Fríkirkjuprestur á villigötum

Fríkirkjuprestur á villigötum

Í hátíðarriti vegna 110 ára afmælis Fríkirkjunnar í Reykjavík, sem fylgdi Fréttablaðinu í síðustu viku, er svo dæmalaus ritsmíð eftir fríkirkjuprestinn séra Hjört Magna Jóhannsson að skugga bregður ekki einasta yfir ritið sjálft heldur einnig hið góða og gjöfula starf fríkirkjusafnaðarins við Tjörnina um langt árabil.
fullname - andlitsmynd Pétur Kristján Hafstein
27. nóvember 2009

Í hátíðarriti vegna 110 ára afmælis Fríkirkjunnar í Reykjavík, sem fylgdi Fréttablaðinu í síðustu viku, er svo dæmalaus ritsmíð eftir fríkirkjuprestinn séra Hjört Magna Jóhannsson að skugga bregður ekki einasta yfir ritið sjálft heldur einnig hið góða og gjöfula starf fríkirkjusafnaðarins við Tjörnina um langt árabil. Í þessari grein, Guð forði okkur frá nýjum milljarða þjóðkirkjulögum, eru þvílíkar dylgjur, rangfærslur og vísvitandi blekkingar að ekki verður hjá því komist að andmæla og minna á þau orð Ara fróða að skylt sé að hafa það heldur er sannara reynist. Þó er rétt að minnast þess að Fríkirkjan í Reykjavík hefur mörgu góðu til leiðar komið og leitt af sér margvíslega blessun og raunar hafa fríkirkjusöfnuðurinn og þjóðkirkjan oft og tíðum átt náin og góð samskipti, einkum á árum áður.

Áður en lengra er haldið er rétt að halda því til haga að þjóðkirkjan íslenska á sér sterkar rætur í kirkjusögu landsins. Hér var kirkja og kristni nánast frá upphafi Íslandsbyggðar og siðbreyting um miðja 16. öld kollvarpaði ekki þeim grunni, sem kristinn dómur í landinu byggðist á. Þau þáttaskil urðu hins vegar árið 1874 að Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá þar sem bæði var kveðið á um trúfelsi, sem ekki þekktist áður, og hugtakið þjóðkirkja var löghelgað. Þarna var í fyrsta skipti sagt í lögum að hin evangeliska lúterska kirkja skyldi vera þjóðkirkja á Íslandi og skyldi ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Þessi skipan stendur enn þótt straumhvörf hafi orðið í innri málefnum þjóðkirkjunnar í átt til aukins sjálfræðis og sjálfsstjórnar. Sú þróun og stjórnarskrárákvæðið sjálft undirstrika það rækilega að þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja heldur sjálfstæð stofnun, sjálfstæður réttaraðili sem ber réttindi og skyldur að lögum. Öðrum aðila, íslenska ríkinu, er falið að styðja og vernda kirkjuna eða með öðrum orðum gera henni kleift að gegna stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu sem þjóðkirkja á Íslandi. Það hefur ríkisvaldið einkum gert í seinni tíð með rammalöggjöf um þjóðkirkjuna, nú lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem kirkjan hefur svo unnið úr og mótað sitt kirkjulega starf og sjálfstæði á þeim grunni, sem þar er lagður.

Þeir sem stóðu að stofnun Fríkirkjunnar í Reykjavík í lok 19. aldar yfirgáfu þjóðkirkjuna, starfsumhverfi hennar og réttargrundvöll af fúsum og frjálsum vilja þótt hinn kenningarlegi grundvöllur beggja hafi áfram verið evangelisk lúterskur. Þeir vildu halda frá borði, róa á ný mið. Þeir tóku þá einlægu ákvörðun að yfirgefa trúfélagið þjóðkirkju Íslands og stofna til annars trúfélags, Fríkirkjunnar í Reykjavík. Það var þeim að sjálfsögðu heimilt að gera enda er félagafrelsi varið í stjórnarskránni ekki síður en trúfrelsið. Það verður hins vegar ekki bæði sleppt og haldið. Sá sem yfirgefur félag á það við samvisku sína eina en hann getur ekki um leið gert kröfu til þess að mega hverfa á brott með hluta af eignum félagsins, jafnvel ekki þótt hann stofni um leið annað samkynja félag. Þetta ætti öllum að vera ljóst. Allt tal fríkirkjuprestsins um að þjóðkirkjan sé „alls ekki einkaerfingi hins kirkjusögulega arfs Íslendinga“ er út í hött. Málið snýst einfaldlega ekki um erfðir og arfskipti.

