Fyrirgefning er stórmál

Fyrirgefning er stórmál

Lögmaður ritaði lesendabréf um þau mál í sumar og hafði það á orði að það væri í anda kristinnar siðfræði að veita slíka fyrirgefningu. Þar sást honum þó yfir mikilvægt atriði, nefnilega að í kristinni trú fer því fjarri að sú kvöð sé lögð á fólk sem beitt hefur verið órétti að það fyrirgefi.

Flutt 28. ágúst 2017 í Neskirkju

Fyrirgefning er umræðuefnið í textum þessa sunnudags. Og ekki bara hér. Er hugtakið ekki einatt í umræðunni í einni eða annarri mynd? Uppgjör, dómur og lausn: stór hluti fréttaflutnings snýst um þessi atriði og dægurmenningarinnar líka, ef því er að skipta.

Sálarlíkn

Fyrirgefning er títtnefnd í Biblíunni og kristnir menn hafa leitast við að þróa reglur og siði á þessu viðkvæma sviði. Við biðjum um miskunn Guðs í upphafi hverrar messu og í aðdranganda altarisgögu. Þá hugleiðum við þá staðreynd að öll erum við breysk og langt frá því að vera fullkomin og fullgóð.

Fyrirgefning er mikil líkn og getur lyft fargi af sálinni. Líklega kannast einhver við þá tilfinningu að hafa komið illa fram við aðra manneskju og ekki komið til móts við hana. Tilfinningin að vita af einhverjum sem eru ósátt í okkar garð er ekki góð og það er sligandi er það að dvelja í því ástandi. Þegar á hólminn er komið, afsökun er borin fram í fullri einlægni breytist staðan oftar en ekki. Stundum reynast sakir ekki eins alvarlegar og menn ætluðu, stundum verður bón um fyrirgefningu til þess að treysta vinabönd og efla tengsl.

Tærð bein

Í Davíðssálmum segir: „Sæll er sá sem afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin” – þessir ævafornu fanga þessi hughrif, rétt eins og þau hafi verið upphugsuð og rituð bara núna á dögunum. Og svo kemur framhaldið: „Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi é því dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju.”

Þessi lýsing á líðan þess sem líður sálarkvalir vegna óuppgerðra saka er óháð tíma og rúmi. Hún er sammannleg og spyr hvorki um stað né stund. Það er einmitt þetta, þegar samviskan finnur sér engan farveg, heldur hvílir eins og þung og þrúgandi hönd á manneskjunni. Beinin tærast og lífssafinn þrýtur eins og í sólbakaðri eyðimörk.

Aflausn

Þetta er umfjöllunarefnið á þessum sunnudegi – en það er svo merkilegt með lífið og hlutskipti okkar mannanna að við erum ekki í einu hlutverki, eða öðru megin í samskiptum.

Nei, á einu augabragði geta málin snúist við og það kemur í okkar hlut, ekki að biðja fyrirgefningar heldur að fyrirgefa. Þegar samferðafólk leitar til okkar með þrautir sínar og angur þá birtist okkur samviskan í nýrri mynd og áskorunin verður önnur. Erum við tilbúin að fyrirgefa, eins og okkur er fyrirgefið? Sú spurning eru um leið ákveðinn prófsteinn á siðferði okkar og upplag og hún hefur verið sístætt umhugsunarefni kristinna manna í gegnum tíðina.

Á Íslandi og víðar, á fyrstu öldum eftir siðaskipti tíðkaðist það að fólk sem átti að hafa brotið af sér gekk fram fyrir söfnuðinn í messu þar sem það játaði að hafa framið einhver brot og bað fólk afsökunar á þeim. Þetta var kallað opinber aflausn. Athöfn þessi hefur ekki verið auðveld fyrir þau sem stóðu í slíkum sporum og vísast hefur réttvísinni verið ábótavant á stundum.

Samt bjó þar að baki sú hugsun að með játningunni væri búið að gera allar sakir. Þegar fólk mætti fram fyrir hópinn með þá einlægu ósk að fá lausn sinna saka og í lögum var kveðið á um að eftir að slík fyrirgefning hafði verið veitt mætti aldrei framar herma hinar uppgerðu mál upp á þann sem aflausnina fékk.

