Hálfrar aldar vígsluafmæli kirkjunnar

Hálfrar aldar vígsluafmæli kirkjunnar

Endurreisn Skálholts um og eftir miðja síðustu öld var herhvöt til þjóðlegrar og menningarlegrar endurreisnar í landinu – og þjóðin tók undir, almenningur og stjórnvöld. Nú hefur ríkisstjórn Íslands boðað að íslensk þjóðmenning skuli í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Það er vel, og ég leyfi mér að vænta þess að við það verði staðið með rækt og frjóvgun og næring þess sem best er og frjósamast. Þar má ekki gleymast sá veigur íslenskrar menningar sem kristin kirkja, trúaruppeldi og samfélagsmótun er og þeir heilnæmu ávextir sem af því spretta.

Matt. 7. 15-23 Gleðilega Skálholtshátíð! Við gleðjumst og fögnum á helgum Skálholtsstað þegar minnst er hálfrar aldar vígsluafmælis dómkirkjunnar sem – eins og Hungurvaka orðar það- „Með réttu kallast andlig móðir allra annarra vígðra húsa á Islandi.“ Við gleðjumst yfir og fögnum með vorri andlegu móður og biðjum henni heilla á tímamótum. Hér eru vegmóðir pílagrímar, sem eiga langa göngu að baki hingað heim í Skálholt. Sum ykkar meir en 120 km.! Verið hjartanlega velkomin! Það var áhrifaríkt að sjá ykkur ganga hér berfætt inn kirkjugólfið. Þið genguð í fótspor fyrri alda er fólk sótti hingað að gröf Þorláks biskups helga á messudegi hans. (á þessu kalda og blauta sumri sem við höfum lifað hér sunnan lands nú er gott að minnast þess að eitt af því sem talið var til marks um helgi Þorláks var að hann lastaði aldrei veður!)

Guð blessi ykkur, pílagrímar, sporin ykkar og lífsveg allan.

Við heyrðum guðspjall dagsins, úr niðurlagsorðum Fjallræðunnar, óþægileg orð, ótrúlega óvægin og alvöruþrungin aðvörun um árvekni gagnvart því hvaða ávexti líf manns ber. Spámenn Gamlatestamentisins líktu þjóð sinni við vínvið. Eigandinn leitaði þar ávaxta en fann ekkert nema muðlinga! Jesús vísar til þeirra líkinga þegar hann minnir á uppgjörið og reikningsskilin hinstu. „Aldrei þekkti ég yður!“segir Kristur, „á þeim degi“ við þau sem þó geta vísað til góðra verka og góðs gengis í hvívetna. Þvílíkur áfellisdómur! Ávöxtur er það sem ber í sér líf og vöxt og framtíð. Ávexti trúarinnar höfum við fundið og notið á ólíklegustu stöðum, og það sem meira er, við lifum öll af þeim ávöxtum sem aðrir sáðu til. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ segir Kristur, - Ávöxtunum, ekki útlitinu. Okkur er einatt starsýnt á það á tímum útlitsdýrkunar og ímyndasmíða. En hvar eru hin heilnæmu og varanlegu, lífgandi áhrif? Hvar eru heilindin og hjartalagið sem vekur og nærir hið góða, fagra og sanna? Um það spyr Kristur í Fjallræðunni forðum og hér í Skálholti nú.

Tré stendur djúpum rótum í jarðveginum. Annars stæðist það ekki stormana né næði næringu til að geta borið ávöxt. Eigi trú okkar að bera ávöxt verður hún að eiga djúpar rætur í orði Guðs. Eigi þjóðmenning okkar að vera annað en reikult þangið þarf hún að standa djúpum rótum í þeim jarðvegi sem lífgar og nærir og ber ávexti til framtíðar. Að því verðum við að gæta eigi Ísland að vera annað en verbúð eða veiðimannasamfélag. Þess gættu þau sem reistu Skálholt í árdaga kristni á Íslandi og þau sem endurreistu það á bernskuskeiði lýðveldisins.

