Guð og skurðlæknirinn

Guð og skurðlæknirinn

Ég var um daginn við kennslu í læknadeildinni, samræður við læknanema um áföll í fjölskyldum. Skemmtilegur hópur af efnilegu ungu fólki með góðar meiningar um lífið. Einn nemandinn spurði mig hvort ég vissi hver munurinn væri á skurðlækni og Guði?
fullname - andlitsmynd Vigfús Bjarni Albertsson
06. október 2010

Ég var um daginn við kennslu í læknadeildinni, samræður við læknanema um áföll í fjölskyldum. Skemmtilegur hópur af efnilegu ungu fólki með góðar meiningar um lífið. Einn nemandinn spurði mig hvort ég vissi hver munurinn væri á skurðlækni og Guði? Nemandinn sagði við mig að Guð vissi að hann væri ekki skurðlæknir. Hér var verið að grínast, brandarinn lýsir óneitanlega tilvistarlegri sýn. Ef þessi skurðlæknir væri til í alvörunni þá hefði sýn hans veruleg áhrif á það hvernig hann væri að upplifa sjálfan sig og tilveruna.

Það er margt rætt um trú og trúleysi þessa dagana. Í sjálfum sér ekki nýtt. Mér hefur alltaf þótt væntum niðurstöðu Dostojeski þegar hann lýsir rifrildi þeirra trúlausu og þeirra trúuðu í Fávitanum um að þeir hafi bara verið að tala um eitthvað annað, hvor um sig.

Trú er veruleiki sem opnar og skapar sýn þess sem trúir, sýn á sjálfan sig og annað fólk, aðstæður og tilgang. Merkilegir hugsuðir eins og Stephen Hawking geta ekki hugsað þessar staðreyndir í burtu. Mig langar ekki að rífast um það við hann því þá förum við báðir að tala um eitthvað annað. Að rífast eins og tveir bókstafstrúarmenn á sitthvorum enda hugmyndanna verður aldrei uppbyggilegt og fæstir hafa áhuga á slíku samtali og niðurstaðan verður óvirðing sem örugglega hvorugur aðilinn hefur áhuga á. Ég leyfi mér ekki að vanvirða raunvísindi þó þau eigi sína skuggsögu eins og saga trúabragðanna á. Ég er þakklátur fyrir bæði trú og vísindi, þrátt fyrri hvernig mannsandinn hefur stundum reynt að misnota bæði. Mannskepnan hefur oft leikið Guð bæði í raunvísindum og í trúarbrögðum. Þegar maður vinnur á sjúkrahúsi er svo dýrmætt að bæði er til trú og vísindi. Að ekki sé bara horft á sárið heldur manninn allan, það sé hlustað á sögu hans. Þegar maðurinn allur er viðfangsefnið gróa sárin betur. Þannig var læknisfræði frelsarans, maðurinn allur.

Hefði Martin Luther King verið sá sem hann var án trúar? Nelson Mandela? Albert Schweitzer? Móðir Theresa? Bonehoeffer? Kaj Munck? Nei er svarið og miklu fleiri er hægt að nefna. Allt þetta fólk hafði hugrekki sem fékk það til að ganga það langt að það var tilbúið að gefa líf sitt og það sem var svo merkilegt að það boðaði fjallræðuna frammi fyrir ofstækisfólki með vopn í hendi, það sjálft hafði ekki vopn í hendi. Sumir þessara einstaklinga hafa haft getu til að umbreyta heilu samfélögunum. Það er ekki hægt að neita að trúin þeirra skapaði von og réttlæti. Allt þetta fólk var ekki tilbúið að játast veruleika sem boðaði vald og ótta. Það boðaði ekki byltingu sem byggði á ótta.

Trú er afl sem umbreytir, það er sama hvort við játum trú eða ekki að þá er ekki hægt að neita fyrir að trú hefur skapað hugrekki í lífi einstaklinga. Fæst okkar verða einstaklingar sem breyta heilu samfélögunum en margt fólk á reynslu af trú sem umbreytir fjölskyldum og einstaklingum á jákvæðan hátt. Hvað ætli mörgum börnum á Íslandi líði betur af því að foreldrarnir játa æðruleysisbænina? Ég held að að Hawking geti ekki þrætt við mig um þessa staðreynd þó hún sé kannski ekki stór í miljarðatölum alheimsins. Það er svo ótal margt fók sem hefur upplifað upprisu hér og nú í þessu lífi og fengið þá gjöf að deila kjörum og áhyggjum með æðri mætti. Það er svo margt fólk sem kann að segja þá sögu að trúin þeirra hafi opnaði nýja sýn á það sjálft og annað fólk. Trúin varð eins og brú. Newton sagði að það væri betra að byggja brýr en veggi. Í áfallafræðum er það vel þekkt staðreynd og til rannsóknir sem segja frá mikilvægi og jákvæðum áhrifum á bata fólks að tengjast æðri mætti. Með þessu er ég ekki að segja að það sé ekki hægt að ná bata án þess. Það er mikilvægt að muna að þegar fólk tengist trúarlega er það ekki að tengjast siðabálki heldur, afli. Afl þetta játað í trú okkar segir við hvert og eitt okkar að við séum óendanlega dýrmæt, að við eigum möguleika til vaxtar og tilgangurinn er þjónusta og uppbygging lífs. Það verður ekki þrætt um það að ná að tengjast þessum veruleika hefur hjálpað fullt af fólki. Gagnrýnendur gætu sagt að það ætti ekki að þvinga slíku upp á fólk. Við segjumst vera sammála þeim því þannig er ekki unnið í andlegri vegferð fólk. Það kunnum við enda mörg innan kirkju með fagmenntun á slíku sviði. Stundum hefur trúarleg vinna verið gangrýnd af fagfólki utan kirkju en það skyldi muna að það er ekki gott að ógilda aðrar stéttir og menntun þeirra. Það er menntunarleysi að vilja ekki læra eitthvað nýtt og meira. Innan kirkju og utan kirkju.

Þegar trú er afl sem umbreytir er hún ekki ópíum sem deyfir. Trúin er ekki um að siðferðilega fullkomið fólk skapi siðferðilega fullkomna tilveru. Einhverjir kynnu að segja að sumt af þessu fólki sem hefur verið nefnt hefði nú ekki verið fullkomið og margt misjafnt mætti finna. Trú hefur ekkert með það að gera að vera fullkomin/n, hún hefur með það gera að vilja skapa raunveruleika sem lýtur lögmálum kærleika og óttaleysis. Í þeim samskiptum eru mennirnir ekki raunvísinda eða trúarlegir guðir. Það er falleg trú sem fær okkur til að sjá allt það sem við eigum sameiginlegt.