Molar af lífsbrauði Orðsins

Molar af lífsbrauði Orðsins

Guð gerðist ekki maður í Kristi til þess að bæta við enn einni andlegri firrunni eða staðfesta allar þær sem fyrir voru - heldur kom hann til að lækna menn, líka af veikindum svikatrúar og ósanninda.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi.

Kæri söfnuður.  Það er mér tilefni gleði að mega koma við hér í Áskirkju og predika hjá ykkur og geri það að vonum í anda lifandi trúar, vonar og kærleika. Predikunin er hverju sinni til huggunar og gleði kristnum áheyranda og til að hjálpa honum að skilja stöðu sína andspænis heiminum í ljósi fagnaðarerindisins um Jesú Krist. Þar er hið undursamlega umfang kærleika Guðs sonar borið að vitund manna á þann hátt að þeir megi skilja, að erindi hans í heiminn varðar þá, tilveru þeirra og lífshorfur, - að trúin á hann er ekki kerfi innantómra hugmynda eða viðhorfa sem ætla mætti að birtu meinta vitsmuni okkar, heldur er hún umfram allt lífssamband manna við skapara sinn sem vill að þeir lifi.

Boðunin byggir á Orði Krists, visku Guðs sem öllu gefur líf og fyrir nærveru sína í söfnuðinum birtir, að honum er annt um sköpun sína og með sérstökum hætti um mennina sem hann hefur skapað í sinni mynd. Orð Guðs er sjálft sáðkorn þeirrar kærleikans akuryrkju hans sem fram fer til efsta dags. Orðið er líf og ber lífið þeim sem það er sáð hjá. Nái það að spíra og dafna vekur það fyrir Heilagan anda einlægt trúarsamband við Guð í nafni Jesú Krists, sem fyrir viðtöku fagnaðarerindisins opinberar réttlæti Guðs sem fallinn heimur getur hvorki birt né iðkað. Vitnisburðinn um það er að finna í ritum þess hluta Biblíunnar sem kenndur er við hinn nýja sáttmála Guðs við menn, til aðgreiningar frá þeim hluta hennar sem kenndur er við hið gamla testamenti. En testamenti merkir sáttmáli. Sáttmálinn er því ekki texti heldur veruleiki andans og vegur sem okkur er í trúnni vísað á.

Mattheus guðspjallamaður greinir frá því að nokkru eftir að Heródes fjórðungsstjóri hafði látið myrða Jóhannes skírara hafi Jesús verið á ferð með lærisveinum sínum um byggðir Týrusar og Sídonar. Þær fornu borgir tilheyra í dag ríkinu Líbanon og eru úti við sjóinn öllu norðar en Galílea. Á göngu þeirra nálgaðist þá heiðin kona með hrópum og köllum. Líklegt er að þeir hafi þegar séð á klæðaburði hennar og hátterni að hún var kanversk en Kanverjar sem svo voru nefndir í hinum forna heimi fengu nafn sitt af svæði í Landinu Helga sem nefnt var Kanaan. Nábýli Gyðinga og Kanverja hafði um aldir fært hvorum þessara ólíku lýða þá þekkingu á hinum að regindjúp var staðfest á milli þeirra hvað varðaði átrúnað og líferni.

Þegar konan kallaði til Jesú og bað hann að hjálpa sér, þá ávarpaði hún hann á þann hátt að bent gat til, að hvorki væri hún ókunnug ritningunum né háttum Gyðinga. „Miskunnaðu mér drottinn, Sonur Davíðs!” Þetta ávarp hennar bendir til að hún hafi haft spurnir af verkum Jesú og í nauðum sínum leitað hann uppi er hún fregnaði af ferðum hans um hennar heimaslóðir. Án efa var það ávarp konunnar, sem var tilefni hins fyrsta svars Jesú þó að hann hafi í fyrstu ekki svarað henni einu orði. „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“

Svar Jesú inniheldur skírskotun til hirðishlutverks hans meðal fólks Ísraels sem týnt hafði áttum og einnig þess þáttar vitnisburðar Ritningarinnar að hann hafi fyrst og fremst verið sendur til að birta nærveru Guðs ríkis meðal þeirrar þjóðar sem hann var af kominn sem maður. Hvergi er þó dæmi þess að finna í Ritningunni að hann hafi ekki líknað og hjálpað öðrum sem honum mættu og bundu trú sína og von við hann eins og hér varð raunin.

Konan kom nær Jesú, laut honum í auðmýkt og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Þessi orð Jesú hafa mörgum þótt harðneskjuleg en í þau birta þó fyrst og fremst einurð hans hvað varðaði hirðuleysi manna um andlegt líf sitt og þann veg þess sem Guð hafði frá öndverðu birt mönnum í orði sínu. Þessa afstöðu sína birti Jesús jafnan skýrlega og af hispursleysi í orði og atferli, að virðing fyrir mönnum og kærleikur í þeirra garð er ekki það sama og að leggja blessun yfir sérhvern skoðanavind eða sérhvert það háttalag sem upp er velt á meðal þeirra.

Guð gerðist ekki maður í Kristi til þess að bæta við enn einni andlegri firrunni eða staðfesta allar þær sem fyrir voru - heldur kom hann til að lækna menn, líka af veikindum svikatrúar og ósanninda. Um það fjallar guðspjallstexti þessa helgidags enda svaraði kanverska konan Jesú og sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu”, - stendur þar.