Séra Hjörtur Magni Jóhannsson lætur sér sæma að staðhæfa að núgildandi þjóðkirkjulög frá 1997 séu „í anda gömlu einkavæðingarinnar og nýfrjálshyggjunnar sem stefndu öllu hér í sundrung og kreppu.“ Engin vitræn tilraun er þó gerð til að finna þessum orðum stað enda verður lýðskrum af þessu tagi ekki réttlætt með rökum. Alþingi samþykkti þessi lög að undangengnu svonefndu kirkjujarðasamkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 þar sem þjóðkirkjan afsalaði ríkinu eignarrétti sínum á þeim kirkjujörðum og kirkjueignum, sem ríkissjóður hafði tekið við 90 árum áður eða 1907. Það er rangt hjá fríkirkjuprestinum og sett fram án nokkurra raka að mikil óvissa hafi ríkt um það við samningsgerðina hvort þjóðkirkjan hafi í raun og veru verið sjálfstæður eignaraðili þeirra kirkjueigna, sem um var samið að ríkið fengi í sínar hendur. Á móti þessum miklu verðmætum til ríkisins var svo kveðið á um það framtíðargagngjald af þess hálfu að ríkissjóður myndi m.a. greiða tilteknum fjölda starfsmanna þjóðkirkjunnar laun um ókomin ár. Efnisatriði þessa samnings voru lögfest í þjóðkirkjulögunum 1997 og þau marka vissulega réttarstöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu og þá gildir einu hvort 62. gr. stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna og stuðning ríkisvaldsins við hana heldur gildi sínu eða yrði felld brott. Samninga ber að efna í réttarríki og það hefur ríkisvaldið viðurkennt með ótvíræðum hætti í nýgerðum samningi við þjóðkirkjuna 10. nóvember 2009, sem kirkjuþing hefur staðfest. Þar tók þjóðkirkjan á sig 169 milljón króna skerðingu á árinu 2010 á framlögum úr ríkissjóði samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu 1997. Þetta var gert vegna hins alvarlega efnahagsástands í þjóðfélaginu um þessar mundir, sem þjóðkirkjan vill fyrir sitt leyti taka þátt í að bæta eftir því sem hún megnar. Samningurinn staðfestir um leið þann skilning, sem verið hefur ríkjandi um fjárhagslega stöðu kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu.

Kirkjuþing samþykkti haustið 2008 að beina því til Alþingis að samþykkja frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga, sem fríkirkjupresturinn biður nú Guð að forða okkur frá vegna þeirra milljarða, sem samþykkt þess muni hafa í för með sér. Hér er mjög hallað réttu máli. Þetta frumvarp felur fyrst og fremst í sér einföldun og undirstrikun sjálfstæðis þjóðkirkjunnar með flutningi ábyrgðar og ákvarðana um innri málefni hennar í enn ríkara mæli til kirkjuþings en þó hefur verið. Það er óyggjandi að samþykkt þessa frumvarps myndi ekki hafa í för með sér kostnaðaraukningu úr ríkissjóði um eina einustu krónu. Frá fjárhagslegu sjónarmiði felur það einvörðungu í sér staðfestingu á þeirri stöðu í sambandi ríkis og kirkju, sem um var samið 1997 og lögfest var með núgildandi þjóðkirkjulögum. Orsaka þess að þetta frumvarp hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi er fyrst og fremst að leita til þeirra sérstöku aðstæðna í samfélagi okkar, sem sköpuðust við efnahagshrunið fyrir ári síðan og hafa kallað á alla starfskrafta ríkisstjórnar og Alþingis. Kirkjuþing áréttaði fyrir nokkrum dögum að þetta frumvarp fengi eðlilegan framgang á Alþingi og verður að vænta að úr því verði fyrr en síðar.

Séra Hjörtur Magni Jóhannsson segir fullum fetum að í „þjóðkirkjulögum og samningnum er ríkisrekin trúmálastofnun skilgreind sem „hin eina sanna Kirkja“, útvalin einkaerfingi trúarlegs milljaraðaarfs allra landsmanna í þúsund ár, einskonar ímynd og staðgengill Krists á jörðu.“ Það er vissulega vandséð með hvaða gleraugum guðsmaðurinn les þjóðkirkjulögin og kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 en ekkert af þessu kemur þar fram og þó eru gæsalappir notaðar til að undirstrika sannleiksgildi staðhæfingarinnar. Önnur rangfærsla birtist í því að með þjóðkirkjulögunum hafi valdið „verið fært til eins biskups sem stýrir kirkjuþingi og í raun flest öllu sem gerist innan hinnar ríkisreknu stofnunar.“ Eins og ég gerði grein fyrir í upphafi er það langt í frá haldbær kenning að þjóðkirkjan sé ríkisrekin stofnun eins og málefnum hennar er nú háttað. Staðhæfingin um kirkjuþingið er ámóta fjarstæð. Kirkjuþing var sett á laggirnar fyrir rúmum 50 árum og vissulega var biskup Íslands þar lengst af í forsæti. Því var hins vegar breytt með þjóðkirkjulögunum 1997 og frá þeim tíma hefur forseti kirkjuþings komið úr hópi leikmanna, sem nú eru jafnframt í meirihluta á þinginu, 17 á móti 12 vígðum mönnum. Jafnframt eiga biskup Íslands, vígslubiskupar, ráðherra kirkjumála, fulltrúi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og fulltrúi kirkjuþings unga fólksins rétt til setu á kirkjuþingi með málfrelsi og tillögurétti. Séra Hjörtur Magni þyrfti ekki nema að fylgjast með svo sem einu kirkjuþingi til að sjá að fullyrðing hans er ekki aðeins formlega röng heldur einnig efnislega.

Margt fleira er missagt í fræðum þessa fríkirkjuprests en ekki er rúm til að elta ólar við það allt. Miklu nær væri að minnast þess og hlúa að því, sem sameinar kristna menn á Íslandi fremur en sundrar. Fríkirkjan í Reykjavík ætti að nota hugarorku sína og starfskrafta til annars nýtilegra en leita óvina þar sem enga óvini er að finna.