Hvenær eru maðurinn hann sjálfur?

Hvenær eru maðurinn hann sjálfur?

Mögulega, já það er hreint ekki ólíklegt, eiga flest þau heilræða sem þið rifjið þá upp, eitt sameiginlegt. Við hér í kirkjunni og fólkið ykkar höfum brýnt eitt fyrir ykkur öðru fremur. Nefnilega þetta - að vera þið sjálf. Vá, þvílík speki, gæti einhver sagt. Eins og það sé einhver valkostur annar í boði. Hver getur verið einhver annar en hann eða hún er?

Fermingardagurinn er dagur hinna mörgu og stóru heilræða. Hér áður en við gengum inn í helgidóminn fluttum við prestarnir ykkur pistilinn. Á æfingum höfum við verið óspör á ráðleggingar og holl ráð. Þið sjálf hafið valið úr löngum lista ritningarstaða, hver og einn þeirra er eins og gullkorn sem hefur staðist tímans tönn. Já, orðin ykkar eru ólík mörgum mannanna verkum sem eyðast, hrörna, missa merkingu og tilgang. Stórveldi verða til og um síðir renna þau sitt skeið. Kastalar og hervirki enda sem söfn fyrir ferðamenn. En orðin ykkar, kæru fermingarbörn eru slík heilræði að þau eru enn í fullu gildi, árþúsundum frá því þau voru upphaflega sögð eða rituð.

Og svo í dag, á fermingardeginum ykkar þegar haldin verður stórveisla ykkur til heiðurs, þá megið þið alveg búast við því að áframhald verði á heilræðagjöfinni. Það er líka gott. Í kringum ykkur er fjöldi fólks sem hefur lifað lengur en þið, lokið fleiri árum í skóla, staðið frammi fyrir stærri verkefnum, dýpri vanda, meiri sorg og flóknari viðfangsefnum sem hefur þurft að leysa. Fólk sem hefur gert mistök og áttað sig vonandi á því að mistök eru ekkert til að óttast, heldur þvert á móti. Mistök geta verið okkar bestu vinir, ef okkur tekst að læra af þeim.

Þegar þið síðan í kvöld slakið á eftir langan dag. Horfið kannske á einn þátt í sjónvarpinu eða hvílið lúin bein með ykkar náunustu mæli ég með því að þið rennið yfir það hvað þessi dagur hefur kennt ykkur.

Mögulega, já það er hreint ekki ólíklegt, eiga flest þau heilræða sem þið rifjið þá upp, eitt sameiginlegt. Við hér í kirkjunni og fólkið ykkar höfum brýnt eitt fyrir ykkur öðru fremur. Nefnilega þetta - að vera þið sjálf. Vá, þvílík speki, gæti einhver sagt. Eins og það sé einhver valkostur annar í boði. Hver getur verið einhver annar en hann eða hún er?

En það býr meiri viska að baki því góða ráði. Að vera sá eða sú sem maður sjálfur er, fjallar um það að vera við stjórnvölinn í lífi sínu. Það snýst í rauninni um það hvernig við bregðumst við því sem hendir okkur í lífinu. Hvað gerum til til dæmis ef einhver er ókurteis og leiðinlegur við okkur. Verðum við þá á því sama augnarbliki sjálf ókurteis og leiðinleg? Erum við þá ekki að apa upp hegðun einhvers annars? hvað ef einhver rekst utan í okkur, jafnvel beitir okkur ofbeldi? Svörum við þá undir eins í sömu mynt?

Eða, erum við slíkir úrvalsnemendur í skóla lífsins að við höfum tileinkað okkur þessa dýrmætu list - að vera við sjálf? Það snýst nefnilega um að bregðast við eins og okkar betri vitund segir okkur að bregðast við. Ekki að apa upp slæma hegðun heldur að halda sínu striki. Og þar liggur í rauninni allt okkar frelsi, allur sjálfstæði og já, í því felst listin að vera maður sjálfur. Að koma vel fram við fólk, líka þegar við fáum yfir okkur einhver leiðindi og eitthvað sem kynni að koma okkur úr jafnvægi.

