María Magdalena- lærisveinninn sem Jesús elskaði?

María Magdalena- lærisveinninn sem Jesús elskaði?

Ég er dálítið heilluð af þeirri hugsun að lærisveinninn sem Jesús elskaði sé óræður og að í versinu felist orðaleikur. Í þeim orðaleik læðist María Magdalena inn og út úr hlutverkinu í öllum sínum gervum.

Hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn sem hann elskaði, segir hann við móður sína: “Kona, nú er hann sonur þinn.” Síðan segir hann við lærisveininn: “Nú er hún móðir þín.” Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

22. júlí er merkisdagur fyrir margra hluta sakir. Dagurinn er messudagur Maríu Magdalenu, sem er ein af merkilegustu lærisveinum Jesú. Áhugi á Maríu Magdalenu hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum með auknum rannsóknum á hefðunum um hana. Hún á sér einnig tryggan aðdáendahóp meðal almennings, ekki síst eftir bókina “Da Vinci lykillinn”, þar sem því var haldið fram að hún hafi verið eiginkona og barnsmóðir Jesú Krists. 22. júlí er einnig minnisverður dagur vegna þess að í dag er liðið eitt ár frá hermdarverkunum í Osló og Útey. Og að síðustu er 22. júlí mikill gleðidagur fyrir okkur í kirkjunni í dag því að fermingarbarn gengur upp að altari Drottins og heitir því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Vel fer á því þegar ung manneskja fermist að ræða um konu sem þótti innilega vænt um Jesú og fylgdi honum jafnt í gleði og erfiðleikum. Eða er ekki fermingin einmitt fólgin í þeirri ákvörðun að fylgja Jesú í blíðu og stríðu?

Hver var þessi vinur Jesú sem dagurinn í dag býður okkur upp á að íhuga? María hét hún, en Magdalena þýðir að hún hafi verið frá Magdölum, litlu fiskiþorpi við strendur Miðjarðarhafsins. Hennar er getið í öllum guðspjöllunum. Lúkasarguðspjall segir að María Magdalena hafi verið í fylgd Jesú eftir að hann rak út úr henni sjö illa anda. Þrjú af guðspjöllunum fjórum geta þess að María Magdalena hafi staðið með Maríu móður Jesú við krossinn þegar Jesús dó. Samstofna guðspjöllin segja öll frá því að María Magdalena hafi verið í hópi kvennanna sem að komu að gröfinni á páskadagsmorguninn og urðu fyrstar vitni að upprisu Jesú. Í meðförum Jóhannesar gengur María Magdalena ein að gröfinni, talar við hinn upprisna í grasgarðinum á páskadaginn og boðar hinum lærisveinunum fagnaðarerindið um að Jesús lifir.

Reyndar er það svo að guðspjöllin eru ekki einu helgu ritin sem segja frá Maríu Magdalenu. Undanfarin 100 ár hefur orðið bylting í þekkingu á ritum fyrstu kristnu safnaðanna. Fjölmörg forn handrit hafa fundist, sem aldrei komust inn í Biblíuna. Eitt af því er Maríuguðspjallið, eina kristna guðspjallið sem heitir eftir konu, en önnur rit sem segja frá Maríu Magdalenu eru einnig fjölmörg. Í þessum apókrýfu ritum Nýja testamentisins, en svo eru þessi helgirit utan Biblíu kölluð, er Maríu Magdalenu lýst sem einni af lærisveinum meistarans, hún spyr hann spurninga um trúna og Jesús svarar. Það er líka greinilegt af apókrýfu ritunum, að lærisveinarnir eru pirraðir á Maríu Magdalenu og jafnvel öfundssjúkir. Þeir rífast um það hvort þessi kona eigi heima í lærisveinahópnum. Í einu ritanna segir einn lærisveinninn við Jesú: “Drottinn, við getum ekki þolað þessa konu lengur. Hún leyfir engum okkar að tala, en sjálf er hún sítalandi.” (Pistis Sophia 36). Niðurstaða Maríuguðspjallsins og Filippusarguðspjallsins er hins vegar sú að Jesús hafi elskað Maríu meira en nokkurn annan lærisvein.

