16 ára í sóknarnefnd

16 ára í sóknarnefnd

,,Ekkert um okkur, án okkar" verður vonandi setning sem unga fólkið gerir sífellt meira og meira að sinni setningu innan kirkjunnar. Slíkt viðhorf er vel til þess fallið að auka áhrif ungmenna innan íslensku kirkjunnar. Við þurfum að minna okkur á að fagmennska er ekki það að láta fagmenn sjá um alla hluti eða að fullorðnir sjái um allt.

,,Ekkert um okkur, án okkar" verður vonandi setning sem unga fólkið gerir sífellt meira og meira að sinni setningu innan kirkjunnar. Slíkt viðhorf er vel til þess fallið að auka áhrif ungmenna innan íslensku kirkjunnar. Þegar þeim sem fara með valdið í kirkjunni lærist að framtíð kirkjunnar felst í valdeflingu meðal þátttakenda í kirkjustarfi þá hlýtur ein sóknarnefndin á fætur annarri, ein héraðsnefndin á fætur annarri, hver sóknarpresturinn á fætur öðrum að taka upp þann góða sið að framkvæma það sem þau sem taka þátt kalla eftir. Mörg okkar í kirkjunni erum góð í að hlusta. En nú þurfum við að læra að hætta ,,bara að hlusta" á unga fólkið í kirkjunni okkar og taka næstu skref.

Þessar vikurnar eru ekki bara biskupskosningar í kirkjunni. Sóknir landsins halda nú hver á fætur annarri svonefnda aðalsafnaðarfundi. Þar er sumstaðar kosið í sóknarnefndir þetta árið, þó svo að meginreglan sé sú að kosningar í sóknarnefndir fari fram á aðalsafnaðarfundum oddatöluárin (2013, ...). Ánægjulegt væri að sjá þjóðkirkjufólk taka það skref að kjósa ungt fólk til áhrifa. Í 53. grein laga# um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 kemur fram að hver sá sem skráður er í þjóðkirkjuna og er orðinn sextán ára hefur ekki aðeins kosningarétt þegar kemur að kosningu, heldur einnig kjörgengi. Það þýðir að ef þú ert orðinn 16 ára daginn sem aðalsafnaðarfundur fer fram getur þú boðið þig fram í sóknarnefnd.

Og hvað gerir sóknarnefnd? Hún ákveður meðal annars hversu stór hluti af tekjum sóknarinnar er notaður í æskulýðsstarfið. Hún tekur ákvörðun um hvort að ráðinn er starfsmaður til að sinna æskulýðsstarfinu eða ekki. Hún hefur úrslitaáhrif hvort að æskulýðsstarf fær að blómstra í viðkomandi sókn eða hvort það er hornreka.

Okkur sem störfum í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar hefur margoft orðið það á, að skipuleggja atburði sem okkur finnast mjög spennandi og grípandi. En eftirá hefur það komið í ljós að unglingarnir voru ekki eins hrifnir. Fyrir mörgum árum var t.d. verið að skipuleggja unglingamót. Við lögðum til að yfirskriftin yrði ,,Líf með Jesú" eða ,,Líf í kærleika". Einn ungi einstaklingurinn sem sat í undirbúningsnefndinni horfði á okkur og sagði beint út: ,,Sorry, þetta er ekki cool. Getum við ekki látið mótið heita ANTON?" Það var gert og prentaðir voru bolir með nafninu Anton, en það þýðir ómetanlegur. Sjaldan hefur nafn á móti slegið jafn mikið í gegn. Unga fólkið er brunnur hugmynda sem er vannýttur.

Fagmennska er ekki það að láta fagmenn sjá um alla hluti eða að fullorðnir sjái um allt. Fagmennska í safnaðarstarfi er að virkja alla aldurshópa í söfnuðunum. Sóknarnefndir eiga að endurspegla það starf sem fer fram í sókninni. Sóknarnefnd er góður staður fyrir ungt fólk til að kynna sér fundarsköp og fá innsýn í fjölbreytt starf kirkjunnar. Að sama skapi getur sóknarnefnd verið tilvalinn staður fyrir þau sem eldri eru til að kynna sér viðhorf unga fólksins.

Okkur er vel ljóst að það getur verið áskorun fyrir 16 ára einstakling að gerast virkur aðili í sóknarnefnd. Því hlýtur kirkjan að þurfa að skoða hvernig hún geti hlúð að ungu fólki sem er tilbúið að taka þátt í starfi sóknarnefnda. Nú er ráð að spyrja unga fólkið hvort það vilji taka þátt, hvort það vilji námskeið, sjái fyrir sér ákveðna gerð af stuðningi ... ? Vonandi verður hægt að taka þetta mál upp á næsta Kirkjuþingi Unga Fólksins.

Sum þeirra sem eru í sóknarnefndum um allt land eru nær því að vera 16 ára en 60 ára. Í sóknarnefndum víða um land er að finna fólk sem stendur af heilum hug á bak við barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar. Fyrir það ber að þakka og hrósa. En okkar álit er að nú sé tími til að kirkjan taki skref til viðbótar. Við teljum ekki nóg að fjallað sé um unga fólkið. Okkar álit er að nú sé tími til kominn að sýna unga fólkinu að það er traustsins vert og skapa því rými, gefa þeim tækifæri til að axla ábyrgð.