Vegvísir á nýársdag

Vegvísir á nýársdag

Nýtt ár er hafið. Við vitum ekkert um það, nema að fyrsti dagur þess er helgaður nafni Jesú Krists. Þannig heilsuðu kynslóðirnar hverjum nýjum degi. Þær fólu sig Guði á vald í Jesú nafni.Við gerum það einnig. Í nafni hans er styrkur og kraftur til lífs; kraftur til að takast á við lífið og við dauðann. Guðspjallið er eins og vegvísir á vegamótum hins gamla og hins nýja. Vegvísir reistur á nýársdag.

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði.En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla. "Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr." Jh 2.23-25

Bæn

Þín miskunn Herra hár oss hlífði liðið ár með ástúð óþreytandi, við allri neyð og grandi.

Þótt harma skelfdu ský oss skein hvern morgun ný með blessun lands og lýða þín líknarsólin blíða.

Oss börn þín bæn heyr þú vér biðjum faðir nú Sem áður enn vor gættu við allri neyð og hættu.

Veit kristnum lýð þitt lið og landi voru frið þeim hjálp er hér enn þreyja þeim himinn þinn er deyja.

Sb. 100. Helgi Hálfdánarson

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Fyrsti janúar á almakinu og nýársdagur. Fyrsti janúar á kirkjualmanakinu og dagurinn þegar Jesús fékk nafn, eins og segir í guðspjalli dagsins eftir fyrstu lestraröð:

... og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. (Lk.2.21) Guðspjallið eftir annarri röð sem lesið er í dag, bætir við eins og til skýringar: Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans,... (Jh.2.33)

Nýtt ár er hafið. Við vitum ekkert um það, nema að fyrsti dagur þess er helgaður nafni Jesú Krists. Þannig heilsuðu kynslóðirnar hverjum nýjum degi. Þær fólu sig Guði á vald í Jesú nafni.Við gerum það einnig. Í nafni hans er styrkur og kraftur til lífs; kraftur til að takast á við lífið og við dauðann .

Guðspjallið er eins og vegvísir á vegamótum hins gamla og hins nýja. Vegvísir reistur á nýársdag. Eflaust munu margir ganga framhjá honum án þess að sjá hann. Aðrir munu sjá en taka ekkert mark á honum, einhverjir munu reyna að fella hann, og sumir gera grín að honum. En ekkert okkar sem höfum ratað til kirkju á nýjársdegi mun komast hjá því að taka enn frekari afstöðu en við höfum þegar gert með því að láta vegvísinn vísa okkur til kirkju í dag.

Kæri söfnuður. Árið 2004 er orðið gamla árið. Framundan er hið nýja og óþekkta 2005. Það var að sönnu ekki stórt skref sem við stigum á milli þessara tveggja ára. Þó hafði það skref stærra gildi í hugum okkar en það sjálft birti. Eins konar eilífðargildi.

Sjaldan höfum við um áramót verið eins harkalega minnt á fallvaltleik þessa lífs, eða það hversu stutt er skrefið og stutt er andartakið milli lífs og dauða. Síðustu daga og nætur hefur mikið verið grátið á þessari jörð, og bæði sorgar og gleðitárum.

Hinn opinberi fánadagur, fyrsti janúar, er sorgardagur, og því er flaggað í hálfa stöng hér við kirkjuna eins og við aðrar opinberar byggingar þessa lands. Það er þjóðarsorg hjá vinum okkar og frændum og við viljum sýna þeim hluttekningu.

Margt fólk hugsar aldrei um þessa hluti, sagði fréttamaðurinn, þar sem hann stóð á strönd eyðileggingarinnar og viðurstyggðarinnar, þar sem andartökum áður ríkti gleði, áhyggjulaus gleði þeirra sem höfðu veitt sér sólarfrí á heitum ströndum meðan kuldinn klórar heimalöndin.

Tíminn hefur mörg andlit, eins og hugleitt er í því riti Biblíunnar sem við köllum predikarann. (v. 3:1-2)

Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma, að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp, sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma.

Vísir menn hafa um aldur hugleitt tímann; hið stundlega og hið eilífa. Einn þeirra er Adolf Köberle. Hann talar um hin þrjú andlit tímans.

