Júdasarguðspjall

Júdasarguðspjall

En hvaða rit er eiginlega þetta Júdasarguðspjall og af hverju er verið að fjalla svona mikið um það núna? Saga þess er reyndar með ævintýralegum blæ. Texti Júdasarguðspjalls er talinn hafa fundist í fornu papyrushandriti í Egypsku eyðimörkinni kringum árið 1970. Handritið sjálft er líklegast frá árinu 300 eftir Krist og er skrifað á koptísku sem er fornt mál Egypta.

Þá er sumarið loksins komið eftir langan vetur. Mannlífið allt fær á sig annan blæ, dagarnir lengjast meir og meir, farfuglarnir flykkjast til landsins og gróðurinn er byrjaður að taka við sér eftir vetrardrungann. Enda er 1. maí á morgun og bráðum verður himinbláminn alráðandi. Ég fór í gönguferð í gær upp að Helgafelli og það var alveg yndislegt að finna ilminn af gróandanum og ferskleikanum í náttúrunni. Það hafa líka verið slegin hitamet um allt land undanfarna daga. Guð láti gott á vita um komandi sumar.

Hérna í kirkjunni okkar er starfið líka smátt og smátt að færast í sumarbúning eftir vetrarannirnar. Páskahátíðin er liðin og síðustu formlegu fermingarnar einnig, en það má segja að undanfarnar fimm vikurnar hafi allt kirkjustarfið snúist um þær. Fermingarnar eru alltaf skemmtilegur og fjörlegur tími en þegar þær eru á enda á vorin má segja að góður tími gefist til að huga að öðrum þáttum mannlífsins og trúarlífsins áður en hjónavígslur sumarsins hefjast af fullum krafti.

Það er mikill áhugi ríkjandi á trúmálum og trúarlegum spurningum hér á landi og margir sem fylgjast grannt með því sem er að gerast í þeim málaflokki í heiminum. Eitt af því sem borið hefur hvað hæst á góma í trúmálaumræðunni meðal almennings og í fjölmiðlum eftir sumarkomuna, eru fréttir af fornum texta sem kynntur var á vegum tímaritsins National Geographic fyrir skömmu og heitir Júdasarguðspjall. Reyndar hefur ekki verið mikið rætt um þennann texta innan Þjóðkirkjunnar enda Þjóðkirkjan því miður oft dulítið eins og úti á þekju og ekki í takt við umræðuna í samfélaginu. Þess meiri hefur verið um Júdasarguðspjall rætt meðal almennings. Þó var ánægjulegt að sjá að sr.Sigurður Ægisson fjallar um Júdasarguðspjallið í sunnudagspistli sínum í Morgunblaðinu í dag og vil ég hvetja alla sem áhuga hafa, til að lesa þann pistill sér til uppbyggingar. Það er upplagt nú í sumarbyrjun að kynna sér þennan texta og gildi hans og það munum við einnig gera hér í dag.

En hvaða rit er eiginlega þetta Júdasarguðspjall og af hverju er verið að fjalla svona mikið um það núna? Saga þess er reyndar með ævintýralegum blæ. Texti Júdasarguðspjalls er talinn hafa fundist í fornu papyrushandriti í Egypsku eyðimörkinni kringum árið 1970. Handritið sjálft er líklegast frá árinu 300 eftir Krist og er skrifað á koptísku sem er fornt mál Egypta. Það byggir þó á eldra handriti og er þýðing á grískum texta sem var skrifaður einhverntíman á árunum 130-180. Þetta forna papyrushandrit geymdi ýmsa texta frá annarri og þriðju öld eftir Krist, meðal annars þann sem kallaður er Júdasarguðspjalli. Þegar handritið fannst gekk það kaupum og sölum á svarta markaði listmunasala allt til ársins 2004 þegar það fyrst var gert opinbert. Enginn vissi raun að það væri til fyrr en um árið 1999. Undanfarin ár, eftir að það komst undir hendur vísindamanna, hefur verið unnið að hreinsun handritsins og hið endurgerða handrit var síðan kynnt heiminum öllum á blaðamannafundi á vegum tímaritsins National Geographic þann 9. apríl síðastliðinn. Á þeim blaðamannafundi var því haldið fram að Júdasarguðspjall kollvarpaði kenningu kristninnar um Júdas. Júdas hefði samkvæmt því ekki verið sá óvinur sem sveik Jesú í hendur æðstuprestanna í Getsemane. Þvert á móti hefði hann gert Kristi greiða með því að losa hann úr jarðneskum böndum líkama mannsins Jesú.