Á annarri öld eftir Krist var helgi Maríu Magdalenu talin svo mikil að hún var kölluð postuli postulanna, postulinn sem var fremstur postulanna. Og þess vegna er það í raun stórmerkilegt að í táknfræði kirkjunnar hefur postuli postulanna gleymst að mestu. Hér frammi í kirkjunni hanga tólf útsaumaðar myndir sem tákna postulana tólf. En postula postulanna vantar. Hvað varð eiginlega um Maríu Magdalenu?

Margir fræðimenn telja að áhrif Maríu hafi ógnað þeim sem vildu að kirkjunni væri eingöngu stjórnað af karlmönnum. Anga af þeirri glímu má einmitt sjá í apókrýfu sögunum, þegar sumir lærisveinanna vilja losa sig við konuna úr lærisveinahópnum og kvarta yfir því að hún sé símasandi. Í þessu andrúmslofti var María Magdalena túlkuð upp á nýtt og tengd öðrum frásögnum í guðspjöllunum af konum sem leituðu til Jesú. Niðurstaðan af öllum þessum túlkunum varð sú að í stað þess að María Magdalena væri postuli postulanna og fremst meðal lærisveina Jesú, þá var farið að líta á hana sem syndum hlaðna konu með sóðalega fortíð. Á mörgum málverkum er María Magdalena með eldrautt hár, sérlega kynæsandi og stundum útlifuð.

En María Magdalena virðist hafa átt sér mörg framhaldslíf ekki síður en margar fortíðir. Í þessu nýja gervi sem syndari syndaranna sem iðrast stöðugt þá hlaut hún miklar vinsældir. Helgisögur spruttu upp af því að bein hennar væru geymd í Vezelay í Frakklandi, sem pílagrímsleiðin Jakobsvegurinn liggur um. Miklar sögur fóru af kraftaverkum Maríu og Vezelay var einn fjölfarnasti ferðamannastaður á miðöldum, allt vegna vinsælda dýrlingsins Maríu.

Í dag á 22. júlí, er upplagt tækifæri til að kynnast þessum lærisveini Jesú, sem fylgdi honum í starfi hans, og varð vitni að dauða hans og upprisu. Þessi merkilega kona frumkristninnar gerði marga reiða og pirraða, ávann sér virðingu margra og hefur átt furðuleg framhaldslíf. Þegar við lesum guðspjöllin og apókrýfu ritin kemur þessi hlið hennar í ljós. Konan sem kynslóðir túlkandi kirkjufeðra höfðu pakkað inn í gervi hinnar syndugu kemur í ljós sem ein af merkilegustu postulum Jesú. Og þegar við hugsum um sögu hennar er áhugavert að horfa til guðspjallins sem ég legg útaf í dag, um þau sem stóðu hjá krossi Jesú. Hópur fólksins sem stóð hjá krossinum hefur nefnilega oft vakið heilabrot hjá fólki, því að þar er talað um lærisveininn sem Jesús elskaði án þess að þessi lærisveinn sé nefndur. Lærisveinninn er beðinn um að taka móður Jesú að sér. Og svo segir Jesús við móður sína: “Kona, sjá nú er þessi sonur þinn.”

Í guðspjallinu segir að undir krossinum hafi staðið “móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa og María Magdalena” og síðar í versinu er talað um að þar hafi staðið lærisveinninn sem Jesús elskaði. Og þá er spurt, hversu margir tilheyrðu þessum hóp. Var kona Klópa ef til vill móðursystir Jesú? Hver er þessi lærisveinn sem Jesús elskaði? Getur það hafa verið María Magdalena sem tók að sér það hlutverk að vera sonur Maríu í stað Jesú?

Nýjatestamentisfræðingurinn Esther de Boer hefur skrifað bók um þetta efni og niðurstaða hennar er sú að ekki sé hægt að útiloka að María Magdalena sé einmitt lærisveinninn sem Jesús elskaði. Ef svo er þá hefur Jóhannes guðspjallamaður viljandi sett upp orðaleik í guðspjallinu sínu og falið Maríu þar inni.

