Ég elska þig Ísland

Ég elska þig Ísland

Himinninn er heiðskír og hefur á sér þennan bláa lit hreinleikans sem Miðevrópubúann getur bara dreymt um. Það er stórkostlegt að sofna við niðinn í ánni og fuglasöng. Á stundum sem þessum viðurkenni ég ekkert annað en að ég elski Ísland.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
12. september 2011

EyjafjordurMér þykir vænt um landið mitt. Ég er fæddur í litlu fiskiþorpi þar sem norðanvindurinn er á stundum það kaldur að ekki er laust við að sú spurning komi upp í hugann hvort verið geti að hann komi í þetta sinn hindrunarlaust beint frá Norðurpólnum. Þetta litla fiskiþorp heitir Dalvík.

En Dalvík er um leið stórt bæjarfélag. Að minnsta kosti verð ég var við það þegar ég lýsi fæðingarbænum mínum erlendis að myndin sem ég dreg upp af bænum er slík að hlustandinn sér fyrir sér miðlungsstórt evrópsk bæjarfélag þar sem tugir voldugra togara og hundruð lítilla fiskibáta liggja við bryggju í sólinni á sunnudögum en sækja sjóinn virku dagana og koma heim með hófsamlegan afla að viku lokinni.

Svo sýni ég myndir úr Skíðadal og segi frá því hversu heppinn ég er að geta eytt sumardögum þar í fögrum fjallasal. Myndirnar sýna börnin að leik í heitum potti í sólinni fyrir utan bústaðinn. Hvergi bærist hár á höfði, slíkt er lognið og í horni myndarinnar glittir í flösku af sólaráburði. Himinninn er heiðskír og hefur á sér þennan bláa lit hreinleikans sem Miðevrópubúann getur bara dreymt um. Og ég segi frá því hversu stórkostlegt það er að sofna við niðinn í ánni og fuglasöng og vakna næsta morgun við að ekið er eftir þjóðveginum: Fyrsti bíllinn í tólf tíma sem ekur framhjá. Já, ég elska þig Ísland.

Á stundum sem þessum gleymi ég jafnvel að segja frá því að sjómennskan hefur kostað margan Íslendinginn lífið, að í dag eru það fáir kvótakóngar sem hafa tekjur af fiskinum en að flest fólkið sem vinnur við fiskveiðar og fiskvinnslu hafi ekki mikið meira en í sig og á.

Á stundum sem þessum gleymi ég jafnvel að segja frá því að norðangarrinn, veðravítið getur verið slíkt á Íslandi að ráðlegast er að halda sér heima við, nema maður sé í björgunarsveit sem hefur stanslaus verkefni við að bjarga fólki og munum áður en veðrið gerir endanlega út um það.

Á stundum sem þessum gleymi ég jafnvel að segja frá því að það er varla búandi í Skíðadal vegna þess hve dalurinn er þröngur og sólarstundirnar fáar, sumarkoman sein og haustvindar sterkir frá miðjum ágúst.

Á stundum sem þessum viðurkenni ég ekkert annað en að ég elski Ísland.

Og ég er í stórri hættu: Elskan getur orðið svo blind. Og blindan getur orsakað hatur í sálu minni, hatur í huga mér gagnvart öllu sem ekki passar inn í þessu ýktu eða skökku mynd sem ég dreg upp af því Íslandi sem ég elska.

Er það óttinn við að ég þrauki ekki einn veturinn enn á þessari köldu eyju úti í ballarhafi sem veldur? Er það öfundin sem ég upplifi í garð Suðurevrópubúans sem getur borðað úti í garði 320 daga á ári sem veldur? Er það vorkunsemin gagnvart sjálfum mér og eymingjunum sem þurfa að búa við þessar fáránlegu aðstæður?

Hvað veldur?

Og hvað gerist þegar ég sé einstaklinga velja það að flytja hingað á þessa eyju sem í raun er svo erfitt að búa á og finnst það svo gott að búa hér af því að hér ríkir friður, hér eru mannréttindi mjög oft í heiðri höfð, hér er gott heilbrigðiskerfi, öruggt félagslegt kerfi, lýðræðisleg vinnubrögð oftast viðhöfð?

Hvernig tek ég á móti þeim? Er ég hræddur um að vinir mínir í Evrópu frétti að myndin af því Íslandi sem ég elska er ekki eins og ég dreg hana upp?

Tja ...