Karlar með Jesú í feðraorlof

Karlar með Jesú í feðraorlof

Ef pabbarnir hafa næði til heimaveru geta þeir betur tekið þátt í að færa Jesú börnin. Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks og heimilislíf, blessum börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Barnaför biskupsins Í Skálholti fylgdist ég nokkur ár með mannakomum. Það var merkilegt að sjá hve ólík hegðun og atferli fólks var. Þegar margmenni var á staðnum fundu börnin gjarnan hvert annað, kollega- og vinahópar sömuleiðis og prestarnir skutu á prestafundum.

Sigurbjörn Einarsson hafði látið af störfum sem biskup Íslands en átti oft erindi austur. Allir vildu njóta Sigurbjarnar, hann var svo skemmtilegur. En svo fór jafnan að það var sem Sigurbjörn gufaði upp. „Hvert fór Sigurbjörn, biskup?“ spurði fólk. Hann rölti engan stofugang á milli hópa á staðnum. Nei, hann fór þangað sem börnin voru. Þar var hægt að ganga að honum vísum. Alltaf snart mig þessi barnaför hans. Mér fannst hann prédika með orðlausri barnasókn erindi Guðs til jarðarbarna. Atferli sýnir innri mann. Sigurbjörn var og er helst þar sem manneskjan er grímulaus, þar sem mannssálin er opin og heiðríkja himinsins fær tiplað meðal fólks í heimi.

Ég hef oft hugsað um áhuga Sigurbjarnar á börnum og líka um þá nánd, sem hann hefur gagnvart fólki. Hann er afar vel tengdur sjálfum sér, hvílir afslappaður í þroska, sem í hans tilviki er traust á Guði sem litar eða mótar alla persónu hans.  Og það merkilega er, að þrátt fyrir annir alla tíð hafði hann næði eða tíma fyrir mannelsku, og hann hafði líka tóm til að vera með og sinna börnum sínum.

Leyfið börnum – til mín Við hverja einustu skírn á Íslandi, í heimahúsum, í kirkju, í messum og utan messutíma, eru lesin orð Jesú um að leyfa börnum að koma:  “Leyfið börnunum koma til mín...” - segir hann – “...varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Og þetta er guðspjallstexti dagsins.

Prestarnir hafa gjarnan lesið textann við skírnirnar, en á þessari virkjunartíð bjóðum við þetta fína lestrarverk út. Ég hef fyrir reglu að bjóða foreldrum, guðfeðginum eða aðstandendum að lesa. Sjaldnan er fyrirstaða og það er gaman að sjá þau og heyra flytja þennan elskulega texta um að leyfa börnunum Jesúferðina. Þegar bræður eða pabbar lesa slær niður í hugann spurn um uppeldisiðju. Eru þeir tilbúnir að vera trúarlegar fyrirmyndir, sinna kvöldbænaiðjunni, lesa biblíusögurnar, skýra eðli bæna, kenna góðverk og vera huggandi öxl þegar slys og dauðsföll verða?

Jákvæðni foreldranna Prestar tala við foreldra áður en skírt er. Þessi skírnarviðtöl eru merkileg og ber að vanda. Þá er hægt að fara yfir líðan, samskipti hjóna, ytri ramma, möguleika og skyldur varðandi velferð og uppeldi barnsins, spyrja um líðan á meðgöngu og eftir fæðingu, spotta augljósa þunglyndispolla og fara yfir hætturnar sem steðja að ungbarnafólki, ræða um samskipti, álagsþætti og elskurækt. Ótrúlegt er hversu viljugir flestir foreldrar eru að kafa djúpt og hversu hæfir flestir eru til að ræða málin. Fæst hiksta þegar ég spyr um trúarlega afstöðu og sjaldan hika þau að segja skoðunum sínum, þó þær séu stundum á svig við kirkjuhefðina.

Ég vek athygli feðranna á stöðu þeirra, möguleikum og þátttöku í uppeldi, trúarlegu atlæti barnanna og hvaða fyrirmyndir þeir séu á öllum sviðum. Það er engin ástæða til að frjálsir pabbar samtíðar endurtaki hlutverk sinna pabba nema í því sem gott er. Það er alveg ljóst, að nútímapabbarnir í Vesturbænum eru alveg tilbúnir að skoða bænahald og nándarveru með börnum sínum. Þeir eru jafnvel tilbúnir að taka upp bænahald að nýju til að vera betur í stakk búnir að gefa börnum sínum traust og sálarfestu.

Hlutverk karlanna Karlar eiga að skoða hlutverk sitt og skyldur varðandi trúaruppeldið. Rannsókn á trúarlegri mótun fólks á Íslandi árið 1986 sýndi að feður gegndu litlu hlutverki, allt of litlu að mínu viti. Mömmurnar voru langmikilvægastar, síðan komu ömmur og afar, svo prestarnir og pabbarnir voru í fjórða sæti. Atvinnuhættir og samfélagsgerð batt  marga pabba einhvers staðar fjarri heimilum. Margir karlar áttu í vandræðum með náin samskipti, fíngerða samræðu og uppeldi. Konurnar sáu gjarnan um trúarlega miðlun. Vöðvastælt víkingaímynd og tilfinningafryst karlmennskuídeöl fyrri ára voru heldur ekki hliðholl kærleiksáherslu og tilbeiðsluiðkun.