Ég er dálítið heilluð af þeirri hugsun að lærisveinninn sem Jesús elskaði sé óræður og að í versinu felist orðaleikur. Í þeim orðaleik læðist María Magdalena inn og út úr hlutverkinu í öllum sínum gervum.

Hún er unga konan sem fylgdi eftir Jesú. Hún er konan sem nefnd var postuli postulanna. Hún er sú sem talaði af svo miklu öryggi og mælsku að lærisveinarnir báðu Jesú um að þagga niður í henni. Hún er sú sem gleymdist og fannst aftur í nýju gervi sem syndug kona og iðrandi. Og hún er sú sem fólkið leitaði uppi í Vezelay, vegna þess að María Magdalena á sér mörg framhaldslíf og margar myndir. María Magdalena er lærisveinninn sem Jesús elskaði. Ef til vill. Kannski var það hún. Kannski var það Jóhannes guðspjallamaður, kannski einhver allt annar. Og í þessu “kannski” felst óvissan sem er almenn og rótæk í því hversu altæk hún er. hver er það sem Jesús elskar mest af öllum? Er það einn, ein eða allir? Við uppfyllum öll skilyrðin til að vera lærisveinninn sem Jesús elskaði Lítil og stór, gömul og ung Postular postulanna, með mikla guðsþekkingu eða syndug eins og ein af sögum Maríu Magdalenu hermir. Kannski erum við öll einmitt lærisveinninn sem Jesús elskaði, lærisveinninn sem Jesús felur móður sína kirkjuna lærisveinninn sem Jesús treysti á og borðar með síðustu kvöldmáltíðina hvar sem einhver minnist hans.

22. júlí er dagur þegar við minnumst hermdarverka manns sem lítur á útlendinga sem ógnun og telur að hann hafi þurft að verja menningu sína fyrir öðrum þjóðum og trúarbrögðum með vopnavaldi, ofbeldi og fjöldamorðum. Í stað þess að rétta mönnum byssur eða sprengjur af krossinum, þá segir Jesús Jóhannesarguðspjalls við lærisveininn: “Nú er hún móðir þín.” Þar með er allt fólkið í kringum okkur mæður okkar, feður, systur, bræður og börn og við eigum að koma fram við þau á þann hátt sem við viljum láta koma fram við okkur.

Á fermingardegi íhugum við lærisveininn sem Jesús elskaði. Ef við fylgjum þessari túlkun, þá ert þú, kæra fermingarbarn einmitt lærisveinninn sem Jesús elskaði og leit til af krossinum. Þú ert lærisveinninn sem Jesús þekkti og dó fyrir. Þú ert sú sem hann vildi eiga kvöldmáltíð með. Þú ert sú sem hann lítur á sem barnið sitt Og bað þig að hugsa um móður sína. Nú er hún þín, kirkjan, til að annast um og gleðjast yfir.

Og sama má segja um okkur öll hin sem Kristur elskar. Við eruð kölluð til að vera lærisveinar Jesú, gera Jesú Krist að leiðtoga lífsinst treysta honum, láta orð hans hafa áhrif á líf okkar og hegðun og hugga okkur í lífi og dauða. Ef við erum öll lærisveinninn sem Jesús elskaði, þá skiptir engu máli hvors kyns við erum eða hverrar þjóðar. Óvissan er almenn og elska Jesú er altæk. Guð elskar okkur öll jafnt.

Og þess vegna er við hæfi í dag 22. júlí að minnast Maríu, sem fylgdi Jesú, var læknuð af Jesú, varð vitni að dauða Jesú og upprisu og flutti fagnaðarerindið öllum hinum lærisveinunum, Maríu Magdalenu sem er lærisveinninn sem Jesús elskaði, eða ekki. Verkefni Maríu er verkefni fylgdar, þjónustu, elsku og vitnisburðar. Það er líka verkefnið okkar í dag og alla daga, hin sístæða ferming lærisveinsins sem Jesús elskaði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.