Eldsókn

Eldsókn

Ása missti hönd en Signý nef. Helga fékk bæði eld og prins í sinni eldgöngu. Þjóðsaga um systur er fléttuð í “þjóðsöngsvisku” á fyrsta degi ársins 2008.

Íslenski þjóðsöngurinn varð til í krafti Davíðssálms, sem er númer 90 og nefnist bæn guðsmannsins Móse. Þetta er lexía dagsins í dag og svo syngjum við þjóðsönginn í lok messunnar. Guðsmaðurinn biður fallega: “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.”

Í bæninni er Guð hinn stóri faðmur sem spannar allt, meira en fæðingu jarðar, fjalla, já alls heimsins. Og eftir öfluga áminningu um að mennirnir hverfi aftur til duftsins, um þúsund ár Guðs sem daginn í gær kemur heimfærslan, stefnan, bænin. “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

En hvað er viturt hjarta? Hvenær verðum við vitur? Viskan er meira en þekking á staðreyndum, skilningur á röklegum tengslum eða efnaferlum, viskan er innsýn og afstaða, meðvitund um samhengi hluta og tilgangs og um forsendur og afstöðu. Já, viskan varðar alltaf þetta stóra athvarf frá kyni til kyns, Guð. 

Viskusögur Þjóðsögur eru merkilegar og m.a. vegna þess, að margar þeirra eru lærdómssögur um eðli, hlutverk, frelsi og köllun manna. Ein saga í þeim sjóði hefur sótt að mér síðustu daga liðins árs. Það er sagan af systrunum Ásu, Signýju og Helgu, sem er reyndar til í ýmsum útgáfum þótt grunnáherslan sé söm. Mig langar til að stikla á sögunni vegna þess að hún varðar mannlífsafstöðu sem er mikilvæg. Þetta er aðeins ein af mörgum útgáfum sögunnar og er svona í endursögn: 

Eldurinn dó Eitt sinn voru karl og kerling og áttu þrjár dætur, Ásu, Signýju og Helgu. Óhapp varð í kotinu og eldurinn dó. Ása, elsta dóttirin, var send til að sækja eld. Á leiðinni gekk hún fram hjá hól og heyrði talað úr honum til sín: "Hvort viltu hafa mig með þér eða móti"? Því svaraði Ása, að sér stæði öldungis á sama, og hélt áfram göngu sinni. Að lokum kom hún að helli. Þar var lifandi eldur og ketill var á hlóðum með hálfsoðnu kjöti. Í trogi hjá voru óbakaðar brauðkökur. Þar sem enginn maður var sjáanlegur og stúlkan hungruð eftir gönguna, vildi hún borða. Hún hleypti upp eldi og fullsauð kjötið og bakaði köku, sem hún ætlaði sér, en brenndi þær sem hún ekki ætlaði að borða. Þegar Ása hafði etið nægju sína kom til hennar hundur, sem lét vinalega, en Ása lamdi hann og vildi reka á brott. Hundurinn brást hinn versti við og beit af henni höndina. Ásu varð eðlilega hverft við og þorði ekki að taka eldinn og flýði. Þá var Signý send. En fyrir henni fór eins og systur hennar utan það, að hundurinn beit af henni nefið.

Ég vil gjarnan eiga þig að Hin yngsta og vanvirtasta var þá send af stað. Röddinni úr hólnum svaraði hún með því að segja: "Ég vil gjarnan eiga þig að." Í hellinum sauð hún kjötið og bakaði en vildi ekki borða í leyfisleysi. Hún beið því húsráðanda, sem kom innan tíðar. Sá var risi mikill, sem þó talaði blíðlega og leyfði henni að borða. Helgu var eldurinn einnig heimill og fór hún með hann heim í foreldrahús. Enga þökk hafði hún fyrir starfann. En síðar kom risinn til að sækja Helgu og gera hana að drottningu í ríki sínu. Risinn mikli, var, eins og vera ber í góðu ævintýri, prins í álögum.

Hvað merkir svona saga?

Lífið er eldsókn Líf hvers manns og samfélaga einnig er samfelld eldsókn. Starf og vinna er sókn til frumgæða. Allar manneskjur leita hamingju. Öllum félagsskap manna er ætlað að þjóna mönnum til góðs. En djásn og dýrmæti eru vandmeðfarin og geta orðið til mikillar ógæfu. Eldurinn minnir okkur á þetta öðru betur. Án elds í einhverri mynd getur maðurinn ekki lifað. En jafnframt því að vera tákn lífs er eldurinn einnig tákn eyðileggingar. Til að eldurinn nýtist og lifi með góðu móti þarf að umgangast hann á réttan hátt og með varkárni og virðingu.

Foreldrar stúlknanna, karlinn og kerlingin í kotinu, áttu sjálfsagt kú og kind, reku og pál. Þau áttu húsaskjól og ytri ramma, en eldurinn þeirra var kulnaður. Eyðing bús og dauði blasti við. Í þessu má spyrja um líf okkar í samtíð og framtíð. Hver eru gildi okkar? Eigum við ekki hús og hýbýli, og einhverja afkomuvon? Líf fólks er ekki aðeins bundið hinu ytra, heldur einnig hinu, sem innra er. Er eldurinn þinn kulnaður?

