Stríð 0 - Friður 1

Stríð 0 - Friður 1

Það er skiljanlegt að mæta hinu óvænta með vantrú og ótta. Kannski eigum við líka erfitt með að þekkja Jesú þegar hann kemur til okkar, upprisinn. Hans eigin lærisveinar þekktu hann ekki, þegar hann slóst í för með þeim á leiðinni til Emmaus og ræddi við þá um það sem hafði gerst og átti að gerast.

Eitt af því sem sagan kennir okkur er að í stríði er enginn alvöru sigur heldur bara tap. Allir tapa, sama hverjir skrifa skilmálana sem útkljáir ákveðin deilumál. Allir tapa, vegna þess að stríð skilur bara eftir sig dauða og eyðileggingu, mannslíf glatast, menningarverðmæti eyðleggjast, lífríkið og náttúran skaðast og þjóðarsálir merjast og meiðast. Stríð verður ekki göfugt af því að “okkar” málstaður vann málstað “hinna”, ekki af því að “við” höfðum rétt fyrir okkur en “hinir” rangt fyrir sér.

Ef einhver er góður talsmaður þessa viðhorfs er það Jesús frá Nasaret, sem boðaði með lífi sínu og starfi að guðsríkið væri skammt undan, að guðsríkið væri innra með okkur; Jesús sem sagði okkur að elska óvini sína, Jesús sem sagði Pétri að slíðra sverð sitt, Jesús sem sagði að sitt ríki væri ekki af þessum heimi - annars hefðu lærisveinar hans barist þegar hann var tekinn höndum.

Við vitum líka að Jesús fékk ekki að starfa lengi áður en hann var handtekinn, sakaður um guðlast og tekinn af lífi. Hópurinn í kringum hann tvístraðist og fór í felur. Sumir í hópnum höfðu borið von í brjósti um að Jesús væri Messías sem þjóðin hafði beðið eftir og myndi frelsa hana undan valdi Rómar og gera henni kleift að stofna frjálst og sjálfstætt ríki í Ísrael.

Það gerðist auðvitað ekki. Um páskatímann þegar Jerúsalem var á suðupunkti, sauð upp úr og yfirvöldin ákváðu að þessum báti yrði ekki ruggað frekar. Jesús var handtekinn, dæmdur eftir ríkjandi siðum og tekinn af lífi á sama hátt og hver annar glæpamaður - með því að vera negldur á kross.

Þetta hefði svo sem ekki átt að koma á óvart, þeim sem býður hinn vangann þegar hann er sleginn í staðinn fyrir að berjast, reiðir ekki vel af í þessum heimi. Eins og Simone Weil, franski heimspekingurinn og mystíkerinn, komst að orði: “Þeir sem beita sverði falla fyrir sverði, þeir sem afneita sverðinu deyja á krossi.”

Þetta er baksvið páskanna okkar, þegar við tökum á móti hinu gleðilega, óttalega og óvænta - að Jesús er upprisinn. Upprisa Jesú er ekki sigur í stríðinu við hið illa, eða við dauðann - ekki í þeim skilningi að vald Guðs hafi verið meira en vald Rómverjanna, að vald Guðs hafi verið það mikið að dauðinn hafi látið undan og gefið Jesú til baka.

Slík atburðarrás eða skýring á upprisunni væri í rauninni staðfesting á því að sá sterkasti vinnur og að þegar öll kurl væru komin til grafar hafi sá sterkasti haft rétt fyrir sér. Og ekkert er fjær því sem Jesús stóð fyrir og boðaði með lífi sínu og starfi.

Upprisan er þvert á móti sigur friðarins, staðfesting á því að Jesúleiðin, að bjóða hina kinnina, leysi upp þráteflið um hver sé sterkastur. Upprisan er staðfesting á því að auga fyrir auga, tönn fyrir tönn lögmálið er fallið úr gildi. Upprisan er sigur kærleikans og sigur friðarins.

