Nokkur orð um tímann

Nokkur orð um tímann

„Hann á að vaxa en ég að minnka”. Þessi orð eru í raun yfirlýsing hvers þess leiðtoga sem vinnur að köllun og æðri sannfæringu. Það er vitundin sem býr í brjósti okkar allra að vera hluti af einhverju því sem er æðra, dýpra og meira en við sjálf.

Nú á þeim tíma þegar sólargangurinn er hvað lengstur hér á norðurhveli er tilefni að ræða þetta fyrirbæri sem tíminn er. Tíminn umvefur okkur. Allt okkar líf erum við í tíma og rúmi, tíminn er allt um kring. Við getum ekki gert okkur neitt í hugarlund nema að það sé á formerkjum tímans. Það á við jafnt um sköpunarsögu Biblíunnar sem hugmyndir manna á okkar dögum um upphaf alheimsins. Upphaf hverrar manneskju er að sama skapi markað tímanum. Við meðgönguí móðurkviði er talið niður til fæðingar og í framhaldinu mælum við af daga, vikur, mánuði og ár.

Jónsmessa

Dagurinn sem litla Þórdís Sesselja fæddist er ólíkur öðrum dögum í lífi hennar og frá þeim degi verður líf hennar mælt. Og þessi dagur þar sem vatnið var ausið á koll henni, hún helgaður Kristi minnir okkur á fyrirheitin um að hver sem trúir á Guð mun aldrei að eilífu deyja. Þar mætist hið tímanlega og hið eilífa í hinu helgaða vatni. Og skírnarkjóllinn, svo síður sem hann er, minnir okkur á að daman á eftir að vaxa að visku og náð til framtíðar. Alls staðar er hugurinn bundinn við tímann en um leið vonin við hið ókomna.

Á okkar dögum mælum við hann með ótrúlegri nákvæmni en fyrir daga iðnbyltingar skiptu mínútur og stundarfjórðungar ekki svo miklu máli. Á kirkjuturnum í bæjum og borgum gátu menn átta sig á því hvað honum leið en vitaskuld var engin leið að stilla þá af miklu gat munað á tímanum á milli tveggja svæða. Það skipti einfaldlega ekki máli fyrir tíma lestarferða og samskiptatækja. Sé litið lengra aftur var hafa tímaskeiðin tekið mið af árstíðum. Við finnum menjar þess tíma hér í kirkjunni þar sem skiptast á tímabil kirkjuársins, fastan, hátíðir og núna eru runnir upp fagurgrænir sunnudagar eftir þrenningarhátíð.

Það er í þessum anda að við skulum helga Jóhannesi skírara nóttina sem sólin er hæst á lofti. Jónsmessa dregur heiti sitt af henni og það sama á við í nágrannalöndum okkar. Þetta er kyngimögnuð nótt eins og ljóst má vera ef við kynnum okkur þjóðtrúna. Dýrin fengu mál og alls kyns vættir fóru á stjá. Það þótti vita á gott að velta sér upp úr dögginni en kannske er það undrið stærsta að vera staddur í faðmi móður náttúru hér á norðurhjara og finna hvernig sólin, eins og rétt tyllir sér á sjóndeildarhringinn. Sjálfur á ég slíka mynd, tekna um miðnæturbil í Ísafjarðardjúpi og það er eins og maður finna til smæðar sinnar innan um himintunglin. Allar þær áhyggjustundir virðast léttvægar þar sem maðurinn stendur undir himinhvelfingunni og skynjar það hvernig tíminn heldur áfram alls óháð því hvað okkur kann að finnast eða hvað við kunnum að skynja.

Já, þessi nótt er helguð Jóhannesi, Jónsmessa og svo eigum við aðra messu sem helguð er Kristi, það er Kristsmessa, sem við köllum jól. Hálft ár líður á milli þessara tveggja nátta og á þeim tíma hefur möndull jarðar hallað sér alla þá leið sem hann fer. Jóhannes á björtu nóttina en Kristur þá dimmu. Og skýringuna finnum við í orðum Jóhannesar sjálfs – sem boðaði komu Krists og þegar menn inntu hann að því hvort hann væri ekki sjálfur hinn mikli frelsari, sagði Jóhannes ekki vera þess verðugur að leysa skóþveng hans og bætti svo við: „Hann á að vaxa en ég að minnka”. Þessi orð eru í raun yfirlýsing hvers þess leiðtoga sem vinnur að köllun og æðri sannfæringu. Það er vitundin sem býr í brjósti okkar allra að vera hluti af einhverju því sem er æðra, dýpra og meira en við sjálf. Leggja því lið sem mun lifa okkur og vara lengur en dagarnir sem okkur eru úthlutaðir. Skilja við það sem stenst lengur tímans tönn.

