Náðin og fyrirgefningin

Náðin og fyrirgefningin

Konungurinn fór vel með sitt vald að mínu mati, ekki síst vald fyrirgefningarinnar en skulduga þjóninum brást bogalistin með hörmulegum hætti. Hann var eitt stórt ÉG og því fór sem fór. Jesús vill undirstrika hversu mikilvægt það sé að samskipti fólks séu gegnsýrð valdi fyrirgefningarinnar, af því hljóta allir blessun, ekki síst sá sem braut af sér

 Heilagi Guð, kærleikur þinn vinnur bug á valdi hins illa. Við biðjum þig: Hjálpa okkur að breytast og batna, svo að við elskum hvert annað eins og þú elskar okkur, að við fyrirgefum hvert öðru, eins og þú fyrirgefur okkur, og styðjum hvert annað eins og þú styður okkur, til þess að fyrirgefningin megi móta heiminn. Þér sé lof að eilífu. Amen.  

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen  

Blessður maðurinn, þjónn konungs, skuldaði tíu þúsund talentur en ein talenta jafngilti sex þúsund denörum en einn denar var venjuleg daglaun landbúnaðarverkamanns. Um mjög mikið fé var því að ræða sem þjóninn myndi aldrei geta greitt upp.  Því segi ég að hann hafi verið blessaður? Jú, vegna þess að konungurinn gaf honum upp skuldina og reyndar meira en það. Hann hafði hótað að taka af honum konuna sína og börnin og selja þau ásamt honum sjálfum ef hann borgaði ekki skuldina.  En þegar þjónninn bað konunginn að sýna sér biðlund þá kenndi hann í brjósti um hann og gaf honum upp skuldina. Að þessu leyti naut þjóninn blessunar í blíðu og stríðu, í meðbyr sem mótbyr. Konungurinn var honum hliðhollur, studdi hann ekki síst í erfiðleikum.  

Við erum sennilega flest sammála um það að þessi sami þjónn hafi farið illa að ráði sínu þegar hann mætti síðan samþjóni sínum samdægurs við hirð konungs og krafði hann um uppgjör vegna skuldar við sig. Auðvitað hefði hann átt að fara að dæmi konungs og gefa honum upp skuldina eins og konungurinn reyndar benti honum á í samtali á eftir. Afleiðing þessarar hegðunar fyrir þennan illa þjón varð sú að konungurinn reiddist og afhenti hann böðlunum uns hann hefði borgað allt sem hann skuldaði honum, tíu þúsund talentur. Sjálfsagt erum við sammála um það að skuldugi þjónninn hafi orðið af blessuninni með framferði sínu og kallað yfir sjálfan sig böl og erfiðleika með hegðun sinni.  

Reikningsskil Guðspjall dagsins fjallar um hvernig lóðrétt fyrirgefning Guðs í garð okkar á að virka lárétt í samskiptum okkar hvert við annað.  Lærisveinninn Pétur spyr Jesú tveggja spurninga: ,,Hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?” Jesús svarar honum þannig í fyrstu: ,,Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö”. Svo segir Jesús honum dæmisöguna um himnaríki og konunginn sem vildi láta þjóna sína gera skil. Konungurinn fór vel með sitt vald að mínu mati, ekki síst vald fyrirgefningarinnar en skulduga þjóninum brást bogalistin með hörmulegum hætti. Hann var eitt stórt ÉG og því fór sem fór. Jesús vill undirstrika hversu mikilvægt það sé að samskipti fólks séu gegnsýrð valdi fyrirgefningarinnar, af því hljóta allir blessun, ekki síst sá sem braut af sér.  

