höndum Rómverja, sem frömdu í kjölfarið tilraunir til þjóðarmorðs.

Guðspjallið hefst á boði frá Ágústusi keisara en hann tók öll völd Rómar í sínar hendur, lýsti yfir guðlegu einræði og kallaði sig „frelsara heimsins”. Við sögu koma Kýreníus landsstjóri í Sýrlandi og í Matteusarguðspjalli Heródes konungur í Júdeu, valdsmenn síns tíma sem tryggðu völd sín í skjóli Rómverja með ólýsanlegri grimmd. Menn sem tryggðu hinn rómverska frið, Pax Augusta eftir keisaranum, með því að berja niður með hervaldi allt og alla sem ögruðu ógnarstjórn þeirra.

Játning frumkirkjunnar er sú að inn í þetta valdajafnvægi harðræðis og skattpíningar hafi fæðst voldugasta vera alheims, skapari himins og jarðar, sem fátækt barn valdlausra hjóna. Hjóna á hrakhólum frá heimabyggð vegna kerfisbreytingar hjá skattayfirvöldum og loks gerð að hælisleitendum, pólitískum flóttamönnum í Egyptalandi vegna ofsóknum í heimalandi sínu.

Skjólið sem þau njóta er fjárhús, jatan gerð að vöggu fyrir hinn nýborna frelsara, og hin fyrstu vitni farandverkamenn að passa upp á fjárhirslur auðmanna að næturlagi. Valdsgreiningin gæti ekki verið skýrari. Andstætt ótal frásögnum sem hinir fyrstu áheyrendur jólaguðspjallsins þekktu, af konunglegum fæðingum og birtingarfrásögnum goðmagna, er hér fæddur eingyðið sjálft, Guð almáttugur skapari himins og jarðar, í algjöru valdleysi.

Á tvöþúsund árum hefur lítið breyst og valdajafnvægi heimsins er það sama, þrátt fyrir að heimsveldin hafa risið og fallið í gegnum þær aldir sem kristin kirkja hefur haldið á lofti heilögum jólum. Einræðisherrar fara enn sínu fram, friðnum er haldið með hervaldi, gagnrýnisraddir eru þaggaðar niður eða athyglinni beint annað, auðvaldið hefur aldrei verið sterkara og bilið á milli ríkra og fátækra nálgast víða á ný auðskiptingu lénsskipulagsins, 1% þjóðfélagsins ræður yfir 90% auðlindanna, og loks stöndum við frammi fyrir stærstu flóttamannakrísu mannkynssögunnar.

Það er jafn sárt að vera manneskja nú og fyrir 2.000 árum.

---

Inn í þessar sársaukafullu aðstæður fæðist barn sem færir heiminum nýja von. Von um að að baki ósanngjörnum heimi búi ástríkur skapari, von um að þrátt fyrir mannlega grimmd sé að finna guðlegan kærleika og að æðra valdakerfum heimsins sé afl sem ekkert ofbeldi fær stöðvað og engin ógnun þaggað. Það er vald kærleikans.

Þessi sannindi eru ekki upphafnar trúarkenningar, framandi hugmyndir umvafin óskiljanlegu orðfæri, heldur áþreifanlegur raunveruleiki.

Það er ekki hægt að tryggja frið með hervaldi, á endanum rís upp ný ógn, fullkomnari vopn og nýtt valdakerfi. Kristin trú breiddist ekki út með hervaldi heldur vöktu hinir fyrstu fylgjendur athygli með því að fylgja fordæmi Jesú Krists í róttækri friðarboðun sinni og svöruðu jafnvel ofsóknum með elsku.

Það er ekki hægt að tryggja öryggi með auðsöfnum, á endanum nær óttinn í gegn, eða eins og segir í Hávamálum: „Svo er auður sem augabragð: hann er valtastur vina.” Í stað auðsöfnunar boðar Jesús að við söfnum fjársjóðum á himni með því að elska manneskjur og búa að þeim skjól sem minnst mega sín í samfélaginu: „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.”

Hver sem litið hefur í augu ungbarns hefur upplifað það varnaleysi og þann kærleika sem býr í hverri manneskju og þessvegna er fögnuður okkar mestur og tilstandið mest þegar verið er að undirbúa komu barns.

Heimurinn er hættulegur staður og það er sársaukafullt að vera manneskja, það lærum við snemma í lífinu, en það er sannarlega þess virði. Jólin bera með sér þann boðskap að þrátt fyrir allt erum við elskuð, elskuð af Guði sem gaf okkur lífið og er ítrekað að leita leiða til að sýna okkur kærleika sinn. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.”

Okkar er að opna augun og hjörtun gagnvart þeirri elsku. Þar þvælast dýrkeyptir varnarhættir okkar fyrir. Þegar hjartað verður hart eða hugurinn leitar í athvarf þess að horfa aðeins á blákaldar staðreyndir getur það tekið á að skynja slíka elsku. Þegar við höfum falið okkur fyrir heiminum of lengi eða sett á svið leikrit til að enginn sjái ótta okkar er hætta á að við missum sjónar á því hver við erum og hvaða gæðum við búum yfir í raun og veru.

Hverjar sem aðstæður þínar eru, hver sem ótti þinn er og óryggi, og hvar sem þú stendur í samfélagsstiganum, þá stöndum við öll jafn berskjölduð frammi fyrir kærleika Guðs. Þann kærleika er hægt að nálgast með einföldustu iðkun sem manneskjan hefur getu til að iðka, bæninni, og sama hversu hart heimurinn leikur okkur með ósanngirni sinni og mannlegri grimmd, getur ekkert tekið þann fögnuð frá okkur.

Megi elska Guðs umvefja þig á þessum jólum, bræða hvert það hél sem kann að leynast hið innra og fylla þig öryggi og helgum friði.

Í Dag er glatt í döprum hjörtum, því Drottins ljóma jól. Í niðamyrkrum nætur svörtum upp náðar rennur sól. Er vetrar geisar stormur stríður, þá stendur hjá oss friðarengill blíður, og þegar ljósið dagsins dvín, oss Drottins birta kringum skín.

Oss öllum mikinn fögnuð flytur sá friðarengill skær: Sá Guð, er hæst á himni situr, er hér á jörð oss nær. Sá Guð, er ræður himni háum, hann hvílir nú í dýrastalli lágum, sá Guð, er öll á himins hnoss, varð hold á jörð og býr með oss.

Guðs lýður, vertu' ei lengur hræddur og lát af harmi' og sorg. Í dag er Kristur Drottinn fæddur í Davíðs helgu borg. Hann fjötrum reifa fast er vafinn, í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn. Hann þína tötra tók á sig, að tign Guðs dýrðar skrýði þig.