Bænadagur eftir Eurovision

Bænadagur eftir Eurovision

Hvort viljum við vera Júlíus Caesar eða Jesús Kristur? Ceasar vildi endurbæta mennina með því að breyta stofnunum og lögum en Kristur vildi breyta einstaklingum og þannig umskapa heiminn til hins betra.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Líkt og þúsundir annarra Íslendinga þá horfði ég á Eurovision í gær.  Og fagnaði því að við skyldum ná öðru sætinu.  Það var sannarlega góður árangur.  Og ég var ánægður með okkar atriði.  Það voru engar hálfberar stelpur að dilla sér, enginn eldur eða trix heldur stóð hún Jóhanna þarna á sviðinu og söng sitt fallega lag.  Blár kjólinn hennar tónaði við bláan bakgrunninn, sem minnti mann á íslenskan himinbláma og fegurð landsins.  Jóhanna var góður fulltrúi Íslands.

Svona viljum við vera; einlæg, sönn og góð.  Þetta er sú mynd, sem við viljum draga upp af okkur sjálfum í augum umheimsins.

Fyrir nokkrum árum síðan sendum við aðra ágæta stúlku fyrir okkar hönd til að taka þátt í Eurovision.  Þetta var hún Sylvía Nótt.  Hún dró upp svolítið aðra mynd af okkur.  Þar birtist hinn sjálfhverfi, sjálfumglaði Íslendingur, sem áleit sig öðrum betri og klárari.  Og þannig vorum við þá.  Þetta var meðan forseti Íslands og sendiherrar þjóðarinnar héldu ræður um að við værum afkomendur víkinga og þess vegna tækjum við öðrum þjóðum fram hvort sem væri í fegurð, hreysti, viðskiptum eða útsjónasemi.  Nefndu það bara, í þá daga, í góðærinu mikla vorum við eins og Sylvía Nótt; ógeðslega ánægð með okkur sjálf, ógeðslega sæt, ógeðslega smart.

II.

Hver er ég?  Þessi spurning stendur aftan á mjólkurfernum.  Og á morgnana dunda ég mér við að lesa ljóð eftir skólabörn þar sem þau svara þessari spurningu.  Ég ætla að lesa fyrir ykkur ljóð eftir Ástrósu Steingrímsdóttur:

Hvað er að vera ég?

Ég fór út að ganga. Hitti vinkonu mína og spurði:  Hver er ég? Þú ert svo liðug, þú ert kötturinn.

Ég fór áfram á handahlaupum. Hitti frænda minn:  Hver er ég? Þú ert svo fjörug, þér ert lambið.

Ég stökk af stað. Hitti systur mína:  Hver er ég? Þú ert svo hrekkjótt, þú ert krákan.

Ég flaug af stað. Hitti pabba minn:  Hver er ég? Þú ert svo ljúf og góð, þú ert litla músin mín.

Ég læddist í burtu. Hitti mömmu mína:  Hver er ég? Þú ert litla stelpan mín.

Ég skreið í fangið á henni og sofnaði.

Hver er ég?  Alla ævina veltum við þessari spurningu fyrir okkur?  Og svörin eru margvísleg.  Í dagdraumum okkar erum við hetjur, í vinnunni, í skólanum erum við eitt, annað heima hjá okkur og svo ef til vill eitthvað allt annað þegar við erum með vinum okkar.

Hver er ég?

Einu sinni svaraði maður því með því að segja:  Þú ert það, sem þú hugsar.  Þú ert það, sem þú gerir!  Og ég vil líka bæta hér við:  Þú ert það, sem þú trúir á.

Sá maður, sem hefur mestan áhuga á rokktónlist, hann verður rokkari; hlutstar á rokktónlist og klæðir sig þannig.  Sá, sem hefur mestan áhuga á viðskiptum, verður að bisnessmanni.  Og þegar peningar fara að stjórna öllum athöfnum þínum og hugsunum þá segir Biblían að þú sért farinn að dýrka Mammón.

III.

Hver vorum við?

