„Fyrsta“ landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar 1960

„Fyrsta“ landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar 1960

Með aukinni aðsókn í æskulýðsstarf kirkjunnar samhliða efnahagshruninu jókst þátttaka á landsmótum til muna og oftar en ekki hefur fjöldi þátttakenda farið yfir 500, jafnvel 600 manns.

Stór tjaldborg stendur á túninu sunnan við Löngumýrarskóla. 170 unglingar víðs vegar af landinu eru mættir á kirkjulegt æskulýðsmót. Þrír ungir menn frá Akureyri, þeir Ingólfur Sverrisson, Magnús Aðalbjörnsson og Völundur Heiðreksson standa fyrir framan hópinn og segja frá þátttöku sinni á æskulýðsmóti sem þeir eru nýkomnir frá í Lausanne í Sviss.

Seinna um kvöldið er sýnd kvikmynd sem segir frá starfi æskulýðsfélags Akureyrarkirkju. Að sýningu lokinni heldur dagskráin áfram við leik og söng við varðeld undir stjórn þekkts skátaforingja frá Akureyri, Tryggva Gíslasonar. Deginum lýkur með helgistund sem prófasturinn á Hólmavík, sr. Andrés Ólafsson, hefur undirbúið, en hann er einn átta presta sem er mættur á mótið og með honum tæplega 30 unglingar að vestan.

Á sunnudagsmorgninum skartar Skagafjörður sínu fegursta. Veðrið getur ekki verið betra fyrir íþróttir og gönguferðir. Á meðan sumir skella sér í sund í Varmahlíð ganga aðrir að minnismerkinu um Stephan G. Stephansson á Vatnsskarði og njóta útsýnisins yfir fjörðinn. Eftir hádegisverð er haldið heim að Hólum þar sem mótinu er slitið.

Frásögn af þessu móti er að finna í nóvemberhefti Kirkjuritsins 1960 en mótið var haldið dagana 6. og 7. ágúst það sama ár. Þar segir sr. Sigurður Guðmundsson á Grenjaðarstað á lifandi hátt frá þessu móti sem undirritaður telur vera fyrsta vísinn að landsmóti æskulýðsfélaga. Um mótið segir Sigurður: „Óskandi er, að fleiri mót lík þessu séu haldin. Fermingarbarnamótin eru ágæt, en það þarf líka mót fyrir eldri unglinga. Hið nýstofnaða Æskulýðssamband Kirkjunnar í Hólastifti hefur hug á að skipuleggja og sjá um fleiri mót á félagssvæðinu á næsta ári.“

Þetta mót var enn eitt merkið um þann mikla uppgang sem var í kirkjulegu æskulýðsstarfi á þessum árum. Árið áður, þann 8. mars 1959 var æskulýðsdagur kirkjunnar formlega haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn með æskulýðsguðsþjónustum í kirkjum landsins. Hugmynd sem hafði fæðst á Siglufirði, fengið meðbyr á Akureyri, var nú orðin að baráttumáli nýrrar æskulýðsnefndar kirkjunnar og dagurinn því orðinn að veruleika.

Í tilvitnuninni hér að framan vitnar sr. Sigurður til fermingarbarnamótanna sem þá voru orðin fastur liður í starfi kirkjunnar víðs vegar um landið. Þannig sóttu til dæmis 900 nýfermdir unglingar æskulýðsmót á átta stöðum víðsvegar um landið sumarið 1958. Á sama hátt urðu æskulýðsmótin að föstum þætti í starfi kirkjunnar undir formerkjum Æskulýðsstarfs kirkjunnar í Hólastifti. Þannig greinir frá því í Morgunblaðinu 19. júlí 1973 að hið árlega, fjölsótta æskulýðsmót verði haldið að Vestmannsvatni í Aðaldal: „Keppt er í ýmsum óvanalegum íþróttagreinum, svo sem torfæruhlaupi, naglaboðhlaupi að ógleymdu pokahlaupi presta. Þennan sama dag fara fram umræður um ákveðið verkefni úr Nýja testamentinu. Um kvöldið verður kvöldvaka.“

Fyrir 30 árum, þ.e. 1986 höfðu landsmótin fest sig í sessi undir merkjum Æskulýðsstarfs Þjóðkirkjunnar. Það ár var mótið haldið í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi og sóttu það um 80 ungmenni víðs vegar af landinu. Í dag eru mótin mikilvægur burðarás í æskulýðsstarfi kirkjunnar og tuttugu ár liðin síðan að fjöldi þátttakenda rauf 300-múrinn. Í tíu ár eða frá árinu 2006 hefur Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar ÆSKÞ haft veg og vanda af skipulagningu og framkvæmd mótsins. Fyrstu Landsmót ÆSKÞ voru af fyrrnefndri stærðargráðu, þ.e.  í Vatnaskógi 2006, á Hvammstanga 2007 og í Ólafsvík 2008. Með aukinni aðsókn í æskulýðsstarf kirkjunnar samhliða efnahagshruninu jókst þátttaka á landsmótum til muna og oftar en ekki hefur fjöldi þátttakenda farið yfir 500, jafnvel 600 manns.

Á þessu ári stendur ÆSKÞ fyrir landsmóti æskulýðsfélaga. Ég hlakka til að fylgjast með þeirri góðu vinnu úr fjarlægð. Ekki vegna þess að verið sé að viðhalda sögunni, heldur vegna þess að þangað mun mæta ungt fólk sem sækir kraft og styrk í samfélagið við önnur kristin ungmenni. Guð blessi æskulýðsstarf kirkjunnar.