Alþjóðleg bænavika

Alþjóðleg bænavika

Þessa viku sameinast kristið fólk um allan heim í bæn fyrir einingu.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
18. janúar 2023
Flokkar

Prédikun flutt á samkirkjulegri bænaviku í Landakotskirkju 18. janúar 2023.

Jes.1:12-18; Lúk. 10:25-37

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Nú eru þrjú ár síðan hægt var að koma saman til alþjóðlegrar sameiginlegrar bænaviku.  Heimsfaraldurinn kom í veg fyrir samkomurnar í fyrra og hitteðfyrra.  Við gleðjumst yfir því að fá að koma saman hér í Landakotskirkju í kvöld og ég gleðst yfir því að fá að prédika hér í kirkjunni hjá vinum mínum í rómversk kaþólsku kirkjunni á Íslandi. 

Þessa viku sameinast kristið fólk um allan heim í bæn fyrir einingu.  Bænavikan er undirbúin af kirjum sem tilheyra Alkirkjuráðinu og Rómversk-kaþólsku kirkjunni.  Hér á landi er bænavikan undirbúin af Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi. 

Það er um hálfur milljarður kristins fólks um allan heim sem á með beinum eða óbeinum hætti aðild að Alkirkjuráðinu í gegnum heimakirkjudeildir sínar.  Rómversk kaþólska kirkjan er ekki aðili að Alkirkjuráðinu en vinnur náið með því.  Því má ætla að um einn þriðji mannkyns tilheyri kristninni í heiminum og eru rómverk kaþólska kirkjan fjölmennust af kristnum kirkjum heims.  Árið 2018 þegar 70 ár voru frá stofnun Alkirkjuráðsins heimsótti Frans páfi höfuðstöðvarnar í Genf.  Þáverandi framkvæmdastjóri Alkirkjuráðsins sem nú er orðinn höfuðbiskup norsku þjóðkirkjunnar sagði að með heimsókninni hefði komið í ljós að páfinn væri á sömu bylgjulend hvað snertir samfélagslega hjálp til handa fólki á neyðarstundum og að slíkt væri hluti af vitnisburði kristinnar trúar í heiminum. 

Í dag er fyrsti dagur samkirkjulegu bænavikunnar sem er ævinlega á milli hátíða heilags Pétur og Páls.  Kristið fólk um allan heim kemur saman og eru minnt á bæn Jesú fyrir lærisveinum sínum um „að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig“  eins og segir í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls.

Já, í Jesú nafni komum við hér saman og hugleiðum texta þessa fyrsta dags bænavikunnar sem voru lesnir hér áðan, úr spádómsbók Jesaja þar sem hann minnir okkur á þann lærdóm „að gera gott; leita réttlætis, bjarga kúguðum, verja munarlaus; og biðja fyrir ekkjunni.“  Og í guðspjallinu um miskunnsama Samverjann þar sem spurt er „Og hver er náungi minn?“

Kristin trú byggist á Orðinu sem varð hold.  Orðum Jesú og postulanna, en líka verkum.  Trúin er dauð án verkanna segir Jakob postuli í bréfi sínu. 

Allt í kringum okkur eru fólk sem þarfnast hjálpar og við erum líka í þeim hópi á stundum.  Að hjálpast að er hluti af því að vera eitt í Kristi. 

Í sögunni um miskunnsama Samverjann eru margar myndir sem við sjáum allt í kringum okkur, bæði nálægt okkur sem og fjær okkur og við fáum fréttir af.  Við sjáum að það eru ekki bara miskunn í þessum heimi heldur einnig ræningjar, sem birta allt það versta sem í manninum býr.  Það getur verið stutt á milli þess góða og vonda í manneskjunni og í raun óskiljanlegt hvað erfitt getur reynst að sigra hið illa með góðu.  Ófriður ríkir nú í álfunni okkar og líka annars staðar í heiminum.  Margar láta lífið einnig vegna kristinnar trúar sinnar. 

Samstaðan er sterkt afl.  Um nokkurra áratuga skeið hefur Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi starfað en formlega gerðist það árið 1979.  Nefndin er samvinnuvettvangur kristinna trúfélaga á Íslandi.  Aðild að þessari nefnd eiga: Aðventkirkjan, Hjálpfæðisherinn, Íslenska Kristskirkjan, Fíladelfía, rétttrúnaðarkirkjan og Þjóðkirkjan.  Meginviðfangsefni nefndarinnar er að skipuleggja og framkvæma þessa bænaviku.  Kærar þakkir sr. Jakob og þið sem hafið undirbúið bænavikuna.

Hver dagur bænavikunnar hefur sína yfirskrift.  Yfirskrift dagsins í dag er „Að læra að gera rétt.“  Það vitum við öll sem höfum alið upp börn að það er göfugt en á stundum erfitt verkefni að kenna barni að gera rétt.  Í raun erum við alltaf börn að því leitinu til að við erum alla ævi að æfa okkur í að gera rétt.  Þess vegna eru það forréttindi okkar sem trúum á Krist og treystum honum að geta lagt allt okkar í hans hendur og beðið hann um leiðsögn og miskunnsama útkomu í hverju því máli sem við fáumst við. 

