Á áramótum

Á áramótum

Eflaust vildum við öll gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga jörðinni, - nema þá að breyta lífsháttum okkar. Það er nú meinið. Hvað fær okkur líka til þess ef ekkert viðmið er æðra og meira en það sem hentar mér, sem ég get hagnast á eða sloppið billegast frá?

Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni! Velkomið, Herrans ár 2008, sælt og blessað veri það og allt sem það færir að höndum. Drottins Jesú ljós og andi leiði og blessi land og lýð og okkur hvert og eitt.

Í ljóðabók sinni, „Fyrir kvölddyrum,“ lýsir Hannes Pétursson, skáld, einkar vel tilfinning manns við áramót og dregur upp sterka mynd: „Sá friður sem við þráum festir ekki rætur í heiminum.

Sviði úrræðaleysis smýgur inn í smæstu bein okkar, því að

enn fossa tímarnir fram af hvassri brún: flyksur blóðs og vopna.“ Á áramótum er sem við nemum staðar andartak og störum í straumfall tímanna sem fossa fram og hrífa allt með sér.  En við megum líta það í birtu helgra jóla, við eilífðarlagið og gleðisönginn. Sú birta og þau boð sem jólin bera heiminum öllum, er birta og boðskapur vonarinnar, andspænis fossaföllum tímanna og sviða úrræðaleysins. * Í jólapökkum margra um þessi jól var Biblían, hin nýja og fagra útgáfa bókarinnar helgu, Biblíu 21.aldar. Hin nýja útgáfa hefur vakið umtal og gagnrýni. Er það vel, Biblían á það skilið, og allt orkar tvímælis þegar leitast er við að umorða fornhelga texta. Biblían þolir líka að hún sé brotin til mergjar, já, og sett undir smásjá vísindanna. Þeim er reyndar ætlað að efast um allt og leita svara út frá sínum forsendum. Fræðimennska sem ekki er  gagnrýnin er gagnslaus, best er þó þegar hún er gagnrýnin á eigin árangur og forsendur. Raunvísindin eru mesta andlega afrek Vesturlanda, ásamt lýðræðinu. Boðskapur Biblíunnar, von og trú, guðsmynd, mannsskilningur og samfélagssýn, við birtu jólanna og ljóma páskanna og sólglit hvítasunnunnar, hann hefur verið sú deigla og áhrifahvati sem gerði þau afrek yfirhöfuð möguleg. Biblían er lifandi orð á mannamáli í umhverfi mannlegrar reynslu og sögu. Mestu varðar að hlusta eftir röddinni sem býr að baki orðum og frásögnum Biblíunnar. Sú rödd er einatt lágmælt og mild í skarkala heimsins. Varnalaus eins og lítið barn.  Biblían er eins og jatan, sem Jesúbarnið var lagt í. Við komum ekki þar að til að skrúfa jötuna sundur, skoða efniviðinn, samsetninguna, fóðurgildi töðunnar og hálmsins sem í jötunni er, -þótt það geti út af fyrir sig verið áhugavert- heldur til að sjá barnið og lúta því, barninu sem þar hvílir og brosir við okkur og biður okkur að gefa sér skjól. Þannig er Biblían. Jesús Kristur er orðið sem varð hold, hið eilífa orð holdi klætt, mannlífi, mannamáli, mannlegri reynslu. Allur boðskapur Biblíunnar bendir fram til hans. Í ljósi hans megum við lesa og túlka og leita leiðsagnar um líf og breytni, og sjá  í honum, í jötunni hans lágu og krossinum á Golgata, og gröfinni tómu, mynstur og merkingu lífs og heims. Og hann helgar lífið allt, mannlíf, sköpun, náttúru, allt. Og við erum hvött til að leitast við að láta orðið verða hold í okkur, birtast í okkar lífi, gildismati, draumum og vonum,  viðmóti og breytni. Í niðurlagi jólaguðspjallsins er sagt um Maríu, Guðs móður, að „hún geymdi allt þetta og hugleiddi það.“ Gerðu eins og María, leggðu orðið þér á hjarta, hugleið það í kærleika, leitastu við að lifa eftir innsæi þínu, trú og skynsemi, von og kærleika. Þá er Biblían  þér gluggi inn í himin Guðs. Og hann heldur styrkri hendi um heiminn, fossaföll tímanna, og tár og sviða sinna barna. 

