Beðið með börnunum

Beðið með börnunum

Mikilvægt er að bænin sé í takt við líf mannsins, að hún falli að hrynjanda lífsins. Því er svo gott að biðja að morgni, að kvöldi og við matarborðið. Vera í takt við það sem gerist í iðu dagsins. Bænin þarf ekki að taka langan tíma, enda er það afstætt hvað er „langur tími“. Mikilvægt er þó að sá tími sem þú gefur þér til bæna, sé notaður til bæna en ekki einhvers annars.
fullname - andlitsmynd Gunnar Einar Steingrímsson
03. febrúar 2009

Bænin er andardráttur trúarinnar. Án bænarinnar deyr trúin, líf hennar fjarar út. Því er bænin lykilatriði í trúarlífi sérhvers manns. Til þess að trúin nái að vaxa og þroskast með einstaklingnum verður hún að vera lifandi. Og lifandi verður hún aðeins ef við eigum sjálf samfélag við Guð, mót við hann og samtal. Þar er bænin svo mikilvæg. Bænin er líf í sjálfu sér, lífgefandi fyrir sálina, fyrir trúna.

Mikilvægt er að bænin sé í takt við líf mannsins, að hún falli að hrynjanda lífsins. Því er svo gott að biðja að morgni, að kvöldi og við matarborðið. Vera í takt við það sem gerist í iðu dagsins. Bænin þarf ekki að taka langan tíma, enda er það afstætt hvað er „langur tími“. Mikilvægt er þó að sá tími sem þú gefur þér til bæna, sé notaður til bæna en ekki einhvers annars. Bænin er samfélag og samtal við Guð, við erum ekki að tala við einhvern annan á meðan, við gefum Guði alla athygli okkar í bæninni.

Þegar ég bið með börnunum mínum þá notum við bæði bænir sem aðrir hafa samið og hafa lifað með þjóðinni og okkar eigin bænir, bænir frá eigin brjósti. Höfum við notast við lítið form fyrir þessar persónulegu bænir okkar, form sem í raun er fjórskipt og ég veit að margir aðrir notast við eins eða svipað form, en engu að síður vil ég fá að deila þessu með ykkur:

Að lokinni signingu og bænaversi þá íhugum við fyrst hvað það er sem við viljum biðja Guð um. Hvað vilja börnin að Guð gefi þeim eða geri fyrir þau? Þetta getur t.d. verið: góð heilsa, ganga vel á íþróttamóti, hjálpa þeim í einhverjum tilteknum aðstæðum o.s.fr. Þegar börnin hafa nefnt hvað það er sem þau vilja biðja Guð um, þá biðjum við saman um það og gjarnan leiða börnin sjálf bænina, biðja með sínum eigin orðum. Því næst íhugum við hvað við viljum biðja Guð um að taka burtu frá okkur. Oft nefna börnin að þau vilji biðja Guð um að taka burtu hræðslu (t.d. við myrkrið), leiði, reiði o.s.fr. Þegar þetta hefur verið rætt og íhugað er beðið til Guðs og hann beðinn um að taka í burtu það sem nefnt var. Á eftir þessu veltum við því fyrir okkur hvern við viljum biðja Guð um að passa. Það er að biðja fyrir einhverjum. Þarna nefna börnin gjarnan foreldra sína, systkini, ömmur og afa, vini og ættingja. Síðan er bænin beðin og eins og áður leiða börnin gjarnan sjálf bænina. Að lokum eru börnin beðin um íhuga hvað það er sem þau vilja þakka Guði fyrir. Þá koma upp orð eins og; lífið, gleðina, að við erum frísk, fyrir mömmu og pabba o.s.fr. Þau fá svo að biðja þessarar þakkarbænar. Þegar þessi fjórskipta bæn er búin þá biðjum við saman Faðir vor, syngjum sálm eða lag og endum bænastundina.

Þetta form hefur gefist vel á mínu heimili og nota ég það ýmist með börnunum sitt í hvoru lagi eða saman.

Með þessu móti tel ég að við hjálpum börnunum að útvíkka bænalíf þeirra. Að það er mikilvægt að átta sig á því að við getum beðið Guð um að hjálpa okkur með alla hluti. Að það er mikilvægt að biðja fyrir öðrum og ekki síst mikilvægt að þakka fyrir. Á þennan hátt verður bænin meira lifandi (a.m.k. fyrir mínum börnum) og um leið sterkari fyrir trúarlífið. Fyrir utan það að verja tíma með börnunum sínum er bara svo óendanlega dýrmætt og svo nærandi stundir. Fá að heyra hvað þessir litlu englar eru að hugsa og íhuga og hvað þau eru að fást við. Það er ekkert eins gott eins og að liggja uppi í rúmi á kvöldin með barninu sínu, vera búin að biðja með því og finna hvernig kyrrðin og róin færist yfir barnið og það sofnar vært og rótt. Og er það ósjaldan sem maður sofnar þar líka sjálfur.

Verum dugleg að biðja með börnunum okkar.