Guðspjallið um miskunnsama Samverjann hefst á spurningu Lögvitrings til Jesú.  „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“  Einkennileg spurning úr munni manns sem þóttist vita allt um það, enda svaraði Jesús með spurningunni, „Hvað er ritað í lögmálinu?“  Og lögvitringurinn svaraði tvöfalda kærleiksboðinu um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig.  En lögvitringurinn lét ekki staðar numið heldur spurði þá „Hver er þá náungi minn?“  Og svar Jesú var sagan um miskunnsama Samverjann.  Samverjann sem ekki var Gyðingur og átti ekki að þekkja Guð Lögvitringsins.

„Far þú og ger hið sama“ sagði Jesús að lokum við Lögvitringinn.  Og Jesús segir þetta við okkur öll sem viljum tilheyra honum.  Við eigum að koma bágstöddum til hjálpar.  Við eigum að taka á móti þeim sem flýr stríðsátök í heimalandinu.  Við eigum að reisa á fætur þann sem fallið hefur.  Við eigum að bjarta þeim sem í hættu er staddur.  Við eigum með öðrum orðum að vera til taks fyrir hvert annað, bæði þau sem eru í sama liði og þau sem fyrir utan standa.  Við hjálpum fólki af öðrum trúarbrögðum ef þau eru í neyð af því að við erum kristin þó þau séu ekki kristin. 

Undanfarnar vikur hafa verið fréttir af fátækt á Íslandi.  Þar trúi ég að allar kirkjur á Íslandi hafi lagt hönd á plóg til að hjálpa þeim sem búa við fátækt.  Undanfarnar vikur hafa verið fréttir af voðaverkum í samfélagi okkar sem oftar en ekki tengjast því að fólk hefur misst tök og látið eiturefni ráða yfir lífi sínu.  Þar er óvinur mannkyns á ferð og næsta víst að kristin kirkja má ekki sofna á verðinum að boða hina kærleiksríku og kristnu trú þar sem miskunn og náð eru í forgrunni.  Við getum ekki sætt okkur við að fleira ungt fólk og lendi í klóm eitursins og eyðileggi líf sitt og annarra.  Þau eru líka maðurinn sem féll í hendur ræningjanum.  Við fáum líka fréttir af því að brotist er inn á heimili fólks og rænt og ruplað og oftar en ekki kemur eitrið þar við sögu.  Fólki sem lendir í klóm fíknar og vímu getur ekki liðið vel á þeim stað sem það er á.  Bæn mín er sú að fagnaðarerindið fái snert fleiri hjörtu og haft áhrif á allt mannlegt í samfélagi okkar og þá munu miskunnsamir Samverjar finna leiðir til að fegra mannlífið og fá kraft og visku til að vinna á böli og ljótleika lífsins. 

Á heimasíðu Alkirkjuráðsins er fjallað um bænavikuna.  Þar er áskorun sem tilheyrir þessum fyrsta degi bænavikunnar.  Þar er spurt:  Hverjir eru jaðarsettir eða kúgaðir í þínu samfélagi?  Hvernig gætu kirkjurnar gengið í takt með þessum bræðrum og systrum, brugðist við þörfum þeirra og talað fyrir þeirra hönd? 

Þau sem eru á jaðrinum hafa ekki rödd til að láta í sér heyra.  Það þurfa aðrir að tala þeirra máli við þau sem hafa ráð og geta haft áhrif á bætta stöðu þeirra. 

„Að læra að gera rétt“ er mikil áskorun sem að okkur er beint í dag.  Kristið fólk um allan heim fæst við þessa áskorun í dag, hugleiðir hana og leitast við að fara eftir henni.  Við lærum að gera rétt þegar við beinum sjónum okkar, hugsun og vilja til þess Guðs sem Jesús birti okkur og boðaði.  Jesú sem sagði lögvitringnum hver náungi hans er og sagði honum að hann hefði svarað rétt þegar hann svaraði spurningu sinni um hvað hann þyrfti að gera til að öðlast eilíft líf, með því að vitna í tvöfalda kærleiksboðið um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig.  Að elska Guð leiðir til elsku til náungans og elsku til sjálfs sín. 

Saga er sögð af þremur sem stóðu fyrir utan gullna hliðið.  Þar voru á ferð rómverk-kaþólskur maður, karl sem var áhangandi Kalvíns og kona ein lúthersk.  Þau töldu sig öll eiga greiða leið inn um hliðið gullna en Lykla-Petur var ekki á því og kannaðist ekki við þessa kirkjulegu merkingar og hleypti fólkinu ekki inn.  Nú var úr vöndu að ráða og datt þá einu þeirra í hug að þau skyldu syngja saman Te Deum laudamus.  Fagur söngur þeirra þriggja barst inn á hin himnesku valllendi og Lykla-Pétur opnaði dyrnar og gleðin skein af andliti hans um leið og hann sagði:  „Þetta syngjum við oft hérna og þetta kunnið þið!“  Þau þrjú sögðu þá einum rómi:  „Já, við erum kristin.“  Lykla-Pétur svaraði að bragði:  „Nú, eruð þið kristin!“ Af hverju sögðuð þið það ekki strax?“  Og síðan lauk hann upp hliði himinsins.

Guð gefi okkur að sameinast í Kristi,  „að allir séu þeir eitt“ eins og Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli. 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.