Trú sannfæringunni

Trú sannfæringunni

,,Kirkjan á að koma því skýrt á framfæri hvað kristindómurinn er” sagði Tom T. Frederiksen m.a. á Þrettándaakademíunni í Skálholti. Frederiksen starfar hjá Dialogcentret í Århus í Danmörku sem er nokkurs konar ráðgjafa- og greiningarmiðstöð í trúarefnum.

,,Kirkjan á að koma því skýrt á framfæri hvað kristindómurinn er” sagði Tom T. Frederiksen m.a. á Þrettándaakademíunni sem haldin var 3. – 5. janúar síðastliðinn í Skálholti.

Frederiksen starfar hjá Dialogcentret í Århus í Danmörku sem er nokkurs konar ráðgjafa- og greiningarmiðstöð í trúarefnum. Dialogcentret starfar í nánum tengslum við kirkjuna í Danmörku og telur sig standa á kristnum grunni. Á sama tíma er hér um óháð samtök að ræða sem fjármagna starf sitt fyrst og fremst í gegnum aðildargjöld þeirra sem eru í samtökunum.

Formlega tók Dialogcentret til starfa árið 1973. Þá hafði guðfræðiprófessorinn Johannes Aagaard ásamt nemendum sínum kynnt sér í nokkurn tíma upplifun einstaklinga sem höfðu tekið þátt í starfi sértrúarsafnaða og költhópa (sértrúarsöfnuðir með menningarlega framandi bakgrunn) sem á þeim tíma áttu sívaxandi fylgi að fagna. Sú upplifun var helsti hvatinn á bak við stofnun Dialogcentret. Því annars vegar þótti þeim mjög nauðsynlegt að til væri staður þar sem saman færu náin tengsl við hinn akademíska heim og þekking á bakgrunni nýtrúarhreyfinga. Og hins vegar stofnun sem gæti þjónað sem ráðgjafamiðstöð um trúmál og þvertrúarlegur samtalsvettvangur. Aagaard sem sjálfur hafði alist að hluta til upp í þröngum sértrúarsöfnuði áður en hann kynntist kristinni trú veitti Dialogcentret forstöðu í 30 ár.

Í máli Frederiksen kom fram að hjá Dialogcentret, sem er með tvo starfsmenn og nokkra sjálfboðaliða, er mikil áhersla lögð á að samtal trúarbragðanna sé hreinskipt en um leið með gagnkvæmri virðingu. Þar eigi að koma fram hvað samræðuaðilum líkar ekki við trúarbrögð hins eða álíta jafnvel mannskemmandi eða hættulegt við hin trúarbrögðin. Annars sé samtalið of léttvægt og leiði jafnvel til trúarbragðahrærigrauts. Sá sem vilji stunda þvertrúarlegt samtal megi ekki láta þar við sitja að finna nokkra sameiginlega þætti í þeim trúarbrögðum sem samtalið stunda hverju sinni.

Þá lagði Frederiksen áherslu á að þegar stefnt væri að þvertrúarlegu samtali þyrfti að vera ljóst hvert það ætti að leiða (to where), hver hvatinn á bak við það væri (from where) og að samtalið mætti ekki staðna. En áhersla Dialogcentret hefur færst nokkuð frá því að vera miðstöð þvertrúarlegs samtals yfir í að vera aðallega ráðgefandi aðili sem sinnir fyrst og fremst erindum sem þeim berast.

Rauður þráður hjá Frederiksen var að mikilvægt væri fyrir hvern einstakling að þróa eigið skimunarkerfi hvað trúmál varðaði, því ekki væri allt sem sýndist í þeim málum. Dialogcentret vill styðja einstaklinginn í þeirri viðleitni sinni og telur það best gert á hinum akademíska grunni þar sem trúarbrögðum er sýnd virðing með því að benda á veikleika og hættur og viðurkenna styrkleika þeirra án þess að falla í þá gryfju að halda því fram að öll trúarbrögð séu hættuleg eða að öll trúarbrögð utan kristni séu víti sem varast beri. Á sama tíma megi hins vegar ekki gefa afslátt af sannleiksþætti trúarinnar, í kristinni trú sé hún persónubundin, þ.e. bundin við persónu Jesú Krists.