Í einni af mestu skáldsögum 20. aldar, Dr.Sívagó eftir Boris Pasternak, segir hann: „Allt sem okkur er mikilvægast er okkur gefið í guðspjöllunum...Fyrst, náungakærleikurinn – æðsta form lífsaflsins. Jafnskjótt sem það fyllir hjarta manns hlýtur það að fljóta yfir og gefa af sér til góðs. Og í öðru lagi, þau tvö hugtök sem eru meginþættir í mannskilningi nútímamannsins, - og án þeirra væri hann óskiljanlegur – það er hugmyndin um frelsi einstaklingsins, og um lífið sem fórn.“  Hann er að tala um kristið siðgæði. Kristið siðgæði. Söguna skrifaði Pasternak mitt í martröð Stalínismans. Enn og aftur snýr söguhetjan aftur til sjónsviðs hinnar kristnu lífssýnar, sem veitir honum þrek og þrótt til að standa gegn áþján alræðisins. Hin kristna frásögn var uppspretta undrunar, vonar og  kjarks. Með fæðing frelsarans urðu vatnaskil, segir Pasternak: „Eitthvað hafði breyst í veröldinni... Saga manns varð saga Guðs og fyllti alheiminn.“  Engin stefnumörkun hefur reynst mannkyni betur en sú sem hann setti fram, meistarinn, sem fæddist í Betlehem, Kristur Jesús. Hann setur ekki aðeins fram boð og viðmið, heldur lækning miskunnseminnar, umhyggjunnar og fyrirgefningarinnar sem er grundvöllur frelsis og friðar.

* Í Gamlatestamentinu eru fögur og áleitin fyrirheit og framtíðarsýn um það sem verður þegar áhrif barnsins frá Betlehem, friðarhöfðingjans, ná yfirhöndinni:„Drottinn mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Þessi orð Jesaja spámanns eru letruð á vegg aðalstöðva Sameinuðu þjóðanna í New York. Nú finnst manni sem það sé að rætast hér suður á Keflavíkurflugvelli þar sem herstöð er að ummyndast í háskólasamfélag. Það gefur vonir fyrir íslenskt samfélag, og er tákn og áminning til heimsins alls, þar sem hermdarverk og illvirki ráða allt of víða ferðinni, friðurinn er á flótta, og „flyksur blóðs og vopna“ lita fossaföll tímanna. En það er þó von. Hér og þar má sjá vott þess. Mér var hugsað til þess er ég las nýverið frásögn af því hvernig eldflaugabyrgjum var breytt í kirkjur. Það var um það bil er Sovétríkin liðu undir lok að söfnuður kristinna manna í borg einni í Hvítarússlandi fékk eftir margra ára þrautagöngu um kerfið leyfi yfirvalda til að reisa sér kirkju.   Vegna skorts á byggingarefni sýndu yfirvöld óvænt örlæti. Þau buðu söfnuðinum að rífa herbúðir og eldflaugabyrgi í héraðinu og nýta múrsteinana til kirkjubyggingarinnar. Þegar hafist var handa uppgötvuðu menn sprengjuhylki í einum veggnum. Því hafði verið komið þarna fyrir þegar þessi mannvirki óttans og ógnarinnar voru reist hálfri öld fyrr. Í hylkinu var svo hljóðandi bréf: „Þessir múrsteinar koma úr kaþólskum og orþódox helgidómum sem voru brotnir niður. Verði herstöðin nokkurn tíma rifin biðjum við þess að múrsteinarnir verði aftur notaðir til að reisa kirkjur.“ Kirkjurnar sem nefndar voru höfðu verið rifnar undir ógnarstjórn Stalíns. Þá skyldi endanlega gengið milli bols og höfuðs á trú og kirkju í nafni sögulegrar nauðsynar, nútíma þekkingar og vísindalegrar efnishyggju, sem nú skyldi móta þjóðfélagið allt. Í andrúmslofti þeirra tíma var slík ósk sem sett var fram í bréfinu  fráleit, hlægileg og barnaleg, já og refsiverð. En eins og sagt er þá malar kvörn Guðs hægt en örugglega, og hann nær fram markmiðum sínum um frið á jörðu og í hjörtum mannanna.   Kristin trú stendur djúpum rótum í íslenskri þjóðarsál og samfélagi. Enn lítur fólk til kirkjunnar á stórum stundum lífs síns. Enn býr Guð sér helgidóm í hjörtum þeirra sem ljúka upp fyrir ljósi hans og anda og leggja fagnaðarerindi hans sér að hjarta. 