Þetta er ekki framandi mynd heldur á hún grundvöll sinn í fyrirheiti Drottins Guðs sem við lesum um hjá Jesaja spámanni. Þar er dregin upp mynd af veislu, sem hittir í mark, því við þekkjum þessa tilhlökkun sem býr um sig þegar við vitum að það er gott í vændum, og tengjum við eftirvæntinguna um góðan mat í góðu samfélagi. Veislan sem Drottin Guð býður til er ætluð öllum þjóðum, hér er ekki spurt um hvaða þjóð sé sterkust eða lengst á veg komin, með stærsta herinn eða voldugustu iðnfyrirtækin. Hér er framtíð í friði, velferð og gnægð, sem kemst ekki á fyrir tilstilli hernaðarstyrks heldur fyrir tilstilli friðar og kærleika, og allar þjóðir eiga hlutdeild í.

Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu, veislu með réttum fljótandi í olíu og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg og skírðu dreggjavíni. Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið, sem er hula öllum þjóðum og forhengi öllum lýðum, mun hann afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni því að Drottinn hefur talað. Á þeim degi verður sagt: Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á og hann mun frelsa oss. Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á, fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans. Jes 25.6-9

Með upprisunni er leið hins sterkasta, hins voldugasta, þess með þróuðustu vopnin og gagnlegustu drónana er fallin úr gildi. Spilin hafa verið gefin upp á nýtt. Jesús dó en Jesús var ekki sigraður. Hinn sterki fékk ekki sínu fram, vopn hans og verjur voru slegin úr höndum hans af kærleikanum

Þetta er það fallega og öfugsnúna við upprisuna, sem snýr ríkjandi gildismati á hvolf. Við lifum nefnilega í menningu sem er með þráhyggju á háu stigi fyrir hinu sterka, því að ná árangri, skara fram úr, vera best og mest. En Jesús tekur ekki þátt í því, heldur býður fram leið friðarins, leið þess að taka ekki slaginn heldur launa illt með góðu og elska óvini sína, og náungann eins og sjálfan sig.

Kannski virkar þetta svolítið óspennandi og ódramatískt. Í guðspjallinu fylgjumst við með konunum sem taka fregnunum um upprisuna með ótta, skilningsleysi og svolítilli vantrú. En þær taka trúarskrefin, sem felast í því að fara og segja frá, og minnast orða Jesú um hluverk sitt í heiminum.

Það er skiljanlegt að mæta hinu óvænta með vantrú og ótta. Kannski eigum við líka erfitt með að þekkja Jesú þegar hann kemur til okkar, upprisinn. Hans eigin lærisveinar þekktu hann ekki, þegar hann slóst í för með þeim á leiðinni til Emmaus og ræddi við þá um það sem hafði gerst og átti að gerast. Það var ekki fyrr en þau settust niður og brutu brauðið að augu þeirra opnuðust fyrir því hver var hjá þeim. Og þá vissu þau að hjarta þeirra hafði brunnið fyrir málstaðinn sem er þess virði að trúa á, lifa fyrir og gefa líf sitt fyrir. Eins og Jesús.

„Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ Við finnum það í hjartanu hvernig ljósið brýst fram í myrkrinu, hvernig þunga steinsins er létt af okkur og hvernig kærleikurinn mýkir og mótar líf okkar og sýn.

Upprisan er ekki töfrar heldur sigur kærleikans sem rekur óttann burt, úr hjörtum þeirra sem hafa þurft að lúta valdi heimsins, sem birtist stundum í hernaðarvaldi, stundum í pólitísku valdatafli og stundum í fjötrum fíknar og skulda. Upprisan verður að veruleika í lífi okkar í samfélaginu þar sem við brjótum brauðið og hlustum á Jesú, þar sem við komum saman með öllum börnum Guðs í veislunni sem Drottinn býður til á fjallinu,

“…veislu með réttum fljótandi í olíu og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg og skírðu dreggjavíni.”

Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn!