Rjúfum þagnarmúrinn

Rjúfum þagnarmúrinn

Guðspjall: Matt. 8. 1-13 Lexia: Lexia: 5. M. 10. 17 – 21 Pistill: Rm. 12. 16 - 21

Í guðspjalli dagsins er greint frá tveimur kraftaverkum sem Jesús framkvæmdi. Í fyrra tilvikinu læknaði Jesús holdsveikan mann sem laut honum og mælti: “Herra ef þú vilt, getur þú hreinsað mig” Í síðara tilvikinu læknaði Jesú son hundraðshöfðingjans sem kom til hans og mælti: “Herra, ég er ekki verður þess að þú gangir undir þak mitt Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða”

Líkþrái maðurinn barst ekki mikið á í þessum heimi. Hann var gyðingur sem barðist við hræðilegan sjúkdóm, holdsveiki, sem olli því að enginn mátti koma nálægt honum vegna hættunnar af smiti. Það var að sönnu hræðilegt hlutskipti að vera útskúfaður úr mannlegu samfélagi með þessum hætti og þurfa að búa við félagslegar afleiðingar sjúkdómsins. Skömmina, óttann og þögnina.

Hundraðshöfðinginn átti hins vegar töluvert undir sér því að hann réð yfir 100 hermönnum og þjónaði í innrásarliði Rómverja sem sátu um landið á þessum tíma.

Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn áttu þessir tveir menn þó eitt sameiginlegt sem var auðmýkt og traust í garð Jesú sem bjargar og blessar. Þeim varð því báðum að trú sinni.

Við berumst áfram á öldu tímans sem hnígur hljóður fram um farveg sinn uns hann hverfur í aldahylinn.

Nú eru jólin að baki og ég velti því fyrir mér hvort okkur hafi öllum auðnast að gefa boðskap þeirra gaum og taka hann til okkar svo breytni okkar beri því vitni?

Íslenskt þjóðfélag byggir á kristnum kenningargrundvelli þar sem hið æðsta og fremsta boðorð er boðorðið um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Velferðarþjóðfélag okkar byggir á þessu boðorði. Stjörnvöld hafa tekið til sín skikkan skaparans að þessu leyti og leitast við að tryggja aðgengi barna og fullorðinna að þeirri þjónustu sem í boði er. Þar má t.d. telja heilsutengda þjónustu, félagsþjónustu, skóla - og öldrunarþjónustu. Breytni stjórnvalda ber því vitni um að þau hafi tekið til sín boðorðið æðsta sem við erum öll sammála um að sé mjög mikilvægt.

Það er í mörg horn að líta að hálfu ríkisvaldsins en forgangsröðunin hefur ekki alltaf verið okkur að skapi. Þess vegna er víða pottur brotinn, t.d. hvað snertir málefni barna og fullorðinna sem búa við geðraskanir. Töluverðar umræður hafa verið í fjölmiðlum á undanförnu um aðstæður fólks sem býr við geðraskanir og aðstandendur þeirra. Á aðventunni efndi fyrirtækið Lýsing til söfnunar til styrktar barna- og unglingageðdeild Landspítalans sem búið hefur við fjársvelti af hendi ríkisvaldsins þannig að langir biðlistar barna sem þarfnast þjónustu deildarinnar mynduðust. Fyrirtækið Lýsing sýndi gott fordæmi með þessum hætti og auðsýndi að fyrirtækinu er umhugað um að bæta aðstæður geðsjúkra barna og aðstandenda þeirra.

Ríkisstjórnin ákvað nýverið að verja hluta af söluandvirði Símans til að bæta aðstæður geðsjúkra. Það er vel en sú vinna hefði mátt byrja miklu fyrr. Að sögn þeirra sem til þekkja þá erum við Íslendingar áratugum á eftir nágrannalöndum okkar í margvíslegri þjónustu gagnvart geðsjúkum og aðstandendum þeirra.

Fyrir tæplega tveimur árum las ég blaðagrein í Morgunblaðinu sem íslensk kona, geðhjúkrunarfræðingur ritaði. Hún sagðist hafa starfað á Kleppsspítala en flutt erlendis og búið þar í nokkur ár. Þegar hún kom til baka til Íslands þá furðaði hún sig á þeirri staðreynd að sömu einstaklingarnir virtust enn vera búsettir á Kleppsspítala. Sú staðreynd sýndi henni fram á það að lítið hefði gerst í búsetumálum geðfatlaðra, a.m.k. í Reykjavík. Ég tel fyrir víst að enn eigi um 50 einstaklingar lögheimili á þessum spítala.