En hörkunaglarnir detta úr tísku. Bond og Swarzenegger eru orðnar ýktar gríntýpur fremur en fyrirmyndir. Feður sinna uppeldi mun meira en fyrir tuttugu árum. Það er vel, konurnar eru að verða jafnokar karla í atvinnulífinu utan heimilis. Krafan um jafna þátttöku í heimilislífinu er því eðlileg.

Gæði fæðingarorlofs Kynhlutverkin eru líklega að breytast talsvert þessi misseri. Lögin um fæðingarorlof (nr. 95/2000) eru, held ég, að breyta íslenskum feðrum talsvert. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir með báðum foreldrum. Tilgangur þeirra er m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við konur. Skírnarviðtölin hafa sannfært mig um að karlarnir í Vesturbænum taka vel við sér og eru flestir afar barnvænir. Karlarnir eru ekki lengur á kafi í að byggja eða gera eitthvað fjarri börnunum þegar þeir eru í feðraorlofi. Þeir eru þvert á móti á kafi í bleyjum og tilfinningalífi barna sinna.

Bónusarnir eru margir. Það er beinlínis heilsusamlegt að taka feðraorlof. Alla vega uppgötvuðu Svíar, að karlarnir sem taka feðraorlof eiga mun síður hættu á að deyja fyrir fimmtugt en hinir sem forsóma orlofið.[i] En ég hef ekki hugmynd um hvað gildir um okkur hina, sem eigum börn eftir fimmtugt! Við verðum kannski tíræðir. Það hefur lengi verið vitað að konur lifa almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður, en rannsóknir leiddu líka í ljós, að þegar feður bindast börnum sínum tilfinningaböndum verða þeir varkárari, passa sig betur gagnvart hættum, drekka minna og heilsa þeirra batnar! Þeir fara að axla fleiri ábyrgðarhlutverk sem konur hafa sinnt áður. Með batnandi heilsu batnar allur heimilisbragur og allt þar með.[ii]

Margir feður hafa nýtt tímann vel og lofsungið þennan tíma. Jens Sigurðsson skrifaði nýlega á netinu, að feðraorlofið hefði verið frábær tími, “sjálfsagt skemmtilegasti tími lífs míns. Feðraorlof er mesta snilld.”

Tengdir íslenskir pabbar Í september sl. var ég á Lanzarote og dvaldi á fjölskylduhóteli. Þar hafði ég tækifæri til að bera saman barnafjölskyldur frá Hollandi, Spáni, Englandi og Íslandi. Samanburður á þessu örúrtaki leiddi í ljós, að íslensku pabbarnir voru nánir börnum sínum, sinntu þeim vel, höfðu greinilega tengst þeim og töldu eðlilegt að sinna þeim til jafns við mömmurnar. Ég var rogginn af mínum mönnum. Spánverjarnir eru vissulega barnglaðir og það gætum við lært af þeim. En ánægjulegt er að sjá hve íslenskir pabbar eru orðnir barnnánir. Þeir Englendingar, sem ég sá til, flýðu ungviðið, skildu mömmurnar eftir og þær voru greinilega margar dálítið þreyttar á löngum fjarvistum pabbanna og leiðar þegar þeir komu af barnum.

Vil vera heima en verð að vinna! Pabbarnir eru á uppleið á Íslandi en þá er komið að atvinnusamhengi feðranna, sem ég hef áhyggjur af. Það kom og kemur sem sé í ljós að margir feður telja sér ekki fært að taka sína þrjá mánuði og hvað þá lengri tíma í feðraorlof. Af hverju? Vegna þess að aðstæður í fyrirtæki þeirra leyfir ekki fullt feðraorlof. Ef þeir taka allan orlofstímann eru margir hræddir um að búið verði að grafa undan starfi þeirra eða breyta því þegar þeir svo koma til baka. Pabbar í feðraorlofi upplifa skyndilega það sem konur hafa mátt búa við í áratugi, að barnauki stefni vinnu í voða. Of mörg fyrirtæki, sem hafa að nafninu til barnavinsamlega fjölskyldupólitík hafa ekki unnið heimavinnuna og leitt innri mál til barnvinsamlegra lykta. Góðir pabbar á Íslandi, sem vilja vera heima hjá börnum sínum, vera ábyrgir feður og sinna öllum skyldum með gleði, eiga allt of víða undir högg að sækja í fyrirtækjunum. Of margir telja sig tilneydda að fara að vinna áður en þeir eru búnir með sinn kvóta. Þessu verður að breyta. Það eru börnin sem eiga rétt á feðrunum en ekki fyrirtækin.