Á vit hins djúpa - trúarlega Systurnar í sögunni fóru ekki til nágrannana til að sækja eld, heldur út fyrir mannheim, á vit frumkraftanna, á vit hins trúarlega. En þær brugðust ólíkt við. Þær eldri voru kjánar, hugsuðu um magann og skeyttu ekki um lífsreglur. Þær misstu því hönd og nef. Vegna skeytingarleysis, hroka, virðingarleysis við málleysingja og annarra afmynduðust þær. Þær náðu ekki markmiði sínu og höfðu að auki varanlegan skaða af.

Helga, og nafnið segir auðvitað sögu, fór leið hinnar markvissu sóknar. Hún virti frumreglurnar, lét gott af sér leiða, missti ekkert og ávann allt. Slík er leið góðs samfélags, góðrar menningar, góðs fólks. Þegar grannt er skoðað eru hinir mestu atburðir, sem í minnum eru hafðir, leið eldsóknar mannkyns, leitin að því sem er rétt, satt, til eflingar, menningarauka og mannbóta. Það, sem menn öðlast til gagns, er hið torsótta, sem gefið er utan hins venjulega, utan alfaraleiðar, í einhverjum torsóttum helli. Það er mikilvægt fyrir þig að muna að í mestu erfiðleikum er eldsókn fólgin – í mestu áraun fer þú þína eldgöngu.

Ill meðferð elds! Það er ekki sama hvernig á lífsgæðum er haldið. Það er auðvelt að sóa og glata. Við þurfum ekki að stara á fræga fólkið í dæmaleit heldur höfum öll dæmi úr eigin lífi. Ef skemmta á um hið óskemmtilega, eins og Vídalín sagði stundum, má minnast bónda eins í Þingvallasveit fyrir um hálfri annarri öld. Hann hafði verið á leið um hraunið hjá Skógarkoti í miðri Þingvallakvosinni með hest sinn. Hann var þar í eldför, var á leið til viðarkolagerðar, og hafði komið glóðarhnullungum í skinnbelg, sem bundinn var upp á klárinn. Ekki fór betur en svo, að kolin brenndu gat á belginn, brenndu hestinn, sem tók hræddur á rás og dreifði því kolum um allt í stökkunum. Mosinn var góður eldsmatur, það kviknaði í honum og kvisti og talsverður hluti Þingvallaskógarins brann í þetta skipti. Bóndanum var ekki þökkuð þessi eldför. Það er ekki sama hvernig með líf er farið.

Erum við í sporum karls, með glóð á brenndu hrossi. Hugum að, hvernig við förum að. Eru margar Signýjar og Ásur meðal okkar og jafnvel í okkur sjálfum?

Feginn vil ég eiga þig að Hver er þín eldsókn, hver er þinn háttur í lífinu? Hrifsar þú til þín, og átt á hættu að missa nef eða hendi? Áttu hófstillingu í lífinu? Sækir þú í lífsgæði sem máli skipta? Þegar dýpst er haldið, inn í helli þinnar heimuglegu veraldar er spurt: Hver er trú þín?

Þegar við höldum inn í nýtt ár berst til okkar rödd úr hólnum: Viltu eiga mig að? Það er rödd gildanna, djúpsins, himinsins. Hverju svörum við: Svörum við með skeytingarleysi eða ypptum öxlum? Eða svörum við með vandvirkni og sannleika? “Ég vil gjarnan eiga þig að, eiga þig að í framtíð, eiga þig að því ég get ekki gengið götuna án þinnar hjálpar.” Þar er rödd kirkjunnar, rödd Guðs. Hvaða “prins” eða hamingja bíður þín? Hvaða blessun sækir þú utan lífsgæðanna, sem þú getur keypt þér? Allir menn eru kallaðir til eldsóknar. Allir hafa frelsi til að hrifsa til sín gæði og geta misst í skammsýni, skeytingarleysi eða vegna hroka hönd og nef.

Árið er farið, nýtt ár er fætt eins og barn vonanna. Kynslóðir koma, kynslóðir fara. Ívaf allrar sögu er hið sama. “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn - hverfið aftur... Stöldrum við og biðjum bænina: Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta? ... Þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Það er besta aðferð eldsóknarinnar, því þar er frumeldurinn sjálfur. Amen. 

Hugleiðing í Neskirkju 1. janúar, 2007.

A-röð texta kirkjuársins. 

Lexía Sl 90.1-4, 12 Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. 2Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. 3Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ 4Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. 12Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

Pistill Gal. 3. 23-29 23Áður en þessi leið var fær vorum við innilokuð í gæslu lögmálsins þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. 24Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú. 25En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara. 26Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. 27Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. 28Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. 29Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið. 

Guðspjall Lúk. 2.21 21Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.