* Sameinuðu þjóðirnar hafa nefnt árið 2008 alþjóðaár tungumálsins, til að stuðla að auknum skilningi milli þjóða og styðja við tungumál sem eru í útrýmingarhættu. Mikilvægt umhugsunarefni okkur Íslendingum, sem megum vera svo stolt af tungu okkar og samhengi hennar. Í því sambandi skal minnt á að á þessu ári eru liðnar átta aldir frá dauða Kolbeins Tumasonar, en hann lést hinn 8. september 1208 af sárum þeim er hann hlaut í Víðinesbardaga. Sálmur hans, „Heyr, himna smiður,“ er eitthvert fegursta trúarljóð bókmenntanna, og hér verður sunginn á eftir. Það er elsti sálmur á Norðurlöndum, og einhver yndislegasti og vinsælasti sálmur íslensku kirkjunnar, sunginn í guðsþjónustum, við útfarir, og hverskyns helgihald hér á landi árið um kring. Er það ekki ótrúlegt, og undursamlegt, að við skulum syngja áttahundruð ára gamlan sálm okkur til gleði og uppbyggingar? Það er efalaust elsti sálmur sem sunginn er með óbreyttum texta á lifandi tungumáli í heiminum! Öll, ung sem og gömul, getum við sagt, og beðið með Kolbeini þótt átta aldir skilji að: Gæt, mildingur, mín,   mest þurfum þín   helst hverja stund   á hölda grund.   Set, meyjar mögur,   máls efni fögur,   öll er hjálp af þér,   í hjarta mér.

- Þvílíkur fjársjóður er það sem við eigum í íslenskri tungu! Enga orkulind eigum við öflugri, enga auðsuppsprettu dýrmætari. Og hvílík ábyrgð sem á okkur hvílir að sjá til þess að þessi arfur glatist ekki heldur ávaxtist með uppvaxandi kynslóð í landinu. Sjáum til þess að börnin læri ljóðin, og sálmana, sögurnar og söngvana sem leggja þeim orð á tungu og hjörtu, orðin sem tjá íslenska hugsun og íslenska reynslu og íslenska von og trú. Og gætum að af hvaða rótum þetta er nú sprottið.      * Hvaða grunngildum viljum við byggja á og greiða veg í menningu og samfélagi? Sú mikilvæga spurning hefur góðu heilli verið talsvert rædd undanfarið. Mér virðist sem við séum flest  sammála um að vilja byggja á umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræði, umhyggju, og virðingu fyrir manngildi, eins og sett er fram í markmiðsgrein frumvarps til nýrra laga um skólana. Þetta eru góð og eftirsóknarverð verðmæti sem við viljum lifa eftir og láta móta samfélag okkar, uppeldi, menntun og menningu. En þau eru ekki sjálfsprottin af einhverri sögulegri nauðsyn eða þróun. Þau spretta úr jarðvegi trúar og siðar. Þeim hefur hingað til verið miðlað með hinum þjóðlega, kristna, húmaníska menningararfi sem hér hefur ávaxtast kynslóð eftir kynslóð og kristin kirkja hefur nært og frjóvgað. Siðurinn, sem tengir kynslóðir, einstaklinga, fjölskyldur og gefur lífi þeirra andlega merkingu, vitund fyrir samhengi sem er æðra og stærra, sem tók við okkur þegar við litum dagsins ljós og mun bera okkur út þegar lífsleið lýkur.  PISA könnunin sýnir fram á að lesskilningi sé ábótavant hjá íslenskum grunnskólabörnum. Það er alvarlegt ef börnin okkar rofna úr tengslum við þjóðararfinn, bókmenntir okkar og ljóð. Því skal ítreka hve háskasamt það er ef kynslóðir vaxa úr grasi skilningsvana og ólæsar á þann grundvallarþátt menningar og samfélags sem trúin er og siðurinn. Það er brýnt að stórefla þátt kristinfræði í skólunum, jafnframt aukinni fræðslu í almennum trúarbragðafræðum.