Að ógleymdum mistökunum. Maður minn hvað þau geta verið gagnleg. Ég á litla afastelpu sem hefur undanfarnar vikur verið að læra alveg fáránlega flókna og erfiða list. Nefnilega það að ganga upprétt á tveimur fótum. Hafið þið velt því fyrir ykkur hvað það mikið vandaverk? Já, þegar maður fylgist með þessari seigu og ósérhlífnu litlu ársgömlu hnátu þá fer það ekki á milli mála að upprétt ganga er heilmikið mál.

Hún hefur líka dottið oftar en tölu verður á komið á þessum lærdómstíma. Auðvitað hefur engum dottið það í hug að segja eitthvað á þessa leið - jæja, nú er hún Lillý Björk enn búin að detta á rassinn. Þetta er greinilega ekkert fyrir hana! Nei, við vitum það að í hvert skiptið sem fæturnir bregðast henni þá hefur hún færst nær því að geta gengið óstudd og svo hlaupið og leikið sér eins og hún fer bráðum að gera. En sjálf eigum við það til að hætta um leið og eitthvað bjátar á, segjum bara að danska eða stærðfræði eða fimleikar, nú eða bara mannleg samskipti séu ekkert fyrir okkur.

Að vera maður sjálfur er líka að sýna þolgæði og vita að við viljum ekki gefast upp á því sem eflir okkur og bætir. Þetta „veit“ ársgömul dótturdóttir mín en síðar í lífinu á fólk það til að gleyma þessum sannindum.

Það er þetta sem Guð vill gera með líf okkar. Að glæða með okkur vilja til að bæta heiminn, og þar verður hver og einn að byrja á sínu nánasta samfélagi. Já, textarnir sem börnin völdu sér fjalla meira og minna um þetta. Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Allt sem við viljum að aðrir geri okkur það skulum við þeim gera, þakklæti til Guðs og sú vitund að kærleikurinn leiði okkur áfram í lífinu eins og góður hirðir.

Svona eru textarnir sem þið hafið valið ykkur kæru fermingarbörn og spurningin snýr einmitt að því að þið veljið ykkur hina góðu leið til að stýra lífi ykkar. Í því felst lífslistin sjálf sem er einmitt það að vera trúr sinni köllun, láta ekki neikvæðni og leiðindi færa okkur af veginum heldur spyrja okkur frekar að því hvernig manneskjur við sjálf erum og hvað það er sem leiðir af orðum okkar og verkum.

Það er eins og hann tali inn í okkar aðstæður. Já, þekking líður undir lok og spádómar eru misgóðar. En kærleikurinn er sígildur. Þegar Kristur var inntur eftir því sem mestu máli skipti í lífi hvers manns, á öllum þeim stundum sem líða frá því hjartað tekur að slá og þar til taktur þess deyr út - þá nefndi hann einmitt þetta - að finna til með öðrum. Elska skaltu, Guð þinn og elska skaltu náungann eins og sjálfan þig. Að geta elskað aðra manneskju eins og okkur sjálf er það merkilegasta sem við erum fær um að sinna. Það er í raun ekki lítið kraftaverk og samspil ótal þátta sem gera okkur kleit að finna til með öðrum.

Þegar þið veljið ykkur Jesú Krist að leiðtoga, veljið þið ykkur sjálf það hlutskipti að vera leiðtogar. Einstaklingar sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag hvar sem þeir eru staddir í lífinu. Um þetta allt snýst fermingin. Á þessum degi horfum við framtíðar og biðjum fyrir ykkur á ókomnum tímum og við horfum til þess sem ekki breytist hvað sem á dynur í henni veröld. Guð blessi ykkur kæru fermingarbörn.