Mitt á milli uppstigningardags og hvítasunnu

Mitt á milli uppstigningardags og hvítasunnu

Þessir dagar mitt á milli, eru þetta árið líka dagar ótta og angistar vegna óróleika úr iðrum þeirrar jarðar sem við erum vön að geta treyst sem grundvelli að standa á og vegna óheiðarleika og ágirndar einstaklinga sem áður voru grundvallandi aðilar í grósku og velmegun samtímans.

Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. En hann sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er, að hann biður fyrir heilögum samkvæmt Guðs vilja. Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. Þau sem hann þekkti fyrir fram hefur hann og fyrirhugað til þess að mótast eftir mynd sonar síns svo að hann sé frumburður meðal margra systkina. Þau sem hann fyrirhugaði hefur hann og kallað. Þau sem hann kallaði hefur hann og réttlætt og þau sem hann réttlætti hefur hann og gert vegsamleg. Róm.8.26-30

Kæri miðvikudagssöfnuður.

Í fjörutíu  daga gekk frelsarinn um eftir upprisuna þar til hann skildist frá lærisveinunum á fjallinu og hvarf þeim sjónum. Tíu dögum síðar, eða fimmtíu dögum eftir upprisuna er  hátíðin pentecoste sem við köllum hvítasunnu.

Við komum saman miðja vegu milli þessara tveggja hátíða. Miðja vegu milli sendingarorða skírnarskipunar Drottins og úthellingar andans yfir þau sem trúa.  Þessir dagar mitt á milli, eru þetta árið líka dagar ótta og angistar vegna óróleika úr iðrum þeirrar jarðar  sem við erum vön að geta treyst sem grundvelli að standa á og  vegna óheiðarleika og ágirndar einstaklinga sem áður voru grundvallandi aðilar í grósku og velmegun samtímans. Nú er tíminn þegar meira að segja raunvísindamenn tala um að hið eina sem gildi sé  að treysta á æðri máttarvöld og miskunnsemi móður jarðar.

Við heyrum  skilgreiningu postulans í bréfinu til Rómverja á ástandi eða líðan sem getur verið táknræn fyrir þann tíma  eða þá spennu sem myndast kann milli kröfunnar um að vera sendur og að hafa móttekið heilagan Anda. 

Við vitum sannarlega ekki hvers við eigum að biðja, en andinn veit það og biður fyrir okkur. Og sá sem hjörtun rannsakar veit hvað andinn er að hugsa, að hann framkvæmir Guðs vilja með því að biðja fyrir hinum heilögu, það er, fyrir þeim sem hann hefur helgað sér.

Og svo kemur þessi setning sem er svo stór og kraftmikil, en um leið svo viðkvæm og varasöm þegar hún er tekin úr því samhengi sem hún er sögð í: Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs. Hvað merkir það, að ekki bara eitthvað, heldur allt, samverki til góðs? Það merkir ekki að allt snúist til góðs sem gerist, enda er frekar ólíklegt að allir gætu tekið undir það þótt þeir fylli flokk þeirra sem elska Guð. Góðs  heitir á frummáli textans agaþón. Í því orði felst að mati margra góðra ritskýrenda  ekki vísan til góðs almennt séð og skilið, heldur  til  þess góðs að Guð varð maður.

Það merkir að þau sem elska Guð eru hluttakendur í verki Guðs og þau þjóna þeim atburði Guðs til hjálpar öllum mönnum að hann gerðist maður í syninum Jesú Kristi í þeim tilgangi að leiða þau frá dauðanum til lífsins  og eignast um síðir dýrð Guðs.

Aðeins með þeim skilningi lendum við ekki í því að festast í  áherslunni á fyrirhugun og útvalningu, sem vissulega er líka vísað til og margir gera að aðalatriði, heldur horfum beint á markmiðið sem er að mótast til myndar Krists.

Einmitt það er áform Guðs um þau sem eru á leiðinni,  mitt á milli þess að horfa á eftir Jesú Kristi til himins og bíða úthellingar andans: Að mótast til myndar Krists. Til þess að geta á leiðinni reynst öðrum manni í Krists stað í samfylgd þeirra sem Guð þekkti frá upphafi og sjálfur hefur kallað.