Það var svo til áréttingar á því að allt var með felldu, að allir gengu til altaris í lok messunnar. Samfélagið varð endurheimt með fyrirgefningunni og nú var söfnuðurinn eins og vinahópur eða fjölskylda sem safnaðist saman yfir borðum og snæddi saman. Þetta er í raun hugsun þar sem borðsamfélagið og fyrirgefningin renna saman í eitt.

Máltíð og fyrirgefning

Og það er einmitt þetta tvennt sem er í brennidepli í guðspjalli dagsins, máltíðin og fyrirgefningin. Sem endranær er það ekki hinn virti og upplýsti sem stendur uppi með pálmann í höndunum, heldur hin synduga kona: Þar var ekki staðan í metorðastiganum sem mestu máli skipti heldur kærleikurinn: „Hinar mörgu syndir hennar eru fyrigefnar enda elskar hún mikið”.

Þarna setur Kristur fram á skýra og einfaldan hátt kjarnan í hugmyndinni um uppgjöf saka í siðfræði sinni. Það er ef til vill ekki flókið að skilja þann boðskap en þegar aðstæðurnar mæta okkur í lífinu verðar þær stundum þess eðlis að við þurfum að staldra við og skoða málin frá ýmsum hliðum. Það að taka þá ákvörðun að lyfta fargi af sálu náungans er eitt af því sem gerir lífið að sannri jafnvægislist.

Við þurfum ekki að setjast á kirkjubekk til að kynnast frásögnum af ýmsum hliðum fyrirgefningar. Bara núna á liðnum dögum og vikum hefur samfélagið brotið heilann um það hvenær gjöld hafa verið greidd, hverju tíminn áorkar að græða sárin. Gamlar styttur í suðurríkjum Bandaríkjanna ýfa upp gömul sár þrælahalds og kynþáttahyggju. Hvað á að gera við styttur af körlum sem beittu sér fyrir því að fólk var beitt svívirðilegum órétti?

Og hvað með hina títtnefndu uppreistu æru, einstaklinga sem hafa fengið dóm fyrir sálarmorð á hendur börnum og ungmennum? Lögmaður ritaði lesendabréf um þau mál í sumar og hafði það á orði að það væri í anda kristinnar siðfræði að veita slíka fyrirgefningu. Þar sást honum þó yfir mikilvægt atriði, nefnilega að í kristinni trú fer því fjarri að sú kvöð sé lögð á fólk sem beitt hefur verið órétti að það fyrirgefi. Slík gjöf er ekkert sem kemur fram fyrirhafnarlaust, án nokkurs aðdraganda. Já, það sem skiptir öllu máli í því sambandi er iðrunin, hversu einlægur er sá sem vill fá lausn sinna mála?

Ósk um fyrirgefningu, þarf að bera fram með virðingu og kærleika fyrir þeim sem brotið hefur verið gegn. Ef hún er sett fram í hálfkæringi og án eðlilegs aðdraganda þá er það í raun viðbótarbrot, móðgun númer tvö, enn meira brot. Nei, það er ekki í anda Krists að níðast á minni máttar. Það sjáum við í guðspjalli dagsins sem víðar þar sem hin undirokaða kona stendur uppi með réttlætissveig í hendi.

Jafnvægislist

Fyrirgefning er eins og máltíð sem við búum fyrir gesti okkar. Hún krefst undirbúnings og alúðar, er í raun eins og yfirlýsing um vináttu og samfélag. Hún eflir fólk og hópa og stuðlar að bættum tengslum og gagnkvæmri velvild. Að kasta til höndum við slíka framkvæmd vinnur gegn markmiðum þess og að endingu verður allt tal um fyrirgefningu innantómt ef iðrunin er ekki til staðar.

Það er rétt eins og að hampa illgjörðarmönnum. Hafi þeir aldrei iðrast verka sinna verður fyrirgefning aldrei sönn. Mögulega eru þeim reistir minnisvarðar á torgum eða þeir fá endurheimta stöðu sína án þess að mál hafi verið rædd, sættir tekist og afbrot verið viðurkennd sem skyldi.

Kristin trú tekur ætíð stöðu með hinum undirokaða, hvers eðlis sem staða hans er. Þar býr hið kristna siðferði. Það snertir á kviku okkar og standur næst því sem við metum dýrmætast og er því sem slíkt einhver flóknasta jafnvægislist sem við mennirnir stundum.