Hið fyrsta er hið liðna. Á þeim tíma verður nú engu breytt. Það sem gert var er gert, og það sem við vanræktum þá er oft ekki hægt að bæta síðar, ekki síst vegna þess að þau sem misgert var við eru ekki lengur.Við getum aðeins beðið Guð að breiða sína miskunnarblæju yfir það allt og bæta það sem við höfum spillt.

Nútíminn á hinn bóginn er ferskur og tær eins og lindarvatn. Hann streymir til okkar úr eilífum djúpum Guðs og gefur okkur nýja möguleika, sífellt nýja möguleika. Nýtt ár, ferskt, óbrúkað og fullt fyrirheita, og við megum þiggja það úr gæskuríkri hendi Guðs. Það er ótrúlega margt sem kemst fyrir á 12 mánuðum, á 365 dögum. Hugsið ykkur hvað allt er hægt að gera gott og þýðingarmikið, á heimili, í skóla, í starfi og rannsóknum, í þjónustu við náungann og mannkynið allt. Það eru verðmætar gjafir sem við þiggjum í nýjársgjöf. Guð gefi að við förum vel með þær allar á þessum nýja tíma sem okkur er trúað fyrir. Drottinn tímans mun um síðir ekki bara geta spurt: Hvernig gekkstu um líkama þinn sem ég gaf þér að eyða lífi þínu í? Og hvernig gekkstu um eignir og fjármuni eigin eða annarra?

Guð getur einnig spurt: Hvað gerðir þú úr þessu ári sem ég gaf þér?

En tíminn hefur líka þriðja andlitið, geymt og hulið bak við þúsund slæður. Það andlit þekkir enginn nema sá sem er herra tímans. Skyldi nokkurt okkar geta að fullu ýtt til hliðar spurningum eins og þessum: Hvað færir það okkur, mér og mínum nánustu, þetta nýja ár? Fæ ég að hafa þau öll hjá mér enn þegar því lýkur ? Og verð ég hjá þeim? Eða hefur lífsþráður einhvers okkar slitnað áður en árið er allt. Er þetta árið sem ég kveð?

En jafnvel þótt við megum öll hittast við hliðið út til 2006 við góða heilsu til líkama og sálar, þá er nú samt æði margt sem fyrir kemst á heilu ári af áhyggjum og vonbrigðum og hættum og undrunarefnum og krepputímum og óróleika, jafnt í einkalífi sem opinberu lífi. Það er því ekkert skrítið þegar fólk steypir sér yfir allskyns spádóma og stjarnarýni við áramót og reynir að halda dauðahaldi í það sem hugsanlega rættist úr síðustu spá. Framtíðin er jafn óljós og fyrr og vekur þeim sem eru óttaslegin sama ótta þrátt fyrir tölvuspár og völvuspár.

Við höfum ekki safnast saman hér í kirkjunni til þess að heyra spádóma um nýja árið, heldur af því að Guð sem tímann gefur, gefur einnig grundvöll að standa á, grundvöll sem heldur þótt misjafnt blási.

Vér höfum ekki nema einn Guð, föðurinn sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn drottin Jesú Krist sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann. 1.Kor.8.6

Það er gott að kirkjan skuli eiga sér önnur áramót en almanakið. Það er gott að jólin skuli tengja árin saman. Meðan árið eitt kveður og annað heilsar, doka jólin við. Áramótin rjúfa ekki samhengi jólanna, en jólin gefa áramótunum nýja dýpt. Þar er Jesúbarnið lagt í faðm Simeons og Önnu. Hið unga í faðm hins aldna. Þar er enginn vafi á hvað þyngra vegur, áhrif hins liðna, eða fyrirheit hins komandi.

Hinn nýi dagur sem fæddist á miðnætti, hinn fyrsti dagur þessa nýja árs, fæddist ekki með öðrum hætti en bræður hans.Allt sem gerist og er öðruvísi er búið til af okkur sjálfum. Eitt af því er að gefa sér tíma til að líta til baka og líta fram á veg. Hvernig var árið sem kvaddi. Var það gott ár? Það veist þú, því að þetta var þitt ár.

