Móðurástin

Móðurástin

Þetta samtal milli konunnar og Jesú sýnir hversu máttug bænin getur verið, hann heyrði hreinan takt hjarta hennar og hann heyrir trúartakt okkar einnig. Bænalíf er lífsmáti þar sem við leitumst við að móta líf okkar svo að það verði umvafið trú, von og kærleika.

Ímyndum okkur að við sjáum tvíbura í móðurkviði þar sem þeir eru að spjalla saman í mjúku og fljótandi umhverfi. Annar bróðirinn spyr hinn: “Heyrðu bróðir heldurðu að það sé líf eftir fæðingu? Trúirðu á mömmu? Hinn svarar: Nei, ég trúi ekki á svoleiðis hluti, ég er trúleysingi, hefurðu nokkurn tíman séð mömmu? Þetta er mjög skemmtileg mynd með skírskotun í þann veruleika sem við búum við, en það hefði verið gaman að sjá framan í barnið þegar það fæddist og sá mömmu sína í fyrsta skipti knúsa sig og kyssa af skilyrðislausri ást og elsku sem við köllum móðurást.

Það var kanversk móðir sem leitaði til Jesú, en hún vissi um störf Jesú af afspurn að hann hefði hjálpað mörgum og var það hennar einlæga ósk að Jesús gæti komið dóttur hennar aftur til heilsu. Á þessum tíma var ekki gott að verða lasin því það voru ekki mörg úrræði til hjálpar. Eins og segir í Matteusarguðspjalli, kallar konan til Jesú sem var á ferðlagi um héruðin þar sem hún var búsett, og bað hann um miskunn Drottins vegna þess að dóttir hennar var mjög kvalin af illum anda. Jesús og lærisveinar hans litu á þessa konu sem útlending og Jesús svarar henni ekki. Þegar hann svarar henni ekki, má ætla að hún hafi spurt sjálfa sig hvort þetta væri ekki sá hinn sami mannvinur og hún hafði heyrt af og að hefði hjálpað fólki. Lærisveinarnir ókyrruðust og skildu ekki af hverju hann svaraði henni engu. Fyrst Jesús gerði ekkert fyrir konuna þá var bara ónæði af henni, og þeir sögðu við hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” Þá loks svaraði Jesús henni að hann hefði ekki verið sendur til að hjálpar öðrum en týndum sauðum Ísraelsættar sem voru Gyðingar þess tíma.

Konan laut að fótum hans og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“

Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ (Matt 15.25-26) Með þessum orðum sýnir Jesús henni hroka og í raun kaldlyndi. Við trúum því að Jesús var í raun maður, en má hann birtast okkur svona mannlegur? Matteus guðspjallamaður skrifar þessa frásögn án þess að laga þessa hráu manneskjulegu mynd sem við sjáum birtast þarna eða til að vekja hjá okkur hughrif um Jesú.

En vegna móðurástar sinnar rökræðir kanverska konan við Jesú, þar sem líf dóttur hennar er í húfi. Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ (Matt 15.27)

Þessi orðaskipti útskýra hvers vegna Matteus setur þessa frásögn milli tveggja mettunarsagna. Í lok þessa kafla er síðari mettunarsagan sögð þar sem sjö körfur eru afgangs af mat. Talan sjö er tákn um heilbrigði, fullkomleika og lífshrynjandan. Konan kennir Jesú að hún og dóttir hennar eru engar afgangsstærðir og áttu skilið meira en molana sem féllu af borðunum.

Honum til undrunar sér hann að trú þessarar konu er mikil og hann upplifir opinberun Guðs af meiri visku og kærleik. ----- Hvað kennir þessi saga af kanversku konunni okkur? Fyrst hún gat breytt afstöðu Jesú gagnvart sér, höfum við þá ekki tækifæri til að breyta afstöðu okkar gagnvart öðrum?

Hver og einn á það til að sjá sumt fólk sem “hina” og þessir “hinir” eru settir undir borð til að tína upp molana. Kannski viljum við haga okkur eins og lærisveinarnir og senda þessa “hina” í burtu, af því við teljum þá hafa vond áhrif á líf okkar og við viljum ekkert með þá hafa.

Er þá ekki gott að staldra aðeins við og reyna að setja okkur í spor þeirra sem við mætum. Því þegar líða tók á samtalið á milli Jesú og kanversku konunnar þá brotnuðu veggir fordóma og hann sá hana í öðru ljósi þegar hann horfði framhjá klæðaburði hennar og uppruna. Hann breytti lífsviðhorfum sínum vegna orðaskipta þeirra. Ættum við ekki að vera fús og viljug að læra eins og Jesús gerði og taka þessa “hina” með inn í hringiðju lífsins. Meðtaka “hina” eins og þeir eru og fagna því að lífið er litskrúðugt og fjölbreytt. ----- Af hverju brást Jesús svona illa við í fyrstu þegar kanverska konan bað hann um hjálp? Það má vera að hann hafi verið að meta hversu staðföst í trú sinni konan var, eða kannski var Matteus guðspjallamaður í raun að segja okkur frá manneskjunni Jesú og að afstaða hans til annarra en Gyðinga hafi ekki verið fullmótuð á þessum tíma.

Móðurást konunnar aftur á móti kemur skýrt fram í þessum texta. Jesús ber hana saman við hunda sem næla sér í mola er falla af borðum húsbænda sinna, hann gerir lítið úr henni, en hún hrökklast ekki í burtu og gefst upp. Hennar heitasta ósk er að dóttir hennar verði heil á ný og hún hugsar eingöngu um hag dóttur sinnar. Hún hugsar algjörlega út fyrir sjálfa sig og setur þarfir dóttur sinnar í forgrunn. Þessi bæn, staðfesta og seigla konunnar verður til þess að Jesús skynjar kraftinn í trú hennar og verður við ósk hennar. Er hann segir: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ (Matt 15.28) Með þessum orðum verður dóttir hennar heil og það hefur skiljanlega veitt konunni ómetanlega hamingju. Þetta samtal milli konunnar og Jesú sýnir hversu máttug bænin getur verið, hann heyrði hreinan takt hjarta hennar og hann heyrir trúartakt okkar einnig. Bænalíf er lífsmáti þar sem við leitumst við að móta líf okkar svo að það verði umvafið trú, von og kærleika. Í þeirri trú geta kraftaverk gerst innra með manni. Breyting frá vantrú og ótta til sálarfriðar. Frá angistarfullri vanlíðan til kærleika, vináttu og umhyggju fyrir öðrum. Það hefur ekki í för með sér lausn frá erfiðleikum og raunum lífsins, heldur það að eiga mitt í öllu athvarf í ríki kærleikans. Eins og móðir tvíburanna í sögunni hér að ofan þá elskar Guð okkur eins og móðir. Ást Guðs á okkur er hin sterka móðurást sem umvefur okkur hlýju og gefur okkur kjark. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.