Vald til að fyrirgefa í fortíðinni Við sjáum vald fyrirgefningarinnar vissulega í samskiptum okkar hvert við annað í dag. Allir eiga þá reynslu að fyrirgefa einhverjum og að taka á móti fyrirgefningu.  En mig langar til að taka okkur öll nokkur þúsund ár aftur í tímann þar sem greint er frá samskiptum bræðra við Jósef bróður sinn í gamla testamentinu sem lexía dagsins vísar til. Merkileg saga og umhugsunarverð í ljósi guðspjalls dagsins og boðskaps þess. Aðdragandi lexíunnar var sá bræður Jósefs fóru að hata hann vegna drauma hans sem bentu til að hann yrði konungur sem þeir yrðu að lúta. Sættu þeir færis af þeim sökum að koma honum fyrir kattarnef, köstuðu honum í gryfju til að hann yrði villidýrum að bráð, en þeir sáu að sér og seldu hann Ísmaelítum sem voru á leið til Egyptalands í hjjarðlest. Svo sáu þeir til þess að faðir þeirra hélt að hann væri látinn en þeir færðu honum blóðugan kyrtil hans sem þeir höfðu vætt úr blóði geithafurs. Þegar til Egyptalands kom þá keypti Pótifar, egypskur hirðmaður Faraós og lífvarðaforingi hann. Þá brá svo við að Drottinn var með Jósef í Egyptalandi svo að hann varð lánsamur þrátt fyrir ánauðina. Þar réð hann drauma annarra þar á meðal faraós. Þar á meðal drauminn um sjö vænar kýr og sjö magrar kýr sem við könnumst öll við og þarf ekki að tvíunda um. Þegar hungrið svarf hvarvetna að í nágrannalöndunum þá komu bræður Jósefs til Egyptalands til að kaupa korn en Jósef hafði þar tagl og hagldir í kornsölunni, sá um hana fyrir Faraó. Bræður hans þekktu hann ekki. Jósef vildi ekki selja þeim korn nema þeir gætu sýnt fram á að þeir væru heiðarlegir. Það reyndist þeim erfitt og Jósef skynjaði það. Fór svo að niðjar Jakobs, föðurs Jósefs fluttu til Egyptalands úr örbirgðinni  og lifðu þar í gósenlandinu til framtíðar en æviár Jakobs urðu 147. Í lexíu dagsins (1. Mós. 50. 15-21), hughreystir Jósef bræður sína eftir andlát föður þeirra en þeir bjuggust við þvi að Jósef hyggði á hefndir vegna fyrri misgjörða þeirra í hans garð. En þar sem Guð hafði snúið ánauðaroki Jósefs í Egyptalandi til góðs þá ákvað hann að styðja bræður sína og börn þeirra. Þannig birtist vald fyrirgefningarinnar í stuðningi Jósefs við bræður sína líkt og Drottinn hafði stutt Jósef undir ánauðaroki Faraós.  

Vald til að fyrirgefa í nútímanum Ég nefni þessa sögu úr fortíðinni vegna þess að vald fyrirgefningarinnar er sammannleg reynsla frá kynslóð til kynslóðar. Ég þekki dæmi þess að bræður og svilkonur talast ekki við vegna orða sem féllu í bræði. Afleiðingin er sú að samskiptin eru engin milli fjölskyldnanna og bræðrabörnin kynnast ekki innbyrðis og gjalda fyrir hegðun feðra sinna og mæðra. Ég þekki dæmi þess að synir og dætur tala ekki við foreldra sína vegna orða sem féllu í bræði, vegna lána sem skrifað var upp á en féllu á ábyrgðarmenn. Þið þekkið svipaðar sögur úr eigin reynsluheimi. Þetta þarf ekki að vera svona. Þetta á ekki að vera svo vegna þess að sá sem getur ekki fyrirgefið eða tekið á móti fyrirgefningu er í fjötrum, hlekkjum, er ekki frjáls. Orð eru til alls fyrst og síðan vilji til að breyta.  

Náðin og fyrirgefningin Fermingarbörnin skrifuðu litlu biblíuna á blað fyrir mig í síðasta tíma. ,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft lif”. (Jóh. 3.16.) Þegar Guð talar þá snýr orðið ekki til baka fyrr en það hefur framkvæmt vilja Guðs.  Kristið fólk sem meðtekur í hug og hjarta orð Guðs um að Jesús Kristur hafi dáið fyrir syndir þess á krossinum hefur oft vitnað um það hversu því hafi létt á samviskunni við það að taka á móti þessum  fagnaðarboðskap. Hlekkirnir brustu, fjötrarnir leystust í sundur. Frelsiistilfinningin var yndisleg. Þessara tilfinninga gætir einnig í samskiptum fólks innbyrðis þegar það játar syndir sínar gagnvart hvert öðru og tekur á móti fyrirgefningu. Ég tel að þetta sé afar mikilvægur þáttur í samskiptum fólks en því miður er hann stórlega á undanhaldi í lífi fólks hér á landi og í samskiptum stofnana og fólks hér á landi. Hvað veldur þessu kuldalega viðmóti?  