Í góðærinu vorum við þjóðin, sem dýrkaði Mammon.  Allt var verðlagt í peningum.  Allt var kostað af fyrirtækjum.  Þetta voru gósentímar með utanlandsferðum og við gátum keypt okkur mótorhjólið, sem okkur hafði langað í síðan við vorum sautján.

En kirkjan var ekki þarna.  Kirkjan var aldrei í klappliði útrásarvíkingana.  Hún lofsöng aldrei efnishyggjuna.  Öðru nær, hún andmælti þessum hugsunarhætti, sem náði hámarki sínu árið 2007.  Á árunum þar á undan gagnrýndi biskup Íslands margoft það sem hann kallaði græðgina í íslensku samfélagi og fékk bágt fyrir frá forsætisráðherra landsins, sem talaði um “blessaðan biskupinn” í yfirlætistón þess, sem veit betur.

Kirkjan varaði við en enginn vildi hlusta.  Það var nefnilega svo púkó að vera ekki ríkur.  Við vorum alveg eins og persónan, sem birtist í gervinu Sylvía Nótt.  Og það gervi var jafn innantómt og efnahagsbólan.

Af hverju hrundi Ísland?  Af hverju féll Rómarveldi?  Hinn þekkti sagnfræðingur Will Durant svarar seinni spurningunni á þessa leið í bók sinni Ceasar and Christ:  “Mikil þjóðmenning fellur ekki fyrir ásókn að utan fyrr en hún hefur tortímt sjálfri sér innan frá.  Dýpstu orsakir til hrörnungar Rómarveldis var að leita í siferði fólksins, baráttu stéttanna, ólagi á verslun, harðstjórn embættis-manna, þrúgandi sköttum og eyðandi styrjöldum.”

Fyrsta orsökin, sem Durant nefnir er siðferði.  Og siðferði en nátengt sjálfsmynd okkar, nátengt því hvað við álítum okkur vera og hvað við teljum mikilvægast.  Gamla Ísland féll vegna þess að menn fóru að trúa á Mammón og álitu að það væri allt í lagi að vera eigingjarn og gráðugur, maður þyrfti heldur ekki alltaf að segja sannleikann.  Á markaðnum gekk allt út á sýnast vera eitthvað annað en maður raunuverulega var.  Þetta snérist allt um lúkkið.  Og Sylvía Nótt og gamla Ísland voru ekkert nema lúkkið.

IV.

Hver viljum við þá vera?

Um þessar mundir er kallað eftir hinu nýja Íslandi.  Margir binda vonir við að nýkjörið þing og væntanlegt stjórnlagaþing muni breyta samfélagi okkar til batnaðar.  Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa sett stefnuna á norrænt velferðarsamfélag og er það gott, enda hvergi betra að búa en á Norðurlöndunum, - þar með talið Íslandi.

En í þessari umræðu hefur líka verið varpað upp þeirri spurningu hvort ekki sé eðlilegt í ljósi efnishyggju samtímans og trúarlegrar fjölbreytni að afnema með öllu tengsl ríkis og kirkju.  Sumir vilja helst ýta kirkjunni algjörlega út af hinu opinbera sviði þannig að hún verði ekki sýnleg fremur en nætfötin, sem við göngum í.  Er þetta ekki svolítið 2007-legt?

Í raun er þetta spurning um hver við viljum vera.  Viljum við vera kristin þjóð, sem mótast af kenningum meistarans frá Nasaret?  Eða viljum við vera þjóð, sem mótast einvörðungu af kenningum stjórnmálamanna með dassi af húmanisma, frjálslyndi og hentistefnu, - svo ég líki þessu við mataruppskrift?

Hvort viljum við vera Júlíus Caesar eða Jesús Kristur?  Ceasar vildi endurbæta mennina með því að breyta stofnunum og lögum en Kristur vildi breyta einstaklingum og þannig umskapa heiminn til hins betra.  Eða þarf kannski að velja báðar leiðir; stjórnmálalegar endurbætur og efnahagslega uppstokkun, jafnframt því sem hugað er að almennri siðbót einstaklinganna?  Fyrri tíðar menn vissu að það skiptir máli hverju þjóðin trúir því fátt mótar jafn mikið hugsunarhátt þjóðar og hennar trú og sannfæring.