Reyndar er það svo þegar betur er að gáð að Júdasarguðspjall tilheyrir ákveðnum flokki bókmennta sem varð til á árabilinu 130 til 300 eftir Krist. Mörg handrit sem geyma texta þessara riti fundust í eyðimörkinni í Egyptalandi árið 1949 og kallast Nag Hamad skjölin eftir fundarstaðnum. Þau voru gefin út árið 1977. Þar er meðal annars að finna fimm rit sem bera nafnið Guðspjöll. Það eru Maríuguðspjall Magdalenu, Tómasarguðspjall, Filipusarguðspjall, Sannleikurinn og Guðspjall Egyptans. Og nú bætist Júdasarguðspjall við. Þessi rit tilheyra stefnu eða hugmyndafræði sem var uppi í Rómaveldi á öldunum fyrir og eftir fæðingu Krists og kallast gnostik eða spekistefnan. Spekistefnan eða gnostikin var í raun sjálfstæður átrúnaður. Gnostikerar eða spekistefnumenn trúðu á tvo guði, góðan himinguð og illan jarðarguð. Allt hið efnislega var illt í þeirra huga en hið andlega gott. Samkvæmt gnostikinni var Kristur andavera sem var sendur af himinguðinum og festist í manninum Jesú eða andsetti hann, en losnaði frá honum á krossinum. Jesú dó á krossin samkvæmt þesari kenningu en andinn Kristur lifði. Jesús var þannig aðeins maður og hylki utanum Krist. Boðskapur þessa Krists var ætlaður útvöldum spekingum, þeim sem höfðu visku til að skilja hann. Spekingarnir átti að geta nýtt sér kenningu þessa Krists til að komast til himna. Hinir voru dæmdir til að falla í hendur hins illa jarðarguðs.

Þetta eru miklar pælingar og flóknar og við sjáum strax að kenning þessara rita og þar með Júdasarguðspjalls er ansi frábrugðin, og í raun allt önnur en kenning og frásögn guðspjalla og rita NýjaTestamenntisins. Samkvæmt Nýja Testamentinu er Jesús Kristur einn og hinn sami, Guð sem gerðist maður, dó á krossi og reis upp á páskadag. Kristur er þannig titill á Jesú og þýðir hinn smurði Drottinn. Það er Jesús sem er Kristur í Nýja Testamentinu og Kristur er Jesú, fæddur, dáinn og upprisinn. Þessar tvær fullyrðingar, fullyrðing gnostisku guðspjallanna og guðspjalla hins Nýja Testamentis eru því algjörar andstæður. Deilan í milli þeirra sem fylgdu ritum Nýja Testamentisins að málum og hinna sem fylgdu gnostisku ritunum er r jafn gömul kirkjunni eins og Páll postuli bendir á í 1. Korintubréfi er hann segir “Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en vér predikum Krist krossfestan, Gyðingum hneiksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu kraft Guðs og speki Guðs”. Fyrra korintubréf er reyndar elsta rit kristninnar, skrifað aðeins 15 árum eftir krossfestinguna, árið 50. Í því bendir Páll líka á hvers vegna spekikenningarnar urðu til. Gyðingum þótti óhæfa að Guð gerðist maður og Grikkjum þótti heimska að Guð gæfi líf sitt á krossi fyrir mennina. Þess vegna varð gnostikin eða spekistefna til, til að fela það sem Páll kallar heimsku fagnaðarerindisins og hann er svo stolltur af, þetta að Guð gerðist maður í Jesú Kristi og dó á krossi fyrir alla menn.