Á hörðum harðindaárum, hruns og áfalla mætti Skálholt sínum þunga skapadómi forðum. Þvílíkt menningarhrun og hefðarrof var það ekki þegar skólinn og biskupsstóllinn voru fluttir á mölina, dómkirkjan skilin eftir í reiðileysi fyrst í stað en síðan rifin og viðir hennar og prýði selt á uppboði, og fór víst fyrir lítið. Það var harðindavorið 1802, nefnt Langajökulsvor. Átjánhundruð og tvö ár töldu er timburkirkju felldu á kné. Langajökulsvor þeir völdu að vinna slíkt í Skálholte. – varð einhverjum Tungnamanninum að orði yfir aðförunum. Þjóðin hafði gengið gegnum harðindi, kreppu og hrun. En þarna var náðarhöggið greitt. Að ímynda sér þegar menn báru skrín Þorláks biskups hér út á hlaðið og brutu í eldivið, áður búið að brjóta og eyðileggja allt skraut þess og skart! Erfitt er að skilja það eyðingarfár sem yfir gekk. Það var sem héldist í hendur dáðleysi og metnaðarleysi annars vegar og hins vegar dæmigerður íslenskur flumbrugangur og óðagot í glýju óraunsærra framfaradrauma og peningahyggju. Það höfum við svo sem séð nær okkur í tíma. En þetta var þjóðar-uppgjöf og eflaust þyngsta högg sem íslenskri þjóðmenning hefur verið greitt.

Endurreisn Skálholts um og eftir miðja síðustu öld var herhvöt til þjóðlegrar og menningarlegrar endurreisnar í landinu – og þjóðin tók undir, almenningur og stjórnvöld. Nú hefur ríkisstjórn Íslands boðað að íslensk þjóðmenning skuli í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Það er vel, og ég leyfi mér að vænta þess að við það verði staðið með rækt og frjóvgun og næring þess sem best er og frjósamast. Þar má ekki gleymast sá veigur íslenskrar menningar sem kristin kirkja, trúaruppeldi og samfélagsmótun er og þeir heilnæmu ávextir sem af því spretta.

Mér er í fersku minni sumarið 1963 er Skálholtskirkja var vígð. Ég hafði nýlokið landsprófi og var svo lánssamur að ráðast til starfa með vinnuflokki sem vann við að ganga frá umhverfinu fyrir vígsluna undir verkstjórn Ingimundar Ólafssonar, kennara. Það var mikið að gera og margt að sjá og gefandi að kynnast þeim mörgu sem að verki komu með einum eða öðrum hætti. Ég nefni aðeins þá Guðjón Arngrímsson byggingameistara og heimamennina, Maríu og Björn bónda í Skálholti og þá Ingólf og Loft á Iðu, og hann Guðmund Indriðason í Laugarási. Og svo prestshjónin, Önnu og Guðmund Óla og Sveinbjörn Finnsson, sem síðar var um árabil staðarráðsmaður hér.

Þarna voru danskir orgelsmiðir að setja upp orgelið og þýskir glerlistamenn að ganga frá hinum stórkostlegu myndgluggum Gerðar Helgadóttur. Að hugsa sér að þetta skuli vera gjafir, orgelið og gluggarnir vinagjafir danskra Íslandsvina. Þvílíkar gjafir! Því örlæti megum við ekki gleyma! Né þeirri ótrúlegu og einstöku rausn sem þakviðir, loftklæðning og steinflísarnar á þaki og á kirkjugólfinu bera vitni um, allt gjafir Norðmanna að tilstuðlan séra Haralds Hope, þess einstæða atorkumanns og trúfasta vinar Íslands, íslenskrar tungu og menningar og Skálholts sérstaklega! Og skírnarfonturinn er gjöf Færeyinga, höggvinn úr steini frá biskupssetrinu forna í Kirkjubæ. Skálholtsskóli sem síðar reis ber eins vitni um örlæti vinaþjóða, að svo stórum hluta reistur með virkum stuðningi Íslandsvina og lýðháskólamanna á Norðurlöndum, sem séra Harald Hope virkjaði til góðra verka.