Jesús kallaði kanversku konuna ekki hund í þeim skilningi sem iðulega er fram haldið. Hundslíkingin sem Jesús viðhafði átti þær rætur, að því fólki var stundum líkt við hunda, sem ekki bar skyn á hið heilaga, vanvirti það eða hafði að engu. Gefið ekki hundum það sem heilagt er, sagði Jesús á öðrum stað - því þeir munu snúa sér við og rífa yður í sig. Allir sem þekkja til hunda vita að þar fer í senn skynug skepna og vargur sem leiðist af hvötum sínum.

Börnin eru, í samhengi frásagnarinnar, það fólk sem leit eða líta myndi til Guðs sem elskandi föður, það fólk sem taka myndi við Orði hans í Kristi, nærast af því og vera afkvæmi þess á vegi trúar. Þetta var ekki og hafði aldrei verið staða Kanverja. Orðin börn og sauðir og hundar varða því trúarlífið og afurðir þess. Jesús benti konunni þannig á, að hún og vanheil dóttir hennar tilheyrðu því samfélagi manna sem vegna átrúnaðar stunduðu það líferni að ekki sæmdi mönnum sem skapaðir eru í Guðs mynd.

Trúarsiður Kanverja var heiðin fjölgyðishyggja sem vegna afvegaleiddrar áherzlu á frjósemi, lagði það á ungar stúlkur og pilta, að þjóna sem hofskækjur undir yfirskini helgiathafna. Þetta átti í siðnum að veita hofgestum hlutdeild í meintum frjómætti og lífskrafti guða þeirra, - frjómætti sem auðvitað var enginn, heldur var þar gert út á hvatalíf manna og það látið taka á sig svip helgiathafna sem einnig áttu að gagnast frjósemi jarðar. Líf hofskækjunnar var oft hlutskipti hinna fátækari og var áþekkt ánauð vændislifnaðar fyrir þau sem frátekin voru til þessa. Líferni Kanverja sem sótti mót sitt og merkingu mjög í þessa heiðnu siði vakti trúræknum Gyðingum andstyggð.

Kæru systkin. Endurlausn Guðs er verk hans. Trúargöfin sjálf snertir það sem menn ekki geta af eigin mætti. Sönn trú er fólgin í trúarsambandi við sannan Guð og sannur Guð er lifandi persóna sem þar af leiðandi er þess umkominn að gefa líf og veita fólki þá lífsfyllingu sem það saknar. Þetta staðfestir opinberun hans í persónu Krists Jesú. Svikatrú er trú á ósönn goðmögn eða eftirfylgd við þau en menn draga dám af hverju því sem þeir eiga í raunverulegu trúarsambandi við. Því er heiðni manna eiginlegt sambandsleysi við það lífsorð Guðs sem Jesús birti og það er líka ferð um andlega blindgötu er menn gera hvatalíf sitt og hinnar kviku náttúru að viðfangi tilbeiðslu sinnar.

Nú er fagnaðarerindið hvorki háð heimsmynd manna né skilyrt af menningarháttum en veiti menn því viðtöku á annað borð mun það, vegna orðsins og umhyggju Guðs Sonar, miklu breyta eins og dæmin sanna og síðar er í ljós komið um heiminn. Kristur varð líka ljós sem skein meðal hinna heiðnu, mest fyrir köllun og postuladóm heilags Páls. Einnig hann setti það í ýmsu samhengi fram að fagnaðarerindið væri ætlað Gyðingnum fyrst en einnig lýðum fjölgyðishyggjunnar sem Páll nefndi einu nafni „hinn gríska mann”. Á heiðnum tíma í sögu okkar hefðum við, í huga postulans, líklega verið norrænir Grikkir vegna fjölgyðishyggju forfeðra okkar.

Það er því einnig nærtækt að við setjum okkur fyrir sjónir myndina af hinni heiðnu konu, sem í angist vegna elskaðrar dóttur sinnar, bar sig eftir hjálp Krists í þeirri von að hann gæti bætt úr óhamingu hennar. Úthald hennar og vit í samtalinu við Jesú vitnar eindregið um trú sem gert hafði hana að barni Guðs, trú sem vaknað hafði við þá mola Orðsins sem hún hafði til sín tekið. Hún fékk þann besta vitnisburð sem um ræðir af munni Drottins. „Kona, mikil er trú þín.“

Að boða Guðs orð, vegna þess að það er í sjálfu sér vegur, sannleikur og líf er verkefni kirkjunnar og safnaða Guðs. Væri ekki svo myndi engum sæma að boða það né kenna öðrum. Kristur er því vegur sem maður fetar sig eftir í trúnni, ekki vegna þess að það sé ávallt þrautalaust, heldur vegna þess að það er vegur til lífsins. Verkefni allra sem kristna trú játa er að koma auga á og ganga þennan veg því þýðingarlaus væri sú iðja að vísa mönnum til þess vegar sem ekki væri að hafa. Jesús Kristur er Orð Guðs sem varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika.  Hann er nú í dag blessun okkar í trúnni, voninni og kærleikanum, vegur, sannleikur og líf hverjum þeim sem við honum tekur, því slíkum gaf hann rétt til að kallast Guðs barn.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Náðin Drottins vors Jeú Krists, kærleiki Guðs og samfélag Heilags anda sé með yður öllum í Jesú blessaða nafni. Amen.