V.

Hver er ég?

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.

Þetta er það fyrirheiti, sem Kristur gefur öllum þeim, er á hann vilja trúa.  Ég veit ekki um betri leið til að fá svar við spurningunni um hver við erum en að benda á leið bæninarinnar og íhugunar Guðs orðs.  Þegar við lesum Guðs orð, íhugum það og tölum við Guð í bæn þá erum við að opna okkur sjálf fyrir mætti Guðs.  Og um leið erum við að horfast í augu við okkur sjálf.  Við viðurkennum frammi fyrir Guði vanmátt okkar jafnt sem langanir. Við iðrumst og biðjum Guð að fyrirgefa okkur.  Og svo biðjum við Guð að gefa okkur og veita, hjálpa okkur eða þeim, sem við erum að biðja fyrir, til að ná, til að auðnast, hljóta.  Ekkert endurspeglar jafn vel hver við erum og bænin því þar erum við einlægust og þar birtast okkar innstu langanir og þrár, einnig ótti okkar og dýpstu áhyggjur.  Í bæninni mætir þú sjálfum þér frammi fyrir Guði.

Þegar söfnuðurinn biður síðan fyrir forseta, dómstólum, Alþingi og ríkisstjórn þá er það ekki einhver töfraformúla, sem galdra á fram velgengni hjá þessum aðilum.  Nei, við erum að biðja um að heilagur andi Guðs hafi áhrif á þessar stofnanir og þá einstaklinga, sem stýra þeim.  Við erum að biðja þess að vilji Guðs verði og ríki hans tilkomi og verði að raunveruleika hér á jörðu.  Við erum að biðja þess að guðsríkið, þar sem friður og gleði skal ríkja, þar sem ungir og gamlir, karlar og konur, allir eru eitt í Kristi, við erum að biðja þess að þetta verði raunin.

Í bæninni játast þú Guði.  Þegar þú spennir greipar þá ertu að segja:  Kæri Guð, ég vil vera þitt barn.  Það er besta svarið við spurningunni um hver þú sért.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen. Lexían:  Sl 121 Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun ekki láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels. Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein né heldur tunglið um nætur. Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Pistill: Róm 8.24-27 Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði. Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. En hann sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er, að hann biður fyrir heilögum samkvæmt Guðs vilja.

Guðspjall: Lúk 11.5-13 Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“

Bænir

Kæri Guð, hjálpaðu okkur til þekkja okkur sjálf, til að vita hver við erum og hvað við þráum.  Hjálpaðu okkur til að þekkja þig og þitt ríki, þekkja þig í manneskjunni sem við mætum úti á götu, á vinnustaðnum eða í ástvinum heima.  Að þekkja þig og þinn vilja er lífið sjálft.  Því hvað er betra en að ganga á þínum vegum og ástunda kærleika við aðra? Við biðjum fyrir þeim, sem eru núna að leita sér að vinnu, fyrir þeim, sem ganga með góða hugmynd í maganum, um að hún verði að veruleika.  Hjálpaðu okkur að koma auga á nýjar leiðir til skapa atvinnu og verðmæti. Við biðjum fyrir stjórnvöldum.  Við biðjum um það eitt að þau segi okkur satt, að allar upplýsingar og staðreyndir séu uppi á borðinu, því valdið liggur hjá þjóðinni og þjóðin þarf að vita og þekkja sannleikann. Við biðjum fyrir öllum, sem eru veikir, sorgmæddir eða einmana.  Gefðu að við mættum vera þeim huggun, hjálpin, sem þau bíða eftir.  Láttu ljós þitt skína inn í hjörtu hverrar manneskju.  Blessaðu framtíðina, blessaðu sumarið, sem nú er hafið. Drottinn, þú sérð inn í hugskot okkar og veist hvað við hugsum og þráum.  Allar bænir okkar felum vér þér þegar við segjum öll saman í Jesú nafni:  Faðir vor ....