Nú munu flestir orðnir sammála um að gróðurhúsaáhrifin og hlýnun andrúmsloftsins ógni lífi og framtíð, ragnarök af mannavöldum. Biblíusögurnar um syndafallið, Nóaflóðið og dómsdag fá athygliverða samsvörun í orðræðu vísindamanna og stjórnmálamanna dagsins. Hverju eigum við að trúa, hvernig eigum við að breyta og hvers megum við vona? Það er eins og við séum öll meir og minna háð túlkunarkerfum óttans og tortryggninnar í samtíðinni. Sviði úrræðaleysisins smýgur inn í smæstu bein okkar. Eflaust vildum við öll gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga jörðinni, - nema þá að breyta lífsháttum okkar. Það er nú meinið. Hvað fær okkur líka til þess ef ekkert viðmið er æðra og meira en það sem hentar mér, sem ég get hagnast á eða sloppið billegast frá? Ef ekki er um að ræða neina siðferðislega ábyrgð gagnvart því samhengi sem er manni æðra? Það er alveg áreiðanlegt að ef mælikvarði þess hvað er gott, satt, rétt og heilt er aðeins fólginn í niðurstöðum skoðanakannana eða samsinni við þann sem hæst lætur og best borgar, þá tekur uppblásturinn við, þá er framtíð lífsins fyrst í voða, þá er fokið í skjólin fyrir hið varnalausa og snauða.  Tökum eftir því að hinar fornu sögur og túlkunarlyklar Biblíunnar boða VON, vegna þess að framtíðin, lausnin, hjálpræðið er í hendi Guðs, hins góða Guðs, sem er að verki til að bjarga, frelsa líf og heim og kallar á þig og mig til fylgdar. „Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi hans er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár.“ syngjum við á áramótum. Og biðjum „...í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.“ Svona tekur móðir okkar kirkjan sér við hönd, leggur okkur orð á tungu sem beina hugar og sálarsjónum til birtu vonar og lífsþróttar.

Hinn óþægilegi sannleikur sem við blasir heiminum öllum er að við þurfum öll að gera iðrun, snúa við af óheillabraut. Við þurfum öll að leggja okkar að mörkum til varnar lífinu. Og taka höndum saman um að rækta og móta viðhorf og menningu hófsemi, virðingar, vonar og trausts til að friðurinn sem við þráum festi rætur í heiminum.

Barnið í jötunni, frelsarinn krossfesti og upprisni, réttir okkur hönd sína á morgni ársins nýja. „Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða“ segir hann. Trúum á hann, treystum honum. Leyfum orðinu hans að festa rætur í hjörtum okkar og bera ávöxt í lífi okkar og endurskapa þennan heim. Það er hans þrá og von. Megi hún rætast á okkur.