Allt sem ber fyrir augu og eyru okkar hér í Skálholti í dag vitnar um hið besta í íslenskri þjóðmenningu, en kemur hvaðanæva. Gjafir, sem við höfum þegið. Kirkjugluggarnir eru fágætt listaverk, vinargjöf erlendra manna. Þremur árum síðar kom svo Kristsmynd Nínu Tryggvadóttur, líka kostuð af Dönum en unnin af sömu þýsku handverksmönnunum og gluggarnir. Já, þessar merku íslensku listakonur áttu báðar frægðarferil sinn í framandi löndum. Mér er minnisstætt, þegar búið var að raða hér á kirkjugólfið þeim óteljandi smásteinum í ótal litum sem myndin er byggð upp af. Og maður gat með engu móti skilið að hér væri mynd, hvað þá það undursamlega listaverk sem listakonan sá fyrir sér, þegar þessir ótalmörgu smásteinar mynduðu saman þá heild sem handverksmennirnir felldu síðan saman af alúð og trúmennsku. Svona er íslenskt samfélag, menning, kirkja, ótal marglitar og ólíkar einingar, einstaklingar, fjölskyldur, heimili, samfélög, hagsmunir, en það er hugur og mynd að baki oft ósýnileg og óskiljanleg í margbreytileika sínum, en samt svo skýr. Og svo kemur til trúmennska hinna mörgu sem skynja huga höfundarins, og missa ekki sjónar á myndinni.

Húsameistari ríkisins, Hörður Bjarnason, kom oft austur til að líta til með verkinu og gekk hér um og fylgdist með framvindu þess. Mikið mátti hann vera stoltur af hugverki sínu. Sjaldan hefur húsameistari í landi hér fengið vandasamara verkefni. Það leysti hann af fágætri alúð og kærleika til Skálholts, sögu og trúarlegs og þjóðernislegs tákngildis, þessi næmi og trúi listamaður sem Hörður var. Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður, kom með steinkistu Páls biskups, voldugu legsteinana og bein gömlu biskupanna, til að koma fyrir í grafhvelfingunni hér í kjallara kirkjunnar. Það var heilmikið bras að koma legsteinunum og steinkistunni gegnum göngin. Þar kom spilið á Bretatrukknum hans Ingólfs á Iðu í góðar þarfir! Dr. Róbert A. Ottósson kom til að æfa kór heimamanna til að syngja við athöfnina. Oft laumaðist ég inn í kirkju til að sjá hinn merka tónlistarmann að starfi og heyra kór verða til sem sannarlega jafnaðist á við það besta sem heyrst hafði hér í landi og þótt víðar væri leitað. Dr Róbert hafði hrakist hingað í skjól undan Gyðingaofsóknum nasista fyrir stríð - hælisleitandi á tímum helfararinnar! Að hugsa sér! Og allt það sem hann lagði íslenskri þjóðmenningu og kirkju í té, svo sem við höfum notið hér í dag.

Við vígsluathöfnina voru guðfræðistúdentar fengnir til að gæta dyra og vera til aðstoðar, og ég fékk að vera þar með. Einn þeirra var Sigurður Sigurðarson, sem síðar varð vígslubiskup hér í Skálholti. Það gerði vonskuveður aðfararnótt vígsludagsins, en svo birti til og sól braust fram úr dimmviðrisskýjum. Ég man hve snortinn ég var er lúðurhljómarnir fylltu helgidóminn, upphafsstefið úr Þorlákstíðum, alveg eins og hér áðan, heyrði undursamlegan kórsönginn, orgelleik Páls Ísólfssonar og forsöng hans Braga Þorsteinssonar (:eins og hér í dag!) og áhrifaríka prédikun föður míns. Og ávarp kirkjumálaráðherra, Bjarna Benediktssonar er hann afhenti fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands þjóðkirkjunni Skálholtsstað til eignar ásamt fyrirheiti um ríflegt framlag ríkisins til áframhaldandi uppbyggingar og reksturs. Sjálfur bar hann og frú Sigríður Björnsdóttir, kona hans, Skálholt fyrir brjósti, eins og ljósastikurnar veglegu hér við altari Skálholtskirkju bera vitni um, en þær eru gjafir þeirra. Ávarp hans hér markaði kirkjusögulegan tímamótaviðburð meiri og mikilvægari en nokkurn óraði fyrir á þeirri stundu. Og lagði mikla ábyrgð á hendur þjóðkirkjunni og forystumönnum hennar að ávaxta og efla.

