Hinn vitri

Hinn vitri

fullname - andlitsmynd Þorgrímur G Daníelsson
07. desember 2013

Nelson Rolihlahla Mandela (1918 – 2013) var merkilegur maður. Hann var af Suður – Afrískri konungsætt, en fæddur í hernumdu landi, þar sem útlendingar ríktu. Hann ólst upp sem kúasmali í sveitaþorpi, síðar við hirð frænda síns í Mqhekezweni. Um 18 ára aldur hóf hann nám í vestrænum fræðum og síðar lögfræði. Á skólaárum leiddist hann inn í baráttu frumbyggja gegn yfirráðum Evrópubúa. Sú barátta var eins og gefur að skilja háð með mis-friðsamlegum hætti og um tíma mun hann hafa stutt tilraunir til að fá vopn frá Kína til skæruhernaðar. Vegna baráttu sinnar sat hann í fangelsi frá 1964 – 1990.

​Ef einungis er horft til fyrri hluta ævi hans er fátt sem greinir hann frá fjölmörgum öðrum þjóðernis- og sjálfstæðisbaráttumönnum víðs vegar um heim.

​Það sem mun hins vegar ævinlega halda nafni hans á lofti eru þeir friðarsamningar sem hann og De Klerk, leiðtogi “hvítra” í S-Afríku, náðu um og eftir 1990. Þeir samningar eru merkilegir fyrir margra hluta sakir, ekki síst að þeir fela í sér raunverulega málamiðlun. Mættu friðarsinnar allra landa gjarnan kynna sér þessa samninga vel. Þá á Mandela ekki síður heiður skilinn fyrir þátt sinn í að standa við friðarsamningana og takast að stöðva borgarastríðið sem hafði verið að stigmagnast. Það að varðveita friðinn í S-Afríku jafn lengi og tekist hefur, verður að telja eitt af helstu stjórnmálaafrekum 20. aldarinnar. Sérstaða Suður-Afríku verður einstaklega ljós þegar horft er til hinna fjölmörgu landa, þar sem innanlansderjur enduðu með ógnarstjórn sigurvegara í borgarastríði.

​Hvort takast mun að halda hinum viðkvæma friði í Suður- Afríku um ókomin ár veit framtíðin ein. Hitt er ljóst að mikill og vitur leiðtogi er genginn.