Ísland fyrir hvaða Íslendinga?

Ísland fyrir hvaða Íslendinga?

Stöldrum aðeins við og tökum smá æfingu í sameiningu. Við biðjum þig að standa í miðjum hópnum, við hin stöndum í stórum hring allt í kring um þig. Í hvert sinn sem einhver á leið framhjá (við erum á fjölförnum stað) bendum við hin öll á þig og hrópum: „Þú ert vandamál.“

Við mannfólkið eigum það til að hafa hátt, gusugangurinn í okkur getur verið slíkur að við fælum alla frá okkur, bæði þá sem eru lítið tengdir okkur og við þekkjum ekki sem og hina sem standa okkur nær og eru okkur sérstaklega kærir. Oft vöðum við áfram í átt að markmiði sem leynist í þoku framundan en hraðinn á okkur er slíkur að við gætum þess ekki hvar við stígum niður. Ég veit ekki með þig. En ég er svona týpa og mér þykir leitt þegar ég hef eina ferðina enn fælt fólk frá mér og vaðið yfir aðra á leið minni um samfélagið.

Á síðustu misserum höfum við, allstór hópur fólks, tekið okkur til og bloggað, skrifað í blöð og jafnvel bækur, talað í útvarpi og sjónvarpi og tjáð hug okkar með ýmsu öðru móti um einn þjóðfélagshóp umfram aðra. Við höfum nefnt þessa einstaklinga ,,þetta fólk”, ,,útlendinga”, ,,innflytjendur”, ,,nýbúa” og ,,farandverkafólk” svo nokkur dæmi séu nefnd. Og mörg okkar, allt of mörg okkar, hafa fallið í þá gryfju að halda að ,,lausnin á vandamálinu” sé fundin. Getur verið að við önum hér enn eina ferðina áfram með slíkum bægslagangi að við fælum sumt fólk frá okkur og vöðum yfir hina?

Stöldrum aðeins við og tökum smá æfingu í sameiningu. Æfingin gæti farið fram einhvern næstu daga þar sem við hittumst á fjölförnum stað. Þú ert sjálfboðaliðinn. Við biðjum þig að standa í miðjum hópnum, við hin stöndum í stórum hring allt í kring um þig. Í hvert sinn sem einhver á leið framhjá (við erum á fjölförnum stað) bendum við hin öll á þig og hrópum: ,,Þú ert vandamál.” Þetta endurtökum við hundrað, jafnvel þúsund sinnum. Í þessum stutta pistli þarf ég ekki að fara nánar út í það hvernig þér líður eftir að hafa tekið þátt í þessari æfingu. Og sjálfsagt fussar margur lesandinn og bendir réttilega á að ég er ekki að segja neitt nýtt. Og það er alveg rétt, ég er ekki að segja neitt nýtt. Þetta er engin frétt! En samt, samt virðist sem við þurfum öll að staldra við og hlusta. Það sem ég myndi vilja heyra aðra segja um mig þegar bent er á mig er: ,,Sjáðu, þetta er manneskja.” Engin manneskja er vandamál!

Okkur öllum er engu að síður vandi á höndum því við höfum ekki æft okkur í fjölmenningarfærni. En nú reynir á að við tökum okkur saman í andlitinu og tökum ákvörðun um fyrir hvaða Íslendinga Ísland er! Ég vil persónulega að við tökum skrefið til fulls og bjóðum hvern þann velkominn til landsins sem hefur tök á því að flytjast hingað. Og hingað kominn er hann jafn fullgildur meðlimur í samfélaginu eins og hver annar, manneskja mitt í fólksmergðinni. Til þess að það sé hægt þurfum við að sjálfsögðu að skapa forsendur fyrir slíkt samfélag og höfum við þegar tekið góð skref í þá átt. Og hér gildir að vanda til verksins og fara að engu óðslega þannig að til verði samfélag þar sem hver sá sem hér býr sé Íslendingur.

Býr Íslendingur hér? var eitt sinn spurt. Ef spurt er á Íslandi í dag á svarið að vera já. Við þurfum að taka höndum saman þannig að öllu líði vel á þessari litlu eyju okkar norður við heimskautsbaug. Nóg er myrkrið og kuldinn þó svo að við manneskjurnar aukum hann ekki. Vandinn er að koma jafnt fram við alla, hlusta á allar raddir og reyna að fæla engan frá né vaða yfir nokkurn mann. Ísland á að vera opið hverjum þeim sem hér vill búa. Gleðjumst yfir því að okkur fjölgar og tökum höndum saman um uppbyggingu samfélagsins.

Jamm segir djákninn á Glerá.