Endurreisn Skálholts var ekki fortíðarþrá og forneskju heldur stefnumörkun um framtíð hinnar nýfrjálsu þjóðar. Stefnumörkun um ávexti af rótum hins besta sem trú og menning geymir. Þess vegna var ekki látið staðar numið við endurreisn dómkirkjunnar. Efnt var til sumarbúða fyrir börn og með Skálholtsskóla var þess gætt að haldið væri uppi menntandi og samfélagseflandi starfsemi: skólastarf, námskeið, ráðstefnur, kyrrðardaga sem hafa blessað ótalmarga í áranna rás. Svo komu Sumartónleikar til, sem leitt hafa hingað fjölda listamanna hvaðanæva með hlýja og lífgandi hámenningarstrauma sem hafa frjóvgað og nært menningu og samfélag svo ríkulega. Það starf hófst upp af hugsjón þeirra Helgu Ingólfsdóttur og Manuelu Wiesler. Guð blessi minningu þeirra. Og svo kom Jaap Schröder og Skálholtskvartettinn til. Já, við erum í mikilli þakkarskuld við svo ótal marga, lífs og liðna. Við blessum þau öll á Skálholtshátíð.

Skálholt geymir mikla sögu sem snertir líf þjóðarinnar svo djúpt. Uppbygging og endurreisn Skálholts snerist ekki aðeins um helgidóm og hús heldur að bjóða til starfsemi sem leiði að nærandi lindum klassískrar, kristinnar menningar sem er alþjóðleg og sammannleg jafnframt því að vera þjóðlegast alls sem þjóðlegt er.

Ferðamennskan sækir á hér í landi og víst er að margir sjá þar von um skjótan og auðfenginn gróða. Hér er mikilvægt að minnast þess hvað það er sem við viljum vera og veita gestum okkar. Afstaða virðingar til landsins og lífs þess, umhverfis, náttúru, sögu og tungu eru uppistöðurnar. Hreint og fagurt land og hraust og heilbrigð menningarþjóð með sterka sjálfsmynd og siðferðisstyrk. Þjóðararfurinn er ekki sýnisgripir að stæra sig af og söluvara til að græða á, heldur lifandi veruleiki sem mótar og nærir og frjóvgar lifandi og þróttmikið menningarsamfélag á traustum grunni.

Þið sem nú berið hita dagsins og þunga berið mikla ábyrgð á að rótfestan slitni ekki, samhengið rofni ekki og myndin og minningin dofni ekki og týnist. Þið hafið fengið arf í hendur sem ávaxta ber til blessunar. Bankahrunið og það heiftarlega samfélagsuppnám sem því fylgdi bitnaði illa á kirkjunni og fyrir það hefur Skálholt liðið. Ég vona og bið að sátt og samstaða náist um nýja endurreisn Skálholts sem það kirkjulega helgi og kyrrðarsetur, menningar, fræða og sögusetur, sem að var stefnt í öndverðu og ítrekað á stofnfundi hin endurreista Skálholtsfélags hér í morgun.

Við vígslu Skálholtskirkju var minnt á orðin sem letruð eru á legstein Jóns biskups Vídalíns og sjá má hér í kjallara kirkjunnar: „Grasið visnar, blómin fölna, en Guðs heilaga orð stendur stöðugt eilíflega.“ Skálholtskirkja minnir á það orð, orðið sem áminnir, leiðbeinir, líknar og leysir, orðið sem varð hold á jörðu, frelsarann Krist. Af því orði og anda spretta þeir ávextir sem best hafa dugað í aldanna rás og enn munu blessa og næra einstaklinga og samfélag, mannlíf og menningu í landi hér. Og Hann mun hafa síðasta orðið þegar allir reikningar verða gerðir upp um síðir.

Kristsmyndin hér yfir altarinu er sannarlega eitt áhrifamesta trúarlegt listaverk 20. aldarinnar, og sem með gluggunum myndar svo áhrifaríka heild sem hugsast getur inni í þessu stílhreina húsi. Ég tala nú ekki um þegar sólarljósið leikur gegnum litglerið og glitrar á mósaíkinni. Hann breiðir út hlýjan faðm sinn á móti vegfarandanum. Og við þekkjum hann aftur. Guð veki okkur öllum þrá til þess og fá að heyra orðin af vörum hans: Ég þekki þig og verkin þín! Þú ert minn!