Hagur aldraðra á Húsavík Framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Hvamms hér á Húsavík hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að fjölga verði hjúkrunarrýmum fyrir aldraða hér á Húsavík. Hún hefur sent ótal bréf til að fylgja þessu eftir, m.a. til þingmanna og farið á fundi suður í ráðuneyti en henni er ekki einu sinni svarað bréflega. Mér finnst þetta rakin ókurteisi og vítaverð framkoma við fagmanneskju sem ber hag aldraðra skjólstæðinga sinna fyrir brjósti.  Ef svör eru ekki á reiðum höndum frá hendi ráðuneytisins þá þarf samt að segja frá því að svo sé og upplýsa um stöðu mála og færa rök fyrir því.  

Þöggunartilburðir Í annan stað þá finnst mér málatibúnaðurinn í kringum fjármálafrumvarpið með ólíkindum. Hávær mótmæli hafa verið vegna niðurskurðar hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, þar á meðal hjá okkur hér á Húsavík. Ráðuneyti fjármála hefði betur rætt við þar til bæra aðila á hverjum stað áður en frumvarpið fór í prentun og fengið þá til samstarfs í ljósi áframhaldandi niðurskurðar. Þá hefðu þessu mótmæli ekki orðið að veruleika. Mér finnst þó ljós í myrkrinu að ráðherra heilbrigðismála hefur beðist afsökunar á þessu framferði. Vonandi gefur það fyrriheit um betri vinnubrögð og samvinnu allra sem koma að þessu máli.  

Kverkatak bankastofnana Í þriðja lagi þá langar mig til að minnast á framferði bankastofnana gagnvart notendum þjónustunnar. Í mörgum tilfellum virðast þær fremur hugsa um eigin hag heldur en þeirra sem þjónustuna kaupa. Staða þeirra er varin með öllum tiltækum ráðum í stað þess að styðja við bakið á skuldsettum fjölskyldum. Þær eru þess í stað settar í skrúfstykki og þjarmað svo að þeim að þær standa eftir á götunni og börnin þurfa að fara ofan í öskutunnur til að leita að nesti fyrir skólann. Sjáum við ekki þjóninn fyrir okkur í bankastofnunum samfélagsins sem ekki vildi gefa upp skuld samþjóns sins og tók hann kverkataki? Bankastofnanir eiga að þjóna fólki. Í sumum tilfellum hafa þær gleymt því. Ég held ég haldi mig fjarri bankastofnunum næstu vikuna.  

Tillaga mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar Samskipti kirkju og skóla hefur borið nokkuð á góma að undanförnu í fjölmiðlum. Sem betur fer hafa háværar raddir kristins fólks mótmælt tillögu mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar sem nú hefur verið frestað afgreiðslu á. Arfavitlaus tillaga þar sem brotið er á rétti barna til að kynnast viðhorfum kristinna og lífskoðunarhópa í skólum. Á það hefur jafnframt verið bent, ekki síst af kennurum sem kenna kristin fræði og trúarbragðasögu, að tillagan gengur gegn námskrá grunnskólans. Ég tel að kristin trúarviðhorf séu svo sterk í íslenskri menningu og sögu að þau verða aldrei þurrkuð út. Hins vegar verðum við að leyfa öðrum að hafa aðrar lífsskoðanir og kynna þær í skólum. Þetta varðar almenn mannréttindi en að minnihluti geti beinlínis traðkað á meirihlutavilja almennings það er rangt að mínum dómi.  