Auðvitað hefur margt það gerst á árinu sem varðar allan almenning þessa lands og þessa heims. Það hefur verið rakið með opinberum hætti allt saman, - í fréttaannálum fjölmiðla, í ávarpi forsætisráðherra, og annarra sjórnmálamanna.

Það er gott að það skuli ekki vera í verkahring prestsins að gera um áramót úttekt á árinu sem kveður, - á sviðum heimsmála og landsmála. En reyndar er ekki heldur ætlunin að hann tali einungis um andleg verðmæti, vegna þess að þau verða ekki skilin frá hinum veraldlegu. Það voru til dæmis ekki andleg verðmæti sem flugu um himinhvolfin í nótt sem leið.

Það er auðvitað ekki fallega gert að spilla ánægjunni yfir því að hafa málað glitfegurð á himininn. En það er ekki heldur sanngjarnt að minna ekki á að í nótt var milljóna tugum eytt fyrir augnabliksánægju. Hjálparsveitirnar eru alls góðs maklegar, - og þeirra hlutur af heildarsummunni síst of stór, en það má ekki gleyma því að þær hafa nú samt líka aðrar leiðir til fjáröflunar . Það stingur svolítið að hugsa til þessa nú þegar þörfin fyrir neyðarhjálp hefur sjaldan verið meiri um nokkur áramót. Það stingur reyndar líka, þó með öðrum hætti sé, að hugsa um að langflest þau augu sem í gærkveldi störðu uppí himininn á tilbúin, jarðnesk himinljós, líta ekki þangað ella, og hafa því ekki séð hina raunverulegu fegurð himins á stjörnubjörtu kveldi. Kannski væri þá líka rétt að huga að upphafi þessa siðar sem fundinn var upp til að hrekja á brott illa anda.

Hvort erum við að kveðja gamla árið eða heilsa því nýja með skrautsýningum næturinnar? Og hvaða illa anda skyldum við vera að reyna að hrekja á brott? Varla þá sem voru mættir fyrstir í morgun við rúmstokk þeirra sem þorstinn lék harðast í nótt.

"Enn hverfur ár - ó Herra kær". Með eldum næturinnar vildum við brenna burtu allar leifar þess sem spillt var og skemmt og gefa rúm nýjum ferskum gróðri fyrirheita um gott komandi ár, og víst væri gott að mega skjóta öllu því sem illt er á jörðu langt frá henni og láta það springa þar. En þannig er það ekki.

Glíman okkar er hér á jörðu, og hvað svo sem við skrifum eldstöfum á næturhimininn, leysir það engan vanda.

Hvað boðar nýárs blessuð sól? Það er sannarlega einn af fallegustu sálmum okkar, - og blessuð sé minning Matthíasar sem gaf sinni þjóð og sinni kirkju svona mikið. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Jól náttúrunnar? Ef hún boðar ekkert nema náttúrunnar jól boðar hún svo sem ekki neitt, vegna þess að á náttúrunnar jólum fæddist að vísu kálfur, og reyndar fleiri en einn, en ekki frelsi mannanna, og ekki friður jarðar. Það getur líka vel verið að á Bessastöðum sé talið að náttúran sé herra jarðarinnar, þó að líkast til hafi þetta nú bara verið tilfallandi orðalag forsetans og kannski bara klaufaskapur, en herra himins og jarðar er aðeins einn, á þingvöllum þessa heims og þessarar jarðar.

Kæri söfnuður.

Nýtt ár er hafið og við vitum ekkert um það, nema að fyrsti dagur þess er helgaður nafni Jesú Krists. Í nafni hans er styrkur og kraftur til lífs, til að takast á við lífið og við dauðann . Guðspjallið er eins og vegvísir á vegamótum hins gamla og hins nýja. Vegvísir reistur á nýársdag. Eflaust munu margir ganga framhjá honum án þess að sjá hann. Aðrir munu sjá en taka ekkert mark á honum, einhverjir munu reyna að fella hann, og sumir gera grín að honum, en ekkert okkar mun komast hjá því að taka grundvallandi afstöðu til hans. Guð gefi að mörgum fari eins. Guð gefi okkur öllum gott ár.

Kom þú nýja ár, í Jesú nafni. Amen.

Flutt við messu á Nýársdag 2005.