Geðlæknar hafa kvartað yfir því að þeir eru oft úrræðalausir þegar kemur að því að útskrifa þarf sjúklinga sem þurft hafa á bráðaþjónustu að halda. Búsetuúrræðin eru alltof fá og áframhaldandi samtalsmeðferð og tækifærum til einhverrar iðju áfátt. Þessu þurfum við íslendingar að breyta sem fyrst, þótt fyrr hefði verið.

Ánægjulegir hlutir eru að gerast á Akureyri um þessar mundir. Akureyrarbær hefur á undanförnum mánuðum verið að byggja nokkrar íbúðir fyrir geðfatlaða í íbúðaklasa við Vallartún sem er verið að

afhenda nýjum stoltum leigjendum um þessar mundir. Þar hafa þeir hver fyrir sig meira einkarými en þeir hafa áður vanist ásamt eldunaraðstöðu og snyrtingu í hverri íbúð. Ein íbúðin í þessum klasa er starfsmannaíbúð þar sem starfsmaður getur haft auga með íbúum og liðsinnt þeim eftir því sem við á og þeir óska. Þar er jafnfamt sameiginlegt rými fyrir alla íbúana til þess að þeir geti komið saman þegar þeim dettur í hug. Það er mikillvægt að styðja geðsjúka til sjálfshjálpar á þeirra forsendum.

Það er nefnilega þetta sem þjóðfélagið þarf að gera gagnvart fólki með geðraskanir. Það er svo mikill hraði á öllu í þjóðfélaginu og kröfurnar svo miklar að fólk með geðraskanir lendir út í vegg fyrir vikið nema vinnuveitendur og aðrir viðurkenni að fólk með geðraskanir þurfi að geta verið til á meðal þeirra á sínum forsendum sem fólk með sértækar þarfir sem þurfi að taka tillit til. Það hefur enginn einstaklingur í bata gott af því að vera iðjulaus dag frá degi hvort sem hann er heilbrigður eða ekki.

Hver er heilbrigður?

Er til einhver mælistika yfir heilbrigði? Nei. Við erum öll þræðir í fjölbreyttri litskrúðugri mannlífsflóru. Þegar við vefum þetta band saman sem við eigum öll sameiginlegt þá verður til tryggðaband. Innsti þráðurinn í þessu tryggðabandi er rauður og táknar kærleikann. Fólk með geðraskanir á mikinn kærleika til að bera rétt eins og við sem teljum okkur vera heilbrigð. Þetta fólk hefur fullan rétt á því að fá tækifæri til að blómstra mitt í mannlífsflórunni í stað þess að visna upp á stofnunum og deyja, jafnvel eitt og yfirgefið af sínu fólki eins og stundum hefur því miður gerst.

Hver er heilbrigður?

“Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru”, sagði Jesú eitt sinn við Fariseana sem gortuðu af því hvað þeir lifðu heilbrigðu lífi til líkama og sálar. Þeir forðuðust að umgangast sjúkt og lasburða fólk til þess að þeir smituðust ekki. Þannig sýndu þeir fordóma sína í verki í garð þessa fólks.

Ég held að afstaða okkar oft á tíðum gagnvart fólki með geðraskanir hafi mótast af hugsana gangi faríseanna.

Þar til fyrir tiltölulega stuttu var ekkert rætt um málefni geðsjúkra og aðstandenda þeirra í íslensku þjóðfélagi. Dagblöðin og aðrir fjölmiðlar voru fram að því fullir af stjórnmálafréttum og íþróttafréttum. Þar ríkti þögnin ein sem skar í eyru þeirra sem heimsóttu heimilin í landinu þar sem geðsjúkir voru geymdir í kjöllurum bæja og íbúðarhúsa meðan gestirnir gæddu sér á kaffi og meðlæti og ræddu um veðrið.

Sem betur fer hefur þögnin verið rofin í dag með þeirri umræðu sem farið hefur í gang, ekki síst fyrir tilstilli aðstandenda geðsjúkra sem þrýst hafa á stjórnvöld þessa lands til að láta hendur standa fram úr ermum í þessum málaflokki. Sjálfur hef ég fylgst með þessari vinnu aðstandenda af áhuga sem nú hefur skilað árangri.