Og þar kemur sú forna hugsun að kenna honum nóttina sem markar upphafið að því að sólargangurinn styttist en Kristi þar sem sólin tekur að nýju að hækka á lofti og birtan fer vaxandi dag frá degi.

20 40 60

Þá fer vel á því að kveðja sýningu Gretars Reynissonar, 20 40 60, sem hefur verið hér á torginu, safnaðarheimilinu, frá því í byrjun apríl. Listamaðurinn er næmur fyrir því hvernig helgidómurinn vinnur með endurtekninguna. Ekki aðeins í slætti kirkjuklukkna sem ómað hafa í samfélögum manna í gegnum tíðina, ekki heldur fyrir litbrigði kirkjuársins, heldur einnig í hrynjandi helgihaldsins þar sem hver liður tekur við af öðrum. Miskunnarbæn sem minnir á hverfulleika mannsins og svo dýrðarsöngurinn sem hefur okkur upp til himna. Heilagleikinn og svo sú mynd af Kristi sem Jóhannes skírari dró upp: „Sjá Guðs lamb sem burt ber heimsins syndir”. Þessi lífstaktur er rammmaður hinn hér í helgidómnum.

Gretar heldur áfram að vinna með þá hugsun þar sem hann frystir augnarblikin. Myndin af höndinni þar sem hann tvítugur maður þrýsti henni í moldina og svo aftur fjörutíu árum síðar, þegar hann er orðinn sextugur. Og andartökin sem fingur messufólksins frystu er þeir þrýstu þeim moldugum upp á veggi sýningarrýmisins. Loks endaði moldin á klæðunum sem hanga eitthundrað talsins á veggnum andspænis fingraförunum fimmhundruð. Eins og ferðalag, frá hönd að vegg og frá hönd í klæðið. Af jörðu ertu kominn að jörðu skaltu aftur verða. Þannig gengur hringrásin fyrir sig, rétt eins og jörðin snýst um möndul sinn og himintunglin þeytast á ógnarhraða umhverfis sólina.

Tíminn er samofinn lífi okkar og afstöðu. Við mælum af. Teljum einingar tímans í lífi okkar. Við metum tilveruna út frá lengd tímans. Og það setur lífinu skorður. Gretar vinnur með þessa þætti og tengir verk sitt 500 ára afmæli siðaskiptanna sem við minnumst nú í ár. Það ætti að vera okkur hugstætt á okkar dögum þar sem allt er vegið og metið – ekki bara á vogarskálum tímans, heldur miklu fremur í mælieiningum auðsins. Það voru einmitt tildrög þess að Lúther hóf mótmæli sín í Wittenberg 31. október 1517. Þegar kirkjan hafði að hans mati stigið út fyrir þau mörk sem henni bar að virða og seldi fólki aðgang að hinu ómetanlega, náð Guðs og fagnaðarerindinu.

Enn í dag stöndum við frammi fyrir sömu áskorun. Við mælum út verðmæti lífsins út frá verðgildi þeirra. Við ættum að fylgja fordæmi Lúthers og spyrja gagnrýninna spurninga eins og þeirra hvaða þættir það eru í lífi okkar, í vistkerfinu, í okkar innstu tilveru sem ekki verða metin til fjár. Er það ekki hluti af vanda mannsins, jafnvel enn meira en var hér forðum, að við stöldum ekki við þá spurningu? Sannarlega er þörf á siðbót í þeim efnum þar sem við ræktum hin æðstu gildi, kærleika, virðingar, umbyrðarlyndis án þess að festa á þau verðmiða. Þar birtist okkur skírnin þar sem Guð veitir manninum náð sína án þess að nokkur kaupskapur komi þar við sögu. Það er í anda þeirrar sannfæringar sem við færum kornabarnið að skírnarlauginni og helgum það með vígðu vatni.

Memento mori

Einhver þýðingarmesta predikun kirkjunnar frá öndverðu tengist sannarlega tímanum: Memento mori, mundu dauðann. Þessi boðskapur birtist okkur í myndlist, í stólræðum og sálmum, í hljómi bjöllunnar sem slær taktfast í turninum og slætti klukkunnar. Í verkum listamanna eins og Gretars um þá staðreynd að öll erum við mold. Verkefni okkar dauðlegra manna á sér stað hér á jörðinni. Við erum mold og þess megum við minnast. Fagnaðaerindi sitt við okkur, átti Guð hér á jörðinni er hann birtist í Jesú Kristi. Allt ber að sama brunni. Við rækjum skyldur okkar og sinnum því heilaga hlutverki að leyfa því að vaxa sem gott er og byggir upp uns við sjálf hljótum að minnka eins og Jóhannes og sólargangurinn héðan í frá allt til þess að við fögnum vexti birtunnar og vonarinnar að hálfu ári liðnu.