Valdbeiting Sjódraugsins Ég nefndi Sjódrauginn til sögunnar í síðustu prédikun að hætti Leo Tolstoy þar sem ég fjallaði um fátækt á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt. Við sjáum hann að verki í hvers kyns valdbeitingu í þjóðfélagi okkar þar sem reynt er að halda almúganum niðri með bitlingum hér og bitlingum þar, gæskuríkum orðum hér og þar til að mata eigin krók. Við höfum heyrt að auðmönnum á Íslandi sem eiga hundrað milljónir í hreina eign eða meira hafi fjölgað í kreppunni. Þetta er umhugsunarvert. Það fylgir því töluverður vandi að vera ríkur vegna þeirra margvíslegu fjötra sem fylgir því að halda utan um eignasafn sitt og ávaxta það. Ríkt fólk á Íslandi ber líka mikla samfélagslega ábyrgð og margir hafa í gegnum tíðina notið góðs af því sem hafa verið í þörf fyrir aðstoð til að geta framfleytt sér og sínum.  Fólk sem getur ekki framfleytt sér á lægstu launum í dag milli mánaða er í skuldafjötrum. Þess vegna þarf að ná þjóðarsátt um að hækka lægstu laun í landinu. Það yrði til þess að margir færu af atvinnuleysisbótum út á vinnumarkaðinn.  Þar er verkamaðurinn verður launa sinna líkt og þjónar konungsins í dæmisögunni.  

Náð Guðs En ríkir jafnt sem fátækir eru í skuld, skuld við Guð sem gefur öllum góðar gjafir að fyrra bragði. Hann gefur okkur upp skuldirnar við sig. Það segir okkur krossdauði Jesú Krists sem dó fyrir syndir mannkyns.  Þannig birtist réttlæti hans. Andsvar okkar hlýtur að vera þakklæti í hans garð og stuðningur við samferðafólk okkar, ekki síst þá sem eiga um sárt að binda í mótlæti sem meðbyr.   

Páll postuli upplifði sig í fjötrum eins og hann greinir frá í pistil dagsins. (Fil. 1. 3-11.)  Hann átti við margvíslega erfiðleika að stríða, lenti í hafvillu og fangelsi en ávallt fann hann að Drottinn var með honum. Náð Guðs var með honum. Hann lét mótast af valdi fyrirgefningarinnar og kærleikans og hvatti samferðafólk sitt til að lifa undir þessu valdi í trú, von og kærleika. Þrátt fyrir alla erfiðleika sem við kunnum að mæta í lífinu þá njótum við blessunar ef gleymum ekki kærleikanum í samskiptum við aðra. Við skulum jafnframt muna að við erum öll mannleg og þurfum töluvert mikla hjálp þegar við förum fram úr á morgnana. Ef við lítum ekki þannig á lífið og tilveruna þá er voðinn vís.  

Dómgreind í mannlegum samskiptum Ég læt Páli postula um að eiga síðustu hvatningarorðin í þessari prédikun í bæn um að þau megi hvetja okkur öll til dáða á sameiginlegri vegferð okkar inn í framtíðina. ,,Ég bið að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists, auðug að þeim réttlætisávexti sem Jesús Kristur kemur til leiðar Guði til dýrðar” ( Fil. 1. 9-11)  

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.  

Lexía: 1Mós 50.15-21 ,,Eftir andlát föður síns hugsuðu bræður Jósefs: „Vera má að Jósef beri illan hug til okkar og endurgjaldi okkur allt hið illa sem við höfum gert honum.“ Þess vegna sendu þeir Jósef eftirfarandi skilaboð: „Áður en faðir þinn dó bað hann okkur að segja við þig: Fyrirgefðu bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, það illa sem þeir gerðu þér. Þess vegna biðjum við þig að fyrirgefa þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði, þá synd sem við höfum drýgt.“ Við þessi orð þeirra brast Jósef í grát.Þá komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: „Við erum þrælar þínir.“ En Jósef sagði við þá: „Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs. Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna. Verið því óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra”.  

Pistill:  Fil 1.3-11 ,,Ég þakka Guði mínum í hvert skipti sem ég hugsa til ykkar og geri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir ykkur öllum vegna samfélags ykkar um fagnaðarerindið frá því þið tókuð við því og allt til þessa. Ég fulltreysti einmitt því að hann, sem byrjaði í ykkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til ykkar allra. Ég hef ykkur í hjarta mínu og þið eigið öll hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og eins er ég er að verja fagnaðarerindið og sannfæra menn um gildi þess. Guð er mér þess vitni hvernig ég þrái ykkur öll með ástúð Krists Jesú.Og þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists, auðug að þeim réttlætisávexti sem Jesús Kristur kemur til leiðar Guði til lofs og dýrðar”.  

Guðspjall: Matt 18.21-35 ,,Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“