Það er skylda mín sem prests, skylda okkar sem safnaðar og skylda okkar sem kirkju að standa með börnunum, pöbbunum og þar með konunum og fjölskyldunum í að breyta viðhorfum. Það er skylda yfirmanna að tryggja fjölskyldufrið á ungbarnaheimilum. Jesús bað um að börnunum væri leyft að koma til hans. Það þýðir ekki aðeins að börnum verði heimilað að koma í kirkju, heldur líka að börnin fái að njóta feðra sinna, að þeir fái næði til tengjast börnum sínum og hafa líka tækifæri til að vera þeim trúarlegar fyrirmyndir. Faðir, sem nær tíma með sínu barni, fær betri möguleika á að leggja traust í sál barnsins og gefa því styrkari skaphöfn. Það er trúarlegt erindi og trúarlegt verkefni. Góður föðurtími með börnum skilar oft betri trúarþroska. Traust föðurímynd er sumpart forsenda guðstrausts.

Barnaferð Sigurbjörn Einarsson tamdi sér Jesúafstöðu gagnvart ungviðinu og sótti í barnahópinn. Gamall kunningi minn af Lynghaganum og félagi úr fótboltanum rifjaði nýlega upp fyrir mér merkilega uppeldisaðferð Sigurbjarnar og samvistir hans með sonum sínum.

Lynghagamaðurinn, sem bjó steinsnar frá biskupshúsinu, sagðist hafa undrast þegar hann sá Sigurbjörn fara í gönguferðir. Hann hafi oft tekið strákahópinn sinn með. Sigurbjörn hefði gengið fremst og gjarnan með einn sonanna við hlið sér. Þeir hefðu átt tal saman. Hinir hefðu svo rölt á eftir og skrallað með sínum hætti. Eftir nokkra stund hefði svo verið skipt, einhver úr hópnum hefði fengið að ganga við hlið pabbans og tala við hann. Hinn fyrri hefði farið í fylgdarhópinn.

Viðmælandi minn taldi, að þetta hefði verið aðferð sem Sigurbjörn notaði til að eiga næðisstund með sonum sínum. Strákaskarinn hefði verið stór svo pabbinn hefði orðið að hafa viðtalstíma á þessum gönguferðum. Hann var sem sé að sinna uppeldi, kenna þeim að vera með föður þeirra, kynnast viðhorfum hans og þar með trúarhugmyndum og svo auðvitað að eiga góða stund saman. Getur verið að við getum eitthvað lært af þessu? Getur verið að Sigurbjörn sé í þessu fyrirmynd um góða karlmennsku og gott uppeldi? Getur verið að þetta sé góð barnanálgun í anda Jesú Krists? Getur verið að nútímapabbar geti lært af Sigurbirni, þótt hann sé af annarri kynslóð? Ég held það. 

Feður eru mikilvægir fyrir uppeldið. Jesús sagði leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi. Skírnin er mikilvæg en Jesús minnti á í skírnarskipuninni, að við ættum að kenna líka. Við ættum að leyfa feðrunum að vera heima hjá börnum sínum og þar með koma til sjálfs sín og hlutverks síns. Þá geta þeir betur sinnt því að fara með börnin til Jesú og kenna þeim. Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks, eflum heimilislíf, blessum börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Amen

Prédikun í Neskirkju 7. janúar 2006, 1. sunnudagur eftir þrettánda.

Lexía Jer. 31. 10-14 Heyrið orð Drottins, þér þjóðir, og kunngjörið það á fjarlægu eyjunum og segið: Sá, sem tvístraði Ísrael, safnar honum saman og mun gæta hans, eins og hirðir gætir hjarðar sinnar. Drottinn frelsar Jakob og leysir hann undan valdi þess, sem honum var yfirsterkari. Þeir skulu koma og fagna á Síonhæð og streyma til gæða Drottins, til kornsins, vínberjalagarins, olíunnar og ungu sauðanna og nautanna, og sál þeirra skal verða eins og vökvaður aldingarður, og þeir skulu eigi framar vanmegnast. Þá munu meyjarnar skemmta sér við dans og unglingar og gamalmenni gleðjast saman. Ég mun breyta sorg þeirra í gleði og hugga þá og gleðja eftir harma þeirra. Og ég mun endurnæra sál prestanna á feiti, og lýður minn mun seðja sig á gæðum mínum segir Drottinn.

Pistill, Ef. 6. 1- 4 Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. Heiðra föður þinn og móður, það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni. Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.

Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. Heiðra föður þinn og móður, það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni. Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.

Guðspjall, Mk. 10.13 -16 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.


[i] Rannsókn við Umeå háskólann leiddi þetta í ljós en nokkrum sænskum pörum sem eignuðust fyrsta barn 1978 var fylgt eftir. Feður sem tóku 30-60 daga feðraorlof áttu 25% síður á hættu að deyja fyrir fimmtugt en hinir.
[ii] Í danskri rannsókn kemur í ljós að karlar, sem taka sér fæðingarorlof, eru jafnan betri feður en hinir. En að auki kemur í ljós í þessari rannsókn við Hróarskelduháskóla, að lengri feðraorlof leiða til traustari hjónabanda. Rannsóknir benda til þess að þegar faðirinn kemur heim og er með barni sínu eru fastmótuð fjölskyldumynstur brotin upp. Smáatriði breytast jafnvel og meira lýðræði verður innan fjölskyldunnar, sem styrkir hjónabandið.