Eða hvað? Var það kannski spekistefnan sem hafði á réttu að standa eins og blaðamannafundurinn áðurnefndi hjá National Geograhic gaf til kynna þann 9. apríl? Var Jesús andsetinn maður? Hvers vegna fengu spekirit eins og Júdasarguðspjall, Tómasarguðspjall og guðspjall Maríu Magdalenu ekki inni í Nýja Testamentinu? Var það ekki bara hin spillta og þröngsýna kirkja sem valdi textana og faldi sannleika gnostisku spekiritanna? Það halda margir um þessar mundir. Því er til að svara að þegar Nýja Testamentið var að verða til, var kirkjan ekki sú ólýðræðislega og spillta stofnun sem hún átti síðar eftir að verða. Byltingarboðskapurinn um hinn krossfesta og upprisna Jesú Krist boðaði til dæmis jafnan rétt allra því Jesú dó fyrir alla. Því voru konur ekki settar skör neðar körlum í Guðspjöllum hins Nýja testamentis eins og eftir að kirkjan varð að ríkisstofnun og reyndar eins og líka er gert í gnostisku ritunum. Í guðspjöllum Nýja Testamentisins eru það konur sem fyrstar mæta Jesú upprisunum og boða postulunum fagnaðarerindið. Þær eru postular postulana og þeirra fremst er María Magdalena. Löngu seinna reyndu kirkjuleg yfirvöld að gera lítið úr Maríu Magdalenu með telja fólki trú um að hún hefði verið gleðikonu. Sú kenning er ekki samkæmt ritningunum, en svo mikil eru áhrif hefðarinnar að enn þann dag í dag er börnunum kennd þessi ósannindi í skólanum í kristindómsfræðslunni. Textarnir sem rötuðu inn í Nýja Testamentið voru valdir af fólkinu í söfnuðunum, meirihluta safnaðanna en ekki af biskupum, páfum, ríkisvaldinu og stjórnskipuðum nefndum þeirra. Hinir kristnu söfnuðir voru nefnilega utan við lög og rétt á þessum árum. Þeir textar sem lesnir voru í söfnuðunum áratugina eftir dauða og upprisu Jesú og voru viðurkenndir af öllum kristnum almenningi, þeir voru settir í safnið sem varð Nýja Testamentið. En af hverju voru þessir textar svona miklu vinsælli en spekiguðspjöllin? Jú, þeir voru í fyrsta lagi miklu eldri. Fyrra Korintubréf er skrifað 15 árum eftir krossfestinguna. Markúsar, Matteusar og Lúkasarguðspjall eru skrifuð árin 60-80 eða um 25-45 árum eftir krossfestinguna. En þau byggja öll á eldri heimild sem vísindamenn rekja beint til lærisveina Jesú. Jóhannesarguðspjall er umdeilt meðal fræðimanna. Sumir telja það skrifað um árið 90 aðrir að það sé þvert á móti eitt elsta guðspjallið, skrifað af lærisveininum sem Jesú elskaði. Þannig eru öll rit Nýja Testamentisins orðin til 15-50 árum eftir krossfestinguna. Og öll boða þau hið sama, eða svo aftur sé vitnað í elsta ritið, fyrra Korintubréf þar sem páll segir:”Því það kenndi ég yður fyrst og fremst sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi”. Heimildagildi þessara rita er því mjög mikið og þau eru staðfest af öðrum ritum samtímans eins og sagnaritaranum Jósefusi sem skrifaði um gyðingastríðin svokölluðu sem háð voru í Ísrael árið 70 og kemur í framhjáleiðinni inn á sögu Jesú.

Spekiguðspjöllin eru aftur á móti öll miklu yngri eða rituð í fyrsta lagi um 100 árum eftir krossfestinguna og allt fram undir 300 eftir Krist. Heimildagildi þeirra er því lítið sem ekkert. Þau byggja á vangaveltum gnostisku eða spekistefnunar og hafa því ekkert að segja um hina upprunalegu kristnu sögu. Þau eru skáldskapur og hugarburður. Og þess vegna hafnaði hinn almenni safnaðarmeðlimur kristinnar kirkju þeim löngu fyrir daga kirkjuvaldsins. Gleymum því ekki að á þessum árum borguðu menn fyrir trúarsannfæringu sína með lífinu.

Að þessu sögðu eru rit eins og Júdasarguðspjall og öll hin gnostisku guðspjöllin merkileg heimild um liðna tíma og spekiátrúnaðinn sem um langan aldur var útbreiddur í löndunum kringum Miðjarðarhafið. Og öll þessi saga er líka stórkostlegur vitnisburður um kirkjuna eins og hún var áður en hún spilltist af valdinu, þegar kristnir einstaklingar, venjulegt safnaðarfólk, bar fram boðskap Jesú Krists með lífið að veði og fórnaði öllu fyrir heimsku predikunarinnar. Það má líka velta því fyrir sér hvort vinsældir spekiritanna í dag og bóka sem reyna að gera Nýja testamentið tortryggilegt, stafi ekki af því hversu lituð ímynd kirkjunnar er orðin af hverskonar leynibrölti nú við upphaf 21. aldar?

Í guðspjalli dagsins sem lesið var fyrr í þessari athöfn líkir Jesú Kristur sér við góða hirðinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Við skulum að lokum biðja þess að hann megi áfram sem hingað til vaka yfir sauðum sínum, kristnum mönnum og leiða okkur á vegi sannleikans allar okkar ævistundir. Og við skulum líka biðja þess að hann megi styrkja kirkjuna sína og beina henni inn á réttar brautir á komandi tíð svo hún geti óhikað borið sannleikanum vitni á nýrri öld.

Jesú Kristi einum sé dýrð um aldir alda, amen.