Þessi vinna er rétt að hefjast vegna þess að aðstandendur þurfa ekki síður að líta í eigin barm og fá aðstoð til að vinna úr sínum málum til þess að þeir geti sem best lifað eðlilegu lífi og verið virkir þáttakendur í þjóðfélaginu með vinnuframlagi sínu, aflað sér tekna og stundað áhugamál sín.

Vissulega gera aðstandendur allt sem í þeirra valdi stendur til að gera ættingjum sínum kleift að búa hjá sér um tíma, ekki síst ef þeir glíma við geðraskanir. En slíkt sambýli getur hins vegar orðið að áþján fyrir heilbrigða ættingja og börn ef ekki er tekið á vandanum. Mér finnst að samfélaginu beri skylda til að taka á þessari áþján og lyfta byrðinni af aðstandendum. Margir aðstandendur búa við ýmsa kvilla vegna nábýlis við fólk með geðraskanir um langa hríð og búa við skömm og ótta. Það er ekki heilbrigt ástand. Á þessum vanda þarf að taka þar sem aðstandendur læra að setja sjálfum sér mörk, hinum geðsjúka og samfélaginu. Hingað og ekki lengra!. Það felst nefnilega kærleikur í því að segja nei, hingað og ekki lengra. Þá hefst bati aðstandenda. Réttar ákvarðanir fylgja þá í kjölfarið þar sem hagur allra er hafður að leiðarljósi innan fjölskyldunnar.

Á dögunum var stofnaður aðstandendahópur Geðhjálpar í Reykjavík. Hópurinn vill leggja réttindabaráttu geðsjúkra lið í baráttu þeirra fyrir bættri þjónustu við þá og aðstandendur þeirra. Hópurinn leggur áherslu á að þeir sem veikst hafa af geðsjúkdómum hafa mestu þekkingu á eigin málum. Mikilvægustu markmið hópsins eru:

Að berjast fyrir því að þeir sem þjást af geðsjúkdómum og aðstandendur þeirra njóti sömu mannréttinda og virðingar og aðrir í samfélaginu.

Að vinna gegn fordómum og vanþekkingu á geðsjúkdómum og afleiðingum þeirra. Hópurinn hyggst ná markmiðum sínum með því að berjast fyrir bestu þjónustu sem völ er á hverju sinni og endurhæfingu sem tekur mið af þörfum hvers og eins. Jafnframt hyggst hópurinn beita sér fyrir fræðslu um geðsjúkdóma og afleiðingar þeirra fyrir þá sem af þeim þjást.

Um síðustu helgi sótti ég námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðsjúkdóma á Akureyri sem Rauði krossinn stóð að í samráði við Landlæknisembættið. Fagfólk var hvatt til þess að sækja námskeiðið, þar með taldir prestar. Markmiðið með þessu námskeiði var að stofnaður verði aðstandendahópur geðsjúkra á norðurlandi og hópur fyrir þá sem glíma við geðsjúkdóma.

Við hljótum að fagna allri jákvæðri og uppbyggilegri umræðu um þennan málaflokk því að öll þekkjum við einhvern sem glímir við geðsjúkdóm. Það hefur verið haft á orði að einn af hverjum fimm íslendingum glími við þunglyndi sem er mjög alvarlegur sjúkdómur og kostar þjóðarbúið mikið í töpuðum vinnustundum. Að ógleymdum þeim erfiðleikum sem aðstandendur þurfa að glíma við. Við þurfum að lyfta grettistaki að þessu leyti til að létta undir með þeim sem ekki megna að halda sér á floti á öldu tímans sem hnígur hljóður fram um farveg sinn.

Ég minntist á hörmulegt hlutskipti líkþráa mannsins í upphafi máls míns þar sem þagnarmúr skammar og ótta hafði risið umhverfis hann. Við megum til að rífa alveg niður þennan sama þagnarmúr sem umlukt hefur geðsjúka í íslensku þjóðfélagi. Við getum gert það með sameiginlegu átaki allra landsmanna, geðsjúkum og aðstandendum þeirra til heilla og gæfu.

Guð gefi okkur til þess auðmjúkt hjarta sem treystir Jesú Kristi sem líknar þeim sem þjást og stríða. Já megi hann nota allt sem prýðir okkur til að við getum búið sem best í haginn fyrir geðsjúka og aðstandendur í þessu landi náttmyrkranna þegar skammdegisþunglyndið er stundum rétt handan við hornið. Amen.